ISBN 9979-895-24-1

DÍVAN SKÁLDSINS

(-Góða nótt, sagði skáldið og dó.)


Það var barið.
Ég drattaðist til dyra. Aldrei friður. Andskotans. Maður nýkominn heim.

Ég bý í gömlu húsi á Grettisgötunni og ég kæri mig ekkert um heimsóknir.
Fyrir utan stóð skáldið. Það var ekki gamalt þetta skáld. Nei, frekar ungt.
Ungur maður, hokinn og magur. Það var rok. Laufin fuku um í rennisteininum
gul og rauð og græn og brún. Sum voru límd föst í pollum. því einhver
hraglandi hafði verið fyrr um daginn. Októberveður.
Skáldið tók kveðju minni. Ég varð víst að bjóða því inn. Umkomulausara skáld
hafði ég ekki nokkurn tíma séð.
Yfirhöfnin sem einhvern tíma hafði víst verið mosagræn, bar ekki lengur
merki neins afgerandi litar. Kannski, jú, rangan á uppbrettum kraganum.
Flíkin hékk út af öxlum skáldsins, tveim númerum of stór, of síð líka, og
fyrir neðan of löngu ermina tók við hönd, sinaber og gul. Hárið, sem hvorki
var dökkt né ljóst, ýfðist í haustvindinum. Augun sem hvorki voru blá né
brún horfðu eiginlega ekki á neitt, en samt horfði hann í augu mér.
Sem framhald af hönd skáldsins tók við brúnleitur vaðsekkur, eldgamall,
snjáður. Skáld með gamlan vaðsekk stóð þarna fyrir utan. Ég varð víst að
bjóða því inn.
Ég hitaði kaffi.
Ég man þetta eins og það hefði gerst í gær. Umræðuefni reyndist örðugt að
finna. Á endanum neyddist ég til að bjóða skáldinu að gista, sofa á
dívaninum mínum í stofunni. Annars værum við sennilega enn að drekka þetta
helvítis kvöldkaffi, umræðulaust.
Hún Branda mín varð móðguð þegar ég eftirlét skáldinu dívaninn, dinglaði
skottinu og flutti sig yfir í stólinn með krosssaumspúðanum og sofnaði
aftur.
Mér gekk ekki illa að sofna þrátt fyrir kaffið og gestinn. Þegar passaði
fyrir mig að fara í vinnuna morguninn eftir var skáldið vaknað og búið að
hita morgunkaffi. Jæja þá. Mér var alveg sama. Skáldið mátti vel hita sér
kaffi.
Ég sá að það hafði verið að vinna. Blöð og kúlupenni lágu á litla borðinu
við dívaninn.

Nú er mynd af þessum dívani mínum, dívani skáldsins, og litla borðinu, í
blöðunum. Og skáldið er horfið.
Ég gæti eflaust selt dívangarminn og borðkrílið fyrir of fjár, af því að
skáldið, sem nú er orðið frægt, hefur sofið á dívaninum og skrifað við
borðið. En ég vil það ekki, ef skáldið skyldi koma aftur.

-Það er víst kominn háttatími,
voru síðustu orð skáldsins.
-Góða nótt, sagði skáldið og dó.-

Nú er bara minningin eftir.
Branda gamla sefur nú ein á dívaninum. Hún lætur ekki minningar róta
huganum.

Skyldi skáldið hafa átt fjölskyldu? Skyldu allir þeir sem nú þykjast hafa
þekkt það nokkurn tíma hafa talað við það? Það er víst enginn vandi að
eingast kunningja þegar maður er frægur, -- en lítið gagn í kunningjum
þegar maður er horfinn ströndum.

Síminn minn,.... -- já ég var raunar að hugsa um að hætta að hafa síma,
spara mér símann, því ég talaði aldrei í hann, -- hef hann bara af
öryggisástæðum. Það er gott fyrir fólk sem býr eitt að hafa síma.
....Síminn minn er alltaf að hringja núna. Blöðin eru að spyrja mig um
skáldið. Forlagið gaf þeim upp mitt númer ... forlagið sem gefur út verkin
skáldsins.
Hvað get ég sagt þeim?:
Þetta skáld var ekki fagurt?
Það vissi að það skorti alla persónutöfra?
Það hafði ekki kjark til að olnboga sig áfram?
Það var lokað inni í skel. Þangað var engum boðið.
Hún var harðlæstari fyrir óviðkomandi og utanaðkomandi en minn kofi við
Grettisgötuna, og er þá tekið djúpt í ár.

Ég veit ekki hvort það hafði nokkurn tíma elskað eða verið elskað af
nokkurri manneskju, þetta skáldgrey?
Skyldi hann nokkurn tíma hafa sofið hjá?
Viðmót skáldsins sýndi ekki tortryggni, ekki uppgjöf, en var svo óafgerandi
að engum datt í hug að ávarpa það eða brosa til þess.
Gat ég sagt blaðamönnunum að skáldið, sem bjó hér allan þennan tíma, hafi í
rauninni aldrei sagt neitt gáfulegt, aldrei sagt neitt skemmtilegt, -- ekki
einu sinni spurt hvort það gæti búið hér? Þessi ár bara liðu sí sona án
þess að við ræddum þetta né heldur annað.
Gat ég sagt þeim að klaufalegri framkomu en hjá þessu skáldi hef ég aldrei
kynnst? Gat ég sagt þeim að þetta skáld átti ekki neitt, -- kunni raunar
ekkert með fé að fara þá sjaldan því áskotnaðist eitthvert smáræði fyrir
skrif sín?
Því síður gat ég sagt þeim að það taldi að allir væru að gera grín að sér.
Það sem var hugsað sem viðurkenning, hrós, var skáldinu stríðni og
illkvittnislegt háð.
Og skáldið átti leyndarmál en gat ekki talað um það við neinn. Gat ég látið
nokkurn mann vita að ég vissi það?
Nei. Það kom engum við. Ekki einu sinni mér.

Nú er mynd af dívaninum mínum, dívani skáldsins, og borðkrílinu mínu, í
blaðinu.
Branda sefur ein á dívaninum.

Hér stend ég á stofugólfinu með gamlan snjáðan vaðsekk. Hann var þarna
lengst undir þessum fræga dívani, en enginn vissi það. Hér stend ég með
þennan vaðsekk sem á er límdur miði sem á stendur:

Með beztu þökk, Brjánn.
Ég vildi ekki að neinn nema þú sæir þessar sögur.

Ég blaða í innihaldi vaðsekksins.
Sneplar og ekkert annað. Á þeim stendur hitt og þetta.

Hér finn ég umslag í vaðsekknum, fullt af missispunktum skáldsins:
-það er svo sárt að elska.
-stefnulaus eins og fiðrildi í logni.
-tár, sem aldrei hefur verið grátið. (spámaðurinn)
-lifa fyrir vonina deyja fyrir draum sinn (Q4U)
og fleira og fleira svona væmið.


Undir umslaginu reynist vera falskur botn. Undir falska botninum eru handrit
af sögum.
Ég les fyrst standandi, svo tylli ég mér, sezt svo þægilegar. Ég sit hér og
les og les fram eftir nóttu.


Skyldi þetta skáld hafa haft ástríður eins og annað fólk?
Voru þessi ljóð aðeins barnaleg hugsun kjarklauss manns?
Skyldu þessar barnalegu sögur úr hversdagslífinu raunverulega hafa komið
fyrir. Það er eins og þær séu ekki um neinn sérstakan, en þó er eins og þær
séu um mig og um þig og um alla menn, -- alla menn sem nokkurn tíma hafa
dregið lífsandann.

Nú hafa ritdómar fært einhver áður birt verk skáldsins upp á æðra svið,
blásið þau upp sem nýja stefnu (hvað sem það nú er), og skáldið sem málsvara
lítilmagnans í skilningslausum heimi, málsvara hins kjarklausa gagnvart
ísköldu óréttlætinu. Og maður les í blaðinu alls konar hástemmt bla bla
fræðinganna, -- sem aldrei semja neitt sjálfir nema umsögn um annarra manna
bla bla.
Ég er nokkuð viss um að síminn hringir brátt enn á ný, kannski í fyrramálið,
vegna þess að forlagið er að gefa út samleðe verker skáldsins og hefur engan
til að spyrja um skáldið nema mig. Hvað á ég að gera?. . . . . . . --- ooo 000 ooo --- . . . . . .