Hannesar saga Grásteins ISBN 9979-895-03-9

1. bók

 

BRANDA SKOTTLAUSA,

AMMA HANNESAR GRÁSTEINS

 

Bröndótt, lítil læða var orðin að villiketti á Arnarnesinu.

Hún hafði augljóslega einhvern tíma verið heimilisköttur, strokin og gæf. En nú var hún villt. Enginn vissi hvar hún svaf.

Hún var alltaf svöng.

Stundum kom hún til Dóru og mjálmaði fyrir utan dyrnar.

Dóra gaf henni oft fiskruður.

Dóra mátti klappa henni.

Kisa

(læða).

 

En Branda var hrædd ef krakkar eltu hana. Þá hljóp hún og faldi sig.

Branda var ósköp hvekkt, lítið dýr.

Eflaust hefur hún meitt sig ofsalega, þegar hún missti skottið sitt.

Hún var hrædd.

 

Svo kom vetur.

Bröndu var kalt.

Branda kom oft að sníkja bita hjá Dóru, því Branda átti hvergi heima.

Og það sem meira var:

Branda var augljóslega orðin kettlingafull.

 

Eitt sinn liðu nokkrir dagar án þess að Branda kæmi að fá bitann sinn.

Dóra velti fyrir sér, hvað orðið væri um litla dýrið.

Kisu var kalt.

 

Loks kom Branda svo, rytjuleg og vansæl, augljóslega búin að gjóta.

En hvar voru þá kettlingarnir hennar?

Dóra gaf Bröndu fisk og volga mjólk, og ákvað að elta Bröndu litlu síðan út í frostið.

Svo kom kisa aftur.

 

Branda fór niður í fjöru.

Þar smeygði þessi litla læða sér inn undir timburstafla.

 

Þá heyrðist þar inni mikið tíst og kettlingamjálm.

Þarna hafði hún gotið og falið alla kettlingana sína.

 

Dóra rétti aðra höndina varlega inn á eftir Bröndu skottlausu.

Branda reyndi ekki að banna henni það.

Dóra var í vanda stödd. Sennilega frysu kettlingarnir í hel þarna.

En ef þeir lifðu yrðu þeir allir að villiköttum.

Hvað átti hún til bragðs að taka?

Kisa fór inn.

 

Dóra tók einn blindan tístandi kettlinginn.

Hún gekk á stað heimleiðis með hann í barminum, og kallaði á Bröndu skottlausu: -Kis-kis.

 

Branda elti Dóru.

-Kis-kis.

Dóra hagræddi pokadruslum í stórum kassa á bílskúrsgólfinu.

Kettlingurinn hafði sofnað hjá Dóru á leiðinni, en vaknaði þegar hann var lagður aleinn í kassann.

Hann mjálmaði auðvitað ámátlega og reyndi að brölta um í leit að hlýju.

Rúm handa kisu.

Nú var spennandi að vita hvað Branda gerði.

Og hvað haldið þið?

Hún gekk út úr bílskúrnum, án þess að taka tístandi ungann sinn.

 

Dóra settist niður og beið.

Dóra róaði kettlinginn.

 

 

Eftir nokkra stund birtist Branda greyið aftur.

Hún hélt á öðrum kettlingi - hangandi á hnakkadrambinu.

Branda kom.

Branda leit varfærnislega í kringum sig. Hún steig aðeins eitt skref í einu, hlustaði, þefaði, varkár, eins og sá er, sem þekkir hættur lífsins. Eins og sá einn sem veit hvað það er að eiga enga vini, eiga hvergi heima.

 

Branda stökk upp í kassann, lagði kettlinginn hjá hinum, fór síðan og sótti þá tvo sem eftir voru, - annan í einu.

Svo lagðist hún hjá þeim.

Þeir urðu fegnir að fá að sjúga.

Branda malaði.

Branda skottlausa var ekki lengur villiköttur.

Hún sofnaði hjá kettlingunum sínum, - malandi.

 

Hér endar fyrsta bók Hannesar sögu Grásteins