Athugið: fimm bækur úr Hannesar sögu Grásteins komu út hjá Námsgagnastofnun 1999;

Hannesar saga er skrifuð með unga lesendur í huga;
við lesum myndir,
við lesum stuttan texta,
og við lesum langa sögu

Hannesar saga Grásteins er sönn saga.

 

Hannesar saga Grásteins

2.bók

 

BRANDA BRÖNDUDÓTTIR

OG SYNIR HENNAR:

HAFRI OG ELRI GÚLLI

 

Þegar kettlingarnir hennar Bröndu skottlausu stálpuðust, urðu þeir æði fyrirferðarmiklir í bílskúrnum.

 

Oft komu líka krakkar í heimsókn til þess að skoða kettlingana.

Margir vildu fá að eiga kettling, en ekki mega allir hafa kettling heima hjá sér.

 

Dóra ákvað að gefa þrjá af kettlingunum. En fyrst urðu börnin að fá leyfi hjá pabba og mömmu.

Fjórða kettlinginn, sem var bröndótt læða - alveg eins og mamma hennar nema auðvitað með skott - ákvað Dóra að eiga sjálf.

Þeir leika sér.

 

Branda litla Bröndudóttir stækkaði brátt.

Branda.

Auðvitað komu allir högnarnir á Nesinu í heimsókn.

Enda leið ekki á löngu þar til Branda yngri gaut.

 

Þá þurfti Dóra aftur að fara að gefa kettlinga.

Hafri og Elri.

Við fengum þessa tvo undan Bröndu, þegar þeir voru orðnir nógu stórir til að lepja sjálfir.

Annar - bröndóttur alveg eins og mamma hans og amma - var nefndur Hafri.

Hinn - gulbröndóttur - kallaðist Elri Gúlli.


(Eru það nú nöfn,
sem krakkar geta fundið upp!)

 

Svo þarf auðvitað að kenna kettlingum að fara í dallinn sinn.

Við fengum sag á smíðaverkstæði. Það lyktar minna en sandurinn.

Að pissa.

Þegar Hafri og Elri Gúlli stálpuðust, fengu þeir að fara út um kjallaragluggann út í garð.

Úti.

Það þótti okkur mjög gott, því litlum kattaeigendum þykir ekki gaman að þrífa pissudall.

 

Hafri og Elri nutu þess að tuskast í grasinu.

 

Allt í einu stökk Hafri á harðaspretti inn um gluggann.

Elra brá.

Hvað hafði Hafri séð?

 

Elra fannst vissara að hlaupa líka inn.

E.t.v. var komin í garðinn óvættur grimm að hremma þá.

 

Hafri - sem var driffjöðrin í öllum leikjunum - hlaut að hafa séð eitthvað stórhættulegt.

Inn.

 

Hafri stökk alla leið fram í þvottahús - í dallinn sinn.

Hafri pissar inni.

Hann þurfti aðeins að gera svolítið.

Svo gat hann farið út aftur að leika sér.

 

 

Fjörið í Hafra var óþrjótandi.

Elri.

Stundum ofbauð Elra Gúlla gersamlega hamagangurinn í bróður sínum.

Elri vildi nú fá frið til að sofa svona einstöku sinnum.

 

En það væri synd að segja að Elri væri ekki nytsamt húsdýr.

Fluga.

Hann var stöðugt á flugnaveiðum.

Enda var glugginn uppáhalds staðurinn, þegar litlir kettlingar fengu ekki að vera úti.

 

Kvöld eitt kom stór fressköttur í garðinn.

Fress kom.

Hann gekk um á milli trjánna eins og ljón í skógi.

 

Hafri skaut upp kryppu og hvæsti.

(Honum var alveg óhætt,
því kettlingarnir voru inni
en ófreskjan úti
- og glugginn nærri því lokaður.)

 

Sá stóri lífsreyndi lét sér fátt um finnast slík kettlingalæti.

Hann gekk burt jafn rólegur og yfirvegaður og hann kom.

 

En í næsta sinn lét hann sér ekki nægja að ganga um í garðinum.

Við vorum ekki heima.

Hann bauð sjálfum sér inn, enda eldhússglugginn ekki lokaður.

Hann tróð sér inn um gluggann,

át allan fiskinn frá kettlingunum

Hann kom inn.

og fékk sér dúr í einu rúminu.

Þar svaf hann vært, þegar við komum heim.

 

En kettlingarnir voru hvergi sjáanlegir.

 

Við leituðum og kölluðum.

Hvar gátu tveir bræður bröndóttir verið?

Gat verið að þeir hefðu komist út um eldhússgluggann

Nei.

Þeir gátu ekki hoppað upp í gluggann, nema þegar borðið var undir glugganum.

Við tókum borðið frá, þegar við fórum að heiman.

Hvar eru Hafri og Elri?

 

Svo kom í ljós, að hetjurnar kúrðu í hnipri inni í uppvafinni gólfábreiðu, og þorðu ekki að láta á sér kræla fyrr en sá stóri svarti hafði verið fjarlægður.

Þarna.

Hafri var ekki mjög borubrattur í þetta skiptið.

 

Um kvöldið sofnuðu börn og dýr áhyggjulaus.

Úti var björt sumarnóttin.

Hver dagur beið eftir óþrjótandi leikjum - sumarleikjum fyrir börn og kettlinga.

Sofandi.