Hannesar saga Grásteins

8. bók

 

HANNES GRÁSTEINN VILLIKÖTTUR Á SKRIFSTOFU Í VESTURBÆNUM

 

Hannes Grásteinn hefur farið mjög langt.

Surtarbrandur bróðir hans og við öll leitum hans.

Hvar er Hannes?

Viku eftir viku spyrjumst við fyrir um hann í nágrenninu, en án árangurs.

Hannes varð kynþroska rúmlega fjögurra mánaða, og lagði út í hina stóru veröld á eigin spýtur.

Við vitum ekki .....Hannes villiköttur.

..... að vestur á Melum er gulur villiköttur, sem ber öll einkenni flækingsins:

rytjulegur, svangur, styggur og tortrygginn. Þetta er Hannes.

Hann er ekki lengur feitur, værukær, áhyggjulaus heimilisköttur.

Hann svæfir ekki lítil börn í hlýju rúmi á kvöldin.

Sjálfstæðið er kattarins innsta eðli.

Það verður ekki bælt.

Við Bændahöllina sér Hannes köttur stúlku, sem honum geðjast að.

Þetta er Sigga.

Hún stígur hér út úr bílnum sínum.

Hún vinnur á skrifstofu í þessu risastóra húsi.

Hannes og Sigga.

Siggu þykir furðulegt að gulur köttur skuli koma hlaupandi til hennar og vilja láta gæla við sig.

En hún má ekki verða of sein í vinnuna.

Hannes skýst inn í Bændahöll með Siggu.

Hannes fer inn.

Hann eltir hana alla leið upp á skrifstofu.

-Hvað er að þér, kisa litla?

Fólkið skilur ekki hvað Sigga er að gera með þennan gula mjóa kött í vinnunni.

Hannes fær mjólk á undirskál, þegar fólkið er í kaffi.

Hann fær mjólk.

Síðan hoppar hann upp í kjöltu Siggu og sofnar þar!

Klukkan fimm hættir fólkið að vinna.

Sigga tekur köttinn út með sér.

En hann er ekkert á því að láta skilja sig eftir.

Þegar Sigga opnar bílhurðina, stekkur Hannes upp í.

Hannes í bíl -

- Siggubílnum.

Hann ætlar með henni.

Sigga verður nú dálítið vandræðaleg.

-Heyrðu, kisa mín. Ert þú eitthvað villt?

Sigga ekur með Hannes á nokkra staði í nágrenninu, og reynir að láta hann út.

Hún spyr alla krakka sem hún hittir, en enginn kannast við þennan kött.

Sigga losnar ekki við Hannes.

Hann situr sem fastast í bílnum hennar.

 

Sonur hennar Siggu er heldur en ekki kátur þegar mamma hans kemur heim með þann gula.

Nú líður honum vel.

Hún er í stökustu vandræðum, og tekur það ráð að fara með köttinn heim í Barmahlíð til sín.

Hún getur ekki vitað að þetta er Hannes Grásteinn, týndur kettlingur úr Norðurmýrinni.

Hann ber ekkert hálsband.

Því hafði alltaf verið stolið af honum.

En auðsætt er, að hann er vanari börnum og hlýju en því að sofa milli öskutunna.

Sigga les.

Sigga les auglýsingar í blöðunum, ef einhver skyldi auglýsa eftir gulum ketti.

En nú voru fjórar vikur liðnar frá því að Hannes fór að heiman.

Við höfðum gefið upp alla von.

Nú fékk hann nóg að eta, og á einni viku varð ann aftur feitur og pattaralegur.

En Sigga ákvað að setja auglýsingu í blað: Gulur köttur í vanskilum í Barmahlíð.

Við hringjum strax.

-Halló.

-Gulur köttur?

Getur hugsast að þetta sé Hannes?

Gæti hann hafa þvælst upp í Hlíðar?

En nú voru fimm vikur síðan okkar guli köttur hvarf.

-Ha? Hjá Bændahöllinni?!!

 

Við förum samt upp í Barmahlíð, þótt okkur finnist litlar líkur á að þarna sé um Hannes Grástein að ræða.

 

Þetta er Hannes!

 

Við trúum varla okkar eigin augum.

Hannes malar þegar hann finnur lyktina af okkur, og stingur trýninu sínu í hálsakot.

Hann er ekki búinn að gleyma okkur.

Hannes fundinn!

Við sendum síðan Siggu og litla stráknum hennar smá gjöf fyrir hve góð þau voru við Hannes.

Sigga er sannur dýravinur.

Þegar við komum heim með Hannes, er Surtarbrandur, það hasardýr, ofsa kátur að sjá bróður sinn, og þýtur til móts við hann með alls konar kettlingalátum.

Surtarbrandur er kátur.

En Hannes er varkár.

Hannes er varkár.

Styggð og varfærni útilegukattarins lýsir sér í fasi hans.

Sá sem þarf að treysta eingöngu á sjálfan sig gegn öllum hættum lífsins, er sífellt á verði.

 

Þegar Hannes finnur lyktina af bróður sínum, man hann eftir öryggi heimilisins og áhyggjulausum kettlingadögunum.

Þeir kúra saman, bræðurnir, eftir langan aðskilnað, í gamla barnavagninum í kjallaraganginum.

Bræður kúra saman.