Hannesar saga Grásteins

11. bók

 

HEFUR KÖTTURINN NÍU LÍF?

 

Nú getið þið ímyndað ykkur hve kát við erum, því Hannes Grásteinn er orðinn ársgamall og hefur komist klakklaust úr hverri hættunni af annarri.

 

Hann er kominn yfir mesta kettlingafjörið, orðinn varkár og ráðsettur fyrirmyndar heimilisköttur, heimakær og blíður.

Auðvitað erum við svo vitlaus að halda að hann lendi ekki í fleiri lífshættulegum ævintýrum.

Hannes eins árs.

Þegar komið er með fiskpakkann heim úr fiskbúðinni, er lyktin ofsalega spennandi.

--- Raunar ómótstæðileg.

Það er nú auðvelt að eiga við smápappírsumbúðir, þegar búið er að draga fiskinn úr sjó og bera hann alla leið heim á eldhússborð.

Skamm!

En Hannes fær ekkert nema skammir fyrir dugnaðinn.

Sjálfsbjargarviðleitni er annað en eignarréttur.

En auðvitað fær Hannes hráan sporð, þegar verið er að verka fiskinn.

Hann þarf aðeins að læra að köttur á ekki að ná sér í bestu bitana sjálfur, heldur bíða.

Hrár sporður.

Það er enginn hætta á að hann taki ekki eftir að verið var að kaupa fisk.

Kettir eru óskaplega lyktnæmir.

 

Við höfum ekki áhyggjur af Hannesi þótt hann sé oft úti.

En morgun nokkurn verður mér litið út um gluggann.

Greinilega hefur orðið slys.

Tveir bílar standa kyrrir á Snorrabrautinni.

Margt fólk hefur drifið að.

Lögreglan er komin á staðinn, en enginn sjúkrabíll.

Ó! - Slys!

Þá er hringt til okkar út næsta húsi:

-Við sáum að guli kötturinn ykkar varð fyrir bíl hérna úti.
Okkur sýndist hann stökkva fyrir einn bíl og hendast svo, greyið litla, á annan bíl.
Lögreglan er þarna.
Kattargreyið hlýtur að hafa farið mjög illa.

Ég stekk berfætt út á götu.

Gef mér ekki tíma til að fara í skó.

Sem mér tekst að troðast í gegnum mannþröngina, er lögregluþjónninn að bera Hannes veinandi inn í lögreglubílinn.

Einhverjir strákar segja:

-Vá! Ég sá þetta, maður! Það keyrðu tveir á hann. Sástu?

-Já! Hann hentist alveg upp í loftið!

Ég hleyp til löggunnar.

Nei!

Ekki!

-Ég skal taka köttinn, segi ég. -Krakkarnir mínir eiga hann.

Átakanlegt mjálmið í Hannesi syngur í eyrum allra nærstaddra.

-Eigum við ekki bara að sjá um þetta fyrir þig? spyr lögregluþjónninn. -Við gerum það strax og við komum niður á stöð með hann.
Það verður minnst kvalafullt fyrir kattargreyið.

Ég tek Hannes.

-Nei, þakka þér fyrir, svara ég. -Ég vil ekki láta skjóta hann strax. Ég vil sjá til hvort hann jafnar sig ekki.
Ef hann kvelst mikið, svæfum við hann sjálf. Við höfum þurft að gera þess háttar fyrr.

Hannes virðist ekki vera beinbrotinn.

Hvergi blæðir.

Honum líður hræðilega illa.

Mjálmið líkist angistarveini.

Hann er stífur og hreyfingarlaus, en þó er eins og mér finnist hann muni stökkva úr höndum mér þá og þegar.

Löggan hefur nóg að gera við að leysa umferðarhnútinn sem Hannes olli.

Ó, Hannes minn.

Ég kvíði fyrir að segja litlu eigendunum að enn eitt dýrið þeirra sé nú sennilega að deyja.

Margir klukkutímar líða.

Hannes liggur sem í leiðslu, alveg stífur og mjálmar í sífellu.

Augun eru hálflukt, og hann starir á ekki neitt.

Við búum um hann á hlýjum stað á mjúkum ábreiðum. Þegar líður á kvöldið sofnar hann.

Við höldum að nú sé hann að deyja.

Hann andar þó reglulega.

Hvað mun næsti dagur bera í skauti sér?

-Ekki deyja!

Morguninn eftir trúum við varla okkar eigin augum:

Hannes Grásteinn, sem í gær hljóp út á götuna, beint fyrir bílana, kemur nú gangandi á móti okkur eins og ekkert hafi í skorist, stálsleginn eftir næturlangan svefninn.

Hannes heill.

Við förum með Hannes til dýra
(
þ.e. til dýralæknisins):

-Það er allt í lagi með þennan myndarkött.
Hann hefur fengið taugaáfall og örlítinn heilahristing.
Þið skulið ekki klappa honum á kollinn á næstunni.

 

-Fínn köttur.