Hannesar saga Grásteins

15. bók

 

SNJÓTITTLINGAVEIÐAR

 

Frost er og snjór.

Hannesi er kalt á klónum.

Það er að vísu nokkuð kettlingalegt að þeytast á eftir snjóflygsum um allan garð, en það er samt bara nokkuð gaman að leika sér til hita.

Einnig góð æfing.

Rándýr þurfa að þjálfa hremmihæfnina, en hún er mikið nákvæmniverk.

Snjór.

 

En annað nokkuð merkilegra er hægt að gera:

Veiða snjótittlinga sem setjast út á hól til að kroppa smáfuglafóðrið.

Gallinn við þá er að vísu sá, að þeir sitja aldrei kyrrir.

Þeir fljúga upp þegar bíll fer framhjá,

þeir fljúga upp þegar einhver gengur framhjá,

þeir fljúga upp þegar hrafninn hnitar uppi yfir þeim.

Snjótittlingar.

Hannes má ekki svo mikið sem horfa í áttina til þeirra, þá fljúga þeir upp!

Það er augljóst að ekki getur hver sem er veitt snjótittling.

Það reynir á kænskuna og hæfnina.

Þeir fljúga upp.

Hannes læðist niður fyrir húsið.

Hann ætlar að læðast að snjótittlingunum þar sem þeir verða hans ekki varir.

Hann fikrar sig nær

og nær.

Hannes læðist.

Aðeins vantar nokkur hljóðlaus skref til að komast í stökkfæri við þá.

Hannes iðar og býr sig undir að stökkva og hremma.

Bíll fer framhjá.

Snjótittlingarnir fljúga allir upp.

Þeir fljúga upp!

Hannes ætlar að bíða þar til þeir setjast á ný,

--- en nú sjá fuglarnir hann úr lofti, og þora ekki að setjast aftur.

Hannes fer þá bara inn, enda tærnar hans fegnar því.

Hannes inni.

Það var svosem auðvitað: Fuglaskarinn sest um leið og Hannes er farinn.

Skottið gula gengur fram og aftur, all gremjulega.

Hannes mjálmar veiðimjálmi: -- lágt og titrandi -mja-a-a-a-a-a-a.

Hann langar nokkuð mikið til að reyna á nýjan leik.

Hannes læðist sömu leið og áðan.

Hann læðist út.

Hann liggur í leyni á bak við steinahrúgu.

Einn og einn fugl úr síhvikulum hópnum lítur upp, en enginn þeirra verður var við hættuna sem vofir yfir.

Hannes er kænn.

Einn fuglinn nálgast grjóthrúguna æ meir.

Er hann í dauðafæri?

Eða er þetta aðeins of langt?

Hannes hreyfir afturhlutann eins og til að hita upp afturfæturna fyrir áhlaupið.

 

Nú !

gerir Hannes leifturárás.

Fuglarnir fljúga upp -- allur skarinn -- um leið og Hannes stekkur.

Sá sem Hannes sigtaði á, slapp einnig.

Hann var snöggur.

Svona er lífið.

Nær ekki í fugl.

Ef Hannes væri villt rándýr, yrði hann að veiða sér til matar, ella dæi hann úr hungri.

-Erfið hlýtur lífsbaráttan að vera hjá villiköttunum - er það ekki, Hannes minn?

Þú veist allt um það.

Stundum deyja þeir út hungri og kulda og einmanaleik.

Engum þykir vænt um þá.

 

Hannes á fisk á diski inni í hlýjunni.

(þið vitið auðvitað að einhver maður hefur veitt fiskinn.)

Hannes étur fisk.

 

Síkvikir snjótittlingarnir nota nú tækifærið og tína í sig kornið.

 

Vetrardagurinn er stuttur.

 

Svo hverfa þeir út í hrímfölt myrkrið.

Enginn veit hvar þeir kúra um nætur.

Snjótittlingar.