Hannesar saga Grásteins

16. bók

 

NÝI KETTLINGURINN

 

 

Það er töluvert starf fyrir einn kött að eiga fjóra eigendur og þurfa að svæfa þá alla.

Oft er allmikið karp um, hver megi sofna með Hannes fyrstur það kvöldið.

Ég má.

-Þú fékkst að hafa hann í allt gærkvöld! Nú má ég.

-Ég má.

-Nei, ég má núna.

Þetta verður til þess að Kristín fær sér kettling.

Hann er undan Marí.

Hann er kátur, mjúkur og forvitinn kjáni -- eins og kettlingar eiga jú að vera.

Ný kisa.

Við kvíðum því, hvernig Hannes Grásteinn muni taka þessu, minnug þess er Elri Gúlli, stóri bróðir Hannesar, flutti að heiman við komu nýju kettlinganna.

En Hannes ?

Hannes er ekki lengi að finna það á lyktinni, að aðskotadýr er komið í húsið.

 

Kettlingurinn atast í hverju sem fyrir verður með sleitulausum fíflalátum.

Hér er það hornið á rekkjuvoðinni hennar Kristínar.

Villingur.

Hannes leggur kollhúfur.

Ekki nóg með að þetta er ljótt, vitlaust og að vond lykt er af því, heldur virðumst við -- sem eigum Hannes, heimsins besta kött -- láta viðgangast að þessi hræða sé á heimilinu.

-Ekki fara !

Við gælum við Hannes, en hann strunsar fram að útidyrum.

Stolt hans er sært.

Við reynum að sleikja úr honum.

Í marga daga höfum við gætur á honum, þegar hann fær að fara út.

Við erum sífellt að reyna að sýna honum að okkur þykir ofsalega vænt um hann.

 

Villingurinn er lokaður inni í Kristínar herbergi með fisk og mjólk -- og auðvitað dall með sagi í.

Tæta, tæta, tæta.

Hann er svartbröndóttur eins og Surtarbrandur var.

Hann hlýtur nafnið Surtur.

Hannes gengur oft þefandi framhjá herberginu, þungbúinn á svip.

Eftir marga marga daga fer Hannes að jafna sig á þessari óvæntu ógnun við veldi hans.

Hann gægist gætilega inn í herbergið sem óvætturin litla hefur aðsetur í.

-Dæmalaus ólykt er af þessu.

Hannes fer inn.

Hannes fitjar upp á trýnið af andúð.

Hann þykist þó ekki sjá Surt, sem skýtur upp kryppu og hendist um gólfið með ofleiknum kettlingatilburðum og fíflalátum.

Hannes étur fisk Surts.

Skárra er það nú dekrið: Allt beinlaust.

Bara allir bestu bitarnir handa þessu.

Hannes gerir sér lítið fyrir og etur allan Surtsfiskinn -- og lepur alla mjólkina hans á eftir.

Hann þykist nú hafa gert það gott.

Sýnir Surti algjöra fyrirlitningu með því að virða hann ekki viðlits.

Þvær sér um trýnið eftir matinn.

Surtur sér gula skottið.

Hins vegar þykir Surti mjög gaman að fá heimsóknina.

Sérstaklega þetta stóra gula skott, sem gengur fram og aftur.

Surtur er leiksjúkur fjörkálfur.

Hann tekur undir sig stökk og flýgur á gula skottið.

 

Hannesi brá.

Hannes kippist við og hrökklast fram á gang.

Þessu átti hann ekki von á -- og það inni á hans eigin heimili.

Nú þykir Surti litla ennþá meira gaman, og stekkur á eftir gula skottinu fram á gang.

Hann ætlar að ráðast á skottið aftur.

Þetta er fjör!

Hannes á flótta.

Það er sama hvert Hannes flýr.

Hann losnar ekki við þennan ófögnuð.

Með óhnitmiðuðum hreyfingum sínum gerir Surtur hverja árásartilraunina á fætur annarri.

Þetta er í eina skiptið á ævinni sem Hannes flýr með skottið á milli fótanna.

Allt í einu snýst Hannes til varnar.

Við erum smeyk um að Hannes sé reiður í alvöru, og gangi af Surti dauðum.

En Hannes skynjar að algjör óþarfi er að taka á kröftunum.

Þetta veltur um koll nærri því af sjálfu sér.

Surtur í kút.

-Hryggðarmynd er að sjá þetta.

Þetta getur nú varla kallast köttur, þessi hrúga.

Það er augljóst, góði minn, að einhver þarf að kenna þér að hegða þér á kattsæmandi hátt.

Þú ert alls kattakyns ósómi.

(Eitthvað virðist Hannesi finnast lyktin af þessu hafa skánað síðan það kom hingað fyrst.)

-Þetta er eitthvað efnilegra,

litla fífl.

Hannes kennir Surti.

Okkur léttir til muna er við sjáum að Hannes er aðeins að gefa Surti litla smá kennslustund í kattaáflogum.

Hannes er einn reyndasti högni bæjarins.

Hann sér að mömmu Surts hefir alveg láðst að kenna honum áflogalistina.

Kettlingur sem tekinn er frá mömmu sinni, og hefur engan annan kettling til að tuskast við, er illa settur.

Á endanum er Surtur orðinn gersamlega uppgefinn.

En þá tekur ekki betra við:

Hannes er ekki alveg nógu ánægður með lyktina af þessu ennþá, og tekur því til við að þvo því rækilega.

Hannes þvær Surti.

Surtur verður að sætta sig við þvottinn, því Hannes heldur honum föstum með sínum þunga hrammi.

Nú vitum við að Hannes er búinn að sætta sig við að við höfum annan kött.

Feginn verður Surtur þegar þessum þvotti er lokið.

Uppgefinn sofnar hann vært.

 

Þegar fiskpakkinn kemur heim á eldhússgólf, ætlar Surtur heldur betur að bjarga sér sjálfur.

Hann veður í fiskinn og ætlar að byrja á rífa í sig með klóm og kjafti. Lyktin er spennandi.

En Hannes hefur hugsað sér að ala þetta kríli upp í sæmilegum siðum.

Urrandi og óárennilegur leggst Hannes á fiskpakkann.

Surtur kemst þar hvergi nærri.

-Nei, góði.

-Vel upp alinn köttur nagar ekki miðjuna úr fiskinum.

Það á að bíða þar til búið er að verka fiskinn, góði. (Sjá bók 11, bls.151 (!))

Þegar Hannes fær svo hráa bitann sinn, rífur hann í sig.

Hannes urrar.

Rándýrin hafa hvassar tennur og sterka kjálka.

Í hvert skipti sem Surtur reynir að nálgast bitann, hvæsir Hannes.

Svo urrar hann á meðan hann étur.

Surtur þarf að læra hver er höfðinginn í þessu húsi.

 

Þegar Hannes hefur etið fylli sína, teygir hann sig asalaust og sleikir út um.

 

Nú er best að fara að kenna Surti nafnið sitt:

-Surt-surt-surt, segjum við, og hann kemur í loftköstum.

Nú fær Surtur að éta.

 

Um kvöldið á Surtur að læra starfið sitt: að svæfa börn, en til þess var hann jú fenginn.

En nú eru kettir einu sinni þannig gerðir, að þeir vilja helst fara að leika sér á kvöldin, þegar mannabörnin eiga að fara að ganga til náða.

Þegar Kristín ætlar að láta Surt sofna hjá sér, er hasarleikur í honum.

Ekki má hún hreyfa svo mikið sem stóru tá undir sænginni, að Surtur sé ekki stokkin á hana með beittar klær sínar úti.

Hasar í Surti.

Alls ekki borgar sig að reyna að halda ketti með kröftunum.

Það er til miklu betra ráð:

Búa til bréfmús í bandi,

leika við kettlinginn þar til hann verður þreyttur og er til í að hvíla sig.

(Endilega þarf að leyfa kettlingnum að ná henni stundum, og hreyfa hana þá örlítið.)

Bréfmúsarleikur.

Surtur æsist svo mikið við leikinn, að hann stekkur upp á stól,

þaðan upp á borð,

kemur auga á sykurkarið,

spænir öllum sykrinum út um allt á nokkrum sekúndum.

Áður en nokkrum manni tekst að átta sig, er hann stokkinn ofan

- og skellir rjómakönnunni um koll um leið.

Sykur.

Ekki þarf mjög lengi að leika við lítinn kettling til þess að gera hann þreyttan.

Hann er í lokin úrvinda.

Mjög ánægður með að byrja í vinnunni.

Hann malar hátt og lengi.

Þægilegt starf að vera matvinnungur á þennan hátt.

Þau sofa.