Hannesar saga Grásteins

17. bók

 

VOR Í LOFTI

 

Þessi stóri guli Hannes, sem lent hefur í svo mörgum hættulegum ævintýrum um ævina, er gæddur miklu sjálfstrausti.

Hannes er nú búinn að sætta sig við aðskotadýrið Surt, þótt Surtur sé alveg dæmalaust lítið gefinn og aldrei til friðs.

En Hannes lætur Surt líka vita hver það er sem ræður í þessu húsi.

Ólíkir kettir.

Nú er tekið að vora.

Þá er eins og allt vakni og teygi sig.

Jafnvel himinninn opnar augun eftir syfjulega daga og dimmbláa stjörnudrauma vetrarins.

Fuglar, blóm og dýr teygja forvitin nefbroddinn út í loftið.

Loftið svarar með vorgolukossi.

Það er nú sem ósýnilegir fjötrar bráðna af öllu og öllum á Íslandi.

Vor --- og frelsi.

Vor.

Einhver óskýranleg þörf fyrir að hlaupa, hlaupa, hlaupa, hlaupa grípur lítinn kettling.

Hlaupa út í vorið,

og auðvitað beint í Hannes!

Kæti.

Stóri guli kötturinn er líka hlaðinn vorfrelsi.

Hann stekkur um garðinn --- með þetta stóra gula skott sitt, sem Surtur fær ekki staðist.

Hannes hleypur alveg mátulega hægt fyrir Surt litla --- og gætir þess að fara ekki út á götu.

Hannes veit hve hættulegir bílar geta verið. (Sjá bók 11, bls.153.)

Þeir leika sér.

Allt í einu, þegar leikurinn stendur sem hæst, birtist stór fressköttur í garðinum.

Hannes veit hvað þetta táknar og hættir leiknum samstundis.

Surtur, aftur á móti, hefur aldrei kynnst öðru en að sofa, eta og leika sér, og heldur að þessi ókunni köttur sé jafn skemmtilegur og Hannes.

Hann ákveður að stökkva á þennan og leika svolítið við hann.

Nei, Surtur !

Ekki !

Auðvitað kallar Surtur yfir sig sína fyrstu alvarlegu lífsreynslu:

Aðkomukötturinn tekur þetta óstinnt upp fyrir Surti.

(Honum yrði víst ekki skotaskuld úr að jafna um þennan litla bjálfa í eitt skipti fyrir öll.)

Kárnar nú brátt vorleikjagamanið.

Fressið slær Surt.

En nú er Hannesi Grásteini að mæta.

Hann líður ekki boðsflennur á sínu yfirráðasvæði.

Hannes kemur.

Eftir snörp áflog hörfar kötturinn úr garðinum.

Hannes stendur eftir og dinglar rófunni, stoltur og reiður í senn.

En hvað hefur orðið af Surti?

Í ofboði stökk hann burt.

En hvert?

En hvar er Surtur?

-Surtur! Surtur! Surt-surt! Kis-kis!

Við leitum og köllum fram á kvöld.

Við spyrjum alla krakkana í kring hvort þau hafi séð Surt.

Hvert hefur hann stokkið?

Næsta morgun höldum við áfram að leita að litla kjánanum.

Á hádegi er bankað.

Fyrir utan stendur maður sem býr í næstu götu við okkur:

Fundinn.

-Þegar ég lyfti upp vélarhlífinni á bílnum mínum áðan, af einskærri tilviljun, sagði hann, -lá þessi þar undir, steinsofandi.
Krakkarnir sögðu mér að þið hefðuð verið að leita að einhverju slíku.

Við verðum heldur en ekki kát að vita að ekkert hefur komið fyrir Surt.

Surti hefði nú brugðið illa, ef maðurinn hefði gangsett bílinn án þess að verða var við kattarkjánann.

Surtur er hinn kátasti, velútsofinn en soltinn.

Hann er alveg búinn að gleyma stóra kettinum og rífur í sig brauð, ost, aldinmauk, kókómalt og einhverjar fleiri matarruður.

Surtur er alæta.

Brauðafgangur með aldinmauki er nú hlutur sem Hannes Grásteinn leggur sér ekki til munns.

-Þú, Surtur, ert nú öllum sönnum rándýrum til skammar.
Vonandi þroskastu, grey vandræðagripurinn þinn.

Og Hannes hefur ekki frekari áhyggjur af því, hve mikill endemis kjáni Surtur getur verið.

-Brauð! Oj bara!