Hannesar saga Grásteins

18. bók

 

HANNES FER Í SVEIT

 

Hann Hannes gætir þess vandlega að gleymast ekki í bænum, þegar við flytjum í sveitina til sumardvalar.

En ofsalega sem hann kvíðir fyrir bílferðinni.

Hann byrjar að vorkenna sér löngu áður en við leggjum af stað.

Kannski ekki er að furða þótt hann hafi illan bifur á þessum hávaðaófreskjum.

Hannes fer í sveit.

En Surtur er með algjöra bíladellu.

Hann stekkur inn í bílinn,

út aftur,

upp á bílinn,

undir bílinn

og situr að lokum á framöxlinum þar sem ómögulegt er að ná honum.

Það er engin leið að hemja fjörið í þessum ærslabelg.

-Surtur minn, komdu nú.

Loks er allt tilbúið.

Loks hægt að leggja af stað.

Hannes læsir í mig klónum þegar ég ber hann út í bíl.

Hann vill ekki láta skilja sig eftir, og

hann vill heldur ekki fara í bíl.

-Hannes minn, komdu.

Surtur er orðinn svo þreyttur eftir allan hamaganginn í sjálfum sér, að hann malar sig í svefn í kjöltu Kristínar.

Steinsefur alla leiðina austur í sveitir.

En Hannesi finnst þetta hræðileg ferð. Hann mjálmar, vælir eða skulum við segja breimar í sífellu alla leiðina.

Í bílnum.

Og

Hannes, sem aldrei pissar nema á afviknum stað, sprænir í fatahrúgu af einskærri angist.

 

Loks komumst við á leiðarenda.

Hannes þefar út í loftið.

Hann er varkár á nýjum stað.

Hann finnur fljótt að hér er gaman að vera.

Surtur litli er settur beina leið inn í hús.
Lokaður inni í herbergi.
Hann er vís til að byrja á að týnast og jafnvel leggjast alveg út.

Í sveit.

 

Kettlingurinn er ekki í neinum vandræðum með að hafa ofan af fyrir sér inni.

Hann hendist rúm úr rúmi,

upp á stóla,

borð

og skápa

svo allt er sem í hers höndum.

Hasar og læti.

Surts er vandlega gætt, þegar hann fær að skreppa út.

Honum dettur aldrei í hug að gegna nafninu sínu þegar kallað er á hann, og oftast er Kristín í stökustu vandræðum með að ná honum.

 

Hannes hefur góðar gætur á ferðum okkar.

Hann ætlar svo sannarlega að gæta þess að við stingum hann ekki af hér á þessum nýja stað.

Hann eltir okkur niður í fjöru, þegar við förum að vitja um.

Hannes mjálmar.

 

Hýrnar nú heldur en ekki yfir honum þegar við komum að með fiskinn.

Slorlykt er all spennandi fyrir svanga kisu.

Hannes fær líka vænan bita.

Hann fær fisk.

Eftir þetta fer hann daglega með okkur niður að báti og bíður rólegur í fjörunni, meðan við vitjum um.

Það borgar sig vel.

 

Hér er fleira skemmtilegt en nýr fiskur:

Fuglatíst á hverri þúfu.

Hannes sér fugla.

Ekki líður heldur á löngu þar til Hannes færir mér fugl.

Hann leggur fuglinn bráðlifandi á hlaðið að fótum mér.

Þetta var gjöf til mín!

Veiðistoltið leynir sér ekki.

Ekki get ég annað en hrósað honum.

Ég snerti ekki fuglinn, sem virðist algjörlega óskaddaður.

Svo laust hefur Hannes haldið honum milli tannanna, að ekkert sér á honum.

 

Til þess að Hannes endurtaki þetta ekki - veiðiklóin sú -- fer ég með hann inn í bæ.

Hann er malandi af ánægju og stolti.

Hann veit ekki að ég er svo fölsk að ég ætla að loka hann inni, þar til ungarnir verða betur fleygir.

Unginn á hlaðinu er fljótur að jafna sig.

Hann hefur aðeins verið stjarfur af hræðslu eða eðlislægum viðbrögðum, til þess að rándýrinu finnist hann vera dauður.

Unginn skýst brott strax og hættan er liðin hjá.

Ég læt Hannes inn.

Það er ekki skemmtilegt fyrir Hannes að þurfa nú að húka inni í góða veðrinu í margar vikur, meðan ungarnir veltast hálffleygir milli þúfna.

Lokaður inni.

Hann horfir á hraðfleygan smyrilinn steypa sér ofan kletta með ljótu gargi og elta smáfuglana, sem flýja eins og þrek þeirra og snerpa leyfir.

Það er upp á líf og dauða.

Allir eiga þeir svanga unga.

Þá mjálmar Hannes veiðimjálmi: -mja-a-a-a-a-a-a

-- sem er ofurlágt og þrungið sársaukafullri óuppfylltri þrá til að lifa sitt náttúrulega eðli:

að drepa sér til matar.

 

 

Hrafn á veiðum.

Hrafninn kemur af og til í ránsferðir.

Hann þarf að fæða sína gráðugu unga í laup sínum í klettagjá.

Honum gengur oft illa að hefja sig til flugs með þrastarunga í gogginum -- og árás ævareiðra og sorgbitinna foreldranna yfir höfði sér.

 

Hannes horfir út um gluggann á veiðiglaða krakkana koma stolta heim með smáfisk veiddan á stöng.

Krakkar veiða.

Fullorðna fólkið tínir fiskinn úr netunum.

Hvernig stendur á því að mannfólkið tekur gæs upp úr frystikistu?

Það er svosem ágætt að fá nýjan fisk, en leiðinlegt að fá ekki að veiða sjálfur.

Gómsætt slógið lendir svo í minkagildrunni.

Fólkið ætlar svosem að veiða mink.

Stundum er slógið notað sem agn fyrir svartbak.

Fólkið ætlar svosem að drepa veiðibjölluna, til þess að hún leggist ekki í egg og unga.

En Hannes fær ekki að veiða.

 

Surtur hefur ofan af fyrir sér með flugnaveiðum:

Það eru fiskiflugur í gluggunum og húsflugur á eldhússborðinu.

Hannes er löngu vaxinn upp úr flugnaveiðum.

Hannes leggst í mýksta stólinn í stofunni og ætlar að fá sér lúr.

Hannes sefur.

Honum leiðist að fá ekki að vera úti.

Það er líka hollt og gott að láta belgfylli af hráum fiski sjatna í sér í ró og næði.

Þetta gera ljónin.

 

En Surtur finnur nú ekki fleiri flugur til að veiða, en hefur ofgnótt fjörs.

Það er ekkert spaug að vera ungt rándýr - lokað inni - og heyra fuglakvakið og ungatístið útifyrir.

Surtur gengur berserksgang.

Surtur tekur rispu.

Auðvitað fær Hannes engan frið, því hann er hluti af leiktækjunum hans Surts.

Hannes á ekki annarra kosta völ en leika örlítið við ófögnuðinn, enda veitir ekki af að kenna honum almennilega kattatilburði.

Surtur vekur Hannes.

 

Það er hræðileg niðurlæging fyrir Hannes að vera bent á pissudall eins og hafður er fyrir kettlinga: gamalt vaskafat með sagi og sandi í.

Hannes fær ekki að fara út.

Enginn opnar fyrir honum þegar hann mjálmar við dyrnar og þarf nauðsynlega að komast út.

Hannes kom að vísu fram hefndum með því að spræna duglega í hundabælið.

Ekki er um annað að ræða en hoppa upp í stól.

 

Hannes þvær sér.

Gestaspjót.

Þegar kisa þvær sér svona, er sagt að hún setji upp gestaspjót.

Það spáir gestakomu.

Auðvitað bregst hjátrúin aldrei, því staðreyndum er alltaf hægt að hagræða.

Að þessu sinni kom gestur tveim dögum síðar.

Hannes er óttalega móðgaður þegar hann er rekinn upp úr uppáhaldsstólnum sínum og einhver gestur fær sæti þar.

Þegar loks stóllinn er endurheimtur, þarf Hannes að rannsaka gaumgæfilega hina framandi lykt sem gesturinn hefur skilið eftir.

Það er oft einhvers konar fjósalykt eða önnur dýralykt.

Hannes snýr sér oftast í þrjá hringi áður en hann er ánægður með bælið sitt.

Það er dýrmætur eiginleiki að geta fundið eirð og vera sjálfum sér nógur þótt ævintýrin séu útilokuð.

Svo er gott að kúra hjá krökkunum um bjartar sumarnætur.

Í ró.