Hannesar saga Grásteins

19. bók

 

HVOLPARNIR

 

Margt hefur Hannes Grásteinn reynt og í mörgu lent í lífinu.

Í sveitinni gengur gersamlega fram af honum:

Tveir hvolpar eru komnir á heimilið!

Þetta eru þau klossuðustu og fyrirferðarmestu dýr sem Hannes hefur nokkru sinni augum litið.

 

Hvolpar!

Dynkirnir þegar þetta hlussast niður!

Fyrirferðin,

geltið,

urrið,

bröltið!

Svo þykist þetta vera að hoppa, en kemst ekki einu sinni upp á stól.

Það er að auki ólykt af þeim.

Klossuð dýr.

Hannes hefur hugsað sér að láta þessa klossuðu hlunka strax vita hverjum á að bera virðingu fyrir á þessum bæ.

Hann hvæsir, og slær hvolpana fast með klónum á forvitin nefin, sem þeir reka ofan í alla hluti

- og halda að þeir geti rekið í Hannes líka.

Hvolparnir eru fljótir að skilja, að ekki borgar sig að atast í Hannesi Grásteini.

Hans persónumörk eru á hreinu.

Hannes ræður.

Öðru máli gegnir með hinn leikóða Surt.

Meðan hvolparnir eru aðeins mánaðargamlir, getur Surtur hlaupið miklu hraðar en þeir.

Enda spóla þeir á sleipu kjallaragólfinu.

Surtur liggur í leyni,.....

.....stekkur á skottin á þeim, og vegna afburða lipurðar kattarins, er hann alltaf búinn að skjótast burt, þegar þeir ætla að glefsa í hann.

Smár er hér knár.

Það er allt að því hlægilegt að sjá hve ójafn leikurinn er, svo miklu knárri er kisa.

Hannes var skynsamur að kenna hvolpunum strax í upphafi, hver er konungur dýranna hér.

Hann étur alltaf fyrstur - og alla bestu bitana.

Hannes étur fyrstur.

Ef einhver dirfist að ætla að næla sér í bita áður en Hannes hefur mettast, hvæsir hann og urrar.

Allir verða að læra hvað það þýðir.

Hannes tyggur vel,

fer sér að engu óðslega,

verkar snyrtilega utan af

beinunum.

 

Síðan sleikir hann út um

og teygir sig vandlega.

 

Þá geta Surtur og hvolparnir fengið afganginn.

Á eftir éta hin þrjú.

Hannesi líst ekki á að hafa þessa sóða til trogs með sér.

Hvolpar slafra í sig matinn nær ótugginn;

sá sem er fljótastur fær mest;

þeir sulla út á gólf;

bryðja beinin.

Allt hverfur.

Mikið að þeir éta ekki trogið með.

 

Hvolpar stækka hratt.

Það hlaut eitthvað að verða úr öllum þessum býsnum sem þeir éta.

Surtur heldur áfram að atast í hvolpunum,

en nú á hann stundum í vök að verjast, og oft vill kárna gamanið.

Þeir stækka ört.

 

Hannes er feginn að geta nú brugðið sér út þegar hann langar til.

Allir ungar eru orðnir fleygir.

Veiðar eru ekki auðveld list.

Það þarf þolinmæði og kænsku.

Hannes læðist hljóðlaust að bráðinni.

Verst er þegar hvolpaskammirnar koma æðandi með gelti og gjammi og fæla alla fugla upp.

Hannes er úti.

Hannes er mikil veiðikló.

Við þessu mátti búast:

Hann færði mér dauðan fugl.

 

Þótt undarlegt megi virðast, vantar mig einmitt nýveiddan fugl.

 

Hannes drap fugl.

Skýringin á því er sú, að ég ætla að kenna hvolpunum að þeir mega ekki veiða fugla, en þeir eru af dýrtæku kyni.

Ekki er nóg að skamma þá eftir að þeir hafa veitt.

Best er að koma í veg fyrir að þeir nokkru sinni veiði.

Sumir hundar drepa fugla sér til skemmtunar, og það er ekki gott.

 

Að ala upp hund.

Ég fel mig og hreyfi nýdeyddan fuglinn svo annar hvolpurinn sér.

Ég reyni að herma eftir tísti og kvaki fugla.

Hvolpurinn verður spenntur í þessu,

og stekkur á fuglinn.

(Þið vitið að hundar eru rándýr.)

-Nei !!
-Ekki snerta!

Um leið og hann finnur lyktina af fuglinum og ætlar að glefsa í hann, slæ ég hvolpinn snöggt á síðuna með ól og segi skipandi:

-Nei !!
-Ekki snerta!

Hvolpurinn hrekkur undan.

Um leið og hann lítur á mig, alveg hlessa, er ég ósköp góð og klappa honum.

Hvolpurinn hefur ekki hugmynd um að það var ég sem sló hann.

Hann yfirfærir sársaukann á fuglinn og orðin ,,ekki snerta": -Nei !Ekki snerta !

 

Aftur og aftur þegar ég hreyfi fuglinn ögrandi og tísti, ætlar hvolpurinn að glefsa í fuglinn.

Í hvert skipti slæ ég hann og segi: -Nei!! Ekki snerta.

 

Að lokum tekst mér að telja báðum hvolpunum trú um að þetta litla tístandi fjaðradýr sé stórhættulegur hlutur sem ekki borgar sig að snerta.

Þetta tók u.þ.b. tuttugu mínútur.

Hundarnir snerta aldrei fugla upp frá þessu;
þeir taka á sig krók þegar þeir sjá fugl;
--- og eru hræddir við allt sem heitir ,,ekki snerta".

Einfalt?

Þeir drepa ekki fugla.

 

Hannes horfir á aðfarirnar.

-Bjánar.

-Meiri fíflin hundar.

Hræddir við dauðan smáfugl.

Engum dettur víst í hug að reyna að kenna ketti að ekki megi snerta fugla.

Skyldi það vera hægt?

 

-Hugsið ykkur hvað hægt er að fá þessa hunda til að gera fyrir kex. Þeir hoppa, setjast, leggjast, sækja spýtnadrasl - bara allt sem þeim er sagt að gera - -

-- fyrir kex !!!

Skelfilega ósjálfstæð og þýlunduð dýr, greyin.

 

Aldrei færi Hannes að gera einhverjar hundakúnstir fyrir kex.

Hannes heldur ætíð sinni reisn og ró í lífinu.

Ró.

Það er erfitt að bæla kött.

Eðli hans er að stjórna sér sjálfur.

Fyrir Hannesi mega hundar hlaupa á heimsenda með gelti og gjammi - á eftir krumma eða hverju sem er.

Þeir mega láta siga sér á fé,

þeir mega telja það til kosta að vera hlýðinn.

En fyrir ketti er toppurinn af tilverunni og tilgangur lífsins ekki að láta aðra stjórna sér.