ISBN 9979-895-96-9
Skírnismál, handrit fyrir börn og fullorða er fáanlegt frá Freyjuköttum
freyjukettir@mmedia.is eða odsmal@mmedia.is
í handritinu er upprunalegi texti kvæðisins ásamt þýðingu kvæðisins á ensku og hugmyndir að uppsetningu helgileikanna
ennfremur "info on yule" fyrir enskumælandi menn
fullt af myndum

SKÍRNISMÁL

HELGILEIKAR

Handrit ætlað börnum

******
fyrst: upplýsingar okkur til skilnings:
________________________________________________________________________

Okkar norrænu jól eru ýmist 22., 21. eða 20. desember. Um vetrarsólhvörf.

Níu náttum fyrir jól byrja jólasveinarnir að tínast til mannabyggða.

Við viljum gjarna líta á þá sem forfeður okkar, sem hjálpa vilja okkur við að viðhalda lífinu í Miðgarði, eða sem guðin okkar sem eru lífleg á þessum tíma ársins, og Jólnir er nafn Óðins á ýli.

Hvers vegna er Stekkjastaur í fjárhúsinu um fengitímann?
Hvers vegna er Giljagaur að koma til okkar í myrkasta skammdeginu, stugga við okkur þegar nýjárs blessuð sól fer brátt að boða náttúrunnar jól?
Til hvers er Faldafeykir að feykja brott földum stúlknanna?

Var verið að fela matargjafir til látinna forfeðra með lygasögum um að Skyrgámur, Askasleikir, Kjetkrókur og Bjúgnakrækir væru að stela?

Á hverju er Gluggagægir að tékka á dimmum kvöldum í baðstofum?
Gáttaþefur að snuðra?
Hurðaskellir að skella?

Hvort þessar níu nætur eru í óeiginlegri merkingu, þannig að ekki sé hægt að telja níu nætur, vitum við ekki. Jólasveinar eru einn og átta. Talan níu er óræð hér.

En Freyr bíður Gerðar í níu nætur honum langar, eftir að Gerður hefur lofað Skírni að hún muni unna Frey gamni í lognfara lundinum Barra.

SKÍRNISMÁL eru helgileikar okkar norrænna manna (einn af mörgum). Þau fjalla um jólin okkar.

Jól eru hjól. Í myrkasta skammdeginu eru samskeyti hringsins, ef svo má segja. Ljósið sigrar myrkrið, líf mun verða í stað deyðu. Við óskum hvort öðru gleðilegra jóla, árs og friðar á Íslandi.

Það eru jól. Og Freyr er árguð.
Að óska árs, er ósk um gæfu allt árið. Allan ársins hring.

Brátt fer gyðjan Jörð að vagga sér í hina áttina. Hún vaggar okkur, norrænum mönnum í Miðgarði, í átt til gyðjunnar Sólar. Við tökum á með okkar móður Jörð, sem er og móðir Þórs, en Þór er vinur litla mannsins, alþýðumannsins, hins vinnandi manns, mannsins sem ræktar jörðina í sveita síns andlitis. Hann er máttur okkar og megin, erfiði okkar við að lifa lífinu, en tilgangur lífsins, hvers lífs okkar, er að öðlast meiri og meiri þekkingu. Ekki upplýsingar, heldur lífsvisku, og skilja tilganginn með því að fæðast og lifa.

Okkur er vorið eina lífsvonin í sambandi við mat og veraldleg líf, og vor í æðri merkingu er bjartara og lífvænlegra andlegt líf.

Heiðnir menn leika Skírnismál Frey til dýrðar, Skírni til þakkar, sér og börnum sínum til óblandinnar ánægju, Gerði til lofs, en án ástar Freys er Gerður jötnamær okkur ekki nógu mikils virði.
Þetta þýðir: að sinna aðeins veraldlegum verðmætum, eins og Gerður gerir, er ekki nóg. Við þurfum bæði hið veraldlega og hið guðlega til þess að þroskast og þróast í lífinu.

Allt ljóðið er kirjað eða raulað (ekki talað / lesið).

Ef goði er viðstaddur lýsir hann blóthelgi fyrir leikana, mannhelgi og friðhelgi
Lýsi ég staðarhelgi
lýsi ég mannhelgi
lýsi ég blótshelgi
lýsi ég véböndum
lýsi ég griðum
lýsi ég sáttum.
Nefni ég til þess vættir að það sem ég nú geri er það sem ég veit réttast.
Svo hjálpi mér Freyr og Njörður og hinn almáttki áss.

Þessi gerð leikanna, sem hér fer á eftir, er börnum mjög kær, enda ætluð að mestu til þátttöku þeirra.

Eigi mun eg margmálli vera um þessa jólaleika, því haldit (=haldi ekki) maður athygli manna, tali þó að hófi orð. Á eg hér við þá sömu góðu siði og kenndir eru þeim er kunna vilja í Hávamálum:

Haldit (=haldi ekki) maður á keri, drekki þó að hófi mjöð, sem er: ekki vera lengi með horn mjaðar eða ölker hjá sér, heldur láti ganga til næsta manns svo allir fái sem vilja.

En aðeins eitt bið eg foreldra, kennara og uppalendur, sem ekki eru heiðnir, að gaumgæfa og skilja:
Börnum er ekki troðið til að taka þátt. Það er ekki hægt að nota heiðinn sið sem hlýðnitæki.
Allt of oft verða það örlög trúarbragða að valdafíknir skilningslausir menn nota þau sem tæki til að ná valdi yfir vilja annarra.
Við þurfum að standa vörð um að slíkt hendi ekki vorn sið.
Hið fíngerðasta er vandmeðfarið og hætt við brenglun og misnotkun óráðvandra.

Nokkur ósk eða krafa um hugarfarsbreytingu hinna fullorðnu liggur að baki þessari ábendingu minni:
Hin margnotaða hjarðarsvipa: -Ætlarðu ekki að gera eins og hinir krakkarnir? -Sérðu ekki hve gaman þeim þykir að vera með? er ekki notuð af heiðnum mönnum. Þetta er lúmskt bragð sem flokkast unir andlegt ofbeldi. Já, því þar eð hinn fullorðni er yfirburðaslóttugur, neytir huglægs aflsmunar, er þessi rökleysa þar með andlegt ofbeldi.

Hver einstaklingur tekur ákvörðun samkvæmt sínum löngunum, og stendur og fellur með gjörðum sínum. Sjálfur leið þú sjálfan þig, er það sem heiðin börn þurfa að læra. Og því fylgir ábyrgð mikil á gjörðum sínum, orðum sínum, hugsunum sínuj, á sjálfum sér og öðrum og umhverfi sínu.
Við erum ekki að ala upp hlýðna hjörð. Við erum að ala upp alábyrga einstaklinga.

Hverju barni stendur til boða að vera með ef það langar. Ekkert er athugavert við ákvörðun barnsins. Engu á að breyta í huga hins fullorðna, hvort barn kýs að taka þátt eða ekki.

Börnin eru þaðan af síður látin vera óvirkir áhorfendur leikanna: Þótt yfir leikunum hvíli helgi, er hér ekki helgislepja, ekki krafa um að þegja og standa stillt.
Þetta eru gleðileikar. Allir eru frjálsir - en þurfa að læra að fara vel með frelsið.

Börnin eru með, því Freyr fær Gerðar vegna ástar sinnar. Hún er okkar lífsvon.

Heiðnir menn hafa ekki neinn leikstjóra sem hneigir sig í lok leikanna, og er það vegna þátttöku okkar í okkar leikum. Við klöppum af kæti vegna hækkandi sólar, ef við klöppum. Leikarnir eru von okkar og óskir. Ekki eingöngu sýning.

******

________________________________________________________

 

LEIKVANGUR (úti eða inni, völlur eða salur )

Gott er að aðal vangur leikanna sé upphækkaður ef fjöldi fullorðinna er með börnum.
Þá er tryggt að smávaxnir MENN Í MIÐGARÐI sjái vel hvað fram fer.

Menn í Miðgarði leika allir viðstaddir, nema aðalleikararnir, en þeir eru: Freyr, Gerður, Skírnir, Skaði, Njörður, ambátt Gerðar, sauðamaður Gymis, hundar Gymis;

og ennfremur eru sönglarar sem flytja kvæðið fyrir hönd leikaranna, en leikararnir leika þá aðeins látbragðsleik;
Þetta er til þess að ekki sé of mikið álag á ungum leikurum; engan texta þarf að læra utanað.

Hljóðfæraleikarar teljast menn í Miðgarði.

 

Á öðrum enda vallarins eða salarins eru

GYMISGARÐAR.

Gul eða rauðgul (heit) birta, grænir lundir, grænar grundir.
Bál, ef leikarnir fara fram utandyra, brennur við Gymisgarða.

 

GERÐUR er björt og sælleg. Hún má gjarna vera grænklædd, í kvenlegum fötum.

Hún er í sal GYMIS föður síns í upphafi leiks. AMBÁTT er með Gerði (og fleiri meyjar ef vill)

Þar eru og hljóðfæraleikarar.

Einnig sér sal Gerðar, umkringdan myrkum vafurloga. (Vafurloginn má vera eldrauður þunnur dúkur (efnisstrangi) sem sveiflað er eða fýkur til;

trumbur er gott að hafa til taks þegar Skírnir ríður vafurlogann, eða menn í Miðgarði hafa litla steina eða stokka til að smella saman.

 

HUNDAR bundnir liggja fyrir skíðgarðs hliði, þess er um sal Gerðar er.

FÉHIRÐIR (sauðamaður) situr á haugi, og varðar alla vega. Sællegt fé Gymis er á beit.

 

 

Á hinum enda vallarins eða salarins er

BÚSTAÐUR FREYS

Hér er birtan lítil og köld. Hvít er jörð.

FREYR er vel búinn, gyrður sverði.

Hjá Frey, sem er guð ástar og kærleika, má gjarnan sjá frjósemitáknið, göltinn Gullinbursta, og skip Freys Skíðblaðni.

 

 

HLIÐSKJÁLF

er nærri bústað Freys, upphækkað; notið hugmyndaflugið svo Hliðskjálf verði skemmtilegt og glæsilegt

 

Eftir endlöngum velli eða sal er

LEIÐ SÚ ER SKÍRNIR MUN RÍÐA FRÁ FREY TIL GYMIS GARÐA :

ÚRUG FJÖLL

 

Við menn í Miðgarði getum fært okkur til eftir því hvar leikurinn gerist hverju sinni. Við byrjum við bústað Freys og Hliðskjálf.

Við höfum steinvölur tvær í höndum. Smellirnir eru hófadynur Skírnis á ísi og áfrera norðursins, og þurfa að vera í takt við .

Jötunheimamegin fjalla notum við til dæmis tvo pappahólka sem mynda hófadyn á mjúkri grundu Gymisgarða.

Menn í Miðgarði hjálpa til við hið viðamikla áform: jólin okkar.

******
upplýsingar okkur til skilnings:
________________________________________________________________

Frá alda öðli hafa börn hjálpað Óðni við að reka brott vættir kulda og myrkurs um jól. Óðinn þeysir um loftið á hesti sínu, og börnin láta út hafra og hey handa hestinum til þess að gefa honum kraft. Hesturinn er tákn fyrir vilja okkar til að hjálpa hinu góða, eyða myrkri og kulda í þessu tilfelli;
líklega er jólasveinninn í hreindýrasleðanum ein útgáfa áf Óðni, en því miður er hann notaður til að kúga börn til hlýðni, eða með því að segja þeim að þau fái í skóinn ef, og aðeins ef, þau eru hlýðin, en fái hegningu frá jólasveininum ef þau hlýða ekki;
þessi misnotkun tilhlökkunar, ástar og gleði, gjafanna góðu um jól, er andstæð heiðni.

Heiðin börn hjálpa jákvæðum kröftum, ásum í veröld, en ekki jötnum sem eru neikvæð öfl;

og jólin og jólagleðin eru ekki, alls ekki, tæki í höndum valdafíkinna fullorðinna, sem vilja nota hvert tækifæri til þess að kúga börn til hlýðni.

Ég er aðeins að útskýra leikana, hvað þeir tákna, því án inntaks og skilnings eru þeir aðeins skraut og yfirborð;
helgileikar hafa djúpt inntak, og við þurfum að skilja þátt manna í jólunum okkar. Við getum hjálpað guðunum í orði og gjörðum.

Hver maður er ábyrgur gerða sinna, og stendur og fellur með ákvörðunum sínum. Sínum en ekki annarra.

Menn í Miðgarði eru einstaklingar. Ekki hjörð.

_________________________________________________________________

******

Gott er að hafa litlar bjöllur og/eða þríhyrninga til að grípa til þegar Freyr verður ástfanginn.

Ennfremur eitthvert dulúðugt lágt hljóð til taks þegar að göldrum Skírnis kemur. Til dæmis getum við öll hummað lágt með lokaðan munninn, gert svona ógnvænleg og seiðandi hljóð, en þó verður að heyrast vel það sem Skírnir segir.

 

Eitt enn í leikmynd:

GULT KÚLULAGA TJALD

Ljós má vera þar inni, ef hægt er.

Inni í tjaldinu er SKÍRNIR ( -- en það sést ekki strax)

 

 

Létt og hreyfanleg hljóðfæri er gott að hafa, ef einhverjir geta spilað fyrir okkur nokkrar nótur. Blokkflautur og litla zylófóna ráða margir krakkar við. Og menn í Miðgarði hummi með ef þeir vilja.
Hreyfingar, einhvers konar dans, hljóðfæraleikaranna og manna í Miðgarði er skemmtilegt að hafa.

Gerður og ambátt hennar eru í sölum Gymis, áður en leikurinn hefst.

Þar er spilað eitthvert létt stef.

Tillagan mín hlustiš  (.mid) eða hvað annað sem betra kann að þykja.

 

 

Þegar leikurinn hefst er á norðurhjara dimm trumba slegin strjálum höggum, en hljóðfæraleikur í Gymisgörðum deyr út.

Allir eru kyrrir.

Tákna þannig kyrrstöðu vetrarins, gróðursins, lífsins. 
Einnig er svo, aš Geršur er svo upptekin af veraldlegum lystisemdum, aš hśn finnur enga žörf fyrir hiš gušlega innsta ešli sitt, og žaš eru mikil leišindi.  Freyr er dapur hennar vegna.

Högni Freyr ber trumbu

Lágir djúpir tónar eru nú leiknir á norðurslóðum.
Tillagan mín hlustiš (.mp3) hlustiš (.mid) eða hvað annað sem betra kann að þykja.
Fallegt með blásurum og langspili (strengjum).
Menn í Miðgarði mega gjarna humma og dansa hægt með.

Freyr gengur í Hliðskjálf.

(Þaðan sér um heima alla.)

 

Freyr horfir til Jötunheima.

Nú er trumban barin laust.

Smátt og smátt hraðar (en ekki hærra samt) - loks létt, ótt og títt.

Í Jötunheimum er męr ein fögur: Gerður.

(við heyrum á ný hljóðfæraslátt í Gymisgörðum)

Gerður og ambátt hennar ganga -- t.d. frjálslega og dansandi -- frá skála Gymis.

 

Trumbusláttur deyr úr, en í staðinn heyrist kliður lítilla bjallna við Hliðskjálf.
Við menn í Miðgarði gerum klið þennan, sem táknar að:

Freyr verður ástfanginn !

Gerður og ambáttin ganga fagurlega til skemmu Gerðar.

Freyr gengur loks, dapur, úr Hliðskjálf, og sezt einn inn í sal.

Hinir drungalegu strjálu tónar trumbunnar heyrast á ný.

Freyr fær hugsóttir miklar.

Freyr situr og hugsar um hina fjarlægu mey.

Freyr er einn með hugarangri sínu.

 

Faðir Freys, NJÖRÐUR sjávarguð er - ja, - bara í bláum pollagalla með sjóhatt og gerviskegg, og 2ja - 3ja ára krakki getur leikið Njörð,

og stjúpa Freys, SKAÐI sem til dæmis í hvítum skíðagalla; kemur á skíðum og er með veiðibogann;

 

******
upplýsingar okkur til skilnings:
__________________________________________________________

Skaði er tiguleg og ákveðin Skaði er skír brúður goða. Hún er tákn hins háleita vilja sem sækir hétt og vílar ekki fyrir sér. Bogi hennar og örvar tákna að hún missir ekki marks í framsækni sinni, sem ætíð er fyrir hið háleita í manninum.

__________________________________________________________

******

Skaði sér hugarvíl Freys.

Hún hefur áhyggjur af honum.
Skaði fer til Njarðar. Hún biður hann koma með sér og sýnir honum hvar Freyr situr einn og dapur í sal sínum og yrðir ekki á neinn.

 

Njörður og Skaði fara nú að finna Skírni. Fara að gula kúlutjaldinu (-- en þar inni sefur Skírnir vært.)

 

 

Aths: Ef um látbragðleik barna er að ræða, höfum við LESARA eða SÖNGLARA, sem kirja textann.
Hver flytjandi stendur einfaldlega hjá þeim leikara sem hann ljær rödd sína og er í sams konar búningi eða að minnsta kosti í litum þeim sem samsvara leikaranum. Hér eru þeir sem ljá Skaða og Skírni rödd:

Skaði kveður:

Rístu nú Skírnir, og gakk að beiða okkarn mála mög

og þess að fregna hveim inn fróði sé ofreiði afi.

 

Skírnir er gulklæddur eða gullinn, glæsilegur. Hann má gjarna koma út geispandi og teygja sig, því ró hans er raskað svona í svartasta skammdeginu. Gaman er að hafa hann í gulum svefnpoka með fastan rennilás (!), svo hann kemur út bröltandi, hoppandi og dettandi.
Lífið er svo skemmtilegt í heiðnum sið.
Skaði baksar við að losa Skírni úr pokanum.

Skírnir fer með Nirði og Skaða og þau sýna honum inn í sal þann
hvar Freyr situr einn með hugarvíli sínu.

Freyr lítur ekki upp.

 

Skaði kveður (eða rödd Skaða:)

Finn þú út, Skírnir, hverjum hinn frjósami er svá reiður,

eða hví vor son er svo miður sín.

 

Skírnir færist undan.
Lízt ekki á að eiga við Frey í þessum hami.

 

Skírnir kveður (eða sönglari fyrir Skírni)

Illra orða er mér von af ykkrum syni

ef eg geng að mæla við mög og þess að fregna hveim hinn fróði sé ofreiði afi.

 

Skírnir ætlar bara aftur í sitt tjald, en Njörður og Skaði horfa ákveðið á Skírni.
Skírnir lætur þá til leiðast.
Fer til Freys og spyr:

 

(Skírnir kveður áfram:)

Segðu það, Freyr, fólkvaldi goða, og eg vilja vita

hví þú einn situr endlanga sali, minn drottinn, um daga.

 

Í fyrstu vill Freyr ekki tala.
Skírnir endurtekur spurninguna.

 

(Skírnir kveður áfram:)

Segðu það, Freyr, höfðingi goða, og eg vilja vita:

Hví situr þú einn endlanga sali, minn drottinn, um daga.

 

 

Freyr kveður (eða rödd Freys, sönglari sem kirjar svar Freys:)
(Freyr talar / syngur hægt, með þögnum inni á milli, dapur.)

Hví um segjag þér,

seggur inn ungi,

mikinn móðtrega?

Því að álfröðull lýsir um alla daga

- og þó eigi að mínum munum.

 

Skírnir kveður

Muni þína hykka eg svo mikla vera, að þú mér, seggur, né segir,

því að ungir saman vórum í árdaga,

vel mættim tveir trúast.

 

(Fyrir leikana er börnum kennt að hykk-a er hygg ekki;
og að gott er að eiga góðan og tryggan trúnaðarvin og segja hug sinn, ef sorg etur hjarta.)

 

Freyr kveður loks
(tregafullur)

Í Gymis görðum eg sá ganga mér tíða mey:

armar lýstu, en af þaðan allt loft og lögur.

Mær mér tíðari en manni hveim ungum í árdaga.

Ása og álfa það vill engi maður, að við samt séim.

 

Skírnir kveður

Mar gefðu mér þá, þann er mig um myrkvan beri vísan vafurloga,

og það sverð, er sjálf vegist við jötna ætt.

 

Freyr kveður

Mar eg þér þann gef, er þig um myrkvan ber vísan vafurloga.

Freyr kemur með hestinn.

Freyr leysir slíðurgjörð sína
og fær Skírni sverðið sitt.

 

(Freyr kveður áfram:)

Og það sverð eg þér gef, er sjálft mun vegast ef sá er horskur er hefir.

 

Ennfremur réttir Freyr Skírni körfu eða skjóðu,
en í henni eru ellefu algullin epli og hringurinn Draupnir,
en það fáum við að sjá síðar.

Skírnir tekur og með gambantein mjóan (tövrasprota)
sem hann festir sér við belti.

 

Skírnir mælir við hestinn

Myrkt er úti, mál kveð eg okkur fara úrig fjöll yfir, þursa þjóð yfir.

Báðir við komumst, eða okkur báða tekur sá inn ámáttki jötunn.

 

Hesturinn hneggjar.
(og þar eð um tréhest er að ræða, ljær lesari honum rödd)

 

Skírnir ríður frá Frey í átt til Jötunheima, á leið í Gymisgarða.
Við menn í Miðgarði hjálpum Skírni sem mest við megum.
Fyrir okkur er jú leikurinn gerður. Það er uppá líf eða dauða fyrir okkur að saman nái að ganga með Frey og Gerði.
Við menn í Miðgarði tökum undir hófadyn hestsins. Notum smelli með tveim steinum hér, eða smellum á góm.

Bjarni Þór sér um hófadyn með steinvölum tveim į frešinni jöršu

Skírnir ríður yfir úrug fjöll.

Þegar yfir fjöllin kemur, breytist hófadynurinn. Hér er jörðin mjúk og græn.

hér meš pappahólkum, hófadynur į grasi

(Hófadynur hljóðnar að sjálfsögðu um leið og Skírnir stöðvar hest sinn.)

 

Þegar Skírnir kemur að hliðinu á skíðgarði þeim er um sal Gerðar er, gjamma ólmir hundarnir mjök, (þeir sem leika hundana spretta upp og gelta ein ósköp á Skírni, sem grimmir varðhunda),

svo Skírnir fær eigi að komizt.

 

Skírnir ríður að þar, er féhirðir situr á haugi.
(við höfum að sjálfsögðu hófadyn á grundu Gymisgarða þegar Skírnir hleypir hesti sínum á ný)

 

Skírnir mælir við féhirði

Segðu það, hirðir, er þú á haugi situr og varðar alla vega:

Hve eg að andspilli komumk ins unga mans fyr greyjum Gymis.

 

Hirðir kveður

Hvort ertu feigur eða ertu framgenginn?

Andspillis vanur þú skalt æ vera góðrar meyjar Gymis.

 

Skírnir kveður
(ótrauður:)

Kostir eru betri heldur en að klökkva sé, hveim er fús er fara;

einu dægri mér var aldur um skapaðr og allt líf um lagið.

 

Með brauki og bramli .....

undirgangur heyrist mikill sem við menn í Miðgarði framleiðum berjandi trumbur til dæmis, og trömpum niður fótum, en menn í Miðgarði hjálpa sem mest þeir mega)

 

...... ríður Skírnir í átt að skemmu Gerðar.

Hundarnir ólmast.

Myrkur vafurloginn blossar.
(Það er eldrauður stranginn sem sveiflað er mjög)
Mikil spenna ríkir, því Skírnir er að fara að gera það sem ekki er hægt: að ríða vafurlogann.

 

Skírnir ríður vafurlogann. !!!!!

og fagnaðaralda fer um okkur menn í Miðgarði yfir að það ómögulega tókst Skírni !!!!

 

Gerður verður vör við hávaðann.

 

Hesturinn frýsar.

Skírnir fer af baki þegar hann er kominn að sali Gerðar.

Hann leiðir hestinn út á grasbala, þar sem hesturinn grípur niður.

 

Gerður spyr ambátt sína

Hvað er það hlym hlymja er eg heyri nú til ossum rönnum í ?

Jörð bifast en allir fyrir skjálfa garðar Gymis.

 

Ambátt Gerðar gægist út.
Ambátt kveður

Maður er hér úti, stiginn af mars baki, jó lætur til jarðar taka.

 

Gerður kveður

Inn bið þú hann ganga í okkarn sal og drekka inn mæra mjöð.

Þó eg hitt óumk að hér úti sé minn bróðurbani.

 

Ambátt Gerðar fer út og býður Skírni inn að ganga í sal Gerðar.

 

Gerður kveður

Hvað er það álfa né ása sona né víssa vana?

Hví þú einn um komt eikinn fúr yfir vor salkynni að sjá?

 

Skírnir kveður

Emkat álfa né ása sona né víssa vana. (em k at = er-ek-ekki)

Þó eg einn um komk eikinn fúr yfir yður salkynni að sjá.

Skírnir tekur upp eplin algullnu.

Hann er hress og ber upp bónorðið í fullri vissu um erindi sem erfiði.

 

(Skírnir kveður áfram:)

Epli ellefu hér hefi eg algullin.

Þau mun eg þér, Gerður, gefa, frið að kaupa,

að þú þér Frey kveðir óleiðastan lifa.

En Gerður er viljasterk, þóttafull, ákveðin

 

(enda er hér um að ræða norræna kvenímynd)
Gerður kveður

Epli ellefu eg þigg aldregi að mannskis munum,

né við Freyr, meðan okkart fjör lifir, byggjum bæði saman.

 

Skírnir verður hugsi og horfir klumsa og rannsakandi á Gerði.
Þetta getur verið spaugileg og pínleg staða mála: Skírnir ber upp galant bónorð, og svo segir Gerður bara hortuglega: nei takk. Við getum látið Skírni vera mjög sjálfsöruggan í fyrstu, en svo lendir hann í dálitlum vandræðum með þvermóðskuna í Gerði, sem hann kannski var ekki undir búinn
Nú verður hann að ígrunda næsta leik.
Skírnir tekur Draupni úr skjóðunni.

 

Skírnir kveður

Baug eg þér þá gef, þann er brenndur var með ungum Óðins syni.

Átta eru jafnhöfgir er af drjúpa ina níundu hverja nótt.

 

Gerður kveður

Baug eg þiggag þótt brenndur sé með ungum Óðins syni. (þigg-a-eg : þigg-ekki-eg)

Era mér gulls vant í görðum Gymis að deila fé föður. ( era : er ekki (er-ekki mér...))

 

Dýrmætar gjafir hrífa greinilega ekki.
Ekki ber á öðru en Skírnir sé kominn í vandræði.
Þetta er norræn saga. Hundseðli kvenna er lítið skart í okkar augum.
Nú dregur Skírnir Freyssverðið úr slíðrum.
Ekki getur hann gefizt upp við svo búið.
Lífsafkoma okkar er í húfi.

 

Skírnir kveður

Sér þú þenna mæki, mær, mjóvan, málfán, er eg hefi í hendi hér?

Höfuð höggva eg mun þér hálsi af, nema þú mér sætt segir.

 

Gerður kveður

Ánauð þola eg vil aldregi að mannskis munum.

Þó eg hins get ef ið Gymir finnizt vígs ótrauðir, að ykkur vega tíði.

 

Hótanir um ofbeldi eru greinilega ekki vænlegar til að telja Gerði hughvarf.
Hún er ósveigjanleg og köld.
En Skírnir sýnir henni rúnum fáð sverð Freys, sem er stutt, en vegur eitt ef horskur hefur.

 

Skírnir kveður

Sér þú þenna mæki, mær, mjóvan, málfán, er eg hefi í hendi hér?

Fyr þessum eggjum hnígur sá inn aldni jötunn,

verður þinn feigur faðir.

 

Gerður er stolt og ósveigjanleg.
Við þessu hlýtur Skírnir raunar að hafa búist, því hann tók með gambantein, töfrasprota, svona til vonar og vara.
Hann grípur til þessa örþrifaráðs:
Dregur gambanteininn fram.
Skírnir verður nú að bregðast við ósveigjanleik Gerðar og ákveðni með göldrum.

 

(Skírnir kveður áfram:)

Tamsvendi eg þig drep, en eg þig temja mun, mær, að mínum munum. (drepa: (hér) snerta)

 

Við menn í Miðgarði tökum undir þessa örþrifatilraun Skírnis til að fá Gerði til að játast Frey með því að humma lágt og galdralega. Hljóðið, sem við menn í Miðgarði myndum, sé dularfullt og áhrifaríkt, en ekki hávaði.

 

******

upplýsingar okkur til skilnings:

________________________________________________________________

Hljóðið sé dularfullt og ógnvekjandi en ekki hávaði.
Mér finnst æskilegt að börn skynji dulúð öðru vísi en horror og hasar.
Börnunum sé ljóst hvað Skírnir segir hér á eftir, og skilji að oft þarf fleira að gera en gott þykir í lífsbaráttunni:

Gagnkvæm ást Freys, frjósemiguðsin okkar, og Gerðar, gróðurs og þar með afkomu okkar, er okkar eina lífsvon á móður jörð, en á æðra sviði er átt við Gerði sem gróf stig mannlegrar vitundar, en Frey sem hið guðlega innra upplag hvers manns.
Ef við lifum fyrir veraldlega hluti eingöngu og finnum ekki Frey hið innra, munum við hrörna og visna.

Gerður mun skapa sér reiði náttúrulögmálanna og sjálfri sér illt líf,ef hún bregzt þessu lutverki sínu, vorkomu eftir jólin okkar, gróanda, vorkomu með jarðargróða;

og í æðri merkingu Skírnirmála: hún mun hrörna ef hún neitar hinu guðlega innsta eðli sínu.

_____________________________________________________________

******

Ógnin er yfirþyrmandi en ekki hótun um barsmíð og högg.
Skírnir má ganga hægt í hringi í kringum Gerði.
Ljós öll í Gymisgörðum flökta. Fólk allt þar er sem dofið.
Ambátt Gerðar er óttaslegin.

 

(Skírnir kveður áfram:)

Þar skaltu ganga er þig gumna synir síðan æva sjá.

Ara þúfu á skaltu sitja, horfa heimi úr, snugga heljar til;

matur sé þér meir leiður en manna hveim inn fráni ormur með firum.

 

Að undursjónum þú verðir, er þú út kemur,

á þig Hrímnir hari, á þig hotvetna stari,

víðkunnari þú verðir en vörður með goðum, gapi þú grindum frá.

Tópi og ópi, tjösull og óþoli, vaxi þér tár með trega.

Seztu niður......

 

smátt og smátt hrífur galdurinn
(Skírnir kveður áfram:)

 

.....en eg mun segja þér sváran súsbreka og tvennan trega:


Tramar gneypa þig skulu gerstan dag jötna görðum í;

til hrímþursa hallar þú skalt hverjan dag kranga kostalaus, kranga kostavön;

grát að gamni skaltu í gegn hafa og leiða með tárum trega.

Með þursi þríhöfðuðum þú skalt æ nara eða verlaus vera;

þitt geð grípi, þig morn morni.;

ver þú sem þistill sá er var þrunginn í önn ofanverða.

Til holts eg gekk og til hrás viðar gambantein að geta, gambantein eg gat.

 

Reiður er þér Óðinn, reiður er þér Ásabragur,

þig skal Freyr fíast, in firinilla mær, en þú fengið hefur gambanreiði goða.

Heyri jötnar, heyri hrímþursar, synir Suttunga, sjálfir ásliðar,

hve eg fyrirbýð, hve eg fyrirbanna, manna glaum mani, manna nyt mani.

Hrímgrímnir heitir þurs er þig hafa skal fyrir nágrindur neðan;

þar þér vílmegir á viðarrótum geitahland gefi.

Æðri drykkju fá þú aldregi, mær, að þínum munum, mær, að mínum munum.

 

 

Skírnir rístir rúnina Þ fyrir framan Gerði
(Skírnir kveður áfram:)

Þurs ríst eg þér og þrjá stafi, ergi og æði og óþola;

 

Skírnir breytir um tón, er hann sér áhrif galdra sinna
(hann er reiðubúinn að létta þessu af).

 

(Skírnir kveður áfram:)

Svo eg það af ríst sem eg það á reist, ef gerast þarfar þess.

 

 

Eftir nokkra umhugsun, dösuð af áhrifum galdursins, virðist Gerður vera að skipta um skoðun.
Hún heldur reisn sinni, þótt henni sé þungt í skapi.
Við menn í Miðgarði þögnum og bíðum svars Gerðar með athygli.

Bjölluhljóð það, sem táknar ást Freys, má heyrast á norðurslóðum, þar sem Freyr bíður.

 

 

 

 

Gerður kveður loks

Heill ver þú nú heldur, sveinn,

og tak við hrímkálki fullum forns mjaðar.

Þó hafðag það ætlað að myndag aldregi unna vaningja vel.

 

Lýsing hverfur til fyrra horfs í Gymisgörðum.
Fólk í Gymisgörðum jafnar sig.
Ambáttin (hrædd enn) nær í kristalskálk (bikar, kaleik), hellir í miði, réttir Skírni.
Miklu fargi er af okkur mönnum í Miðgarði létt, þótt við vitum að ást Gerðar til Freys Vana ættar, er hvorki djúp né einlæg - og vorhretin munu ekki vera nálinni blíð.
En við vitum að með hækkandi sól mun birtan koma og gróðurinn reyna að sýna sig til þess að bjarga lífi okkar. Gerður hefur lofað.
Okkar hlutverk er að hjálpa guðunum, og vona að töfrar gambanteins Skírnis dofni ekki.

Skírnir tekur við hrímkálki. Drekkur af. Drekkur til Gerðar.
Ambátt tekur við kaleiknum aftur.

 

 

Skírnir kveður

Erindi mín vil eg öll vita áður eg ríða heim héðan,

nær þú á þingi munt inum þroska nenna Njarðar syni.

 

Gerður kveður

Barri heitir er við bæði vitum, lundur lognfara;

en eft nætur níu þar mun Njarðar syni Gerður unna gamans.

 

Skírnir kveður Gerði vel,
Tónlist heyrist á ný.
Meyjar Gerðar koma.
Þær greiða hár hennar, og binda hana grænu og hvítu brúðarlíni með fögrum hreyfingum(dansi).


Skírnir tekur hest sinn og ríður af stað heimleiðis.

Við menn í Miðgarði, kátir mjög, sjáum um hófadyn hans í Gymisgörðum, og smelli á áfrera yfir úrug fjöll, og á hörzlum heima á köldum norðurslóðum.

 

 

Freyr kemur út, er hann heyrir til Skírnis, spenntur að heyra tíðindin.

Skírnir stígur af baki.

 

Freyr kveður

Segðu mér það, Skírnir, áður þú verpir söðli af mar og þú stigir feti framar

hvað þú árnaðir í Jötunheima þíns eða míns munar.

 

Skírnir kveður

Barri heitir er við báðir vitum, lundur lognfara,

en eft nætur níu þar mun Njarðar syni Gerður unna gamans.

 

 

Freyr kveður
(nú aðeins kátari en fyrr, er hann hefur þessar fréttir fengið,
þótt biðin vaxi honum í augum)

Löng er nótt, langar eru tvær, hve um þreyjag þrjár?

Oft mér mánuður minni þótti en sjá hálf hýnótt.

 

Skírnir klappar hestinum og strýkur svita af makka hans.
Hesturinn hneggjar.

Skaði og Njörður kætast yfir hugarlétti Freys.

 

Vel fer á að Skaði kveiki á jólatrénu. Framtakssemi norrænnar kvenímyndar, skírrar brúðar goða.

Með jólaljósunum okkar hjálpum við okkar góðu gyðju Jörð.

Börnin skilji veltu jarðar og jólin í réttu samhengi.; ennfremur gyðjuna Sól sem er innan hvers manns en Skírinir er geisli okkar innri Sólar að minna okkur á hið guðlega innsta eðli okkar.

Trumbur eru slegnar.

Tónlistin er mikil kátína.

Bjöllurnar, sem tákna ást Freys, klingja. Og álfar Freys kætast.

Við menn í Miðgarði kætumst þótt við vitum mæta vel hve löng biðin eftir vorinu muni reynast okkur. Níu nætur.

 

Ef leikarnir fara fram úti, kveikjum við á stjörnuljósum; inni má kveikja á kertaljósum á úrugum fjöllum, til fulltingis von okkar um hækkandi sól eftir vetrarsólhvörf, og aðvið finnum okkar innri gyðju Sól.

 

 

Gleðilega jól -- allt árið

ósk um ár og frið

 

efniviður í hljóðfærin okkar:
Ótrúlegt magn hljóðfæra finnst á tvist og bast úti um alla móa og á gleymdum háaloftum en einning er auðvelt að læra að strengja skinn í góða trumbu munið að hlusta hlusta hlusta, krakkar, - á ykkar hljóð og líka hinna - ekki bara berja -- þögnin er líka skemmtileg

ryðgaðir mjólkurbrúsar á haug við sveitabæ.

SKÍRNISMÁL

HELGILEIKAR

ISBN 9979-895-96-9

Guðrún Kristín Magnúsdóttir

 

******
upplýsingar okkur til skilnings:
_____________________________________________________________

Hér er viðbótarfróðleikur fyrir þá sem vilja skilja táknmál í eddum.

Jólatréð, sem getur verið heimasmíðað og málað grænt til að gera sitt gagn, er skurðgoð, eða þannig, þar sem það er tákn fyrir von um vor, og tákn um von um jarðlíf eftir jarðlíf eftir jarðlíf til þess að þróast áfram.

 

Köngull, hneta, epli er sömuleiðis fræ minnis, eins og karmalögmálið sem felst í Urði, Verðandi og Skuld.

 

Kúlurnar sem við hengjum á tréð eru líka tákn, eða m.ö.o. heiðin skurðgoð. Þau tákna t.d. liðin skeið á ferli mannkyns; eða eru t.d. reikistjörnur sem við getum byggt, eða kúlurnar eru ellefu algullin epli Iðunnar.

Iðunn er sú sem endurnýjar með ást sinni. Eprlin eru ódáinsfæða, ambrosía, amritanam, fyrir guðin innra með okkur, náttúrulögmálin, og þar með okkur.

 

Jólaskreyting, -hreingerning, -ljós, -eplin, -pokar með sælgæti í, -maturinn, -gjafirnar --- eru allt heiðin tákn fyrir innri verðmæti sem við erum með þessu að vekja og lífga.

 

Skaði er öndurgoð, skír brúður ása, sú sem er framsækinn vilji, og sækir æ upp. Fjöll og turnar tákna háleitan tilgang, og turnar eru því heiðin skurðgoð.

Skaði er hin raunbesta og tærasta þegar framtíð og þróun mannkyns er í húfi; skapmikil dóttir Þjaza þurs. Þjazi er e.t.v. tákn fyrir liðin ferli mannkyns, nú horfin þróunarskeið; aðeins stjörnur tvær eftir á himni.

 

Hjá heiðnum mönnum er kvenlegur kraftur lífgjafi, og virðing mikil borin fyrir gyðjunum og konum.

Kvenprestar segja að kvenfyrirlitning komi úr Gyðingdómi og sé viðhaldið af kristinni kyrkju, og að þær læri slíka mannfyrirlitningu í háskólanum. Heiðnir menn skilja slíkt ekki, -- nema sem hluta af tækjum guðveldis sem á ekkert skylt við tæran heiðin fornan sið eða andlega þróun manna.

 

 

Freyr er hið guðlega eðli okkar;

Njörður, Freyr og Freyja eru Vanir, og Nerthus getur verið Njörður sem þróunin síðan líf kviknaði í hafinu.

Það að Skaði sækir til fjalla og Njörður til hafs er togssteita innan okkar milli guðlegs hásækins elðis og fortíðar og þróunar í milljónir ára.

 

Loki er tvískinnungur mannlegs eðlis, hálfguðlegs, og að hálfu veraldlegt.

Við getum borið Gerði og Frey saman við Loka sem mannlegt eðli og tilraunastarfsemi okkar við að finna okkar guðlega innsta eðli. Þá sjáum við skýrt muninn á Frey innan okkar annars vegar og hins vegar Gerðar í okkur.

 

Loki fær okkur stundum til að hlæja að sjálfum okkur og stundum til að vorkenna sjálfum okkur. Gerður er veraldargæðin, og í kapphlaupinu gleymum við hinu guðlega.

 

Við hjálpum Skírni, sem er geisli eða sendiboði frá Sólu sem gyðju uppljómunar innan hvers manns; og auðvitað þurfum við vor og mat til þess að geta fæðst, lifað og þróast. Táknið vor bendir okkur (þeim sem skilja) á uppljómunina sem mun koma.

 

Hækkandi sól, fæðing ljóss heimsins, um vetrarsólhvörf er notuð sem táknmál til þess að útskýra innri uppljómun, en sumir eru á því stigi að skilja aðeins sólina sem við sjáum með veraldlegum augum okkar. Þeir menn eru nýkomnir af dýrastiginu. Aðrir eru komnir á æðra stig og skilja gyðjuna Sól innan hvers manns.

 

Við þurfum að skilja að hvert stig mannkyns deyr út sem gamall þurs og að þetta er táknmál í eddu um horfin ferli í þróuninni.

 

Úrug fjöll og vafurlogi eru hindranir sem við yfirstígum. -- E.k. sjaman er það að reyna.

 

Við höfum heila og huga og hugsum. Allt er það veraldlegt og mjög skemmtilegt. En sjaman er það að reyna að komast innfyrir hugsunina, inn í hið óveraldlega.

Hugsanir eru til hinna mestu vandræða, og eru hinn versti óvinur við það að reyna að komast innfyrir mannlega (veraldlega) hugsun. Það að berjast við þær (hugsanirnar) er enn meiri hugsun og verr farið en heima setið við slíkt puð.

 

Skírnir notar gambantein til þess að komast innfyrir hið veraldlega í Gerði, lama veraldlega sýn, og fá hana til þess að elska Frey (sjá hið guðlega). Skírnir segir henni hvernig fari ef hún skilur þetta ekki, en táknmál yfir þá hrapalegu stöðnun er t.d. Hrímþurs.

 

Sleipnir er farartækið sem við, hver og einn, rennum á og sleppum innfyrir á, frá Miðgarði í Ásgarð, mjög eðlilega og auðveldlega.

 

Hesturinn er viljinn til að sjá hið guðlega innsta eðli okkar og alheimsvitundina, sem veraldleg augu okkar sjá ekki.

 

Hesturinn hér í Skírnismálum er viljinn til að ná innfyrir. Þar finnum við fyrir hið guðlega, heilaga (ginnhelga) innsta eðli okkar, þ.e. hver og einn finnur sjálfan sig í hinni tærustu mynd.

 

Sverðið er það að vera ákveðinn og láta ekki hina yndislegu veraldlegu hugsun, mannlega hugsun, stoltið okkar, glepja okkur frá markmiðinu.

En það er mjög gott að nota kollinn til þess að skilja þetta allt saman.

 

Margir eru á fullu kaupi við að koma í veg fyrir að við skiljum þetta. Það eru stríðsmenn guðveldis, sem fá kaup fyrir að koma í veg fyrir að við leitum innávið.

Þessir menn hafa búið til Grýlu úr Gerði. Og það skyldi þó ekki vera að Freyr lifi góðu lífi hver jól sem Leppalúði?

 

Hornin á Gerði, sem eru frjósemitákn geitarinnar Heiðrúnar, hafa verið sett á uppfinninguna djöful. Djöfull finnst ekki í eddu og heiðnir menn skilja ekki nema sem tæki til að hræða sauðahjörð. Trú á Djöful og trú á Guð er eitthvað sem ekki fyrirfinnst í vorum sið.

 

Gerður getur táknað þursalega tíma og þursalega menn sem (þótt vitibornir kallist) skilja ekki hið guðlega innsta eðli allra hluta -- og þar með manna og hugsana.

Skírnir segir okkur frá Frey sem er hið guðlega, en sem hulið veraldlegum augum okkar.

 

Í kvæðinu stendur á einum stað: .....höggva höfuð af..... og það táknar:

Þetta þróunarstig deyr út sem hver önnur stöðnun;

sbr: Niflunga (nebula (þoka)) og Völsunga (gróf stig mannkyns)

sem tákna liðin þróunarstig. Þessi goðsögn er ekki um karla og kerlingar eins og í Faust, heldur er hún á táknmáli sem heiðnir menn skilja sem launsögn.

 

 

 

ã.....fleira að gera en gott þykir.....", stendur í handriti mínu --- en hér skýrist það:

 

Gambanteinninn er e.k. galdur, rétt eins og Gleipnir. Gleipnir heldur Fenrisúlfi, en Fenrir táknar hið neikvæða og niðurrif sem tefur fyrir okkur á leið okkar að takmarkinu. Takmark okkar er Valhöll, þar sem öllum sjálfselsku- og eiginhagsmunaþörfum hefur verið eytt.

 

Drómi og Læðingur eru leti og framtaksleysi, sinnuleysi og ãskít sama". Slíkt dugar ekki til að halda illum neikvæðum öflum, Fenri, í skefjum, og þau munu saurga Ásgarð (sem er innan okkar) ef við aðhöfumst ekkert eða förum illa að.

 

Aðeins með okkar eigin vilja munum við finna okkar innri Sól, gyðju uppljómunar. Viljinn er sverð, og framkvæmdin er hestur. Þetta er táknmál goðsagnanna, en það er okkur hvergi kennt.

 

Lífið er leikur sem gengur útá það að öðlast fullkomnun.

 

Gull og grænir skógar eru þau verðmæti sem eru í vinning. Hvað er gull? Hvað eru grænir skógar? Þetta er hluti af heiðnu táknmáli.

 

Gleði þýðir einnig víðátta. Og í víðáttunni býr frelsið.

Þetta á við bæði í veraldlegu merkingunni sem og sem lýsing á ginnungagapi, hinu óendalega helga orkuhlaðna tómi sem er innan alls og allra.

 

Heiðinn merkir það að vera heiðarlegur, vera heiður og tær, hafa heiður, og skynja víðáttu heiðarinnar og hins heiða himins innra með sér; einnig að hver maður er ábyrgur gagnvart sjálfum sér og öllu. Hér er ekki nein hlýðnikrafa, ekki boð og bönn, heldur heiður á ábyrgð.

 

Hver einstaklingur er einstakur og skyli bera virðingu fyrir sjálfum sér sem slíkum.

 

Þess vegna er, í augum heiðinna manna, sorglegt að foreldrar misnota þá ást og það traust, sem jólasveinninn í raun táknar;

 

--- að foreldrar skuli nota fegurð saklausrar tilhlökkunar barnsins sem ógeðslegt tæki til að kúga til hlýðni.

 

Óðinn fer í loftinu yfir jörðina um jól og rekur brott vættir kuldans, og börn settu út (og gera enn í Svíþjóð) korn handa hesti Óðins. Þau hjálpa Jólni.

Nú er grey Santa Klás notaður sem grýla, og er það hin kristna aðferð: ef þú hlýðir færðu nammi (himnaríki), ef þú hlýðir ekki færðu hráa kartöflu (helvíti), því jólasveinninn er vondur eða góður -- eftir því sem hentar þeim sem nota hann sem hlýðnitæki og setja reglur sem henta þeim sjálfum og eigingjörnum tilgangi þeirra. Ást og völd verða eitt hugtak, sem er tvískinnungssiðferði -- og þar með siðlaust.

 

Hvort Óðinn þeysir á Sleipni, Santa Klás á hreindýrasleða, eða hvort pabbi læðist á tánum inn í svefnó um miðnætti að glugganum þar sem skór barnsins er, skiptir ekki máli, því þetta táknar ást og kærleika. En mæður sem gefa hegningu í stað kærleika eru heimskar og grimmar. Því miður eru til slíkar mæður hér, og þær kenna börnum sínum að nota andlega grimmd, andlegt ofbeldi sem er grimmd gagnvart barni, nota slíkt í eiginhagsmunaskyni.

Slíkar mæður kenna barni sínu siðleysi. Skilaboðin eru að tilgangurinn helgi meðalið, og að eiginhagsmunir komi fyrstir þótt þeir kosti lygar og ofbeldi gagnvart minni máttar.

 

En í heiðnum sið hjálpum við Jólni, við gefum, og aldrei aldrei aldrei nota heiðnir foreldrar von barnsins um kærleika og ást og tilhlökkun barnanna í jólamánuðinum sem svipuhögg og niðurlægingu (hráa kartöflu í stað tákns um að barnið er elskað, einstakt eins og það er).

 

 

Rétt eins og Vanir komu til ása sem geislar (ekki gíslar) til þess að minna á æðri tilverustig mannsandans, kemur Skírnir sem geisli frá hinu guðlega innsta eðli okkar. Mannkynið deyr út (og þróunin fer í vaskinn) ef við skiljum það ekki.

 

Þess vegna minnir Skírnir okkur á tilganginn með því að lifa.

_______________________________________________________________

******

SKÍRNISMÁL

HELGILEIKAR

ISBN 9979-895-96-9

Guðrún Kristín Magnúsdóttir

Bjarni Žór og amma Gauja