BÚI SKREYTIR JÓLATRÉ

ISBN 9979-895-92-6;
var flutt í Sjónvarpinu, Stundinni okkar.

Búi er að taka upp jólaskrautið sitt. Hann á fullan kassa af skrauti en veit bara ekkert hvar hann getur hengt það allt saman.

-Við verðum líklega að fá okkur jólatré, Seppi minn, Til þess að geta hengt allt skrautið okkar á, segir Búi

Afi hefur plantað mörgum grenitrjám sem nú þarf að grisja til þess að þau hafi nóg rúm til að vaxa.

Búi og Seppi fá leyfi hjá afa til að saga handa þeim jólatré.

Þeir fara út í afaskóg að velja tré.

-Svo ætla ég að fylla alla jólapokana á trénu með súkkulaði og rúsínum. Við fáum margt gott í svanginn á jólunum, Seppi minn.

Á Þorláksmessu byrjar Búi að skreyta tréð. Seppi er alveg hissa á hve mikið er í þessum kassa. Búi tekur upp meira og meira og hengir allt á tréð.

-Fyrst ég á jólaskraut, ætla ég að nota það allt á jólunum.

Þegar loks kassinn er tómum, sést varla í tréð fyrir skrauti, og greinarnar kikna undan öllu saman. En Búi er svo ánægður með þetta.

Klukkan sex á aðfangadag opna þeir pakkana sína.

Þeir hafa gjafirnar sínar hjá sér meðan þeir borða jólagrautinn.

Aðfangadagskvöld er yndislegt kvöld og þeir ákveða að vaka lengi. Þeir ganga ekki til náða fyrr en á miðnætti.


Búi er fljótur að sofna vært.

En á sjálfa jólanótt vaknar Seppi við einhverja skruðninga frammi þar sem tréð stendur. Seppi ákveður að sjálfsögðu að fara fram og athuga hvað sé á seyði.

Þetta hefur þá verið allt jólaskrautið hans Búa að hrynja af trénu.

Það liggur nú í hrúgu á gólfinu.

En tréð réttir aftur úr fallegu greinunum sínum.

Og nú sér Seppi að allar rúsínurnar og súkkulaðið er dottið úr jólapokunum á gólfið.

Seppi tekur til við að háma í sig. Búi var búinn að segja að á jólunum skyldu þeir hafa mikið af sælgæti. Og nú eru einmitt jól.

En á jóladagsmorgun þegar Búi kemur fram verður hann ekki sérlega kátur. Ef ekki væru jól yrði hann sennilega öskureiður.

En enginn er reiður á jólunum, svo hann verður að stilla sig.

Hann Búi er ekki einn af þeim sem gefast upp. Ó nei. Hann nær í sterkasta lím sem hann finnur. Skrautið skal á aftur. Fyrst hann á jólaskraut, ætlar hann að hengja það á tréð.

 

Þetta er nú meira en tréð þolir.

Á annan í jólum er barrið farið að hrynja af því.

Seppi er sannfærður um að það endist ekki fram á þrettándann.

Á gamlársdag koma Álfur og Erna. Þau eru vinir Búa og Seppa.

-Við skulum halda brennu í kvöld, segja þau, -gamlárskvöldsbrennu. Eigið þið ekki eitthvað til að láta á köstinn?

-Jú, við verðum víst að brenna jólatréð þótt jólin séu ekki búin, segir Búi. -Það er alveg ónýtt.

-Við skulum þá taka skrautið snöggvast af ...

Það reynist gersamlega ómögulegt. Skrautið er alveg límt við tréð. Það eina sem dettur af er barrnálar.

Augljóst er að skrautið verður að fara á bálið með trénu. Það er þrautalendingin.

Búa þykir ekki sérlega skemmtilegt að horfa á allt skrautið sitt brenna.

En bálið er fallegt.

Gamla árið er að kveðja. Nýtt ár að byrja.

Á nýjársdag er nýfallinn jólasnjór og komið mikið frost. Búi og Seppi fara í gönguferð í afaskóg Öll barrtrén hafa fengið snjóskraut á grænar greinarnar.

-Ég held við ættum að fá nýtt jóltré hjá afa, Seppi, segir Búi. - Þetta snjóskraut er miklu fallegra en skrautið sem við brenndum í gærkvöldi.

Búi flytur nýtt jólatré með snjóskrauti á inn til sín.

-Þetta er fallegt, Seppi minn. -Nú munum við hafa fallegt tré alveg fram á þrettándann.

En auðvitað líður ekki löng stund þar til snjóskrautið fer að bráðna.

Stórir pollar sem stækka og stækka myndast á gólfinu. Snjóskrautið minnkar og minnkar.

Seppi er góður hundur og lepur alla pollana upp fyrir Búa.

Á þrettándanum koma Álfur og Erna í heimsókn.

-Ofsalega er þetta fallegt jólatré, sögðu þau bæði. -Eru tré svona falleg þótt ekkert skraut sé á þeim?

Þau ákveða að skemmta sér saman allt þrettándakvöld.

Þau dansa kringum jólatréð, hring eftir hring eftir hring.

 

 **************