Tóta og þau

myndasaga, ISBN 9979-895-62-4,
sýnd í Sjónvarpinu, Stundinni okkar (og þá auðvitað með lesnum texta, (lesnum af höfundi))
hefur einnig birtst í safnriti Máls og menningar

en
nú skulum við sjá hvort þið getið lesið textalausa myndasögu;
hér á eftir er svo handrit að leikriti, byggðu á myndasögunni;
semsagt fyrst textalaus myndasaga
:

ÚtiMamma kallar út um gluggann á blokkinni á Tótu og þau. Það er kominn kvöldmatur.
Inni: Tóta og þau leika sér Úti um kvöldið.Hvað gera vondu strákarnir? Tóta og þau vita ekkert af þessu. Þau heyra í slökkviliðsbílnum og fara útí glugga..


 

SPELLVIRKI

Í SKJÓLI NÆTUR

handrit að leikriti byggðu á Tótu og þeim; birtist Í Leikum leikrit, M&M, ISBN 9979-3-0909-1
Hér er gert ráð fyrir að ungir krakkar leiki, og þess vegna er ekki neinn langur texti sem neinn þarf að læra utanað; slíkt er stressandi fyrir unga leikara; það er gert ráð fyrir mörgum leikurum, og reynt að komast hjá því að mikið mæði á einhverjum einum eða fáum, heldur hafi hópur (sem enginn ákveðinn fjöldi er í) sameiginlegt hlutverk. Annars vegar góðu krakkarnir, hins vegar vondu krakkarnir, og þótt þetta virki klisjukennt verðum við að viðurkenna að við sjálf, í raun, skiptumst í svona hlutverk í okkar daglega lífi, -- jafnvel stundum að gera gott og stundum að gera öðrum illt. Gætum bara að hvað við gerum sjálf gagnvart öðrum.

 

Verkið hefst með söng, hópsöng, sem byrjar rétt áður en leikendur koma á svið.

Ath: Hvert vísuorð er sungið af einum og einum til skiptis, hærra en hinir syngja.

 

Leikar í fyrsta atriði sem koma syngjandi inn á svið, koma sér fyrir í fyrstu stöður.

Gjarna má syngja aftur og aftur þessar tvær vísur.

Geta þá aðrir en í fyrsta umgangi sungið hærra en hinir eitt og eitt vísuorð.

 

Vísurnar eru ekki með stuðlum, höfuðstöfum né rími. Þær kynna boðskap verksins.

Sungnar hægt og skýrt.

Ef mönnum er illa við að syngja óstuðluð ljóð, og særa þannig brageyrað, má þylja þetta.

Erfitt er að tala í takt, og best þá að einn og einn segi hvert vísuorð, hinir þegi.

 

Lag (ef sungið er): Komdu nú að kveðast á, kappinn, ef þú getur ....

 

Þótt leikurinn sé alvara (einhver einn syngur þetta vísuorð hærra en hinir)

í okkar eigin augum, (einhver annar syngur þetta vísuorð hærra en hinir, og þannig koll af kolli)

þá er hann, sem betur fer.

aðeins og bara leikur.

 

Við verðum að læra, vinur minn,

að taka áföllunum.

Áföll mega aldregi

bera okkur ofurliði.

 

Í lok sýningar er eftirfarandi gullkorni um áhyggjurnar, með mynd af Tótu, Sigga og Óla, dreift á hvern og einn sýningargesta, til að taka með heim.
Gjarnan má það fjölritast / ljósritast á litaðan þykkan pappír:

 

Ósvinnur (óvitur) maður

vakir um allar nætur

og hyggur að hvívetna

(hugsar um allt);

þá er móður (þreyttur),

er að morgni kemur,

allt er víl sem var.

(andvökunæturnar hafa ekki bætt ástandið,

áhyggjur gera ekkert gagn.)

úr Hávamálum (23.vísa)

 

 

Áhyggjurnar þrífast ekki nema þú hugsir vel um þær,
ræktir þær af kostgæfni,
vökvir þær,
talir við þær.
Annars kemur kyrkingur í áhyggjurnar.
Þær veslast upp og deyja.
Og þyrnarnir á þeim verða ekki að almennilegum broddum
nema þú hugsir vel um þær, kvölds og morgna,
finnir nærveru þeirra á daginn,
vaknir upp á nóttunni og gefir þeim brjóst.

 

Úr: ,ÉG ER HÆTTUR! FARINN! ÉG ER EKKI MEÐ Í SVONA ASNALEGU LEIKRITI" eftir Gauju (línur Emblu)

 

 

Leikendur:

GÓÐU KRAKKARNIR,

en meðal þeirra eru TÓTA, ÓLI, SIGGI, og auk þeirra MARGIR TIL VIÐBÓTAR.

Þau þekkjast vel.

Þau gegna mömmu strax og hún kallar. Eru snyrtileg til fara.

 

VONDU KRAKKARNIR,

sem eru úti eftir kvöldmat,

sinna engu uppbyggilegu, rangla um í vandræðum með kraftana,

espa hvert annað upp í neikvæðar athafnir. Þau eru í pönkarafötum.

MÖMMUR og PABBAR GÓÐU KRAKKANNA

SLÖKKVILIÐSMENN

 

Sviðið:

Aðeins er eitt svið,

Annars vegar: INNI hjá góðu krökkunum, fleiri en ein ,íbúð".

 

Hins vegar ÚTI, OPIÐ SVÆÐI, ekki skipulagt sem leiksvæði.

Þar liggur spýtnabrak.

 

Bæði (öll) sviðin sjást í senn allan tímann.

Stundum er eitthvað að gerast á báðum (öllum) stöðum í einu.

 

 

Fyrri hluti verksins gerist að degi til;

síðari hluti um kvöldið sama dag. Þá dimmir ,ÚTI" og kveikt eru ljós ,INNI".

 

Nota má borð fyrir íbúðir uppsviðs,

og hafa stól baka til við borðið, svo hægt sé að ganga ,út og inn" í ,íbúðirnar".

Eitt borð (eða tvö) er íbúð Tótu og Óla.

Eitt borð (eða tvö) er íbúð Sigga.

Eitt borð (eða tvö) eru svo íbúðir fleiri góðu krakkanna, eftir því sem pláss og leikarafjöldi leyfir.

 

 

Effektar (áhrifshljóð og sviðstæknibrellur) sem nota þarf eru:

tónlist í bakgrunn,

gling gló í dyrabjöllu,

blikkandi ljós, hvít og/eða rauðleit, sem notast sem bjarmi af eldi,

reykur í kofanum sem er að brenna,

vælur í slökkviliðinu (má framleiða utansviðs með röddinni

ath: ekki er sama hljóð í slökkviliði, sjúkrabíl og lögreglu),

blikkandi blá ljós (bjarmi), sem skellur inn á svið,

Siggi kemur inn í sína ,íbúð". Fer í bílaleik eða les.

 

Aðrir krakkar (góðu krakkarnir) og þeirra foreldrar sem heima eru að degi til,

fara sömuleiðis í sínar íbúðir. Finna sér einhvern starfa.

 

Við HEYRUM tónlist úr útvarpi, þegar upphafsvísunum lýkur.

(Sú tónlist dofnar smátt og smátt og er alveg horfin um það leyti sem Tóta Óli og Siggi fara út að leika sér.)

 

Ath: ekki sést né heyrist á milli íbúða.

 

 

hvissið í vatninu sem sprautað er úr brunaslöngunni, en það geta slökkiliðsmenn sjálfir framleitt.

 

 

 

LEIKRITIÐ HEFST:

Góðu krakkarnir og eitthvað af foreldrum þeirra (sem heima eru að degi til) koma allir inn á svið.

Syngja (eða fara með) upphafsvísurnar. Gangandi rakleitt í upphafsstöður sínar:

 

Tóta, Óli og mamma þeirra, fara inn í sína ,íbúð".

Tóta og Óli setjast við eitthvert spil. Mamma t.d. les eða prjónar.

 

Siggi stendur upp,
(fer í úlpu,)

fer út úr sinni íbúð.

Hann hringir dyrabjöllunni hjá Tótu og Óla.

Óli fer til dyra.

Spinnið eðlilegar kveðjur og samtöl (Hæ.Viljiði vera mem?)

Siggi kemur inn til Tótu og Óla.

(Siggi heilsar mömmu Tótu og Óla líka. Kurteis börn.)

 

Þau setjast við spilið öll þrjú.

Skemmta sér vel.

Spila nokkra stund.

 

Mamma Tótu:

Hvers vegna fariðið ekki út í þessu góða veðri, krakkar?

Þið getir farið í LÚDÓ í kvöld, - eða þegar veðrið er vont.

 

Krakkarnir gegna strax.

 

Óli:

Geymum spilið bara svona.

Þá getum við haldið áfram eftir kvöldmat, ef við megum.

 

Mamma Tótu:

Var ekki búið að leyfa ykkur að fá eins mikið af afgangs mótatimbri og þið viljið?

Þið megið fá lánuð verkfæri og nagla.

 

Tóta, Óli og Siggi:
(kát)

Já-há!

Komum að smíða kofa.

 

Þau fara út (,úr íbúðinni"), kveðja mömmu.

Þau ná í hamar, sög og nagla

(- sem má vera í ,kjallaranum" eða ,skáp" undir borðinu.)

Þau hlaupa og valhoppa kát fram á óbyggða svæðið.

 

 

 

ÚTI

(Á óbyggða svæðinu liggja spýtur.)

 

Tóta, Óli og Siggi byrja að tína til spýtur og smíða kofa.

 

Þegar hamarshöggin byrja að heyrast,

fara aðrir góðu krakkarnir ,út í glugga" hjá sér.

(Þau standa upp, ganga að ímyndaða glugganum, horfa fram á sviðið út á óbyggða svæðið eins og það væri í nokkurri fjarlægð, mega píra augun og bera hönd yfir augu sér.)

Ath: ekki sést né heyrist á milli íbúða. (En krakkar mega hringja í síma til hinna.)

 

Spunnin samtöl:

Förum út,

Mamma ég ætla út.

Megum við fá hamarinn lánaðan?

Farið varlega með sögina, krakkar mínir.

 

Þau fara hvert út úr sinni íbúð og mæta á svæðið.

 

Góðu krakkarnir hjálpast að við að smíða,

án þess að rífast um hvernig þetta á að vera.

 

Einhver þeirra hleypur ,heim" fær hjá mömmu sinni gamla gólfmottu,

og kemur til baka með hana. Hún á að notast á gólfið í kofanum.

 

Spinnið samtöl.

 

Kofinn rís.

 

 

Einhver PABBI kemur inn á svið. (Hann er greinilega að koma heim úr vinnunni.)

 

Pabbinn:

En reisulegt hús hjá ykkur.

Má ekki bjóða smiðunum smá hressingu?

 

Pabbinn gefur krökkunum kókómjólk og safa eða eitthvað slíkt (mjög kærkomið).

 

Hann má gjarna gefa áhorfendum líka,

og fær við það hjálp hjá öðrum foreldrum sem eru að koma heim úr vinnunni.

 

Þessir foreldrar heilsa svo sínum börnum, sem eru að smíða kofann, með kossi, dáðst að smíðinni, fara svo INN í sínar íbúðir.

Þau fara t.d. að elda kvöldmat hver heima hjá sér.

(Pottur sleif og diskar nægir til að koma því til skila.)

 

Aths:

Góðu krakkarnir (ÚTI) ganga snyrtilega frá tómum umbúðum drykkjarfanganna í ruslapoka.

 

Smíði kofans gengur vel.

 

 

 

INNI í einni íbúðinni, fer mamman ,út í glugga" og kallar

 

Mamman:
(eins og kallað sé út um glugga í nokkurri fjarlægð)

Gunni! GUNNI MINN. Komdu inn í kvöldmat.

 

Gunni lítur upp (í átt að kallinu). Hann gegnir strax.

Kveður krakkana.

 

Gunni:
(um leið og hann fer)

Höldum svo áfram á morgun.

 

Tóta:

Já. Sjáumst á morgun.

 

Kallað er á fleiri krakka, einn og einn.

Þau gegna strax.

Hinir halda smíðunum áfram.

 

Mamma Tótu:
(kallar ,út um gluggann")

Tóta mín og Óli!

Komið inn, elskurnar.

Ekki gleyma verkfærunum.

 

Tóta:
(kallar til mömmu)

Já. Ég kem.

(við hina krakkana)

Ekki gleyma neinum verkfærum úti í nótt.

Þau hverfa bara.

 

Óli:

Já, ég veit. Þeim verður bara stolið.

 

Tóta og Óli fara ,inn".

Brátt fara allir ,heim til sín".

Það dimmir ,ÚTI" og kveikt eru ljós ,INNI" í ,íbúðunum".

 

INNI eru pabbar, mömmur og krakkarnir að borða kvöldmat.

Tala lágt sama og hlæja lágt.

 

 

ÚTI

VONDU KRAKKARNIR koma inn á svið.

(E.t.v. ekki endilega öll í einu; frekar tínast inn á svið, eins og þau mætist þarna.)

 

Ath. Fólk ,INNI" tekur ekki eftir hvað er að gerast ,ÚTI", og öfugt.

 

Vondu krakkarnir eru hortug hvert við annað, þótt þau séu saman.

Spinnið samtöl, sem ekki eru gáfuleg.

Þau ýta hvert í annað, og mega stríða hvert öðru eða stympast.

(Eitthvað, svo sem tyggjó, notað til að gera þau kæruleysisleg og ómerkileg.

Umbúðum utanaf sælgæti fleygja þau á jörðina.)

 

Ath: þau veita kofanum ekki athygli.

 

 

 

INNI HJÁ TÓTU OG ÓLA eru mamma, pabbi, Tóta, og Óli að ljúka við að borða.

Krakkarnir hjálpa til við að taka fram af borðinu.

 

Siggi spyr mömmu sína (spinnið), hvort hann megi fara að leika við Tótu og Óla að klára spilið.

Siggi fer út,

fer að íbúð Tótu og Óla,

hringir dyrabjöllunni,

Óli fer til dyra.

Þau setjast öll þrjú við spilið.

 

ÚTI

Vondu krakkarnir sturta úr ruslapokanum með tómu drykkjarfangaumbúðunum.

Fara að sparka fernum og drasli út um allt.

 

Einhver fer að kíkja inn í kofann, sem er í smíðum.

Hann / hún bendir hinum að koma.

 

Með hvísli sýnir hann / hún hinum (og við áhorfendur sjáum einnig), að hann / hún er með eldspýtur.

Pukurslega, lítandi flóttalega í kringum sig, byrja vondu krakkarnir að tína saman rusl og sprek, jafnvel einangrunarplast, og setja inn í kofann.

(Við áhorfendur sjáum í hvað stefnir.)

 

Ath.: Það dimmir e.t.v. enn meira úti;

Ath.: Krakkarnir og foreldrar ,INNI í íbúðunum" taka ekkert eftir því sem er að gerast ,ÚTI".

 

ÚTI

Vondu krakkarnir bogra inn í kofann.

Þau ,kveikja í" ruslinu. (Við sjáum reyk og blikkandi ljós í kofanum.)

Þau skemmta sér vel yfir að vera að skemma fyrir öðrum.

 

 

Nú HEYRIST í vælum brunabíls.

Lágt í fyrstu, eins og heyrist úr fjarska.

 

INNI

í öllum íbúðunum taka góðu börnin eftir vælunum. Mega hafa orð á því (spinnið) en aðeins sem kurr.

Þau Tóta, Óli og Siggi veita vælunum einnig athygli. (Halda þó áfram að spila.)

 

Siggi:

Það er að kvikna í hérna einhvers staða nálægt.

 

Æ nær HEYRIST í vælum brunabílsins. (Þ.e. hljóðið fer hækkandi, þannig að við fáum á tilfinninguna að það nálgist.)

 

ÚTI

Einhver í hópi vondu krakkana sussar á hina.

Þau hætta ærslunum. Hlusta.

Líta hvert á annað.

Með þegjandi samkomulagi ákveða þau að forða sér af vettvangi.

Þau hlaupa laumulega brott frá brennandi kofanum (út af sviði).

 

 

Bjarmi af bláum blikkandi ljósum skellur nú á allt sviðið.

 

Skyndilega er slökkt á vælunum. (Virka mjög nálægt okkur.)

(Blikkandi bláa ljósið er áfram.)

 

INNI í íbúðunum, þar sem góðu krakkarnir búa, fara allir krakkar,út í glugga" til að horfa á ,slökkvistarfið", býsnast og fjargviðrast (spinnið).

 

Tóta:
(æst)

ÞETTA ER OKKAR KOFI AÐ BRENNA!

 

Pabbi og mamma Tótu og Óla koma ,út í glugga" líka.

(Pabbar og mömmur í öðrum ,íbúðum" einnig.)

 

ÚTI:

Slökkviliðsmennirnir koma nú hlaupandi inn á svið með slöngu.

Þeir standa okkar megin við kofann og hefja ,slökkvistarfið".

Mikill reykur er enn.

 

Við HEYRUM hvissið í ímynduðu ,vatnsbununni".

Ath: hvissið í vatni má framleiða með röddum slökkviliðsmannanna.

 

Ath: Við sjáum ekki kofann vel fyrir slökkviliðsmönnunum, sem notfæra sér það og fella kofann og breyta honum í brunarúst (sviðsbrella, blöff.)

Dimman ÚTI og ljósin INNI, hreyfing og samtöl fólksins í íbúðunum, bláa blikkandi ljósið og reykurinn, notast til að glepja athygli okkar áhorfenda.

 

,Eldurinn" (hvítu og/eða rauðleitu blikkandi ljósin inni í kofanum), minnka brátt og slokkna að lokum.

Reykurinn hverfur smátt og smátt.

 

Þegar slökkviliðsmennirnir fara frá, og við sjáum kofann á ný, er hann sviðnar og svartar rústir einar.

Þeir taka saman sínar slöngur.

 

Slökkviliðsmaður 1:

Það þyrfti að tala við þessa óvita sem gera sér leik að að kveikja í.

 

Slökkviliðsmaður 2:

Þeir gera sér ekki grein fyrir hvað þetta er hættulegt.

 

Slökkviliðsmaður 3:

Skilja ekki að þetta getur valdið tjóni á verðmætum ef eldurinn breiðist út.

 

Slökkviliðsmenn fara af sviði. Bláu blikkljósin eru slökkt.

 

INNI

PabbiI Tótu:

Æ, þið skulið nú ekki vera svona æst. Þetta var nú aðeins spýtnadrasl.

 

Tóta og Óli:
(ennþá æstari og reiðari)

SPÝTNADRASL!

ÞETTA VAR HÚS!

 

Mamma:

Við skulum nú ekki taka þessu svona illa.

Hugsið ykkur ef húsið sem við búum í væri að brenna.

Við verðum að læra að taka smá andstreymi.

 

Siggi:

Hvað er andstreymi?

 

Mamma:

Það er smá mótlæti. Bara góð æfing fyrir lífið að gera ekki of mikið úr áföllum.

 

Nú sljákkar heldur í Tótu, Óla og Sigga.

 

Pabbi:

Nóg til af spýtnabraki.

Hægt að hefjast handa á ný í fyrramálið.

 

Mamma:

Er ekki best að fara að drífa sig í háttinn?

 

Pabbi:

Til þess að hafa nóga krafta á morgun.

 

Siggi fer ,heim til sín".

Allir hressir og bjóða góða nótt.

(Spinnið samtöl um að smíða nýjan kofa á morgun,

um hrekkjusvín,

hvort krakkarnir hafi ekki örugglega munað eftir að taka verkfærin inn,

og samtöl þegar börn og foreldrar bjóða góða nótt,)

 

Góðu krakkarnir tygja sig í háttinn.

 

Slökkt eru ljós í ,íbúðunum" hverri af annarri.

Spila má fallega vögguvísu, svo kyrrð ríki, þegar góðu krakkarnir eru gengnir til hvílu.

 

 

Hressileg tónlist svo undir framkallinu. (Má einning vera upphafsvísurnar, Þótt leikurinn sé alvara ......)

Góðu krakkarnir hlaupa fram á svið, mega mæta með verkfærin.

Bláu blikkljósin eru sett á slökkviliðsmennina (einnig vælurnar ?), þegar þeir koma fram og hneigja sig.

Ruslapokar eru til taks fyrir rusl frá áhorfendum. Vondu krakkarnir sjá um að safna því, eftir að þeir hafa hneigt sig.

Dreift er til áhorfenda í lokin litla plakatinu með gullkorninu um ÁHYGGJURNAR og áhyggjuvísu Hávamála.

Vondu krakkarnir hirða nú ruslið sem þeir útbíuðu sviðið með.

 

 

--- o O o ---