Apakríli, algjör dúlla !!

ISBN 9979-895-08-X

Nei sko! Hann er með hatt !

Hann er í dótabúð, til sölu auðvitað eins og öll hin tuskudýrin í búðinni.

Já, hann er með hatt, barðastóran, gulan hatt, með blómaskrauti á.

Er hann ekki glæsilegur?
Splunkunýr og plussið hans létt og laust og gljáandi og fallegt.

Hann er svo keyptur í dótabúðinni.

Honum er stillt upp inni í stássstofu. Í sófanum.
Það situr hann á silkipúða og tekur sig vel út.
Allir dást að honum:
-Mikið er hann sætur!

Og hér situr hann --
-- gestir sem koma segja:
-En hve þetta er fallegt gult apakríli. Algjör dúlla!

Fallegt gult apakríli. Stofuskraut. Reglulegur silkipúðaapi.

og hérna situr hann -- bara situr og situr -- og tekur sig vel út......

.....þangað til Dúddi fæðist.

Þangað til Dúddi fæðist, já.

Þá verða mikil umskipti í tilveru apakrílisins: Hatturinn er tekinn af honum, og geymdur inni í skáp, því hatturinn er of harður fyrir ungabarnið.

Apakrílið fær það hlutverk að svæfa Dúdda.

Dúdda þykir vænt um apann af því að hann er svo mjúkur.

Dúddi er bara alltaf með apakrílið. Sefur með það, vakir með það, hnoðast með það.

Einu sinni gubbaði Dúddi litli. Það kemur stundum uppúr litlum krökkum.

Og það fer pínulítið gubb í apann.

Það þarf að þvo hann.

Kannski er svona fínn plussapi -- sem meira að segja var með hatt -- ekki gerður fyrir þvott.
Það er ekkert þvottamerki á honum.

Þegar hann kemur úr þvottinum, er hann nú töluvert lúpulegri en í upphafi.

Þegar Dúddi er orðinn eins árs fer hann að leika sér á gólfinu. Apakrílið er þá auðvitað sett í gólfið líka. Og ekki eru handtökin hans Dúdda alltaf mjúk.
Apakrílið er eiginlega mjög heppið að vera bara tuskuapi en ekki lifandi api.

Það er ákaflega lýjandi starf að vera uppáhaldstuskudýrið hans Dúdda og vera í vörubílaleik og kubbaleik allan daginn. Apakrílið er ekki lengur splunkunýtt og glerfínt. Ó nei. Það er orðið heldur klesst og þófið og kleprað og snjáð.


Hugsið ykkur hvernig hann leit út þegar hann var splunkunýr. -- Með hattinn fína.
Þá var plussið hans létt og laust og gljáandi og nýtt og fallegt.

Það er enginn sem segir lengur: -Mikið er þetta sætt apakríli.
Enginn sem segir: -
Algjör dúlla.

Apinn er svo dauðþreyttur á kvöldin, að hann sofnar oft á undan Dúdda.

Þegar Dúddi er orðinn tveggja ára, tekur hann apakrílið alltaf með út í kerru.

Apakrílinu finnst gaman í kerru.

Mamma hans Dúdda brunar áfram. Mömmur eru svo oft að flýta sér.

Dúddi sofnar.
Krakkar sofna svo oft í kerru.

Dúddi missir smátt og smátt takið á apakrílinu.

Það sígur æ meir á ógæfuhlið.

Og á endanum dettur apakrílið út úr kerrunni.

 

Mamma hans Dúdda tekur ekki eftir því. Hún brunar áfram.

Nú eru góð ráð dýr. Hvílíkt umkomuleysi.

Hér situr hann og getur ekki annað. Hann er jú bara tuskudýr.

Hópur af krökkum kemur.
Þeir reka augun í apakrílið sem situr þarna á gangstéttinni: -
Nei! sjá þetta, maður! Api! Apatuskudrusla! Eða tuskuapadrusla!

Þeir taka hann upp og syngja: -Apaköttur, apaspil, að þú skulir vera til, svona grettinn grár og ljótur, apaköttur, apaspil!!

Börnunum finnst sjálfum þau vera agalega fyndin.

Apinn hefur nú hingað til verið talinn gulur en ekki grár.

Auk þess er hann ekki grettinn. Hann er alls ekki ljótur. Að vísu var hann miklu fallegri þegar hann var nýr. Hann skilur ekkert hvað þetta apaköttur apaspil þýðir.

Þau fíflast með grey apakrílið.

Þau fleygja honum upp í loftið. Aftur og aftur. Það getur kannski verið gaman að fá flugferðir, en það er bara ekkert að vita hvar hann lendir. Þessum krökkum er hreint ekki treystandi til að grípa hann.

Þetta endar auðvitað með ósköpum: Hann lendir í polli.

Drullupolli.

Oj, segja krakkarnir. -Ekki hef ég lyst á að veið'ann uppúr.
Og með það fara þau. Bara labba burt.

Apakrílið þolir illa vatn. Mamma hans Dúdda leyfði Dúdda aldrei að fara með hann í bað. Hún sagði að hann þyldi ekki vatn. Það kom líka berlega í ljós þegar hann var þveginn á sínum tíma.

Það vill svo heppilega til að gamall maður á leið framhjá. Gamli maðurinn var alinn upp á þeim tímum sem leikföng voru dýrmæt. Þá áttu börn fá leikföng, og á fóru börn vel með það sem þau áttu. Hann getur ekki horft framhjá þeirri staðreynd að þessi api, sem einu sinni mun hafa verið gulur og fallegur, muni endanlega eyðileggjast og vera fleygt í svartan sorppoka götusóparans, ef ekki verðu að gert.

-Komdu hérna, ræfilstuskan mín, segir gamli maðurinn. -Þú hefur lent í vosi, greyið mitt.

Og með það dregur hann apakrílið uppúr.

-Ósköpin öll eru að sjá þig, krílið mitt. Ég verða að vinda úr þér mestu vætuna. Það er ekki sjón að sjá þig.

Jæja, Enginn er verri þótt hann vökni.

Það er heilmikil huggun að vita að enginn er verri þótt hann vökni.

-Ég skal biðja hana Beggu mína að þerra þig og þrífa.

Begga gamla segir að það sé nú ekki nóg að þerra hann. Hún verði að þvo hann. -Hann er nú rennblautur hvort eð er, segir hún. -Verður varla blautari þótt ég skolpi úr honum, greyinu.

Við vitum alveg hvernig það fer. Við vitum nú allt um það hvernig plussið lítur út þegar hann kemur uppúr þvottabala.

-Svona.
Það er eina bótin að vatnið er ylvolgt og notalegt.

. . . . . . . . . .

Begga þerrar hann inni í handklæði. Hún er mjúkhent og móðurleg, gamla konan.
Begga hengir hann svo upp fyrir ofan eldavélina.
Þar er hlýtt.

-Það móar úr honum þarna, segir hún, -og svo kembi ég hann upp og geri hann fallegan á ný.

Begga sest með apakrílið þegar það er þornað, og kembir plussið, lokk fyrir lokk.

-Nú, þetta er hið snotrasta apakríli, segja gömlu hjónin, -eða við skulum segja: þetta hefur nú einhvern tíma verið hið snotrasta apakríli. Hann hefur nú eflaust séð sinn fífil fegri, litla skinnið.

Apinn skilur auðvitað ekki þetta með fífilinn. Hann hefur aldrei átt neinn fífil.

-Hver skyldi eiga hann?, velta gömlu hjónin fyrir sér. -Einhver lítill krakki hefur týnt honum, -- misst hann í götuna.

Gömlu hjónin vita ekki að það er Dúddi litli sem týndi apakrílinu. Þau þekkja Dúdda ekki neitt.

Og mamma hans Dúdda veit ekkert hvar apakrílið hefur týnst. Og tuskuapi kann ekki að tala.

Dúddi er áreiðanlega háttaður og kominn uppí rúm. Dúddi vill áreiðanlega fá apann sinn til að geta sofnað.

-Ó, segir mamma hans Dúdda áreiðanlega, -apakrílið hefur dottið úr kerrunni.

Mamma hans Dúdda raðar áreiðanlega mörgum tuskudýrum í kringum Dúdda í rúminu, -- en apann vantar.

-O, jæja, segja gömlu hjónin hægt.
Við vitum að gömul góð hjón og lítið mjúkt tuskudýr hafa allan heimsins tíma.
-O, jæja, segja gömlu hjónin. -Við erum nú líklega eins og þetta apakríli, alveg hætt að gera nokkurt gagn.

-Já, það var ósköp yndislegt meðan börnin voru lítil og höfðu þörf fyrir okkur.
Þá vorum við heldur ekki orðin svona gömul.

-Nú erum við bara rétt eins og þessi tuskuapi.

-Það eru áreiðanlega einhver önnur tuskudýr sem svæfa núna litla krakkann sem á þetta gamla gula snotra apakríli.

-Kannski við höfum líka séð fífil okkar fegri, segja þau og brosa.

-Ég er að velta því fyrir mér, segir Begga gamla, -hvort lífið hefði verið betra ef ég hefði bara alltaf setið inni í stássstofu með fínan hatt. Hefði aldrei þurft að fara út í fjós að mjólka. Hefði aldrei þurft að skipta á litlum kúkalabba sem búinn var að gera í sig.
Það væri ósköp ömurlegt ef lífið væri eingöngu stássstofur, silkipúðar, tilgangsleysi og innantómt fínerí.
Ég hefði bara verið einhver dúlla!

 

-Æ, svarar gamli maðurinn, -ég held að það hefði verið hræðilega leiðinlegt að gera aldrei neitt gagn í lífinu.

-Ósköp hefði það verið einhæft að fara aldrei út á sjó að fiska í soðið, aldrei út að sá út kartöfluútsæðinu, aldrei upp á fjöll í göngur.
Og hve margt maður hefði farið á mis við.

-Lífið hefur veitt okkur mikla hamingju, þótt stundum væri þröngt í búi.

Æðruleysi kynslóðanna hljómar í rödd þeirra.

-Við elskum börnin okkar alveg jafn mikið núna og þegar við höfðum þau hjá okkur.

Það var yndislegur tími.

Sem þau sitja þarna í litlu stofunni öll þrjú, -- dreymin á svip, þögul, hugsi -- gamli maðurinn og gamla konan sem einu sinni voru ung, og tuskuapinn sem einu sinni var silkipúðaapi með blómahatt, heyrist undarlegt væl.
Mjálm.
Ámátlegt mjálm úti.

Gamli maðurinn opnar.
Inn trítlar agnarsmár kettlingur, sem er alveg villtur.

-Nú, hvað er þetta ræfilstuskan?, segir Begga gamla. -Þú ert sársvöng, kisa litla.
Ratarðu ekki heim, garmurinn minn?

Eða áttu hvergi heima?

Kisan litla vill alls ekki fara út aftur.
Hún hoppar uppí hjá apakrílinu --- og kúrir sig þar.

-Nú, við verðum víst að skjóta skjólshúsi yfir þau í nótt, segja gömlu hjónin.

-Svo skulum við auglýsa í blaðinu á morgun: gult apakríli og pínulítil hvít læða í óskilum.

Nú, ef enginn gefur sig fram, verðum við líklega að taka þau að okkur. Þau hafa svo sannarlega þörf fyrir okkur.

Gamli maðurinn tekur utanum herðarnar á gömlu konunni og kyssir hana góða nótt.

-- o O o --