ISBN 9979-895-81-0

 

Dagdraumar og sorgarband

 

Drengur ýtti þungum vagni, handvagni, á undan sjer. Það ískraði í öðru vagnhjólinu. Hann var með fisk.

Hendur hans voru þrútnar af vinnu, sjómennsku. Hann fór í róðra með pabba sínum. Sterklegar þessar hendur, en drengurinn var aðeins 12 ára. Þegar hrognkelsaveiðin stendur yfir eru þær blóðrisa af körtunum, þessar hendur. Seltan fer í sárin svo þau þrútna áður en þau gróa.

Nú var það ýsa og lúða. Fallegt, feitt heilagfiski. Drengurinn hlakkaði til, hann var ljettfættur. Hann var að fara með fisk í Guttormssenshús.

Ekki svo að skilja að Gunna vinnukona í Guttormssenshúsi byði honum inn, gæfi honum mjólk og kleinu. Nei. Það var annað: Þegar hann nálgaðist húsið heyrði hann stundum Fríðu æfa sig á píanó. Það var píanó í Guttormssenshúsi.

Verst með þetta ískur í vagnhjólinu. Það stakk í stúf við hljómlistina, sem barst stundum út um stofugluggann á Guttormssenshúsi.

Jú, Fríða litla var að spila á píanóið. Hvítir grannir fingur hennar ljeku um nóturnar. Svörtu nóturnar voru ekki alveg svartar, hvítu nóturnar aðeins gulleitar. Á píanóinu voru fastir látúnskertastjakar með kertum í. Bróderaður refill var lagður yfir nótnaborðið þegar ekki var verið að leika á hljóðfærið. Fíltrefill með blómamunstri.

 

Fríða sat og spilaði. Hún var annars hugar. Hún var með hugann allan úti á götu, því bráðum myndi hún heyra ískur í vagnhjóli. Þá væri Ódi úr Ytri-Vör að koma með fiskinn. Hann kom alltaf tvisvar í viku með fisk.

Fríða vissi ekki að hann strauk alltaf gegnum hárið mjög vandlega, áður en hann barði að dyrum bakdyramegin í Guttormssenshúsi. Svo kom Gunna vinnukona til dyra.

Fríða var í laumi hrifin af þessum dreng, hraustlegum, frjálslegum, óhreinum, brosandi, með blá augu og ógreiddan lubba.

Það var vír gegnum augun á ýsunum til þess að betra væri að afhenda þær, tvær og tvær saman. Fríðu fannst ógeðslegt að stinga svona gegnum augun þótt hún vissi auðvitað að fiskurinn var ekki lifandi lengur. Hún hætti alltaf að spila eða sauma og stalst til að fara fram í eldhús, þegar ískrið í handvagninum heyrðist inn um stofugluggann.

Hún heyrði Óda banka kokkhúsmegin og rödd hans hressa:

-Jæja, fröken Gunna, hjer kemur hann þá glænýr og spriklandi.

 

-Jeg á heilagfiski líka, handa frúnni.

Fríða horfði á Óda láta Gunnu fá fiskinn. Börnin gættu þess alltaf vandlega að líta ekki hvort á annað. Þegar Ódi var farinn nagaði Fríða sig í handarbökin: Hvers vegna sagði hún aldrei neitt? Það var svo asnalegt að segja: -hvernig veiddist? Hún gat sjeð sjálf að það var nóg af fiski. En hún gat að minnsta kosti sagt: -góðan dag. Auðvitað gæti hún sjálf farið til dyra og tekið við fiskinum. Nei, Gunna myndi ekki leyfa það, því mamma yrði vond ef hún fengi slor í kjólinn.

 

 

-Sigfríd! Lille Frída! Mamma Fríðu var að kalla. -Hvað er dú að gera? Er dú í börneverelset?

Mamma sat í sesselong í stofunni og bróderaði.

Hún hjet einu sinni Sesselía Sigurðardóttir, en giftist Jóni Guttormssyni kaupmanni, og hjet nú Cesilíe með C eða frú Guttormsen.

-Sigfríd. Skal dú ekki spille mer?

Dú skal fara í fín föt, dersom pabbi dín skal halda spilaboð.

Fríða átti að fara í spilatíma til organistans í Stóru-Vör, og sagði mömmu sinni að svo kæmi hún að heilsa gestunum.

 

Ískrið í vagnhjóli Óda fjarlægðist. Hann átti eftir að fara með fisk í marga staði.

Hann hafði verið svo heppinn að sjá Fríðu í eldhúsinu þegar hann kom með fiskinn. "Fröken Guttormsen" vildi mamma hennar láta kalla hana. Hún hafði verið að spila á píanóið. Það hafði heyrst út. En hún kom fram í eldhús. Tilviljun? Auðvitað var það tilviljun. Gæti það verið að ískrið truflaði hana? Hvers vegna var hann oftast svo heppinn að sjá Fríðu í eldhúsinu?

 

 

Ófeigur var elztur átta systkina. Í Ytri-Vör var tómthús, þurrabúð, en þar heyrðist aldrei barlómur. Hið óviðráðanlega var engum að kenna. Lífið var til þess að takast á við það. Kisa hafði drepizt í vetur þegar ekki gaf á sjó, en ekkert fiskaðist þá í fleiri vikur. Þess vegna fóru mýsnar í kartöflurnar og netin.

Ódi fjekk oftast þurr föt á morgnana, því hann var fyrirvinna með pabba sínum. Mamma hengdi hans föt næst eldavjelinni á kvöldin. Oft voru fötin blaut á kvöldin og ekkert til skiptanna. Yngri systkinin voru bara lengur í bólinu ef þeirra föt höfðu ekki náð að þorna. Stundum hafði mamma verið að þvo um nóttina.

Ófeigur átti ekki matrósaföt; það hafði aldrei verið tekin af honum mynd. Fyrir framan myndavjel átti að setja upp prúða svipinn. Börn - og fullorðnir raunar líka - áttu að vera virðulegir á mynd. Ódi átti gráa, góða peysu, vandlega stagaða. Hún var hlý á sjónum: Þegar hann yrði stór ætlaði hann að eiga falleg föt og láta taka af sjer mynd.

Þegar Ódi var 5 ára kunni hann að róa og rikka. Það lærðu allir strákar, þótt þeir stæðu ekki út úr hnefa.

Báturinn þeirra hjet Kría. Hann var lítill en nógur fyrir þá feðga að róa á til fiskjar, - á skak langt út á Flóa. Stundum lögðu þeir net, hrognkelsanet, og línu. Þeir áttu bjóð og tvær lóðir.

Hann hugsaði til þess þegar hann kom með Maríufiskinn sinn til mömmu. Hann var lítill þá hann Ófeigur. Hve hún hafði verið glöð. Það var vænn þyrsklingur. Mamma fjekk alltaf þyrsklinginn og kolann og gerði góða máltíð úr. Hún sagði alltaf að nær væri að selja ýsuna og lúðuna og kaupa kol.

Einu sinni hafði Ódi veitt háf. Stinnan, gráan, fallegan, með undarlegt höfuð og mörg göt á hliðunum við hausinn í stað lausra kinna. Hann hafði verið 9 ára smápolli þá. Stoltur hafði hann sýnt pabba sínum fiskinn, þegar hann innbyrti hann og hlakkaði til að fara með hann heim til mömmu. En pabbi hafði sagt að hann væri óætur þessi, gert á honum kviðristu og fleygt honum aftur í sjóinn. Skepnan engdist, innyflin flutu út, kviðurinn sneri upp. Háfurinn tók snöggt viðbragð, reyndi að synda niður í djúpið. Við það fleygðust garnirnar langt út úr honum, kviðurinn snerist upp á ný og skepnan hvarf með kvöl sína í djúpið.

Eitt sinn fjekk hann marhnút. Pabbi fór að hlæja:

-Hræktu upp í hann og útí með hann, strákur.

Ófeigur horfði á pabba sinn.

-Hræktu upp í hann...

Ófeigur hrækti upp í hann eftir nokkurt hik.

-...og útí með hann.

Það var víst enginn matur í marhnút. Ekkert nema hausinn. Það var víst bara venja að hrækja upp í hann. Einhver gömul hjátrú? Pabbi hló.

Ófeigur vissi að steinbítur gat verið hættulegur. Hann átti að láta pabba sinn vita strax, ef hann fengi steinbít að borðstokknum. Lúðan liggur þung í færinu rjett eins og að verið sje að veiða stein, en tekur einstaka dýfu, og þá þarf að gæta þess að slíta ekki útúr. Ýsan titrar alla leiðina upp, undarleg tilfinning að draga fallega ýsu úr sjó, - titrar alla leið upp.

Ódi fór að hugsa um að alltaf er gert að grásleppunni lifandi. Bakugginn er skorinn af fiskinum áður en hausað er, haldið um hausinn. Fiskur kann ekki að hljóða. Hægt og hægt er lífið murkað úr spriklandi grásleppunni. Hún ranghvolfir augunum. Ófeigur ljet engan vita að hann væri að hafa áhyggjur af kvölum fisksins. Hann vildi vera maður með mönnum og skar alltaf eins og hinir, bölvaði og hrækti í sjóinn. Það var að duga eða drepast. Þeir seldu alltaf mikið af siginni grásleppu. Sjávarloftið þurrkaði hana í Ytri-Vör.

 

Hann ætlaði að kaupa sjer stóran bát, eins og Palli Formaður, - verða ríkur. Þessi drengur kunni ekki að leika sjer, en hann vissi að til þess að lifa þurfti að vinna. Hann ætlaði sko að verða duglegur formaður.

 

 

Ófeigur gekk heim eftir langan vinnudag með tóman vagninn. Það var gott að rjetta ögn úr bakinu.

Veðrið var gott.

-Það verður gott í sjóinn í fyrramálið, hugsaði hann.

Annars er ekki karlmannlegt að láta veðrið á sig fá. Það skal að minnsta kosti ekki gert þegar hann verður búinn að fá sjer stærri bát en Kríu.

Þrútnar hendur hans hjeldu um vagnkjálkana. Það ískraði ögn í öðru hjólinu. Hann nálgaðist Eyrarstígsbrekkuna. Þegar hann kæmi upp hana sæi hann Stóru-Vör og Ytri-Vör og þá væri stutt heim. Mamma væri sennilega að elda. Mamma hans mjólkaði alltaf í Stóru-Vör. Þar var ekki tómthús. Mamma fjekk mjólkurdreitil fyrir. Pabbi og mamma drukku aldrei mjólk. Hún fór í börnin.

Björg í Stóru-Vör var góð við Ófeig. Hún hafði oft stungið að honum bita þegar hann kom með mömmu sinni. Einu sinni hafði Björg sent hann með egg til mömmu. Það var fyrir jólin. Hann man að hann fór mjög varlega, var svo hræddur um að brjóta þau. Annars keyptu frúrnar í bænum eggin í Vör. Egg voru raritet, lúxusvara.

Það var alltaf svo hlýtt í Stóru-Vör. Ódi brosti með sjálfum sjer að atvikinu þegar presturinn var í heimsókn í Stóru-Vör, og Ófeigur hafði beðið í tvær klukkustundir eftir að prestur lyki við kaffið: Ef afgangur yrði af lummunum yrði Óda áreiðanlega gefinn hann í eldhúsinu. Milli vonar og ótta fylgdist hann með prestinum sem sat í gestastofunni og tók aftur og aftur af lummunum; alltaf lækkaði staflinn á diskinum. Þegar prestur tók næstsíðasta klattann varð Óda um og ó, en beið samt enn. Hæverskubitinn, síðasti klattinn, varð eftir, þegar prestur loks stóð upp og kvaddi. Í eldhúsinu var Óda gefinn sá langþráði biti, kaldur klatti. Skelfing var maður lítill og vitlaus þá, hugsaði hann: Bíða í tvo tíma í von um eina kalda lummu, fá svo ákúrur heima fyrir að vera svona lengi. Æ, hvað maður gat verið lítill og vitlaus.

Í Stóru-Vör kunni fólkið að syngja. Þar var hljóðfæri. Í Stóru-Vör bjó organistinn. Hann var fölur og grannur. Hann vann ekki neitt. Hann spilaði í kirkjunni, sagði kórnum hvernig ætti að syngja, hjálpaði fólki til að velja sálmana við jarðarfarirnar, kenndi að spila, en vann aldrei neitt. Skyldi hann hafa verið eitthvað veikur? Hendur hans voru alltaf hreinar. Hann varð aldrei ríkur, bara organisti.

Fríða fór í spilatíma til hans.

Fríða.

Ófeigur ætlaði sjer að eignast stóran bát, verða duglegur formaður, búa í stóru, hlýju húsi; á kvöldin sæti hann í stól, reykti pípu. Hvítir, grannir fingur, sem kunna að sauma fínt, ljeku á píanó í stofunni: Fríða.

Suma hluti segir maður aldrei neinum.

Hann var ljettur í sinni við hugsanir sínar. Hann lagðist á vagninn með þunga sínum til að ýta honum upp Eyrarstígsbrekkuna.

Efst í brekkunni birtist vera, grönn vera í kápu og á dönskum stígvjelaskóm.

Var þetta Fríða?

Þetta var Fríða. Fætur Óda urðu eins og brauðdeig. Hann skildi ekki hvernig annar fluttist fram fyrir hinn, - vjelrænt - fjarrænt -. Báðar hendur hans hjeldu um kjálkana á vagninum, svo hann var ekki í neinum vandræðum með þær.

Þessi fallega vera sveif niður stíginn án þess að snerta jörð, spengileg eins og sá sem gengur ofan brekku, grönn, fögur, hvít, en aðeins rjóð í vöngum, örlítið feimnisleg í þetta sinn. Tíguleg, er hana bar í roðagylltan vesturhimin.

Nær og nær komu þau, hann uppeftir, hún oneftir.

Þegar hann leit upp, þá horfði hún á götuna fyrir framan tærnar á sjer. Enginn annar var í Eyrarstígsbrekku. Palli formaður myndi taka ofan er hann mætti fríðri yngismey (eins og hann orðaði það). Ódi var að vísu búinn að setja á sig pottlokið sitt, en hann gæti ekki tekið ofan því þá þyrfti hann að stöðva vagninn, svona upp brekku. Það þurfti báðar hendur á hann þótt hann væri tómur. Og það þurfti að halla sjer fram til að ýta, - ekki kannski það glæsilegasta.

Fætur Óda urðu æ brauðdeigslegri. Fríða kom nær. Hún leit upp, en strax niður aftur. Straumur af einhverju skrítnu kom úr maga hennar upp í háls og hvarf þar. Eitt andartak var allt í móðu: Ímynd alls sem eftirsóknarvert var: kjarkur, frelsi, sjálfsbjargarviðleitni, dugnaður, ímynd alls sem hún fór á mis við: bátar, háski, vinna, komu á móti henni holdi klætt í þessum dreng.

Átti hún að segja: gott kvöld, Ófeigur? Átti hún að segja, ja - til dæmis ... Ja, hvað gat hún sagt?

Nær og nær, tvær mannverur, - önnur oneftir, með nótur, hin uppeftir með handvagn, - nálguðust.

Þau litu aldrei upp samtímis.

Þau mættust.

Þau sögðu ekkert.

þau fóru hjá.

Hann með handvagn áfram upp Eyrarstígsbrekkuna, hún með nótur áfram niður Eyrarstígsbrekkuna.

Bæði á heimleið.

Veðrið var fallegt.

Fríða var sjálfri sjer gröm. Hún hefði átt að segja: gott kvöld. Það bara, - þau bara litu aldrei upp samtímis. Ef hann hefði litið upp um leið og hún hefðu þau heilsazt. Nú var það of seint.

 

Fríða hafði oft stolizt til að sjá bátana fara í róður. Enginn vissi að hún stalst stundum upp í litla vitann við innsiglinguna og þaðan sá hún karla, pilta, stráka, vel búna með vettlinga, ýta frá. Þeir bölvuðu og hræktu í sjóinn. Tímunum saman horfði hún nærri dáleidd á baujurnar dúa á öldunum.

Fríða var oft í vitanum þegar þeir komu að. Hún sá hrausta stráka metast á um hver hafði fengið vænstu lúðuna. Hún sá þá tuskast, karpa, kankast á. Það var eins gott að mamma hennar vissi ekki að hún var að horfa á þessa óuppdregnu stráka.

Fríða hafði lesið margar sögur og horfði oft löngunaraugum út í eyju. Þar gæti verið hellir þar sem hægt væri að búa í. Hugsið ykkur Gretti. Hann bjó í Drangey með Illuga. Hún hafði ef til vill lesið of mikið af sögum; sögum um útilegumenn og þess háttar. Skyldi maður ekki þurfa að hafa mikinn kjark til að búa svona einn uppi á fjöllum eða úti í eyjum. Sögur um prinsessur, pell og purpura þótti Fríðu ekki skemmtilegar.

 

Fríða gekk heim Það voru herrar hjá pabba hennar. Húsið var fullt af pípureyk og vindlalykt.

Gunna vinnukona hafði nóg að gera. Dyrabjallan hringdi forstofumegin. Gunna lagaði hárið og leit í eldhússspegilinn (var hún nokkuð með kokkhúslykil?), lagaði svuntuna og fór til dyra. Úti á tröppum stóð Jóna Björns.

-Já, frú, sagði vinnustúlkan.

-Er frúin heima? spurði Jóna.

Mamma Fríðu fór fram: -God dag, frú Gúðmúndsen, sagði hún.

Fríða heyrði erindi Jónu: Hún var að vita hvort nokkuð væri til af gömlum fötum handa fátæku fólki.

-Þjer þekkið mikið af fattigt fólk, frú Gúðmúndsen, heyrði Fríða mömmu sína segja. -En tví miður. Ví har intet þess háttar.

Fríða sá Jónu Björns fara niður tröppurnar. Forstofumegin var járnhandrið; ryðtaumar voru niður með tröppunum utanverðum þar sem pílárarnir voru festir í þær. Fallegt handrið í Guttormssenshúsi.

Fríða var hugsi. Hún spurði Gunnu hvort fátækar telpur gætu ekki notað eitthvað af kjólunum sem voru orðnir of litlir henni.

-Iss, sagði Gunna. -Hvað heldurðu að þær geti notað þunna kjóla? Það er svo kalt í húsunum.

Gunna tók viðbragð. Hún hafði gleymt að bæta á burgeisinn. Hvað ef það væri kulnað. Hvað segði frúin?! Gunna vildi fyrir hvern mun ekki bregðast skyldu sinni. Það var ekki hlaupið að því að fá vist sem þessa. Hún þusti fram, gekk virðulega inn í stofu og bætti á ofninn.

Fríða fór upp á loft í herbergið sitt, opnaði fataskápinn. Þar var fullt af fötum sem hún notaði ekki. Kjólar með ganeringum og pífum. Föt orðin of lítil, föt sem hana langaði ekki til að nota, svarti kjóllinn sem saumaður var á hana þegar afi dó. Hann var orðinn allt of lítill henni.

Fríða náði í tösku. Hikaði. Leit flóttalega í kringum sig, hikaði aftur. Skyldi ekki fátækum telpum þykja gaman að eiga fínan kjól. Fríða fann líka skó sem hún komst ekki lengur í.

Hún skauzt út á götu með skjóðuna. Gunna var örugglega allt of upptekin til að veita því athygli sem Fríða var að gera.

Jóna Björns gekk í þessu niður tröppurnar í Ásgeirshúsi. Hún hafði fengið kaffisopa hjá Elínu í Ásgeirshúsi. Elín hlaut að þekkja Jónu Björns vel fyrst hún bauð henni inn upp á sopa.

Fríða gekk í átt til Jónu. Hvað átti hún að segja? Jóna hafði ekki beðið hana um neitt. Hún gat auðvitað gengið framhjá og látizt bara vera að labba með tösku. Þegar hún kom til Jónu rjetti hún henni töskuna. Jóna horfði á hana, tók við töskunni.

-Jeg er með föt, sagði Fríða, skaut augunum heim að Guttormssenshúsi, eins og til að fullvissa sig um að ekki sæist til hennar.

Fríða hafði ekki ætlað að láta töskuna með en gleymdi að segja það.

 

Hún gekk hnarreist heim á leið. Einhver sigur yfir órjettlæti bjó í hjarta hennar. Maður sér óréttlætið þegar maður er barn, en maður getur lítið gert til þess að breyta fullorðna fólkinu og heiminum. Kannske maður breyti rétt með því að byrja á sjálfum sér.

Fríða sá einu sinni jafnöldru sína fá kinnhest fyrir að hella niður saltkjötssoði. Fríða var í heimsókn þarna í heldrimannahúsi. Hún gat raunar aldrei sagt neinum frá þessu, því mamma Fríðu var búin að banna henni að umgangast Heiði, banna henni að fara í heimsókn til fátækra. En henni þótti gaman að leika sér við Heiði. Heiður var send sem vinnukona í þetta heldrimannahús, og Fríða fór með henni -- bara svona í gamni. Heiður var sett í uppvaskið, eins og venja er. Hún var vön að vinna, var rösk, og hún var ákveðin í að standa sig vel í þessari fyrstu vinnu hjá öðrum. Þegar að pottinum kom hellti Heiður soðinu í vaskinn. Gamall karl á heimilinu stóð upp og löðrungaði telpuna, sem vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Skýringin var raunar sú að flotið átti að storkna, og því mátti ekki hella niður. Saltkjötsflot var notað í viðbit. Auðvitað hafði þessi gamli karl verið svangur í æsku og þoldi ekki að sjá á eftir svo dýrmætu viðbiti í vaskinn, og auðvitað hefur hann verið barinn fyrir minnstu yfirsjón þegar hann var lítill. En Fríðu sárnaði þetta. Heiður var aðeins lítil telpa að reyna að gera vel. Hún gat ekki vitað það sem henni hafði aldrei verið sagt. Það var aldrei til saltkjöt heima hjá henni.

Fríða gekk ákveðið inn í Guttormssenshús. Henni varð hugsað til annars atviks. Það gerðist um vetur. Lítið sem ekkert var um blóm á veturna á Íslandi, og margir voru jarðaðir án þess að möguleiki væri á að finna nokkurt einasta blóm til þess að láta á kistuna.

Lilja var send með rós á kistu. Ein rós blómstraði í stofuglugganum í Hjaltahúsi í febrúar. Guðrún í Hjaltahúsi var góð kona, ljósmóðir og raunar gaf hún fátækum mat, tók veikt fólk heim í sitt hús og hjúkraði. Það var alltaf hlýtt í Hjaltahúsi. Þar voru til kol. Hjalti var duglegur skipstjóri. Lilja var oft send með sætsúpu í potti þegar mikil veikindi voru hjá fátæku fólki. Mamma Fríðu var ekki svona gerð. En Guðrún mamma Lilju gerði svona hluti. Þetta atvik með rósina sem Lilja var send með á kistu, leið Fríðu ekki úr minni. Ljúfsárt atvik: Guðrún sendi Lilju litlu til ekkils Sigrúnar með þessa einu rós sem blómstraði í þessum snjóhvíta bæ, Reykjavík. Sigrún lá á börunum. Lilja fór í skakkt hús. Hún vissi um aðra Sigrúnu sem var nýlátin, og þangað fór hún með rósina. Ekkillinn, tárvotur, þakkaði fyrir og blessaði Guðrúnu í Hjaltahúsi. Þegar Lilja kom heim skilaði hún kveðjunni, og þá komu mistökin í ljós, því mamma hennar spurði:

-Var Guðmundur ekki glaður?

-Guðmundur?, sagði Lilja litla. -Ég fór til Þorkels í Naustum.

Guðrún sagði aðeins: -Jæja. Einhver nýtur hennar. Og hún brosti.

 

Þegar Fríða koma aftur inn í herbergið sitt, fann hún sorgarbandið á gólfinu. Það hafði dottið þegar hún tók svörtu jarðarfararfötin út úr skápnum. Hún tók það upp.

Hún hafði gengið með það saumað á ermina á kápunni sinni í margar vikur eftir að afi dó. Henni hafði þótt vænt um afa.

 

 

Daginn eftir gerði óveður. Mannskaðaveðrið.

Bátarnir höfðu farið eldsnemma í róður.

Skyndilega eins og hendi væri veifað, hafði hann þykknað upp í útsuðrinu. Um hádegi var komið ofviðri, og færðist í aukana.

Sumir bátanna komust að landi; sumra var saknað, einkum þeirra litlu.

 

Dag eftir dag voru gengnar fjörur. Árar og plitti rak á land.

Litla stúlkan stóð í vitanum. Nú var henni alveg sama þótt einhver sæi til hennar. Hún starði út á Flóa, eins og von bráðar kæmi bátur siglandi utan úr grámanum.

Hún kreppti hönd sína um sorgarbandið.

Síðan lagði hún það utan um upphandlegginn. Henni varð litið út að Stóru-Vör. Organistinn hjálpaði fólki að velja sálmana við jarðarfarirnar og minningarathöfnina. Lengra úti með ströndinni var Ytri-Vör. Þar gæti lítil telpa þurft að nota svartan sorgarkjól.

Það grillti í eyna úti á Flóa. Kríu gæti hafa rekið undan veðrinu út í eyju. Kannski var þar hellir sem hægt var að búa í. Hver veit?

Telpan hjelt hönd sinni þjett um sorgarbandið á handleggnum.

Yrði aldrei neitt til að hlakka til framar?

-- oo 0 oo --