FJARSKAGAMAN

ÞEGAR ÉG VERÐ LÍTILL --- (fjarskalítill)

ISBN 9979-598-23-3

 

 

Sagan gerist á þeim gömlu tímum, þegar ekki fóru telpurnar, systur skrýtna drengsins, á sjó með pabba sínum. Pabbinn verður að róa einn, því hann á ekki son, utan þennan skrýtna. Hann á bara stelpur og skrýtinn dreng. Pabbinn er stór, kraftalegur, þrekvaxinn, dugnaðarlegur. Skrýtni drengurinn líka.

Við sjáum allt fyrir okkur fátæklegt, fornlegt, baslaralegt, hrörlegt. Menn eru óupplýstir, en þeir eru samt kátir. Allir nema pabbinn. Hann er dapur og drungalegur vegna örlaga sinna.

Eitthvað skrýtinn" drengur situr á steini -- einn uppi í brekku eða uppi á hól eða hæð. Útsýn þaðan er yfir sjóinn, út fjörð eða flóa.
Í fjörunni er naust eða uppsátur í vör.

Skrýtni drengurinn horfir út á sjóinn. Hann er stór miðað við aldur, og mjög kraftalegur strákur. Drengurinn heldur á hamri, venjulegum nútímalegum klaufarmri. Er raunar með hann í kjöltu sinni.

(Þetta er að vísu tímaskekkja, en til þess að gera fáránlega sögu, þarf asnalega hluti strax í upphafi hennar; það voru alls ekki til svona klaufhamrar þegar þessi saga gerðist. Við gætum eins haft strákinn með kók til þess að búa til enn skýrari tímaskekkju.)

Skrýtni drengurinn er með eitthvert skrautklæði, e.k. skikkju, á herðum sér svo hann stingur í stúf við sauðsvartan almúgann, vinnandi fólkið í kringum hann og karlmenninasem klæðast síður en svo litríkum yfirhöfnum við að róa til fiskjar.
Þessi klæðaburður drengsins virkar í fyrstu eins og hann sé meira en lítið skrýtinn, blessaður drengurinn. “Örðuvísi". M.ö.o.: hann “passar ekki inn í" umhverfi sitt.

Skrýtni drengurinn er gyrður breiðu belti.
Gyrðill sá þjónar ekki þeim tilgangi að halda uppi buxunum. Hann er eingöngu til skrauts að því er virðist.
Steinninn, sem strákurinn situr á, er nánast eins og hásæti.
Sá skrýtni er með glófa á höndum sér. Steingráa, eða frekar silfurlita, prjónavettlinga þófna mjög.

Skrýtni drengurinn horfir á þegar menn ýta frá skor. Pabba sinn, einan á báti, sér hann róa út fjörðinn.

Skrýtni drengurinn pírir augun. Hann lyftir annarri hendi beinum armi í sjónlínu fyrir framan sig, horfir á bátinn milli þumals og vísifingurs, eða raunar milli þumalsins á vettlingnum og belgsins á vettlingnum.
Hann brosir, því það er eins og hann sjái bátinn -- pínulítinn -- á milli fingra sér.
Hann lætur höndina síga. Horfir enn á bátinn með augun pírð.
Aftur lyftir hann hendinni og horfir á bátinn milli tveggja fingra sér. Það er eins og hann haldi á bátnum milli puttanna ef hann passar að vera alveg alveg kyrr.

Bátarnir fjarlægjast enn meir. Verða loks að smá ögnum úti við sjóndeildarhring.

Þegar bátarnir koma að löngu síðar, situr skrýtni drengurinn enn á sama stað á steininum sem er eins og hásæti.

Bátarnir stækka milli fingra hans eftir því sem þeir nálgast.
Hann gerir þetta á hverjum þeim degi sem róið er.

Það er ósköp eðlilegt að hann reyni að finna sér eitthvað til að dunda sér við, því enginn nennir að skipta sér af honum. Menn nenna ekki einu sinni að atast í honum eða stríða honum. Að vísu nennti einn gamall maður að segja honum einhverjar sögur úr bók sem hann kallaði Snorra-Eddu, og kvæði úr annarri sem hann kallaði bara eddukvæðin sín. En sá gamli maður er nú horfinn ströndum. Hann lá í kör í mörg ár og enginn mátti vera að að hlusta á rausið í honum nema þessi skrýtni drengur sem við erum að tala um. Þessi gamli maður var alltaf amlóði að mati annarra. --- Var að lesa! Hver gat látið bókvit í aska á þessum tíma?

Krakkar í þessu plássi leika sér aldrei. Allir vinna. Ekki síður krakkarnir en hinir fullorðnu. Þau eiga engan frítíma til þess að geta leikið sér. Þau detta útaf á kvöldin um leið og þau komast uppí, og ef þau ætla að reyna að leika sér er þeim strax fenið verkefni, úti eða inni.

Vangefni drengurinn á þrjár systur. Þær eru sívinnandi eins og allir aðrir. En þær fara ekki í róður.

Drenginn langar mjög mikið til að fara með pabba sínum á sjóinn.

Hann fer niður í naust einn morguninn og fer að burðast við að hjálpa pabba sínum við að hrinda á flot. Svo gerir hann sig líklegan til þess að fara um borð.
Pabbi hans leyfir honum sko ekki að fara með.
Allir hlæja að tilburðum vangefna drengsins við að reyna að komast um borð. Hann heldur í borðstokkinn og vill ekki sleppa.
Pabbinn hlær ekki.

Bátum er hrint á flot hverjum af öðrum. Í þeim eru aðrir pabbar, og þeirra synir fá að fara með á sjóinn, og raunar verða að fara með. Þeir eru bara ósköp venjulegir strákar.

-Þú verður að ná þér í beitu, drengur, ef þú ætlar að láta bíta á hjá þér, segja karlar, og þeir róa hlæjandi brott. -Þú færð að róa, þegar þú kemur með beitu, kalla þeir í land. Ekki samþykkt, Hafliði?, kalla þeir til pabba skrýtna drengsins.

Pabbinn játar því með semingi, með þögulli höfuðhreyfingu, -- sem raunar gæti alveg eins skoðast sem neitun eða ekki neitt, -- þungur á brún.

-....... Og stóran öngul og færi, Þór, kalla hinir í land, hlæjandi, svo þú kafnir nú ekki undir nafni. Ása-Þór verður að standa sig.

Strákurinn stendur í naustinu eftir að hafa séð alla hina strákana ýta úr vör með sínum feðrum, en hann verður að verða eftir í landi.

Allir róa út.
Hafliði að sjálfsögðu einn að vanda.

Þór (skrýtni drengurinn) sér pabba sinn minnka og minnka, þegar hann fjarlægist á bátnum.
Sömuleiðis minnka allir hinir bátarnir, og strákarnir sem fá að fara með, feðurnir sem róa út. -- Smækka og smækka og verða að smádeplum í fjarska úti við sjóndeildarhring.

Þór horfir á úr landi.

Beitu", hugsar hann. “Ég þarf að fá mér beitu, og þá fæ ég að fara með."

Hann horfir í kringum sig. Kemur auga á naut í girðingu. Hann gengur að nautinu og horfir í augu þess. “Beitu", hugsar hann. Hann tekur í horn nautsins og snýr það niður, hálsbrýtur það og rífur af því höfuðið.

Stóran öngul -- og færi", tautar Þór með sjálfum sér.

Hann rambar upp í hlíðina.

 

 

Feður og synir koma að með fisk. Þessir menn kunna að sæta lagi. Láta ölduna bera bátinn út og láta ölduna bera bátinn upp í fjöru, en svo þarf að toga bátana á þurrt. Þeir hjálpast að.
Þór horfir á ofan úr hlíðinni þar sem steinninn góði, hásætið hans, er.
Niðri flæðarmálinu er mikið slor og mikið vos. Menn eru blautir og þreyttir og óhreinir af blóði og slóg og hreistri. Mikil vinna og mikið erfiði, en ánægja með að hafa nóg að borða.

Allir eru of önnum kafnir til að taka eftir skrýtna drengnum uppi í hlíðinni. Jafnvel hans eigin faðir, sem verður að láta dætur sínar, grannar og beinasmáar, og konuna, granna litla og ekki sterka, koma niður í fjöru með börur og fiskkörfur, meðan aðrir eiga syni, - heilbrigða syni, sem fara á sjó, bera aflann heim. Það er ekki mikil upphefð í, að þurfa að hafa þetta svona. Róa einn og láta kvenmann og stúlkubörn bera aflann með sér heim.

Þór er ekki örvaður til vinnu. Hann er bara þarna, engum til gagns, og enginn hefur hugsun á að kenna honum eitt eða neitt. Menn nenna varla lengur að henda gaman að tilburðum hans.
Tilfinningaleysið gagnvart honum og gagnvart tilfinningum foreldranna og systranna er algjört.

Næsta dag í morgunsárið, þegar róa á á miðin, rogar Þór blóðugum nautshausnum í fanginu niður í vör.
Hann gerir sig líklegan til að fara um borð með pabba sínum.

-Þú ert ekki með beitu, segja menn.
Þór stendur og horfir spyrjandi á pabba sinn, svo á nautshausinn.
Menn byrja að hlæja: -Nú, hann er kominn með beitu, drengurinn.

Þú getur ekki gengið á bak orða þinna, Hafliði. Einkasonurinn verður að komast á sjó með föðurnum. Hann er kominn með beitu, öngul of færi, drengurinn. Það á greinilega að draga hákarla í dag. Nú þarf að fiska ef í ljós kemur að það hafi verið nautið hann einkasonur þinn sem olli dauða nautsins en ekki nautsterkur draugur eins og Hagall ríki hélt í gær."

Þór situr á fremstu þóftu, eiginlega í stafni eða alveg við hvalbak, mjög kátur á svip og spenntur af tilhlökkun. Hafliði rær kröftuglega.

Strákurinn er með nautshausinn í fanginu, spyrnir fótum í botn bátsins, innanverða kinnungana.

Hafliði rær og rær. Langt út á mið.
Þór veit, að séð úr landi, þegar þeir fjarlægjast, smækka þeir og smækka. Báturinn verður að smádepli í fjarska úti við sjóndeildarhring.

Hafliði hættir loks róðrinum og tekur inn árarnar.
“Lengra", muldrar Þór.
Hafliði þykist ekki heyra.
“Lengra", muldrar Þór.
Hafliði þykist ekki heyra, en tekur upp færi beitir sinn öngul og fer að skaka.

Þór tekur úr vasa sínum hákarlaöngul og sterkt færi, setur nautshausinn á öngulinn með klunnalegu handbragði, en ákveðinn á svip.
Þór rennir út beitunni sinni: nautshausnum.

Pabbi hans skakar og skiptir sér ekki af drengnum. Gjóar kannski til hans augum, eða lítur hann hornauga. Þór veit að nú eru þeir eins og smádepill í fjarska úti við sjóndeildarhring.

Eitthvað virðist nú hafa bitið á hjá drengnum.
Hann togar og togar.
Hann spyrnir við fótum í botn bátsins (í innanverða kinnungana). Það marrar í og svigna langbönd.

Þór halar inn og halar inn með pústrum miklum. Glófar hans verða sjóblautir af færinu. Beltið hans virðist vera að springa utan af honum, svo mikið tútnar hann við átökin.

Hafliði kemst ekki hjá því að taka eftir. Hann starir á aðfarirnar. Báturinn er meira segja farinn að hallast ískyggilega framá. Það er engu líkara en strákurinn ætli að spyrna niðurúr. Þá myndi inn fossa sjór.

Það má segja að Hafliða sé ekki orðið um sel.

Ja, það má nú bara segjast eins og er: Hann er skíthræddur.

Eitthvert risastórt flykki byltir sér í sjónum og nálgast stefni eða kinnung bátsins.
Skrímslið kemur aðeins upp úr sjónum rétt hjá bátnum, og steypir sér í hafið aftur. Það lítur út eins og sjálfur Miðgarðsormur í fyrstu.

Strákur togar.

Það er mikill öldugangur. Bátskelinni verður greinilega ofboðið með frekara framhaldi þessa fíflaskapar.

Nú sér Hafliði að þetta skrímsli er risastór grár þófinn vettlingur, sem bitið hefur á hjá strák. Vettlingurinn tekur bátinn upp og lyftir honum.
Og strákur hlær.

Hafliði öskrar: -Láttu okkur niður, hálfvitinn þinn! Láttu okkur strax niður.!!!

Hafliði tekur upp hníf, og .......

...... og sker á færið hjá stráknum.

Vettlingurinn sleppir bátnum og steypir sér í hafið með mikilli skvettu svo pusið gengur yfir þá feðga og inn í bátinn sem hálffyllir svo plittin fljóta upp.
Hafliði er öskrandi reiður.
Strákur er lunkulegur á svipinn og tautar: “Lunkubragð".

 

 

 

Við sjáum nú Þór sitjandi á steininum sínum í hlíðinni.
Vettlingurinn hans rennandi blautur.
Hann glottir, ánægður á svipinn, - sigri hrósandi. Horfir úr á sjóinn.

Við sjáum báta í fjarska, agnarsmáa úti við sjóndeildarhring.

Hafliði reri nú einn á báti í dag.

Þór dettur í hug að gaman væri að rétta út höndina núna og taka litla bátinn og litla pabbann á milli þumalputta og vísifingurs, og lyfta honum aðeins upp. En hann lætur sér næga að horfa á litla bátinn milli fingra sér. Og hann hlær.

 

***********