HNALLUR OG SPÓI

ISBN 9979-895-09-8

Sagan er um vináttu,
um hyskni og samviskusemi,
og um það að ekki er nóg að vera klár ef engin ábyrgð fylgir gjörðum manns.

Þessir tveir strákar eru góðir vinir og kemur alltaf vel saman, en þeir eru svo ólíkir að með endemum þykir.
Annar er stór, feitur, ljóshærður með blágrá augu. Honum gengur svosem ekkert allt of vel í skólanum, en hann gerir allt samviskusamlega sem hann þarf að gera. Hann heitir nú eiginlega Hallur, en einhverra hluta vegna er hann alltaf kallaður Hnallur.
Hinn er lítill og mjór, dökkhærður og hvasseygur spóaleggur. Hann er alltaf kallaður Spói, þótt hann heiti raunar Jói. Spóa gengur mjög vel í skólanum og þarf eiginlega aldrei að hafa neitt fyrir neinu sem hann tekur sér fyrir hendur.

En vel eiga þeir saman, vinirnir.

       

Þið ættuð til dæmis að sjá þá þegar riddaraslagur er í skólanum: Þegar Hnallur er hesturinn en Spói riddarinn eru þeri ósigrandi. Hnallur er svo sterkur og Spói svo snöggur.

Svo versnar nú í því þegar skipta á um hlutverk; riddarar eiga að vera hestar og hestar riddarar.

Þá komast þeir nú eiginlega aldrei af stað.

 

Þeir eiga sér sameiginlegt áhugamál, vinirnir. Þið megið geta hvað það er.

Já, hestar. Þegar Hnalli og Spóa áskotnast peningar í afmælisgjöf eða vinna sér inn með blaðasölu, eyða þeir því nær samstundis í reiðnámskeið. Þeir eru orðnir öruggir með að tolla á baki, og þaulæfðir í að beisla, leggja á og hirða hestana.

Spói er spengilegur á hestbaki. Hann ríður jafnan fremst í hópi, þar eð hann er svo fljótur að skilja hvaða leið á að fara.

Hnallur er að vísu ekki sérlega reffilegur á baki. Satt best að segja minnir hann helst á taðpoka. Hann rekur jafnan lestina,

en hann fékk fljótt það hlutverk að hjápa þeim krökkum sem ekki ráða vel við hestinn sinn.

 

 

 

Alltaf þegar færi gefst fylgjast þeir með Jóni tamningamanni við vinnu sína.
Nú er Jón að bandvenja ungan fola. Þeir fylgjast vel með hvernig Jón lætur hestinn hlaupa hring eftir hring í löngu bandi.

Hnallur og Spói vita ekki að Jón vantar einmitt krakka í vinnu fyrir sumarið til að hirða hesta. Hann hefur enn ekki fundið neinn sem hann vill ráða til sín.

Þeir horfa á þegar Jón fer á bak tömdum hesti og teymir folann í gerðinu.

En folinn er fremur þungur í taumi. Jón veit að vinirnir tveir hafa mikinn áhuga á hestum og kallar því til þeirra. -Strákar, vill ekki annar ykkar ríða á eftir folanum fyrir mig? Þið beislið og leggið á jarpa klárinn.

Þið getið ímyndað ykkur að drengirnir verða kátir. Þeir mega aðstoða við tamningu.

Spói er auðvitað viðbraðgsfljótari og stekkur af stað, en tekur ekki eftir því að tamningamúll fellur niður um leið og hann stekkur.Hnallur tekur múlinn og hengir hann aftur upp. Gengur að því búnu til Spóa.

Þeir leggja í sameiningu á Jarp, og Spói fer á bak. Hnallur lokar vandlega neðri hurðinni. Sú efri stóð opin til að lofta út úr húsinu.
Jón fylgist með öllu sem þeir gera.

Spói ríður til hans.

Ekki líður á löngu þar til Jarpur er kominn upp að hliðinni á folanum. Þá segir Jón ákveðinn: -Ég sagði á eftir folanum. Þú þarft að fylgja fast eftir alla króka og hringi sem ég fer.

En nú skulið þið skipta, segir Jón.

-Hnallur fer á bak Jarpi.

En langar þig ekki, Spói, til að brynna hryssunni í ysta húsinu fyrir mig? Byttan hennar er stífluð. Skjólan hangir í hjallinum við lækinn. Spói er fljótur að skilja og langar auðvitað til að vatna merinni.

Hnallur hefur alltaf þurft að taka verkefni sín föstum tökum og beita sér við það sem honum er falið. Hann er ekki einn af þessum lánsömu mönnum sem allt virðast geta fyrirhafnarlaust. Hann hefur því stöðugt í huga: -Ríða á eftir, fylgja fast eftir.

Baldni folinn heyrir stöðugt í Jarpi á hælunum á sér og skokkar því léttilega í taumi hjá Jóni.

-Já, segir Jón að lokum . -Haltu nú í hann fyrir mig. Við skulum hvíla hann aðeins.
-Þegar verið er að temja, þarf maður alltaf að vera mjög skapstilltur, en temja sér samt röggsama og ákveðna framkomu.
Hnallur horfir beint framan í folann og prentar af öllum kröftum inn í heilabúið; skapstilling, röggsöm og ákveðin framkoma.

Spói vatnar hryssunni. Bísn sem hross getur drukkið í einu. Hann er búinn að bera eins mikið vatn og hann getur rogað en það virðist varla nægja.

Spói virðir fyrir sér folaldið meðan hryssan drekkur.
Þegar Jón gengur hjá, er merin þó búin að drekka nægju sína.
-Hún fer nú ekki sjálf á sinn stað, skjólan, segir Jón.
-Nei. Auðvitað ekki, svarar Spói. -Ég skal hengja hana út í hjall.

-Langar ykkur til að hjálpa mér meira, strákar? spyr Jón.
Og hvort þeir vilja!
-Viltu þá, Spói, taka við taumunum hjá Hnalli. Haltu í folann alveg rólegur en ákveðinn. Hann er dálítið frekur þessi, fer það sem hann kemst. Láttu hann ekki vaða ofan í þig.

 

En nú skulið þið heyra hvað kom fyrir:

Folaldsmerin finnur vorið í loftinu. Spói hefur lokað neðri hurðinn, eins og þið sjáið, og fingurnir hans hafa sett hespuna á kenginn, en sjáið þið hverju hann hefur greymt? Já, að skjóta lokunni í.

Þetta er því að kenna að Spói hefur í raun aldrei tekið neitt verkefni alvarlega. Allt hefur eiginlega komið af sjálfu sér. Hryssan þarf ekki anna en ganga þétt að hurðinni.

Auðvitað lætur huðin undan og opnast. Hross eru nú einu sinni hross. Vorloftið er svo tælandi eftir langan vetur á húsi. Hún ákveður að viðra sig og folaldið sitt.

Jón og strákarnir koma auga á þetta óheppilega atvik, sem ekki hefði átta að eiga sér stað.


Spóa bregður heldur illa. Hann getur ekki munað betur en hann hafi lokað.
Svona er að nota ekki heilann, hugsa aðeins með puttunum.

Spói bindur ótamda folann í snatri við staur, og fer að hjálpa Jóni og Hnalli að komast fyrir hryssuna og folaldið og reka þau aftur í húsið.

En folinn ungi fælist.
Hann hefur aldrei fyrr verið bundinn við staur.............

...........og er búinn að flækja annan framfótinn í taumnum.

Spói rekur sig á það nú í fyrsta sinn á æfinni að ekki er alltaf hægt að treysta því að allt komi af sjálfu sér. Í þessu starfi þarf að hugsa og hafa athyglina vakandi. Hér eru verkefni, alvöruverkefni, sem Spóa langar til að takast á við.

Jóni tekst brátt að róa folann á ný.

Síðan segir hann við strákana: -Ég hef verið að leita að krakka til snúninga við hrossin í sumar. Mig vantar traustan verkmann og samviskusaman. Hefur þú ráðið þig nokkuð í sumar, Hnallur? Launin verða að vísu ekki mjög há, en þú munt læra mikið í sambandi við hesta, ef þú vilt taka þetta að þér.

-Þetta væri það skemmtilegasta sem ég gæti hugsað mér, svarar Hnallur, -en heldurðu að ég ráði við þetta starf? Og svo, -- svo þætti okkur ofsalega gaman að fá að vera báðir saman. Við gætum skipt kaupinu á milli okkar.

Og þetta verður úr. Jón ræður þá báða til sín. Spói segist sko ætla að hafa hugann við allt sem hann þarf að gera. Aðalatriðið er að læra að temja sjálfan sig.

- - -    - -

Þetta mun verða yndislegt sumar. Þeir læra að vekja traust hestanna á sér með hiklausri en rólegri framkomu. Hnallur verður reffilegri á baki með hverjum deginum sem líður, því þeim verður oft falið að hreyfa tamda hesta, sem þarf að halda í þjálfun.

Það er að vísu ekki sérlega skemmtilegt að moka út taði og heyrudda. En hvaða starf hefur ekki bæði skemmtilegar og leiðinlegar hliðar, sem þó verður að rækja jafn samviskusamlega?


Þetta mun verða yndislegt sumar.

-- oo 0 oo --