ISBN 9979-895-32-2

HRIF

 
Árla fer hún framúr
lítil smalastúlka í seli
að sækja ærnar
því mjalta skal um miðjan morgun

Úti glitrar lyngið af dögg bjartrar óttu
Fölgrænn fæðist morgunninn handan fjalla

Aldrei má vanta eina ánna,
aldrei neina ána
Gröm mun þá Gunna vinnukona:

Ef týnirðu, stelpa, einhverri ánni
engan færðu hjá mér árbít.
Svöng skaltu leita
þar til þú finnur
allar ærnar,

eða þú færð að kenna á vendinum vonda

 

Dag eftir dag, sumarlangt
á hverjum morgni
á hverju kvöldi
stekkur lítil smalastúlka
stein af steini
þúfu af þúfu
og skyggnist eftir ánum

Blærinn vekur dögg á bjarkalaufi
og hlær
er döggin hripar
eins og kristalskorn
í votan, grænan svörð

Allar renna ærnar heim í selið
Golsa fyrst

Nú verður ekki Gunna vinnukona byrst

Lítil stúlka stekkur stein af steini
þúfu af þúfu
Fyrir dagmál mun mjaltað í kvíum
grasi grónum færikvíum

 

Lömbin bera svangan um sumardag langan
munn sinn og maga
á mosaþúfu
fjarri sinni móður
sem mjólkuð er heima

Reka litla snoppu í döggvaðan svörð

 

Fölgrænn fæðist morgunn handan fjalla

 

Mjólkar hún Gunna vinnukona
í grasi grónum færikvíum

Mjólkin skal komin inn fyrir dagmál;
osta og skyr og smjör á að gera

 

Smeygir í froðuna fingri hún Gunna
og smellir í ullina mjólkurfroðu
þá veit hún Gunna vinnukona
hverjar ánna hún hefur mjaltað

 

Merkt er hún Golsa froðudjásni

Góð var nytin
en frek er kindin

Frek er forystukindin

Og rösk er hún Gunna vinnukona

 

Heim á bæ skal svo góðgætið fara
þegar sendur verður Gvendur
að sækja í selið

Um miðaftan er hann sendur hann Gvendur
(hér kemur hann Gvendur)
að sækja í selið

 

Ískaldur jökull blasir
í skarði blárra fjalla

Ærnar kroppa ánægðar stráin græn

Heit og höfug er sídegissól

Lítil stúlka í bryddum skóm
gengur upp í gilið
gljúfrabúann til að sjá

Þungbúinn starir hann ofan dalinn

Þungbúinn starir gljúfrabúinn ofan dalinn

 

Talar við lækinn sinn lítil stúlka
rennur höfgi á bjarta brá
í tærum dropum
speglast draumar

Draumar
sem teygja sig brosandi
með ýru fossins upp til skýja
Þar situr hún móðir mín
og kembir ullu nýja

Þar situr hún móðir mín

 

 

Dreymir að týndur sé skórinn dýri í grjóti í urð
Dreymir að leiti hún lengi lengi í gjótum

í klungri

Hugarvíl
sorg í sefa

Flýgur hrafn einn til sjávar

 

Dreymir að köld sé nótt
rök og drungin

alein stúlka
týndur skór

Þögull flýgur hrafn einn til sjávar

 

Og fossbúinn kveður furðuþulur
um leyndarmál margra margra smala

Þylur fossbúinn
furðusögur
sögur með vængi
sögur sem amma sagði
um gersemar blárra hulduheima
um háa sali
djásnum prýdda,
álfadrottning
alls nægtir

Í álfheimum er stiginn dans í silfri mána

Stiginn er þar dans í silfri mána

 

 

Dreymir að komi
fríður drengur
á álfafáki
fífilbleikum
fráum:

-Ég veit hvar skóinn þinn er að finna
í gjótu í klungri við skófaklettinn

Stígðu á bak þeim fífilbleika

Hripa mun dögg af bjarka laufi
er ríðum við hratt um skóginn.

Vaknar hún ein hjá lækjarnið
Flaug hjá þröstur
svo þaut við í runn

 

Var þetta draumur?
Veruleiki?

Hvar er nú huldusveinninn fríði?

Gyllir fjöllin himinhá
og sveipar gulli dal og hól
sumarsól

Á fætur fer hún árla á hverjum morgni
lítil smalastúlka í seli
að sækja ærnar

 

Stígur nettum fæti á skófakletta
og skyggnist eftir ánum
Hrímhvít þoka læðist dalinn

Í þokunni sér hún kynjamyndir
sem heilla
sem seiða

Í þokunni myndir.

 

-Engan fæ ég bitann
ef ég finn ekki ærnar
Gröm mun hún Gunna vinnukona
Ota mun hún vendinum vonda

Hrímhvít þoka læðist dalinn

Lítil stúlka í bryddum skóm
stígur nettum fæti á skófakletta
og skyggnist
skyggnist eftir ánum


 

Veit hún
að hratt ríður huldusveinn um skóginn?

Hrímhvít þoka læðist dalinn
fölgrænn morgunn fæðist handan fjalla

Búa í þokunni kynjamyndir
annarra heima
ljúfra drauma

Búa í þokunni myndir

Ríður um bjarkaskóg drengur?
huldudrengur
álfafáki fífilbleikum
fráum
sem nema kann brott úr mannheimum
litla stúlku
sem skyggnist eftir ánum?

 

Í hrímhvítri þoku birtast kynjamyndir
sem heilla
sem seiða

Skógurinn glitrar af dögg
sem blærinn vekur af draumi bjartrar óttu

Það er sem þeysi huldusveinn um skóginn
sem hratt ríði huldusveinn um skóginn

Hratt ríður huldusveinn um skóginn

 

Skógurinn sem fax á álfafáki flaksi
- fax á vindóttum hesti flaksi -

 

Hripar döggin í votan svörð

Skynjar í brjósti sér unga þrá

Hratt ríður huldusveinn um skóginn

 

Fráum ríður huldufáki
Þýtur blær í bjarka laufi
Hugurinn sem öldurót
Brátt mun folinn fífilbleiki
ná á skófakletta
þar sem smalastúlka
úr mannheimum
stígur nettum fæti
í bryddum skóm
og skyggnist eftir ánum

Fölgrænn morgunn fæðist handan fjalla

Fölgrænn fæðist morgunninn handan fjalla

 

Hugfangin bíður smalastúlka
Fangin af þrá
og blíðum draumum
heilluð af sögum um aðra heima

Hratt ríður huldusveinn um skóginn.

 

Horfast í augu

Frýsar foli
hrímbleikur

Krafsar foli
fífilbleikur
óðfús að hlaupa
óðfús að hlaupa í álfheima

Máttu stíga á bak álfafáki,
stúlka litla?
Leitaðu að ánum !

Aldrei munu mannheimar þínir heimar
aldrei muntu mannheima aftur gista
ef stígurðu á bak þeim fífilbleika!

Hugur þinn sem öldurót

 

Frýsar foli óðfús að hlaupa
í álfheima.

Aldrei muntu mannheima aftur gista !
Smalastúlka !
Muntu mannheima aftur þrá ?

 

Hripar dögg
af bjarka laufi

Flaksar fax
á álfafáki

Blærinn hlær
í birkiskógi

Skýjabakki
á vesturhimni

 

Frýsar foli óðfús að hlaupa í álfheima

Hratt ríður huldusveinn um skóginn

 

Langt er til álfheima blárra hamra
Skeiðar sá bleiki með byrði dýra
Logar vesturhiminn und skýjabakka

Bláir hamrar uppljúkast
Heimfúsum hleypir sveinninn ungi
reiðskjóta fráum í hulduheima

 

Þar bíða gersemar gamalla sagna
sem amma sagði samlastúlku:
gersemar fjarri veruleika
óhöndlanlegar
hugarheimar
háir salir djásnum prýddir
álfadrottning
alls nægtir

Stiginn mun dans und skörðum mána

Lítil stúlka í bryddum skóm
stígur nettum fæti í hulduheima

Lítil stúlka úr mannheimum
í álfheima

Þar leikur huldudrengur sér
að kristalskornum

sem hripa úr greipum hans
eins og hverful von
sem fýkur með blænum yfir blómin.

Má snerta drauma?

Má huldudreng finna?

Má grípa
í hönd sér
ljúft
lokkandi tál?

Hvernig verða
hugarheimar
höndlanlegir?
veruleiki?

Ljúft er að njóta - hætta að hugsa -

er flauelsmjúkt húmið
kyssir geisla kvöldsins góða nótt
svo þeir slokkna í söltu ölduróti

----------------------------------------

 

 

- - o o O o o - -