Þetta er mitt hús

ISBN 9979-895-48-9

 

Máninn lætur sér hvergi bregða
þótt fölgrænn morgunn fæðist handan fjalla
Undir tindrandi vetrardjásni
bíður lífið eins og fóstur í móður jörð.

 

Þöll spilar á fagottið sitt og semur ljóð. Þegar hún spilar koma ljóðin. Hún horfir út um gluggann á litla gamla húsinu, á trén í vetrarbúningi -- og út á sjóinn.
Hér var hún alin upp hjá afa og ömmu. Nú er amman dáin. Nú býr Ari hjá henni. Nú býr Ari hér hjá þeim.

Afi er frammi á verkstæði að smíða. Hann er að smíða litla skemla.

Allt sem hann gerir verður svo fallegt. Það er einhvern veginn ekki hægt að orða það, -- kannski: það stendur í fæturna,. Já. Þá stendur í fæturna.
Hlutirnir hans standa á gömlum merg. Hann hefur tilfinningu fyrir því sem hann smíðar.
Alúð.

Já. Alúð.

Sendiferðabíll nemur staðar fyrir utan. Kona stígur út og bankar á verkstæðisdyrnar. Ólafur snýtir sér og fer til dyra.

-Já. Þú ert að sækja borðið, góða.

Ólafur gefur sér tíma, paufast yfir að hrúgu af gömlu drasli, flytur gamalt borð út á gólf og virðir það fyrir sér, rennir fingri yfir brúnina.

-Ég geri ráð fyrir að viðgerðin sé þarna megin, segir konan og hlær, -fyrst þú strýkur þumlinum svona smiðslega yfir borðbrúnina þar megin. Annars hefði ég ekki getað sagt hvor megin hún væri.
Hvað skulda ég þér?
Þetta er alveg stórkostlegt ! Ég skil ekki hvernig galdra þú notar. Eldgamlir hlutir fá nýtt líf.

Ólafur hummar. Honum líkar ekki hól. Oflof er ekki að hans skapi.
-O. Ætli þetta verði ekki 100 krónur, góða, segir hann.

-Nei, Ólafur. Þetta er nú ekki hægt.
Veistu hvað ég borga stráknum á sendiferðabílnum? Þú tekur minna fyrir viðgerðina en ég borga fyrir flutninginn. Þetta gengur ekki upp. sérðu?

-Ætli það væri nú ofverkið hans, segir Ólafur, -að flytja eitt borð fyrir þig, án þess að þiggja peninga fyrir.
Og það hnussar í gamla manninum.

-Maður fær nú ekki svona þjónustu ókeypis, Ólafur minn.

-Ja, það verður erfitt fyrir þessa hvolpa að takast á við lífið seinna meir, tautar Ólafur, -ef þeir læra ekki að hjálpa náunganum. Það væru nú ekki ofverkið hans að flytja þetta milli húsa.

-Ég tek ekki í mál að borga svona lítið, segir konan og leggur peningana undri gamla límdós uppi á hillu, --- límdós sem orðin er að listaverki eftir áralanga notkun, þar sem límið hefur hlaðist utan á barmana, lag eftir lag, ár eftir ár, lag eftir lag, í hvert skipti sem pensillinn hefur verið dreginn upp og sleikt af honum á börmunum. Í þessa límdós er þolinmæði og æðruleysi greypt. Æðruleysi.

-O, sussu nei, góða mín. Það var ekki nema gaman að geta gert þetta úr því að ég átti brúklegt efni.
Ég þarf engar ölmusur. Ég hef alltaf séð fyrir mér og mínum.

-Hey, hvað er nú þetta hérna? Hvað er þetta eiginlega?

Konan virðir fyrir sér lítinn hlut úr tré.

Hér er eins og tíminn breyti um hraða. Allt í einu liggur ekkert á, þótt sendiferðabíllinn bíði fyrir utan. Allt í einu er eitthvert annað tempó í tilverunni. Lítill hlutur úr tré, handunninn, veldur einhvers konar tímahvörfum: -Hey, hvað er nú þetta?

-O, þetta eru nú skóþrælar, væna mín.

-Skóþrælar?
Hvernig á að nota þetta?

-Þetta á nú að vera svona á gólfinu, sjáðu. Svo stígur maður á, svona, með öðrum fætinum. Smeygir hælnum á stígvélinu á hinum fætinum svona, sko, hér inn í. Og þannig dregur maður stígvélið af sér.

-Svona vantar mig einmitt í sumarbústaðinn, segir konan. -Viltu selja mér einn, eða varstu búinn að lofa þessum?

-Þér er velkomið að fá einn, væna mín.

-Súper!, segir konan og lætur fleiri seðla undir límdósina á hillunni.

Strákurinn á sendaferðabílnum opnar dyrnar: -Heyrðu, er þetta nokkuð að koma? Er það þetta?

Hann rekur borðið brussulega í og bölvar: -Æ, andskotans.

Ólafur verður byrstur: -Í þessu húsi er ekki bölvað, væni minn.

Þöll situr inni í stofu í litla gamla húsinu og spila á fagottið sitt.
Kisa sefur í stól.
Þegar þöll er ein spilar hún á fagottið sitt. Þá koma ljóðin.

Aldan skolar glitrandi geislum að landi.
Fölur vetrardagur er aðeins morgunn og kvöld
á fjallatoppum í suðri.
Regnblaut þök húsanna eru úr silfri
í vetrarsólskininu.
Dansa ekki álfarnir á nýjársnótt, mamma?

Yfir hugarvelli þeysa bláir villtir hestar,
jóreykur þyrlast yfir fölgrænan vetrarhimin,
og svartbakurinn hlær eins og maður.

Það dansa ekki álfar í blokkum, litli vinur.

 

Svo fer Þöll að hella uppá könnuna fyrir afa sinn.
Þegar hún kemur með kaffið er Ólafur enn að tauta:
-Þessir strákhvolppar. Huðh. Ekki væri nú ofverkið hans að flytja eitt borð fyrir hana þessa ágætis konu, án þess að þiggja peninga fyrir.

 

Ari komur heim úr vinnunni um kvöldið. Hann leggur teikningar af blokk á borðið:
-Við fáum íbúðina á efstu hæð, Bolla mín.

Þöll hálfhvíslar: -Afi vill ekki fara úr þessu húsi, Ari. Afi hefur sjálfur smíðað þetta hús. Hann afi hefur búið hér svo lengi.

Ari fórnar höndum: -Afi, afi, afi. Heldurðu að skipulagið spyrji um hver hefur smíðaða aflóga hús sem á að rífa? Við getum ekki búið í þessum kartöflukofa alla tíð. Þöll. Þú sérð það sjálf. Það sem einu sinni var kartöflugarður er nú byggingalóð.

-Æ, Ari minn. Okkur líður svo vel hérna. Er ekki hægt að hafa þetta bara svona?

-Hann fær verkstæðispláss í kjallaranum í blokkinni, segir Ari. -Hann verður hér á þessum sama stað. Hér!!! Þú verður að tala við hann um að svona verði þetta að vera. Reyndu nú að tjónka við hann og það sem fyrst. Þú verður að takast á við raunveruleikann, elsku vina mín.
Viltu sjá teikningarnar? Sjáðu.

Ólafur kemur í gættina á stofudyrunum.: -Var verið að kalla í mig? Er kominn matur?

-Já, afi minn. Það er að koma matur, svarar Þöll.

 

 

Eftir kvöldmat fer Ólafur aftur fram að smíða.

Ari les íþróttablaðið.
-Ég er að fara á æfingu í kvöld, Bolla mín.

-Já, vinur.

-Verst að geta ekki tekið strákinn sinn með.

Þöll lítur upp og brosir: -En ef það verður nú stelpa.

Hlæjandi smellir Ari einum kossi á munninn á Þöllu -- og einum kossi á magann á henni.

 

Þöll og kisa einu einar í litlu stofunni í gamla húsinu. Kisa sefur, Þöll spilar á fagottið sitt. Rödd þess er tært andvarp.
Þegar hún spilar koma ljóðin.

Bláir klettar hlæja.
Kvöldið hellir myrkri yfir hafið.
Vindurinn er þreyttur og hvílist.

Syfjað hafsaugað er að lokast.
Eirð hinna ófæddu ríkir,
þar til vindurinn hefur endurnærst af svefninum.

Tónarnir verða daprir. Langi. Fallegir.
Ljúfir.

Lágnættið lyftir upp bjartri vornóttinni.
Göngum laust á grasinu,
því blómin heyra svo vel á óttunni.
Ég verða að hvísla þér ljóðið
svo ég veki þau ekki, vinur.
Þau eiga nóttina
eins og barnið á móðurina.

 

Hljóðfærið þagnar. Kisa sefur.
-Nei, það dansa ekki álfar í blokkum,, litli vinur.

 

Ólafur er að tína spýtur úr ruslakesti við nýbyggingu. Sólin er að koma upp. Hann hummar, raðar spýtunum í snyrtilegan bunka, -- rakkar þær.

Byggingameistarinn mætir á staðinn í nýja BMVinum sínum.
Hann sér að Óli gamli frændi er að hirða spýtnabrak, og brosir að gamla manninum.

-Sæll, frændi, kallar hann.

-Að ætla að fleygja þessu, hnussar í gamla manninum þar sem hann bograr. -Nýtilegt efni allt saman.

-Það borgar sig nú ekki að setja strák í að flytja þetta til þín, Óli minn. Þetta afsag er einskis virði, skal ég segja þér.

-Að það skuli vera frændi manns sem talar svona, segir Ólafur æstur. -Skömm er að sjá hvernig farið er með dýrmætt efnið.

-Veistu hvert tímakaupið er, Óli minn?

-Við amma þín vorum nú ekki alin upp við bruðlið, góði minn.

 

Byggingameistarinn fleygir frá sér vindlinum.
-Æ, ég læt strákinn skutla þessu til þin, segir hann.
Hann gengur áleiðis að grunninum þar sem á að fara að slá upp.
Snýr sér við og kallar:
-Heyrðu, Óli. Hvar verðurðu með verkstæðið þegar húsið verður rifið?

Ólafur réttir snögglega úr sér.
-Það verður ekkert rifið. Þetta er mitt hús´Vel smíðað hús. Traust hús.

-Óli. Það fellur ekki inn í skipulagið. Það er búið aða segja þér það. Þú hlýtur að skilja að það er fyrir.

-Þetta er mitt hús, heyrirðu það!
Augu gamla mannsins gneista.
-Mitt hús.

 

 

Ólafur vaknar alltaf klukkan sex.

Til þess að ná vatni úr gamla klósettkassanum þarf aðtoga tvisvar til þrisvar í keðjuna.

Ari breiðir uppfyrir haus. Það er ekki svefnfriður þegar gamli maðurinn er að ræskja sig ofan í kok og hrækja -- klukkan sex. Aftur skolað niður.

Svona byrja allir morgnar í litla gamla húsinu.

Svo fer Ólafur fram á verkstæði að smíða.
Smíðahljóðin eru nokkur skaplegri en klósettkassahljóðin.

Svo í fyllingu tímans bætist barnsgrátur í morgunsynfóníuna.

 

 

Ari skrapp vestur á mót.
Hann er í liðinu.

Þarna er margt um manninn. Fyrirtaks veður.

 

-Hæ, Ari, er kallað. -Hæ, hvað segir þú?

-Nei Ásta? Þú hér? Langt síðan við höfum sést. Hvað segirðu þá?

-Ágætis mót, maður. Góður leikur hjá ykkur.

-Þeir hafa aldeilis æft, gaurarnir. Stóðu bara í okkur.

-Flott þegar þig senduð til Palla í hornið og hann gaf fyrir markið og þú skallaðir stöngin inn. Óverjandi, drengur. Þeir sáu aldri við þér. Þetta var eins og köttur á mús.

-Vonandi kemst músavinafélagið ekki í málið.

Þau hlæja.

Það verður aðeins þögn. Svona hallærisleg þögn. Svo ætla þau bæði að fara að tala í einu;
-Hvernig hefur....
-Hvernig gengur....

Þau fara auðvitað að hlæja aftur.

-Hvernig gengur í nýja djobbinu? spyr Ásta.

-Vel. Ágætt.
Og hvernig hefur þú það?

Flott, svarar Ásta.-Pollinn á dagheimili. Ég leigi herbergi. Biggi pakkaði, eins og þú veist.
Eruð þið enn í litla gamla húsinu? Þið getið nú ekki hírst þar til eilífðar.

-Ja, þá á nú að fara að rífa það, sko.

-Býr sá gamli hjá ykkur ennþá?

-Eða er það ég sem bý hjá honum?
Karlinn er alveg þversum. Hornið á blokkinni á að koma þar sem stofan er. -- Það hefur komið til tals að rífa hluta af kofanum til að byrja með.

Ásta skellir uppúr.

-Hálft hús með blokk í stofunni og elliæran karlfausk í hinum endanum.

-Við Þöll fáum íbúð á efstu hæð.

-Flott útsýni þarna við sjóinn, maður.
Er Þöll búin að eiga?

-Já.

-Stelpa eða strákur?

-Strákur, auðvitað. Miðframherji. Mjög efnilegur.

-Do..... Heldurðu að það vanti ekki góða miðframherja hjá okkur líka?

Svo hlæja þau enn.

-En hvernig komstu, Ari? Með rútunni?

-Já. Með strákunum.

-Ég er á bíl. Vertu samferða í bæinn.

-Já, en strákarnir....

-Kemur þeim ekkert við. Láttu þá bara vita.

-Þú segir það, já.

 

 

Fallegt útsýni. Kvöldsólin á logagylltum vesturhimni.
Ásta keyrir hratt.

-Jamm, segir Ari. -Og hér ertu bara með hljómburðargræjur.

-Já, endilega troddu í, maður.

 

-Heyrðu, Ásta. Af hverju slitnaði eiginlega uppúr hjá ykkur Bigga?

-Ari. Það er ekki hægt að eiga fólk.

-.....Nema það vilji láta eiga sig, Ásta mín.

-Jæja. Er það nú til?

-Ég veit allt um það.
Djöfull var ég afbrýðisamur útí hann. Veistu það.

-Heyrðu, vinur. Ekki draga athygli bílstjórans frá akstrinum.

Þau flissa.

 

-Keyrum útá Snæfellsnes. Ari. Veðrið er svo súper.

-Nei, heyrðu. Er það ekki svo langt?

-Jú jú. Það er langt. Hefurðu eitthvað á móti því að Snæfellsnesið sé langt?

 

Snæfellsnesið er langt.

-Jæja. Ég er orðin svöng. Það þýðir ekkert að bíða eftir að sólin setjist. Hún sets ekki fyrr í í haust.
Þarna er lækur.
Súpu?
Tjöldum. Enga stund gert.

-Nei, heyrðu....

-Heyra hvað?
Náðpu í tjaldpokann. Hvar á að tjalda, segir hún skjalda. Suður við ána....

-OK, Grána.

-Aaa ! Kanntu þetta? Hver verður svo hrausti riddarinn og nær í vatn fyrir prinsessuna? Hér er potturinn, ljúflingur, fyrst enginn annar gaf sig fram.

 

-Vatnið, prinsessa.
Hva? búin að rúlla út svefnpoka. Bara servís.

-Til að sitja á -- eða liggja á eftir atvikum.

-Hey, ekkert svona sko.

-Ertu hamingjusamur, Ari

-Ég?

-Já, þú. Hvernig datt þér í huga að ég væri að tala við þig?

-Af hverju spyrðu að því?

-Þú -- þú, bara..... Þú bara lítur þannig út.
Er kannski,
segir Ásta, og glettnin dansar í augunum á henni, -dálítið óþægilegt að hafa alltaf einhvers konar tengdó hinum megin við þilið?


Ekkert svar. Og ekkert svar segir meira en mörg orð.

 

-Gerðu svo vel. Súpa. Ég skal éta sem ég þoli segir hann graði boli, nei, hvernig var þetta?
Er kannski bara ónæði, ha?
Þú slappar ekki af, Ari.
Komdu. Slappaðu af.

 

 

-Jæja, Ari minn. Svo þú ert bara að halda framhjá.
Hverju ætlarðu að svara Sankti Pétri, þegar hann spyr hvort þú hafir verið góður maður?

-Er ég ekki góður?

-Alla vega maður, karlmaður.
Jú, þú ert ofsagóður.Og Sankti Pétur er farinn í verkfall. Kaupdæmi eitthvert, þú skilur. Gæti orðið mjög mjög langt.
Þú ert góður. Too good to be true. Það er víst ekki hægt að þýða þennan.

-Var í lagi.....?

-Heldurðu að ég sé alger? Það er nú nóg að eiga einn lausaleikskrakka, Ari minn.

-Veistu, Ásta. Þöll vill ekki nota pilluna. Hún er svo gamaldags upp alin.

-Og ég veit, segir Ásta stríðnislega, -hvað þú vilt ekki nota -- því það er eins og að borða karamellu með bréfinu á.

-Ha?

-Þú sagðir þetta einu sinni.

-Ég?
Ertu viss um að það hafi verið ég?

-Þú sagðir nú svo margt og gerðir svo margt.
Þú veist að ég sé ef þú ert ekki hamingjusamur, vegna þess að ég þekkti þig þá.
Komdu. Slappaðu af. Það klæðir þig betur.

 

Úr tjaldinu heyrist fliss og ýmislegt annað.

Sólin sest ekki fyrr en í haust.

 

 

-Jæja. Er þetta ekki litla húsið hansa afa?

-Það verður víst ekki hér mikið lengur. Það á að byrja að grafa í dag.
Þakka þér fyrir aksturinn, vina.

-Bless bless. Síjú.

 

-Ertu kominn, Ari minn? hvíslar Þöll. -Hvað er klukkan?

-Ég hélt þú værir sofandi, Bolla mín.
Við burstuðum þá, greyin.

Ari er syfjaður. Hann kyssir Þöllu góða nótt, þótt nóttin sé liðin.
Hann er varla búinn að breiða ofan á sig þegar heyrist skilað niður í klósettinu, -- tvær tilraunir til að fá vatn úr kassanum. Ólafur ræskir sig ofan í kok. Togar í keðjuna. Þrjár tilraunir.

Svona byrja allir morgnar í litla gamla húsinu.

En þessi morgunn verður öðru vísi. Vinnuvélar staðnæmast í kartöflugarðinum fyrir framan litla gamla húsið. Það á að fara að grafa fyrir blokkinni.
Skarkalinn í vinnuvélunum fær Ólaf til að líta út um gluggann.
Æfur af reiði grípur hann skóflu, snarast út, arkar að vélskóflunni. Hann lemur vélskófluna af alefli, aftur og aftur. Lemur, lemur, aftur og aftur.

Þöll hleypur út til afa síns: -Afi ! Afi minn !

Þöll togar í handlegg hans. Hún reynir að róa hann. Titrandi af bræði lemur gamli maðurinn tækið í sífellu.

-Afi minn. Þú veist að svona verður þetta að vera.
Afi!
Það þarf ekki að rífa nema helminginn af húsinu okkar. Við getum áfram haft verkstæðið eldhúsið og kompuna.

En gamli maðurinn hlustar ekki.

Loks þverra kraftar hans. Höggin verða strjálli og máttlausari.

-Afi minn. Afi. Komum inn. Þú mátt ekki ofreyna þig.
Þú veist að við fáum íbúð í blokkinni.

-Ég flyt aldrei úr mínu húsi, kallar Ólafur brostnum rómi. -Aldrei.

 

 

 

 

Djúpur grunnur hálffullur af vatni. Litla húsið er aðeins hálft. Hluti þess hefur verið rifinn. Flaksandi veggfóðurlufsur, lokuð innihurð á stofuvegg sem veit út í gínandi grunn.
Skipulagið hefur sigrað.

Ólafur smíðar, þungur á brún. Hamarshögg margra smiða við mótauppslátt glymja í eyrum hans.

Blokkin rís og gnæfir yfir litla gamla húsið sem raunar er aðeins hálft. Blokkarhornið er þar sem litla stofan var.

Ari og Þöll fá íbúð á efstu hæð.

Útsýnið er fallegt útá sjóinn.

Þegar Þöll er ein spilar hún á fagottið sitt. Þá koma ljóðin.

 

Ég horfi út gegnum tvöfalt gler
sem aldrei vaxa á frostrósir
svona eins og ég bræddi með fingrunum
þegar ég var barn.

Úti blaktir hrímaður punturinn
á sinubleiku túni.
Kona á götunni er komin með loðhúfu
því norðanáttin feykir vetrinum
suður yfir fjöllin.

Ég stilli nýja þermóstatinn á 23.

 

Þöll leggur frá sér hljóðfærið. Hún strýkur fingri eftir bókahillu.

Steinryk, steinryk, steinryk.
Mynd af Ara. Blaðaúrklippa. Á henni stendur: MARKAHÆSTUR.
Skrítið að til eru tvenns konar verk. Annars vegar þau sem sjást þegar þau hafa verið unnin: markahæstur, -- hins vegar þau sem sjást aðeins ef þau hafa ekki verið gerð: steinryk.
Sumir vinna alltaf svoleiðis verk.

Það er bankað. Þöll fer til dyra.
Kona stendur þar og brosir. Þetta er tilgerðarlegt bros.
-Fyrirgefðu, segir hún. -Ég er María hér á hæðinni fyrir neðan.Var ég að trufla þig? Varstu að æfa þig?

Þöll býður henni inn.

Konan skoðar blómin hennar Þallar og lítur út um stofugluggann: -Svona er útsýnið hjá ykkur. Munar um eina hæð. Og þessi ógeðslegi húskofi við blokkarhornið okkar. Ég vona að þeir fari að rífa hann. Meira stappið sem búið er að eiga í við þann gamla.
Þú kemur aldrei á húsfundi?

-Ari fer, svarar Þöll.

-Sjarmerandi maður, maðurinn þinn.
Heyrðu,
segir konan fleðulega. -Þú ert í músíkkinni. Þú ert efnileg, er það ekki?

-Ég veit nú ekki, svarar Þöll. -ætli ég fái ekki á grafskriftina mína: Hún var efnilega til dauðadags.

-Heyrðu, segir konan, -ég ætlaði eiginlega að spyrja þig -- við eigum nefnilega von á gestum í kvöld til að hlusta á plötur -- við vorum að fá nýja útgáfu á níundunni á geisla -- hvort þú ætlir að æfa þig í kvöld? Ertu kannski í synfóníunni?

-Nei nei, svarar Þöll. -Ég hef ekkert lært. Ég bara spila svona fyrir sjálfa mig.

Konan verður greinilega afskaplega skúffuð að heyra þetta.

-Heyrist á milli þegar ég spila, spyr Þöll.

-Já, svarar konan foj. -Ertu bara að föndra við þetta? Bara svona frúarföndur? Það er óskaplega truflandi þegar verið er að gaula þetta svona seint og snemma.

-Ég skal athuga það, svarar Þöll.

-Það væri ágætt, góða, að þú tækir tillit til þess að þetta truflar fólk í húsinu.

Þöll fylgir henni til dyra, utan við sig.

 

 

Hún handfjatlar hljóðfærið sitt, döpur.

Húmið er eins og smyrsl á huga minn.
Dögg blómanna höfugt tár.
Svalur haustvindur segir mér sögur
af dánum sumarblómum.

 

Þöll, heltekin hugarvíli, tekur son sinn sofandi í fangið.
Vefur hann inn í sæng.
Hún hleypur með hann niður alla stigana í blokkinni.
Útidyrahurðin er þung.

Í angist hleypur hún út fyrir endann á blokkinni og út í litla gamla húsið, sem raunar er aðeins hálft:
Ólafur er að smíða.

-Afi. Ó afi minn.

-- o 0 o --