TÍKIN TÓA OG GREY LITLI KRÚSI

ISBN 9979-895-33-0

 

Gamla rauða húsið er fyrir, samkvæmt skipulaginu. Þetta veit Vigfús gamli sem býr þar einn, og þetta vita krakkarnir sem búa í nýju raðhúsunum í kring.

Krökkunum þykir karlinn skrýtinn. Sumir eru jafnvel hálfhræddir við hann.

Vigfús smíðar úr járni, glóandi járni, úti í smiðjunni sinni. Hann hlýtur að vera ofsalega sterkur.

Vigfús smíðar furðulegustu hluti.

En Vigfús er nýbúinn að fá sér hvolp, tík, sem hann kallar Tóu.

Hann vill frekar tík en hund, því þær eru heimakærari; -- fara ekki á flakk og lóðarí langar leiðir eins og hundar gera.

Vigfús byrjar fljótt að aga Tóu.

Þegar hún er í rólegu skapi kennir hann henni að gegna: komdu, og sestu.

Hún fær harðfiskroð að launum í hvert skipti sem hún gerir rétt. En Vigfús verður hastur við hana ef hún gegnir ekki.

Tóa græðir alltaf á að gegna en lærir fljótt að ekki borgar sig að óhlýðnast.

 

Þegar Tóa er í leikskapi kennir Vigfús henni að sækja hluti. Hann notar þá leikgleði hvolpsins.

Vandinn er að gera greinamun á hvolpakátínu og óhlýðni.

 

Auðvitað fara krakkar að atast í Tóu. Krakkar hafa svo gaman af dýrum. Þau reyna að lokka hana til sín með nammi og gömlu tyggjói. Hún fer að gelta og ólmast.

Þá kemur Vigfús út og öskrar:

-Tóa, nei !! Þegiðu, Tóa.

 

-Sjáiði hvað kallinn er vondur, segja krakkarnir. -Hann ætlar að lemja litla hundinn sinn fast.


(Innskot til skýringar:
Þessum krökkum hefur ekki verið kennt að maður á ekki að atast í annarra manna dýrum. Börnin vita ekki að þau eru að gera dýrinu mikinn óleik með því að atast í því. Þau rugla Tóu. Hún er aðeins hvolpur enn, og auðvelt er að vekja athygli hennar með blístri og látum og nammi. En Vigfús lætur Tóu skilja að hún á ekki að láta þau æsa sig upp. Tóa lærir að láta ekki krakka atast í sér. Betra hefði verið að krakkarnir vissu að maður á að láta annarra manna dýr í friði, því dýrin eru að læra hjá sínum húsbónda og maður á ekki að trufla það. Því einfaldara og klárara sem uppeldið er, skýrara og sjálfu sér samkvæmara, án truflana og án ruglings, þeim mun auðveldara er fyrir dýrið að skilja hvers til er ætlast af því.)

 

 

Nú fara Sigga og Gunni að surga í pabba sínum og mömmu um að fá hund. Þau ætla sko að vera góð við hann og ekki lemja hann eins og vondi kallinn í rauða húsinu gerir við Tóu.

Og að því kemur að þau fá pakka: kassa með rauðri slaufu utanum.

Úr kassanum staulast dasaður ráðvilltur pínulítill hvolpur, sem pabbi þeirra hefir keypt.

Þau kippa honum upp. Honum bregður hræðilega, því þau komu aftan að honum. Hann klemmir skottið milli fótanna. Þau vita ekki að það má aldrei hremma hund svona.

Þau rífast um að fá að hafa hann fyrst. Mamma bannar þeim að rífast svona. Grey dýrið verður hrætt.

Sigga vill að hann heiti Krúsídúlli, en Gunna finnst það ljótt. Eftir nokkurt þóf sættast þau á nafnið Krúsi. Sigga ætlar nú samt að kalla hann Krúsí.

Auðvitað gengur allt út á Krúsa fyrstu dagana, en því miður veit fólkið ekkert um uppeldi á hundum. Það er sorgarsaga:

Þau ætluðu nú ekki að venja Krúsa á að sníkja mat þegar fólkið er að borða, en hann horfir svo biðjandi að honum er stundum gefinn biti, - svona aðeins pínulítið.

Krökkunum þykir svo gaman að gefa honum bita þegar hann hoppar upp á þau við matarborðið. Það er verst að Ollu frænku bregður svo þegar Krúsi hoppar upp á hana við kaffiborðið að hún skvettir úr kaffibollanum sínum.

 

Það er búið að venja Krúsa á slæman ósið.

 

Og Krúsi venst á að gelta því hann fær alltaf óverðskuldaða áthygli ef hann lætur illa. Er það skynsamlegt?

Krúsi er alltaf að stela sokkum.
Þessi stríðni er mjög skemmtilegur leikur í hans augum, því hann fær alltaf einhvern í eltingaleik útúr þessu, með vindhöggum og bægslagangi. Krúsi er að leika sér að fólkinu. Og fólkið öskrar eitthvert SKAMM SKAMM. Mamma vill nú að Krúsi sé látinn gegna þessu skamm, og hætti að taka alla sokka, en krakkarnir segja svo oft skamm, án þess að meina nokkuð með því og láta Krúsa ekki gegna sér. Þau segja svo bara: -Ég leyfði honum það alveg.

Krúsi tapar aldrei á því að óhlýðnast.

Hann getur vel lært, en hann á heimska eigendur, sem kunna ekki að kenna honum, -- kunna ekki að eiga hund.

 

Þegar Gunni og Sigga eru í skólanum og pabbi og mamma í vinnunni er Krúsi greyið einn heima. Honum leiðist. Hundur er hópdýr.

Þá nagar hann inniskóna hans pabba og er líka byrjaður á einu horninu á stofuteppinu og einum fætinum á stóra stólnum.

Mamma segir skamm, og dæsir: -Af hverju vill hann frekar inniskó en gervibeinið sem ég keypti? Þetta eldist vonandi af honum.

 

Krúsi er gjarn á að hoppa upp á fólk og gelta. Olla frænka er svo agalega hrædd.
Það þykir Krúsa gaman, því hún baðar út öllum öngum og allir fara að skipta sér af honum.

Þeim er kennt mjög einfalt ráð til að venja hundinn af þessu: stíga alltaf ofaná tærnar á afturfótunum á honum þegar hann hoppar upp á einhvern. En þau tíma ekki að meiða hann.

Illa gengur að kenna Krúsa sað gegna orðinu komdu, því það er alltaf kallað komdu þegar Krúsi hleypur burt.

Hann hefur ekki hugmynd um hvað orðið komdu þýðir. Hvernig á lítill hundur að vita það?

 

Sigga og Gunni hafa gaman af að sýna sig úti með Krúsa - svona fyrst í stað.

Það er að vísu vafamál hvort Sigga fer með Krúsa í gönguferð eða Krúsi með Siggu, því Krúsi ræður hvert er farið og hvenær er stoppað.

 

Krúsi er alveg ruglaður þegar allir eru að atast í honum í einu, og Sigga og Gunni kalla líka: -Krúsi, Krúsi, komdu til mín.

En hann Krúsi finnur fljótt út að hann þarf ekkert að gegna nema þegar honum passar. Og raunar veit hann ekkert hvað þessi orð þýða. Fólkið kallar og talar hvort eð er svo mikið, og ekki veit hann hvort verið er að tala við hann eða ekki.

Allir krakkar fá að skoða Krúsa og leika sér að honum. Krúsi er bara leikfang fyrir alla. Þau kalla: Krúsi !, Krúsi ! Krúsi ! úr öllum áttum, og hlæja og atast.

Krakkarnir hafa gaman af að æsa hann upp og þau hlæja þegar hann bítur í vettlinga og trefla.

Það á eftir að verða afdrifaríkt að leyfa honum að leika sér að vettlingum.

 

En tíkin Tóa er jafnan tjóðruð í garðinum við rauða húsið. Tóa stækkar ört og er orðin ákaflega falleg.

Vigfús er búinn að kenna henni margt og hún hlýðir honum skilyrðislaust. Hún veit að nei þýðir raunverulega nei, því Vigfús er alltaf sjálfum sér samkvæmur við uppeldið á hundinum sínum. Tóa er örugg. Hún veit nákvæmlega hvað hún á ekki að gera og hvað hún á að gera.

Tóa græðir alltaf á að gegna, fær klapp og hrós þegar hún gerir það sem Vigfús segir henni.

*******
Hér kemur smáinnskot í söguna -- sem er nauðsyn fyrir okkur að athuga og skilja:
Hundi líður vel þegar hann veit hvað hann á að gera. Hundi þykir gott að eiga öruggan húsbónda. Hundar fara eins langt og þeir komast, því þeir eru hjarðdýr sem nota goggunarröðina til þess að verða foringinn í úlfahjörðinni. Það er öryggi fyrir hundinn að hafa sitt pláss, ef svo má að orði komast, í goggunarröðinni.
Alls ekki ætti að ala börn upp með svona hundauppeldi. Barn á ekki að hlýða, ekki að græða á að hlýða, ekki að tapa á að óhlýðnast, heldur er barn sjálfstæður einstaklingur, sem verður að læra að vera sinn eigin húsbóndi. Barn þarf að skilja hvaða afleiðingar gjörðir manns hafa, en frjálsan vilja og valkosti þarf barn að hafa.
Við skulum gera skýran greinamun á því að ala upp hund, heimilishund eða fjárhund t.d., og því að að ala upp manneskju sem þarf að vara sig á að verða ekki hundur neins, vara sig á að velja sér ekki foringja til að hlýða, vara sig á að reyna aldrei að pota sér fram fyrir aðra með því að láta aðra hlýða sér (hóta, launa, kúga, plata), vara sig á að verða ekki húsbóndi yfir öðrum mönnum eða börnum. Aðeins að vera sinn eiginn húsbóndi.
(Athugið gaumgæfilega þetta innskot hér, og gerið ætíð skýran greinamun á hundauppeldi annars vegar og hins vegar uppeldi á barni. Þetta eru alóskyldir hlutir. Hlýðnikrafan á ekki við við barnauppeldi. Aðeins frjáls vilji og útskýringar á ábyrgð einstaklingsins.)
*********

 

Krakkar reyna oft að kalla í Tóu, en þá heyrir kallinn alltaf til þeirra og segir ákveðið: -Nei, Tóa.

Þá læst Tóa hvorki sjá krakkana né heyra.

Aldrei vill hann leyfa þeim að fara með hana í göngutúr.

-Við megum ekki einu sinni vera góð við hana, segja þau. Þeim finnst kallinn vera vondur.

Svörtu augun hennar Tóu fylgjast vökul með öllu sem fram fer.

Þegar einhver ókunnugur kemur að húsinu krafsar Tóa í smiðjuhurðina hjá Vigfúsi og Vigfús launar henni með hrósyrðum.

Það ber öllum saman um að hún Tóa er til sóma.

 

Öðru máli gegnir með grey litla Krúsa. Hann er algjörlega óagaður.

Krúsi kom einu sinni beint utan úr garði og hoppaði upp í sófa og moldin á fótum hans klesstist í allt áklæðið.

Þá var Krúsi skammaður en hann vissi ekkert hvers vegna.

Stundum má hann fara upp í sófa, en stundum ekki. Hvernig á lítill hundur að skilja það?

Krúsi fer út í garð nágrannans og rótar upp öllum nýju fínu blómunum hans. Nágranninn kvartar. Hann er öskureiður.

Annar nágranni segir að hundurinn sé geltandi á nóttunni og segist skulu hringja á lögregluna.

Pósturinn klagar Krúsa og segir að hundkvikindið, eins og hann orðar það, hafi glefsað í fótinn á sér.

Krúsi er nefnilega svo óttalega leiðinlegur við ókunnuga, og geltir allt of mikið að fólki.

 

Nú er reynt að halda Krúsa inni, en hann pissar þá í forstofuteppið. Það er kominn stór blettur sem ekki næst úr.

Pabbi verður að kaupa nýtt teppi í forstofuna.

 

Bólið hans Krúsa er stundum notað sem skammakrókur. Þess vegna líður Krúsa ekki vel þegar hann er látinn í bælið sitt. Hann veit ekki hvort hann hefur gert eitthvað af sér.

 

Nú reyna þau að hafa Krúsa tjóðraðan í garðinum Hann ýlfrar ámátlega þegar hann fær ekki lengur að hlaupa um að vild eins og hann var vanur.

Þetta er reynt í nokkra daga en svo gefast þau upp á því.

 

Verst er að Sigga og Gunni nenna nú orðið aldrei út að ganga með Krúsa.

Bara að fólkið hefði haft skynsemi til að gefa börnunum kettlinga en ekki hvolp.

 

Krúsi heldur áfram að sleppa út úr garðinum og týnast.

Sífellt berast kvartanir vegna hans.

 

Að lokum kemur alvarlegasta atvikið fyrir: Krúsi sér flaksandi vettling í barnakerru. Krúsa hefur ekki verið bannað að bíta í vettlinga. Hann stekkur upp í kerruna. Litli krakkinn grípur allómjúklega í rófuna á Krúsa, og þá glefsar hann í kinnina á barninu.

Nú verður ógurlegt uppistand. Krúsi er álitinn hættulegur; hefur bitið barn.

 

Eftir þetta atvik tala pabbi og mamma þeirra Gunna og Siggu alvarlega saman um Krúsa. Þau eru að gefast upp á hundahaldinu. Þau ákveða að losa sig við grey litla Krúsa.

Hann geldur þess nú, litla krílið, að honum var aldrei kennt hvað má og hvað má ekki. Hann lærði aldri að hlýða. Nú er öllum í nöp við hann einfaldlega vegna þess að hann er óuppalinn. Hann hefði þurft góðan aga frá upphafi, góðan ákveðinn húsbónda. Hundar hafa svo gaman af að gera húsbónda sínum til hæfis, bara ef þeir skilja til hvers er ætlast af þeim. Krúsi er ekki illa gefinn. Það eru eigendurnir sem eru heimskir. Dýr er ekki leikfang. Dýr eru lifandi verur með tilfinningar og þrár og þarfir. Það er ekki Krúsa að kenna hvernig fór.

Það er hægt að henda golfkylfum og snjóþotum, hjólaskautum og skíðum út í bílskúr þegar maður er leiður á því, en með hund gegnir öðru máli. Hann er lifandi vera.

 

Siggu og Gunna er sagt að nú verði að láta Krúsa fara upp í sveit. En í rauninni var farið með grey litla Krúsa til dýralæknisins. Það er sóðaverk að svæfa dýr. Í þau er sprautað deyfilyfjum og svo banvænum efnum. Dýrin þjást af kvíða, af hræðslu. Þau finna að þau hafa verið svikin. Og þau þjást af kvölum í dauðastríðinu sem getur tekið langan tíma í fjötrum hjá lækninum. Yfirgefin. Vinalaus. Svikin. Kvalin til dauða.
Ég vil að þið skiljið þá ábyrgð sem því fylgir að vera maður, og að maðurinn hefur það framyfir dýrin að geta hugsað. Dýr geta lært, þau geta elskað, en þau geta ekki farið út fyrir áskapaða náttúru sína. Þess vegna berum við, vitibornir menn, ábyrgð á öllu sem lifir, og öllu í heimi hér.

 

Höggin úr smiðju Vigfúsar, jöfn og þung, benda til að einhver furðuhlutur úr járni sé að fæðast þar inni.

Tóa er kyrr í garðinum fyrir utan gamla húsið, sem brátt mun hverfa, því það er fyrir, samkvæmt skipulaginu.

Tóu líður vel. Hún er róleg og örugg. Hún veit hvað hún má og má ekki.

Hún var svo heppin að fá ákveðið uppeldi.

 

 **********