Fluga

ISBN 9979-895-02-0
Var flutt í sjónvarpinu, Stundinni okkar, lesin af höfundi, Guðrúnu Kristínu Magnúsdóttur

ennfremur gefin út 1990

 

Lítil syfjuð fluga vakandi um hánótt.
Enn er snjór og frost úti.
-Ég hef greinilega vaknað of snemma, hugsar hún upphátt og geispar. -Það er niðamyrkur úti. Ég verð að litast um eftir öðrum góðum stað til að sofa á. Ég ætla auðvitað að sofa alveg fram á vor.

 

 

Þótt nú sé hánótt er litla flugan ekki ein um að vera vakandi:
Óvængjuð risatvífætla af minni gerð vaknar þegar hún á helst að sofa. Hún hoppar, stappar og hossar sér og reynir að vekja alla í húsinu með skelfilegum óhljóðum.
Risatvífætlan, þessi af minni gerðinni, þrífur koddann sinn og fleygir honum í átt að hinu rúminu, þar sem tvær risatvífætlur af fullorðinsstærð sofa.
Einmitt þá er vesalings litla flugan að leita sér að góðum stað til að sofa á........

 

 

...... þegar kossinn kemur fljúgandi.
Það munar minnstu að hún fari í klessu. Há á vængjum fjör al launa.
Nú er smárisatvífætlan búin að ná góðu taki á túttunni á pelanum og sveiflar honum fram og til baka!!
Flugan er fljót að forða sér en litla óvængjaða tvífætlan miðar á sofandi risatvífætluna með skegg í andlitinu.
Eitthvað heyrist út úr skegginu þegar pelinn lendir. Það er ekki eftir hafandi.

 

Skegglausa stóra risatvífætlan rís á fætur og fer að ganga um gólf með litlu tvífætluna:
-Svona, svona, Lilli minn,
og hún syngur vögguvísu:
-Sofðu unga ástin mín
úti regnið grætur .....

-Undarlegt að segja þetta og það er snjór og frost úti!
En vöggusöngurinn verkar samt undurvel á litlu fluguna. Hún verður alveg grútsyfjuð: -Verða að finna mér góðan stað til að sofa á.

 

-Ég verð að flýta mér áður en ég dett niður úr syfjum.

Mér líst nokkuð vel á þetta hvolfþak þarna.
Skyldi það nokkuð leka?

Litla flugan kemur sér vel fyrir inni í bjöllunni.
Hún er harðánægð með nýja húsið sitt. Húsið hefur hið fegursta hvolfþak.
-Hér get ég sofið fram á vor, hugsar hún.

 

 

-Hva? Hva? Hva?
Hvaða jarðskjálfti er nú þetta? Hverslags gauragangur er þetta eiginlega? Skyldi vorið vera komið?
Óvængjuðu risatvífætlurnar rjúka á fætur með óskapa látum, teygja sig og geispa ógurlega. Smeygja sér í tuskur og dusta sængur.
-Da da da, segir Lilli.

 

 

Litla flugan gægist varlega út úr nýja húsinu sínu: -Hva? Allir að vakna!
Enn er koldimmt úti. Hávetur.
Hún verður forvitin: -Skyldu þau einhvers staðar finna útsprungin blóm? Best að elta þau.

Aha! -- “Úti regnið grætur"! Nú skil ég. Hér er heit rigning. --- En ekki eitt einasta blóm að sjá. Skrýtið.

 

 

Flugan sveimar inn í annað herbergi og sér enn eina óvængjaða risatvífætlu af millistærð, sem bröltir um í sænginni og umlar syfjulega: -Af hverju þarf maður að fara í skólann, mamma?
-Þú verður að fara í skólann, vina, segir óvængjaða mamma, -til þess að geta valið þér lífsstarf sem þú hefur áhuga á. Þá geturðu fundið þér skemmtileg verkefni og haft nóg að borða þegar þú verður stór.
-Nóg að borða í skólanum?! Aha! Skyldu vera útsprungin hunangsblóm í svona matarskólum?

 

 

-Æi, hugsar flugan vonsvikin þegar hún gægist út um gluggann. -Þetta er nú ekki gæfulegt. Paufast svona á fætur og ösla út í snjóinn og myrkrið. Ég held ég sofi bara áfram. Best að koma sér vel fyrir undir hvolfþakinu sínu aftur.

 

 

Auðvitað líður ekki nema sólarhringur þar til harðstjórinn byrjar með jarðskjálftana á ný. Það er dálítill galli á fína húsinu hvernig það lætur. Enginn svefnfriður þegar það tekur sig til. Flugan virðist hafa lent í dómkirkju sem er hinn mesti harðstjóri. En það venst eins og annað. Og þannig líður veturinn.

 

Á fögrum morgni vekja hlýir geislar vorsólarinnar náttúruna af vetrarlöngum svefni. En hvolfþakið haggast ekki í þetta sinn. Nú sefur fína húsið.

 

Það rýkur úr moldinni. Nývöknuð blómin anga. En nú láta óvængjuðu risatvífætlurnar ekki á sér kræla. Loksins þegar vorið kemur. Ekki einu sinni Lilli!
-Hver sinn smekk.
Litla flugan flýgur út í vorið: -Ekki vildi ég vera af þessari risatvífætlutegund.

 

-- oo 0 oo --