Hagbarður og Hvutti

ISBN 9979-895-85-3
var flutt sjónvarpi, Stundinni okkar, lesin af höfundi, Guðrúnu Kristínu Magnúsdóttur

og einnig útgefin 1983:

Þar standa vinirnir Hagbarður og Hvutti.
Þegar verið er að smala er Hagbarður alltaf látinn standa fyrir á erfiðasta staðnum þar sem safnið kemur að, því hann á svo góðan hund.
Hinir krakkarnir eru stórhrifnir því Hvutti gegnir Hagbarði eins og hugur manns. --- En hann gegnir engum nema Hagbarði!
Það er alveg sama hvernig aðrir skipa Hvutta fyrir. Þeir fá hann aldrei til að hlýða, -- hann gerir tóma vitleysu.

En nú verð ég að segja ykkur leyndarmál. Það er um hvernig Hagbarður hefur alið Hvutta upp frá því hann var lítill hvolpur. Hvutti leggur nefnilega þveröfuga merkingu í öll orð sem hann kann í mannamáli!!!

 

 

Allt frá því Hvutti var smáhvolpur hefur hann farið með Hagbarði að sækja kýrnar. Dumba gamla var með kálfi, sporlöt og seinræk.
Þá hrópaði Hagbarður hástöfum á Dumbu: -Farðu heim, farðu heim, kusa!
Þá kom Hvutti hlaupandi til Hagbarðs og fékk klapp og kjass. Þannig lærði Hvutti að koma þegar sagt var: -Farðu heim!

Þegar Hvutti var enn bara hvolpur, var hrafninn oft að stríða honum. Hvutti varð svo reiður, að hann fór að elta krumma út um holt og hæðir.
Hagbarður hrópaði hástöfum: -Komdu, Hvutti, komdu!
En auðvitað hljóp Hvutti alltaf lengra og lengra í hvert sinn sem krummi krunkaði og Hagbarður hrópaði: -Komdu! Hvutti, komdu!
Svo Hvutti hélt bara að komdu þýddi farðu.

 

 

Hagbarður segir: -farðu -- þegar Hvutti á að koma,
og: -komdu, -- þegar hann á að fara.
Þetta er nú þeirra leyndarmál.

Ekki er alltaf skemmtilegt að vaka yfir túninu, þótt sumarnóttin sé björt og heið. En þegar besti vinurinn er hjá manni er tíminn fljótur að líða.Hagbarður þykist vera að fara í göngur og þykist eiga svo og svo margar kindur á fjalli. Stundum er hann fjallkóngur eða hreppstjóri. Mænirinn á fjósþakinu er besti gæðingurinn í sveitinni, -- ef maður kann að berja fótastokkinn.

Hagbarður hrópar hástöfum (þó ekki svo hátt að hann veki fólkið á bænum): -Urrdan bíttann, Hvutti minn, urrdan bíttann!
Þá situr Hvutti kyrr á þekjunni hjá Hagbarði sínum og heldur að urrdan bíttann þýði: sestu hér og vertu rólegur!
-- Hvutti er svo bráðgreindur hundur.

 

 

En stundum kemur það fyrir að einhver rollan læðist innfyrir girðinguna og stelst í túnið og þá kemur að Hagbarði að vinna skylduverk sitt og reka úr túninu.
Kindin jarmar: Me-e-e-e-e, og er líklega að kalla á lambið sitt og segja því að forboðna grasið í túninu sé gómsætt og safaríkt.
-Þegiðu, kelli mín, segir Hagbarður. En Hvutti geltir.
-Róleg, góða, segir Hagbarður. Og Hvutti geltir allt hvað af tekur.
Hann þykist skilja að hann eigi að gelta þegar Hagbarður segir: rólegur, og: þegiðu.

Næst þegar fé komst í túnið gat Hagbarður setið hinn rólegasti uppi á fjósþakinu.
Hann þurfti ekki annað en segja: -rólegar! Þá hljóp Hvutti geltandi niður allt tún og rak úr.

Jæja, nú vitið þið leyndarmálið, svo þig ættuð að vera með á nótunum, -- og þá er hægt að segja ykkur sögu af Hvutta.

 

 

Hér er nú heimilisfólkið að ríða úr hlaði. Það er á leið á skemmtun í kaupstaðnum. Hagbarður fær að fara með pabba og mömmu og vinnufólkinu. Ó, hve hann hlakkar til. En amma ætlar að vera eftir heima. Segist vera orðinn ónýt til ferðalaga.
Þá segir mamma: -Þú verður að skilja hundinn eftir, Hagbarður minn. Hann hefur ekkert að gera í kaupstaðinn, og hann hlýðir engum nema þér.
Æ. Það var nú leiðinlegt.

Amma lokaði Hvutta inni í fjósi. Þaðan horfði greyið á eftir vini sínum þar sem hann reið niður traðirnar og úr augnsýn langt burt í fjarlægð.

En nú var Dumba borin og bráðlega varð amma að fara út í fjós til að gefa kálfinum sullið sitt.
Hún gleymdi víst að loka dyrunum á eftir sér og Hvutti var ekki seinn á sér að skjótast út.

 

 

Hvutti náði ferðafólkinu rétt áður en það komst til kaupstaðarins.
-Nei, kemur ekki þarna hvolpkjáninn!, sagði mamma -Æ, farðu nú heim, Hvutti litli!
En það veit Hvutti vel að þýðir: komdu hingað. Svo hann hleypur til mömmu og dinglar skotinu.
Hún gat ekki fengið af sér að láta Hagbarð reka hann heim, þótt hún vissi að hann myndi gegna honum.
Þannig komst Hvutti í kaupstaðinn í fyrsta sinn.

 

 

Margir voru þegar komnir í kaupstaðinn, en það leit út fyrir að Hvutti yrði eini hundurinn á skemmtuninni.
-Er þetta ekki hundurinn þinn?, spyr einhver krakkinn sem þekkir Hagbarð. -Ég hef heyrt að hann sé besti smalahundurinn í dalnum. Hann má alveg koma á krakkaskemmtunina, ef hann er rólegur.
Auðvitað geltir Hvutti þegar hann heyrir orðið rólegur.

-Ha? Er hann svona gáfaður? Svarar þegar maður talar við hann!
-Megum við hafa hann með í útilegumannaleikritinu sem við ætlum að sýna á eftir í gömlu hlöðunni?
Hagbarði leist nú ekki of vel á að Hvutti gæti farið að leik í leikriti.......

 

 

 

........en smalamennina vantaði hund, svo það varð úr.
Leikritið var olsalega hallærislegt, en krakkarnir höfðu gaman af að horfa á Hvutta, ---- sem beið aðeins eftir orði sem hann skildi.

-Komdu, Hvutti, komdu. Við smölum Útilegumannadal, sagði annar smalamannanna, sem þóttist eiga Hvutta.
Auðvitað fór Hvutti þá, hinn ánægðasti, í hina áttina. Hann þóttist nú skilja sæmilega mannamál.
Jæja, farðu þá, farðu, sagði smalinn til að láta líta úr fyrir að hundurinn gegndi honum.
Þá kom Hvutti skokkandi til hans og dinglaði rófunni.

 

 

Smalinn þóttist nú vara að eltast við fé og fór að hóa og siga Hvutta: -Urrdan bíttann!
(En þið munið nú kannski hvaða merkingu Hvutti leggur í orðin: urrdan, bíttann?
Hvutti lagðist auðvitað niður flatur í mestu makindum.
En krakkarnir í hlöðunni ráku upp skellihlátur.

 

Næst var komið að örðum þætti leikritsins: Hellir útilegumannanna. Eins og þið vitið eru útilegumenn líka sauðaþjófar.
Smalamaður læðist hljóðlega að þeim, þar sem þeir eru að leggja á ráðin um næsta sauðaþjófnað:
Smalinn hvíslar: -Rólegur nú, Hvutti!

En Hvutti þykist vita hvað orðið rólegur þýðir og tekur til við að gelta svo undir tekur í hlöðunni.

 

 

 

Haldiðið að það hafi nú aldeilis komið fát á útilegumennina?
En krakkarnir hlógu svo allt ætlaði um koll að keyra.
Þetta var skemmtilegur hundur, sem allt gerði vitlaust.
Einhver reyndi að þagga niður í áhorfendum: -Rólegir, krakka, þegiðið nú!

Þá espaðist Hvutti um allan helming. Hann skildi orðin rólegur og þegiðu. Þá átti hann að gelta.
Allir voru líka hæstánægðir með það sem hann gerði.

 

 

-Það var eins gott að pabbi og mamma og hitt fólkið er á fullorðinsskemmtuninni en ekki hér í hlöðunni, hugsaði Hagbarður. -En nú er líka nóg komið.
-Hvutti!, kallar Hagbarður. -Farðu nú heim!
Samstundis þagnar Hvutti. Hann veit að Hagbarður meinar: komdu.

Hvutti skokkar til Hagbarðs og dinglar rófunni.
Hann var frábær þessi hundur! Hann gegndi aðeins húsbónda sínum. Hver vildi ekki eiga svona hund?
Enginn man lengur hvernig útilegumannaleikritið endaði, en allir muna eftir Hvutta, skemmtilega hundinum.

En nú ætla ég að leggja fyrir ykkur erfið spurningu: Finnst ykkur að Hvutti sé vel upp alinn hundur?

 

-- oo 0 oo --