Hver er hann þessi Jakob?

ISBN 9979-895-97-7
Var flutt í sjónvarpinu, Stundinni okkar, lesin af höfundi, Guðrúnu Kristínu Magnúsdóttur

ennfremur gefin út 1990

 

 

Mamma segir að þetta blóm heiti Jakobsstigi.
Ósköp hlýtur þessi Jakob að vera lítill fyrst hann getur notað svona laufblöð fyrir stiga.
Hann hlýtur að vera alveg pínu pons.
Ég veit að Jakob á líka fífil sem heitir Jakobsfífill. Hann vex í sveitinni --- svona úti í móa.

 

 

Ég ligg í leyni lengi lengi úti í garði, en enginn Jakob er sjáanlegur.
Skyldi hann sofa í þessum klukkublómum?
Ef til vill vakir hann á nóttunni en sefur á daginn. Sumir búálfar vaka um nætur og þá hljóta þeir að vera ofsalega syfjaðir á daginn.
Skyldi Jakob hafa vængi?
Nei þá þyrfti hann ekki stiga.
Þá flygi hann bara upp í blómin.

 

 

Ég ákveð að ganga út skugga um það hvort Jakob vaki á nóttunni.
Um kvöldið bý ég mig ofsalega vel.
Ég ætla að vaka útí í garði í alla nótt og fylgjast með Jakobsstiganum. Þá hlýt ég að sjá Jakob.
-Hvert ert þú að fara, vina mín, svona seint?, spyr mamma.
-Ég ætla að vera úti í garði í nótt að sjá Jakob.
-Elsku barn. Þú verður að fara að sofa núna. Blómálfar eru auðvita til í ævintýrum.
-Eru þeir sem segja ævintýri þá að skrökva?
-Þeir eru að skálda, svarar mamma.

 

Daginn eftir dettur mér snjallræði í hug: Ég gef Jakobi brjóstsykur! Hann hlýtur þá að klifra upp stigann og fá sér að smakka.
Það er óskaplega erfitt að festa brjóstsykurinn á blómið, jafnvel þótt ég sé aðeins með smámola. Ég reyni að líma hann á stilkinn með límbandi.
Betra ráð er að ná í hunang og láta dropa í blómin.

Ég bíð en Jakob kemur ekki .....

.... aðeins flugurnar.

Ég þori ekki að reka þær burt, því kannski eru þær vinkonur Jakobs.

 

Sjáið pínulitla rabarbarann sem ég fann! Þessi er mátulegur handa Jakobi.
Mamma sýður hann fyrir mig. Ég læt rabarbaragraut á dósarlok út í garð handa Jakobi um kvöldið.
Nú verður spennandi að vita hvort honum þykir rabarbaragrautur góður.

 

 

Það eru eintómir sniglar í grautnum morguninn eftir.
Ég verð sármóðguð. Skyldi Jakob hafa boðið þeim?
Vill hann kannski ekki rabarbaragraut?
Rabarbari er að vísu ekki hollur.
Jakob veit það víst.
En
þegar manni er boðið gæti maður að minnsta kosti verið kurteis.

Einu sinni þegar pabbi er að gera að fiski finn ég pínulítið fiskseiði sem stóri fiskurinn hafði gleypt.
Þessi verður mátulegur handa Jakobi!
Ég fæ að sjóða hann með stóra fiskinum.

Um kvöldið set ég hann á dósarlok hjá Jakobsstiganum.

 

 

Morguninn eftir flýti ég mér út í garð.
Og viti menn!
Ekkert eftir nema þurr dálkurinn og hausinn.
Jakob er búinn með fiskinn.
Ef ég hefði nú bara mátt vaka útí í garði í nótt -- þá hefði ég séð hann.

 

Mig dreymir Jakob.
-Við borðum ekki fisk, segir hann. -Við þurfum ekkert að borða.
Komdu út í garð í fyrramálið þegar þú vaknar og leiktu við okkur.
Þegar ég vakna man ég drauminn: ãKomdu út og leiktu við okkur!"
Já, en -- ég er stór og Jakob er lítill. Og -- svo er ausandi rigning.
Ég verð að fara í regnkápu.

 

 

-Mennirnir gretta sig svo óskaplega í rigningunni, segir Jakob og hlær. -En við vitum að blómin þurfa vætu, og ánamaðkarnir sem losa um moldina verða svo kátir þegar rignir. Þegar styttir upp, opna blómin krónur sínar móti birtu sólarinnar. En moldin er rök.

 

-Það sem þú hugsar er þinn raunveruleiki.
Þeir sem elska allt heyra söng blómanna -- sjá fegurðina.

Er ég að skálda ævintýri?
Ég get ekki að því gert að ég er alveg viss um að Jakob er til.

 

Hver er hann þessi Jakob?

-- oo 0 oo --