ISBN 9979-895-50-0Drottinn blessi heimilið

 

Smásögu þessa er að finna í bókinni Óðsmálum --  Óðsmál ISBN 9979-60-165-5

 

1996

 

Þessi saga er í bókinni Óðsmálum, kafli nr: 28
this story is in Óðsmál,
in Icelandic and in English, chatter 28

DROTTINN BLESSI HEIMILIÐ

Gamla hsi sem egir, segir mr sgu
sem g stend hr og horfi a
horfi etta hs, sem ltur lti yfir sr
hgvrt, rulaust

 

Einu sinni voru gömlu hjónin ung. Einu sinni voru þau börn. Það var fyrir meira en heilli öld. Þau voru börnin sem fæddust á mölinni, fæddust í tófthúsum, börn fólksins sem fluttist til Reykjavíkur fyrir aldamót. Það voru engar skepnur á mölinni, nema hvað sumir heldri menn áttu hesta. Kannski nokkrar hænur sums staðar, og þá voru þar til egg. Slíkt þótti góður búbætir, og ekki síðra þótt púturnar gengju í fjöru og bragðið af eggjunum bæri þess keim. Á einhverjum bæjum í nágrenni þessa nýja þéttbýlis voru kýr. Til voru fátækar mæður sem tóku að sér að mjólka á þessum bæjum. Þær fóru fótgangandi báðar leiðir kvölds og morgna, og fengu að launum ofurlitla mjólkurlögg til að taka með heim og gefa barnahópnum sínum. Mæðurnar og feðurnir sem bjuggu á mölinni sóuðu ekki mjólkinni í að drekka hana sjálf. Henni var skipt milli barnanna. Tófthúsfólk.
Í sveitinni voru börn ekki svöng. Í sveitinni var alltaf eitthvað til til að eta, og í sveitinni fengu börn mjólk og fullorðnir fengu mjólk, og jafnvel var hægt að hræra pönnukökujukk úr mjólk. En börn þeirra sem fluttst höfðu á mölina, fengu nýmeti þegar vel veiddist, tros í ógæftatíð meðan það entinst, og stöku sinnum kom lamb á fæti sem gjöf frá ættingjum úr sveitinni. En tófthúsfólk átti ekki kú, heyjaði ekki, og mjólk sást alls ekki á sumum heimilum. Stundum var ekkert að borða, ekki til föt til skiptanna, og mórinn úr Kringlumýrinni var oft blautur og logaði þá illa. Aðeins heldri menn gátu keypt kol. Eini hitinn sem sumir menn fengu af kolunum, var svitinn við að bera pokana á bakinu frá skipi í skemmu. Svo komu aðrir menn að kaupa þau og nota í ofninn.


Það var atvinnuleysi á eyrinni. Kaupið var lágt. Menn og konur sem ekki voru mikil að líkamsburðum, voru síður ráðin til vinnu. Það var erfitt að bera fisk á börum og breiða. Það þurfti mikið þrek, mikla burði, til erfiðisvinnu, og menn voru matarlitlir og illa skjólklæðum búnir. Já, margir voru löngum kaldir og soltnir.

Þegar gömlu hjónin voru ung, var bjartsýnin það eina sem þau áttu. Það var að duga eða drepast. Þau giftust og þau kusu að duga.
Fyrst hírðust þau í kjallara vestrí naustum. Börnin fæddust. Það var þröngt og það var þröngt í búi. En allt blessast ef maður treystir Guði. Börnin lifðu. Gömlu hjónin áttu hvort annað og ástina, þegar þau voru ung. Hann reri á báti hjá Guttormi formanni, og hún tók að sér þvotta fyrir nokkrar frúr. Og allt blessaðist. Elstu börnin fóru fljótt að létta undir. Þannig liðu mörg ár. Fögur ár. Bjartsýniár ungra hjóna. Þessi hjón, sem urðu síðar gömul, áttu alla tíð hvort annað og kærleikann.

Draumurinn um húsið rættist.

Það var erfitt að fá timbur og það var erfitt að fá bárujárn. Það voru engir peningar til til að kaupa það fyrir. En samt tókst einhvern veginn að kljúfa þetta. Það var ekki um það að ræða að ráða menn í vinnu við að smíða hús. Hann gerði þetta allt sjálfur. Rústarverk var gamli tíminn á þeim tíma. Bárujárnsklædd timburhús voru byggingarmáti þessa tíma. Steinsteypuhúsin úr steinunum frá Mjölni, voru ekki farin að ryðja sér til rúms. Alkalískemmdir var orð, sem ekki var til í málinu þá.
Þessi hjón áttu hvort annað og ástina. Þess vegna var ekkert óyfirstíganlegt. Til voru konur sem misstu fyrirvinnuna, til menn sem misstu móðurina frá barnahópnum. Til var fólk sem upplifði ekki ást og virðingu hjóna hvort fyrir örðu. En þessi hjón báru gæfu til að una við sitt. Samhent. Gott fólk.
Þau komu upp þessu húsi við veginn inn að þvottalaugunum. Þá þótti þetta ekki lítið hús. Þetta þótti rúmgott hús. Nú finnst okkur það lítið, og skiljum ekki hvernig allur þessi hópur gat rúmast þarna. Og alltaf var pláss fyrir næturgesti.
Vegurinn að laugunum, kallaður Laugavegur, var fyrir austan læk.
Þetta hús var semsagt fyrir austan læk, og því ekki akksepterað sem hús í Reykjavík eiginlega, því vesturbærinn taldi sig hina einu sönnu byggð í Reykjavík. Þetta var utan við alla bæjarmenningu að dómi vesturbæjarins. Sá sem settist að fyrir austan læk, var að flytja brott. Ja bara svíkja. Enginn þurfti á því að halda á þessum tíma að vita hvar Breiðholtið var, því það var einhvers staðar á hálendinu og enginn átti erindi þangað. Árbær var sveitabær í sveit sem var handan við tvö fljót, sem kennd eru við Elliða einhvern.

Lækurinn þessi, sem farið var austur fyrir, þagar farið var austur fyrir læk, er nú í ræsi undir götu sem heitir Lækjargata, og er þetta nafn það eina sem minnir fólkið, sem gengur um göturnar, á hann. Hann getur þó huggað sig við að Lækjargata er skrifað með stórum staf, og það eru skilti á ljósastaurum. Að vísu er stóri stafurinn af því að þetta er sérnafn götu. Ekki lækjar.
Kannski er honum alveg sama. Tjörnin og höfnin eru upphaf hans og endir. Líklega er lækurinn ekkert skítugri núna en hann var þegar hrossataðið af götunum rann í hann í rigningu, svo hann hefur í raun ekkert að fela núna frekar en þá. Þá gat hann leyft sólinni að spegla sig í sér. Nú er það olíubrák vegna bílanna, brauðmolar sem endurnar torga ekki, salt af götunum og sígarettustubbar og pulsubréf. Tjörnin og höfnin eru upphaf hans og endir, og flóð og fjara leika við hann árdegis og síðdegis alla daga ár eftir ár eftir ár, og eflaust var þetta svo áður en Ingólfur Arnarbur tók hann í tölu bæjarlækja og líklega hefur hann aldrei heitið neitt annað en lækurinn. Ég veit ekki hvernig tilfinning það er að vera lækur í ræsi. Kannski á hann sér þann draum, að skipulagið teikni Lækjargötuna upp á nýtt, opni upp í himininn, og geri litlar göngubrýr, eins og voru. Mikið væri það gaman. Og allt rusl sem fyki í hann væri hreinslað brott með det samme af appelsínugulgallaklæddum bæjarstarfsmönnum á kaupi skv. samningum.


Lífið var vinna og meiri vinna. Sleitulaust erfiði. Eftir Laugaveginum gengu þvottakonur með óhreina þvottinn á bakinu á leið í laugar, og með blautan þvottinn til baka vestrí bæ að þvotti loknum. Sumir áttu hjólatík til að skrönglast með í eftirdragi. Það var léttara að draga en bera, og ekki eins vossamt á veturna. Á veturna fraus þvotturinn á baki kvennanna á heimleiðinni, og erfitt var að verja fötin sín þar sem rakinn seig til í handundnum þvottinum.


Þau skírðu húsið Vár, sem er heiti hjúskapargyðjunnar. Vár er eiginlega sáttmáli. Þetta nafn var tákn tryggðar. Tryggðin var styrkur í blíðu og stríðu.
Á fallegri fjöl sem prýddi útidyrakarminn stóð: VÁR 1909
Það var hún, móðirin, sem valdi húsinu þetta nafn. Þau voru alltaf samhent þessi hjón. Kannski var það einmitt þess vegna sem allt gekk.
Þessi fallega fjöl hangir raunar þarna enn: VÁR 1909.
Út um gluggann til norðurs sá út á sjóinn, fjöllin, og á sumrin miðnæturbirtuna á norðurhimni, þegar dagurinn unni sér engrar hvíldar, en rétt dottaði norðan við fjöllin í fjarskanum. Á daginn skein sólin inn um suðurgluggana, og vermdi yndislega, og umferð fólks fékk börnin í húsinu til að líta upp og spekúlera í hverjir þar væru á ferð. Á veturna sá til allra átta, þar sem norðuljósin, tunglið, þungbúin ský, stuttur dagur við vetrarsólhvörf, sem rann á suðurhimin og dvínaði nær samstundis, fluttu hin fegurðstu verk meistarans ísköldum tónum norðursins, og frostrósir á glugga megnuðu ekki að útiloka fegurð sköpunarverksins, svo grimmd veraldarinnar varð að engu í hugum hjónanna sem alla tíð elskuðu hvort annað og virtu, og nutu þess að eiga þetta hús, sem veitti þeim og börnunum skjól fyrir bitrum norðanvindum, grimmum frostum, slagviðri landsynningskaflanna, og þau skulduðu engum neitt. Sátt við guði og menn.


Konurnar sem fóru í laugar, gengu framhjá húsinu Vár við Laugaveginn. Á bakaleiðinni stöldruðu þvottakonurnar stöku sinnu við til að rétta aðeins úr bakinu og orna sér, en aðeins örstutta stund. Það varð að halda áfram, til að reyna að ná háttum heima. Birtu var oftast farið að bregða í skammdeginu og eftir var að hengja þvottinn til þerris þegar heim kom. Á sumrin var heldur ekki ætlast til að þær væru að slóra, því fleira þurfti að starfa á heimilunum. En þvottadagar, þótt erfiðisdagar væru, voru kærkomin tilbreyting. Þann dag hittu vinnukonurnar aðrar konur, sem var þá hægt að karpa við ef ekki annað.

Hestvagnar skröngluðust hjá. Pósturinn tók stundum farþega austur fyrir fjall. Allir sem fóru og komu til bæjarins, sáust út um gluggana, en hófadynur eða skrölt í vagni gerði boð á undan þeim velstæðu. Þegar menn fóru ríðandi út úr bænum, var lagt af stað síðla dags vestan úr bæ, og menn voru ferðaglaðir og sumir háværir og við skál. Fyrsti áfangi var Árbær. Þar var gist, til þess að leggja af stað með óþreytta hesta á heiðina hinn annan dag ferðarinnar, og freista þess að ná á Ölfusá dagleið. Það var margra daga ferð að heimsækja ættingja á Suðurlandinu.


Í húsinu Vár, sem stóð langt austan við læk, var allt hreint og snyrtilegt utanhúss sem innan. Sérhvert verk var unnið af alúð. Aldrei eitt styggðaryrði hraut af vörum í þessu húsi. Yfir stofudyrunum hékk útsaumuð mynd af burstabæ og DROTTINN BLESSI HEIMILIð saumað þar fyrir ofan með skrautlegum stöfum. Það saumaði hún meðan sjónin var góð. Saumaði af mikilli alúð. Drottinn hefur allan þennan tíma blessað heimilið.


Það er skrýtið, en þessi mynd hangir þarna enn. Það er eins og hún sé óbifanleg frá þessum vegg, frá þessum stað yfir stofudyrunum, þar sem hún hefur hangið áratug eftir áratug. Kannski blessar hann, hann Drottinn, enn allt það fólk sem kemur í þetta hús.

Hann sótti enn sjóinn, á þessum árum, gamli maðurinn, því hann var enn ungur þá. Það var langur gangur að heiman í uppsátrin. Langur gangur til baka með hlutinn sinn, þegar í land kom eftir erfiða róðra. En hann vissi að heima var hans beðið af konunni og börnunum, og sú vissa flytur fjöll og léttir lúnum göngu sína.
Hún beið hans frá því að hann kvaddi hana með kossi, heitur eftir kaffið í hlýju eldhúsinu og takandi við nestismalnum sem hún hafði útbúið honum. Hún vonaði, frá þeirri stundu, að hann kæmi heill og lifandi aftur og ekkert kæmi fyrir, því hún gat ekki vitað hvenær þeir ýttu úr vör, hvenær þeir komu að, hvort allt hefði gengið að óskum, hvort hann væri einn gangandi á leiðinni heim, fyrr en hann kom og heilsaði henni með kossi, sem var heitur, þrátt fyrir að andlit hans væri svalt af veðrum og hárið storkið af seltu, og höndin loppin í votum sjóvettlingum, stíf eftir að halda í pokaskjattann á bakinu, alla þessa leið, þungan af slorugu nýmeti.
Hugur hennar fylgdi honum allan þennan tíma, og hugur hans, og allt í veröld okkar, var eitt með henni. Hún treysti Guði, þótt hún bæði hans aldrei neins. Hún aðeins treysti. Það var eins og konan færi með manninum og væri með honum allan tímann, þótt hún væri í raun heima með börnin og þessi endalausu verk sem þurfti að vinna.


Hugur hennar og allt í veröld okkar eitt.

Við steinarnir hérna í fjörunni erum ekki að hafa áhyggjur. Við erum bara að velta því fyrir okkur, hvort allt veltur ekki bara betur í lífinu, ef við höfum ekki áhyggjur af neinu. Við steinarnir erum örlöglausir, lífvana. Fyrir okkur er einn dagur sem þúsund ár og þúsund ár dagur ei meir. Við höfum legið hér í fjörunni frá örófi og munum vera hér til eilífðar. Það er dagur ei meir. Eldgos úr iðrum jarðar, veðrun grjótsins í örsmáar agnir. Við erum jörðin.
Við steinarnir í fjörunni núumst hver við annan þegar flóðið nær til okkar, núumst í aldanna rás, verðum að möl, að sandi, að leir, að leðju, mólekúlum sem eru full af tómi, úr atómum sem eru nær eingöngu úr tómi, úr kvörkum með tómi, steinefni, sem lenda í einhverju þangi, eða í einhverjum fiski, Tökum þátt í lífinu, hverfum aftur til örlögsleysis okkar, og svo framvegis meðan sólkerfin standa.

En hið óumbreytanlega breytist ekki.


Niður aldanna, aldanna sem flóðið ber til okkar og niður aldanna, sem eru dagur ei meir, er upp hafinn úr hinu óumbreytanlega. Það er notalegt að liggja hér á bakinu og horfa upp í dimman himininn.


Bátarnir sigla út og myrkrið þarna úti tekur við þeim. Við stjörnurnar horfum niður til þeirra. Þá villast þeir ekki.
Við stjörnurnar hérna uppi á dimmum himninum, höfum ekki áhyggjur af þessu. Við erum bara að velta þessu fyrir okkur sí sona.
Það er eins og höfnin sé móðir, sem fæðir út úr sér þessa báta, og þessa menn á bátunum, sem þrá að komast út úr móðurinni, því framvinda lífsins er svo sterk, og þróunin er svo sterk, og fæðingin er svo óumflýjanleg rétt eins og dauðinn. En þessi aðskilnaður við móðurina veldur trega, og hin ramma taug dregur rekka móðurkviðar til. Þeir þrá að koma aftur, og við stjörnurnar horfum á þá sigla utan úr myrkrinu á hafinu, gegnum brim og boða, berjast í öldunum, því takmark sjómannanna er að sigla skeið sinni aftur inn um hafnarmynnið eins og inn um skeiðarop inn í móðurskautið aftur, þar sem öryggið er og þar sem sefandi hjartsláttur móðurinnar er. Og móðirin tekur við þeim á ný. Móðirin tekur alltaf við sonum sínum á ný án þess að krefja þá þess að vera.
Kyrrð um hríð. Aðeins reglulegur hjartsláttur hafnarinnar.
En blóð bátanna fer að ólga af þrá eftir átökum við stærri öldur. Þeir vita að þeir eru hér til þess eins að fara og koma og fara og koma. Þeir geta ekki kyrrir verið. Markvissar fæðingarhríðir hinnar kviðguðu hafnar örva þá óþolandi. Undiraldan lætur þá ekki í friði. Hafnarmynnið er ætíð opið.


Við horfum á mennina, öld eftir öld eftir öld, sigla skeið sinni út úr hafnarmynninu. Er ekki rétt eins og höfnin sé að fæða? Grimm úthafsaldan tekur við þeim ögrandi. Sá hildarleikur veiðimannseðlisins og hættunnar endar ýmist í hafinu eða heima í móðurskautinu.
Okkur mæðrunum finnst líka alltaf, að mennirnir séu að reyna að komast inn í okkur aftur. Þeir reyna, en komast ekki nema að litlu leyti. Þeir reyna alltaf aftur og aftur, því í legi hinnar kviðguðu móður var sefandi hjartsláttur. Þar þurfti ekki að sanna neitt, ekki sýna neitt, ekki standa sig í neinu og það var gott. En það var ekki karlmannlegt. Þess vegna stöðvast ekki þróunin. Þess vegna stöðvast ekki þessi sífellda, sífellda leit okkar sonanna að örygginu sem við vitum að var einhvers staðar. Öryggið sem gerði engar kröfur. Öryggið sem var allt okkar án endurgjalds. Ómálga, ófæddur sonur, sem andaði að sér tilfiningum móðurinnar gegnum naflastreng, teigaði líf hennar sem sitt, fann hverja tilfinningu hennar sem sína.


Römm er sú taug, sú mjúka, fíngerða taug.


Sem ég ligg hér í fjörunni eins og hvert annað fjörugrjót, veit ég ekki hvort ég er vakandi eða sofandi eða hvorugt; hvort ég er kona eða höfn eða hvorugt. Steinvala, stjarna eða hvorugt. Alda rís og alda hnígur, rís á ný.
Niðurinn sem kossar haföldunnar mynda, rennur saman við nið stjarnanna, sem voru til í einhverju núi fyrir óralöngu, en eru til fyrir mér í núinu sem er núna fyrir mér og kemur þeim ekki við.
Niðúð mín verður að dulúð, dulúðin að munúð. Við hvern bát sem rennir sér feginsamlega inn í skaut okkar hafnanna, kenni ég mín og finnst ég hafi hafnast, finn ástúð; við hvern bát sem siglir út, finn ég sársauka fæðingar eða sorg þeirrar móður sem leysist höfn eða þræði áhyggjur móðurinnar af sonunum sem fóru frá henni og stolt hennar yfir áræði þeirra og vissuna um að þeir standa sig og koma aftur, óbeðnir.

Ég renn saman við hugsanir mínar og niðúð mína.


Snjór, dúnmjúkar flygsur, englafiður úr skýjunum, hylur smátt og smátt jörðina og líkama minn liggjandi í fjörunni. Jörðin verður hvít og ávöl, allar línur mjúkar, líkami minn sem er hvorki jörð né kona verður hluti af þessari endalausu og upphafslausu, hvítu, útlínulausu breiðu. Steinar, sem áður voru harðir og kaldir eru núna mjúkir og hlýlegir af dúnmjúku ísköldu hulunni.

Ég finn, þegar ég verð eitt með jörðinni, að skýin hafa stigið niður til jarðar og breitt oná mig. Uppruni minn einn er lifandi, hjartað hættir að slá, hver fruma leggst í dvala, ekkert hljóð heyrist, nema eilífur niður sameindanna inní mér og eilífur niður sólkerfanna. Hin djúpa kyrrð er Guð í alheimsgeimi og Guð í sjálfum mér.


Snjór lagðist yfir glufunrar á húsinu í skafl, og skaflinn hélt hlýjunni í kotinu, þegar frostvindurinn ætlaði með kaldhæðnislegu glotti að að feykja sér inn og út að vild. Ég er viss um að englarnir sendu litlu fátæku börnunum þennan snjó til að halda helvítis trekknum úti.


Angur þekkti hún ekki, gamla konan í húsinu Vár við veginn að þvottalaugunum. Margir á tímum örbirgðar, áttu ekki annað athvarf til huggunar en grátinn. Óvissan um að eiga ekki málungi matar handa barnahópnum, öryggisleysis, ef slys bar að höndum, kvöðin að duga eða drepast, þrengslin í þéttsetnum húsakynnum, þar sem enginn gat verið einn með sjálfum sér eitt andartak, heimilin, sem sátu uppi með allan vanda sjúkra, fatlaðra, vangefinna, vondra. En sem betur fer var alltaf til gott fólk, sem vildi allan vanda leysa. Til var fólk sem gerði öllum gott, hjálpaði öllum.

Hún, þessi kona í húsinu við veginn að laugunum, grét aldrei. Hún var hér á þessari jörð til að gera öllum gott. Hún þurfti aldrei að snúa við koddanum, af því að hann væri orðinn svo blautur af tárum. Heit tár runnu aldrei á kodda í þessu húsi. Það er hvort eð er ekki hægt að snúa táravotum kodda við tvisvar. Hin hliðin er orðin köld og ónotaleg ef maður snýr koddanum við tvisvar. Sú nýútgrátna er því skárri, þótt hún sé blaut, því hún er ekki orðin köld. Það verður engin þurr hlið eftir á útgrátnum koddum og það eru ekki allir sem eiga ofn til að þurrka koddann sinn við að morgni. Það er reginskekkja að grenja sig í svefn, því "svá er víl sem var, er að morgni kömur".


Börnin uxu úr grasi. Fluttu að heiman. Móðirin, sem stjórnaði öllu mjúkri hendi, var jafn æðrulaus þegar þau kvöddu eins og þegar þau fæddust.

Gamli maðurinn hætti róðrum. Þau voru tvö ein eftir í kotinu. Stríðið kom og börnin þeirra þénuðu peninga og komust í álnir. Þau litu ætíð til með foreldrunum í gamla húsinu og sáu um að þau skorti ekkert því nú var komið góðæri fyrir norðan stríð.

Gamli maðurinn er stuttstígur, þar sem hann röltir fram og til baka á stofugólfinu sínu í flókainniskóm. Gólfinu, sem hann lagði sjálfur fjöl fyrir fjöl. Gólfinu sem hún, vanadísin hans, hefur skúrað með grænsápu og sandi fyrir jól, jól eftir jól, tugi hátíðlegra jóla, sem þau hafa lifað saman í sínu eigin húsi. Hann gengur að glugganum sem er á litla norðurherberginu. Þaðan sér ekki lengur út á sjóinn, ekki lengur á fjöllin, ekki einu sinni oná Hverfisgötuna, varla lengur í himininn, því fyrir norðan og vestan gamla húsið hafa nú risið há hús úr steinsteypu. Hús upp á margar hæðir. Úr vesturglugganum sér ekki lengur sólsetur hjá Snæfellsjökli. Úr austurglugganum sér ekki lengur dagrenning, sér ekki lengur inn að Rauðará. Hús hafa risið allt um kring. Í dögun eru ljósaskipti, þegar rökkvar eru ljósaskipti, en ljósaskipti sjást ekki lengur úr þessum litlu gluggum þessa gamla húss. Rauðará er víst líka kviksett í ræsi eins og lækurinn. Kannski á Rauðará sér líka þann draum að sjá upp í himininn, þar sem hún gæti látið sólina glitra á flúðum, tunglið tendra fölva á hyljum í logni, regndropa skoppa og kitla, vera borgarbúum boðberi náttúrunnar hljóða með róandi seytl og fosshljóð sem hörpuspil handa elskendum, því margir kunna ekki lengur að hlusta á fugla syngja. Eyru þeirra nema aðeins vélagný og ískur. Hún þráir ef til vill að skarta í klakaböndum við vetrarsólhvörf. Magrur sér aðeins hemaða drullupolla strætanna og bölvar því að spóla í hálkunni. Einhver verkfræðingur hlýtur að geta fundið teikningu af gröf hennar og opnað henni himininn og augum okkar róandi nærveru vatnsins sem rennur til sjávar.

Hann röltir til baka að suðurglugganum í stofunni, gamli maðurinn. Það sér ekki einu sinni út á Laugaveginn lengur, því stórt hús hefur verið byggt á framlóðinni, þar sem kálgarðurinn þeirra var áður. Skrölt hestvagna er löngu löngu hljóðnað, en hann heyrir það samt í minningunni. Hann röltir til baka að rúminu. Sendir konu sinni hlýjar hugsanir um leið og hann sest. Þögnin, hugsunin, og hið þögla svar, eru höfugri en orð. Hún situr og prjónar. Sjónin er ekki lengur nógu góð til að sauma fíngert. En yfir stofudyrunum hangir enn myndin af burstabænum og skrautletrið: DROTTINN BLESSI HEIMILIð. Á gólfinu er handgerð tuskumotta. Þessa mottu gerði hún úr gatslitnum flíkum, því menn voru farnir að fleygja ónýtum fataleppum í stað þess að gera við. Hún horfir ekki á prjónana. Þegar hún lærði að prjóna sem lítil telpa, var henni sagt að venja hefði verið að lesa í bók þegar verið væri að prjóna, og krakkar hefðu jafnan verið prjónandi þegar þau fóru að sækja kýrnar. Það hafði ekki þótt vel farið með tímann í sveitinni í gamla daga að vera að lesa, og vinna ekkert á meðan, og sjálfsagður hlutur að nýta þann tíma sem fór í að leita að kúnum og reka þær heim, til þess að prjóna sína vettlinga.

Tifið í prjónun er róandi. Gamli maðurinn hummar lágt. Gamla konan stendur upp og fer fram í eldhús að hita kaffi. Þar er allt hreint og fágað, þótt henni sé farin að daprast sjón. Hendurnar vita hvar strjúka á rakri dulunni, til þess að þrífa brott öll óhreinindi. Útsaumaði lérftsdúkurinn fyrir viskustykkjahenginu er stífstraujaður. Allt er svo vel með farið, að ekki er einu sinni dottið upp úr emaleringunni á blárri kaffikönnunni. Ilmur af kaffi læðist um húsið. Það er hlýtt í eldhúsinu. Þetta er þeirra ævikvöld. Allt gott þakka þau hvort öðru. Það er friður í augum þeirra, augum sem sjá ekki vel, og þurfa þess heldur ekki, því þau hafa séð allt sem sjá þarf. Hendur þeirra eru orðnar beinaberar og krepptar, skylduræknar hendur, sem ætíð gerðu öðrum mönnum gott.


Þessi kynslóð er horfin. Blessuð sé minning hennar. Þau dóu með frið í sál sinni, gömlu hjónin.

Húsið Vár stendur enn. Þau seldu húsið, börnin, því lóðir eru nokkuð verðmætar á þessum stað og þeim veitti ekki af pening í sín hús. Eitthvert þeirra vantaði kannski nýtt sófasett. Þau eru vinnusöm, börnin, enda alin upp við það. Það er að segja þau eru ekki lengur börn, en þau eru börn þessara foreldra sinna, sem ég minnist svo sterkt, þegar ég stend hér og horfi á gamla húsið, sem nú er búið að selja. Hugsun mín er bergnumin í tímaleysu.
Börnin tæmdu húsið, utan nokkurra muna, sem ekkert þeirra eða þeirra krakkar höfðu áhuga fyrir.
Ekki veit ég hvort börn þessara foreldra horfinna ströndum, kunna að búa sínum krökkum HEIMILI í þeirri merkingu orðsins sem fylgir útsaumuðu myndinni DROTTINN BLESSI HEIMILIð, þar sem mamma var alltaf til taks, ef eitthvað bjátaði á. Ekki veit ég hvort krakkarnir, sem fæddust svo inn í allsnægtaöldina, vöndust því að taka til hendinni. Kannski er orðið HEIMILI nú farið að tákna íbúð fulla af húsgögnum, íbúð sem lengst af er mannlaus, og ísskápurinn er fullur af mat, sjónvarp í gangi og einn og einn af heimilisfólkinu ýmist á leið inn eða út í erindum sem hinir hafa engan áhuga á. Hvort sem þessi notalega tilfinning að eiga HEIMILI hefur komist til skila til afkomendanna í allsnægtaættliðin veit ég ekki. En þessi tilfinning var þeim er hennar nutu, ómetanlegur bakhjarl í lífinu. Óafvitandi bjuggu þeir að þessu öryggi alla ævi, og þess vegna skiljum við ekki eirðarleysi ungdómsins nú. En án er ills gengis nema að heiman hafi.


Fyrst var húsið notað fyrir pakkhús fyrir búðina, sem var komin á neðstu hæð í framhúsinu, sem búið var að reisa. Framhliðin á versluninni, sem er tískufataverslun núna, er mjög fín og smart, en það sem er hinum megin, portmegin, bakhliðin, sem snýr að gamla húsinu, er ekki ætlað viðskiptavinum og vegfarendum um Laugaveginn. Þar hrannast upp pappakassar við öskutunnurnar. Í baklhiðina er ekki eytt tíma né peningum. Bros afgreiðslufólksins snýr að kúnnanum og buddunni hans. Umbúðum og sorpi er fleygt í snatri í tunnur og í hrúgu út í þetta port, þar sem píláragrindverkið, sem gamli maðurinn smíðaði þegar hann var ungur, lufsast hálffallið, og bárujárn gamla hússins er að byrja að ryðga.


Það varð ekki úr því að gamla húsið yrði rifið, því nýi eigandinn fékk betri hugmynd. Hann flikkaði upp á það og setti upp diskótek og vínveitingastað. Blikkandi skrautljós voru sett í portið. Grindverkinu fleygt. Stórt skilti sett upp úti við Laugaveg, og píla inn á baklóðina. Öskutunnurnar og pappakassahrúgan úr versluninni falið á bak við hátt þil og þilið málað. Þeir máluðu stofugólfið skærrautt. Voru að hugsa um að líma á það, en enduðu á að láta það halda sér og hressa það upp með æpandi lit.

DROTTINN BLESSI HEIMILIð, var tekið niður á meðan verið var að rífa niður veggfóðrið í stofunni, slípa upp innviðina með slípirokk, og festa upp hentuga, dempaða lýsingu, sem hæfir búlu. DROTTINN BLESSI HEIMILIð var á leið í hrúguna við sorptunnunar, þegar einn að rafamgnsmönnunum, sem voru að setja upp í öll horn hátalarakerfið fyrir diskómúsíkina, hengdi myndina upp aftur fyrir ofan stofudyrnar - á sinn stað. Svo brosti hann, því honum þótti þetta skemmtileg tímaskekkja. Bóndabærinn á myndinni brosti á móti. Þögnin, hið þögla svar, er höfugri en orð. Alúð handa hennar, gömlu konunnar, liggur í hverju spori. Málfá, höfug orð. Fólkinu, sem hingað á eftir að koma í leit að vímu og gerfilífshamingju, veitir ekkert af blessun Drottins frekar en öðrum.


Fólkið sem ráfar um Laugaveginn á nóttunni, er hávært. Það syngur. Það æpir. Það öskrar. Það er eins og það spangóli stundum skerandi óhljóðum. Drukknar unglingsstúlkur emja og skrækja. Það trúir þessu enginn nema sá sem býr þarna og heyrir þetta inn um gluggana sína, þegar hann er að reyna að sofa. Þarna eru skrímsli á ferð, ekki menn.
-Maður er oft hvað harðastur og ósanngjarnastur við aðra, þegar maður sér ekki eigin galla, var hún vön að segja, hógvær en ákveðin, gamla konan sem bjó í húsinu Vár við Laugaveginn. Hún leið engum illt umtal í sín eyru á heimili sínu né utan þess, og kom slíkum umræðum snarlega í annan farveg.

Gamla húsið gömlu hjónanna, var reist fyrir heiðarlega peninga af heiðarlegu fólki. Þaðan sér ekki lengur til hafs. Sumir sjá aldrei fegurð himinsins hvort eð er. En við vitum að alda rís og alda hnígur, rís á ný. Steinarnir í fjörunni núast saman með klið þegar kaldir kossar hafsins koma þeim til. Menningarheimar koma og fara, rísa, hníga, rísa á ný. Það er dagur ei meir.

****