ISBN 9979-895-70-5

Eru verkir með þessu? Fylgir þessu hiti, mamma?

( / Frú Sigríður )

 

 

Smásögu þessa er að finna í bókinni Óðsmálum, kafli nr. 23
to be found in Óðsmál, in Icelandic and in English, chatter 23

Óðsmál, ISBN 9979-60-165-5

1996

 

Kæra dagbók.

Í dag er 24.3.

Ég tók til morgunmatinn eins og venjulega. Drengirnir áttu að mæta kl. 8.o5 og 8.1o. Þeir vilja ekki lengur lýsið sitt. Þeir eru orðnir svo stórir og sjálfstæðir.
Morgunmatur er nauðsyn vaxandi drengjum; - hollur morgunmatur. Já, þess vegna hef ég alla tíð farið á fætur með þeim, eins og þú veizt. Hollur morgunmatur er nauðsyn.
Höskuldur mætir líka alltaf 8. Í morgun bölvaði hann því ekki að blaðið var ekki komið og hann gæti ekki lesið það áður en hann færi, því það er mánudagur og það er enginn Moggi.
Þegar þeir voru farnir, allir karlmennirnir mínir, raðaði ég inn í vélina. Korrandi, róandi hávaðinn í vélinni, uppþvottavélinni, var það eina sem heyrðist í húsinu; þeir allir þrír farnir: Höskuldur á stofuna og drengirnir í skólann.
Ég settist við borðstofuborðið: Hvað ætla ég að segja honum?
Ég verð að undirbúa e-ð.
Ég setti líka í þvottavélina. Þær korruðu báðar, þvottavélin og uppþvottavélin.
Hvað ætla ég að segja honum? Hvað á maður svosem að segja, þegar maður fer til sálfræðings? Horfa á hendurnar á sér og vera búinn að gleyma, hvers vegna maður pantaði tíma? Ég geri ráð fyrir því ! Horfa bara á hendurnar á sér !

Ég bíð á biðstofunni.
Æ, það er óþægilegt. Ég er að reyna að muna, hvað ég ætlaði að segja, þegar ég fer inn. Ég lagfæri hárið.
Nú er komið að mér.
-Góðan dag, frú Sigríður, segir sálfræðingurinn. -Fáðu þér sæti, gjörðu svo vel.
Já, hvað get ég gert fyrir þig?
(Það verður þögn. Það er ósköp eðlilegt, er það ekki? Maður er búinn að gleyma öllu sem maður er kominn til þess að segja, - hefur e.t.v. allt í einu enga þörf fyrir að segja það - eða veit ekki á hverju maður á að byrja.)
-Ekki svo að skilja, að ekki sé allt í lagi (segi ég og brosi). -Ég kom bara til að -- eh - mig langar eiginlega til að spyrja þig um dálítið. Hugsanirnar eru bara svona út um allt í höfðinu. Þyrfti bara kúst og fægiskúffu til að sópa þeim saman !
(Ég brosi aftur. Sálfræðingurinn brosir líka.)
-Ja eða bara ryksugu? (held ég áfram). -Það væri kannski það bezta að geta bara ryksugað alla hugsanaþvæluna burt á föstudögum, svona bara eins og maður ryksugar gólfin sín.
(Ég hef gaman af að tala við fólk. Það er e.t.v. af því að ég tala svo sjaldan við fólk. Ég var félagslynd, þegar Ég var í skóla.
Hann er áreiðanlega vanur því að fólk sé með fimmaurabrandara til þess að breiða yfir hvað það er stressað. Og einhvern veginn verður maður að hefja viðtalið, ekki satt?)
-Ja, það þurfti nú að ryksuga oft, þegar drengirnir voru litlir og fótboltinn kom fljúgandi inn í forstofu - og blautur sandurinn út um allt forstofugólfið.
(Fótboltinn er raunar enn í forstofunni. Nú er hann alltaf hreinn. Drengirnir löngu hættir í fótbolta, - vaxnir upp úr honum. Ég verð pínulítið angurvær, þegar ég hugsa um þetta. Ég læt boltann vera í forstofunni svona til að minna á þennan yndislega tíma, þegar blautur boltinn með sandinum á kom fljúgandi inn í forstofu. Ég get ekkert verið að segja honum þetta, sálfræðingnum. Þetta er svo barnalegt.)
-Þá var nú ryksugan oft á ferðinni hjá mér (segi ég og hlæ við). -Þeir voru nú kannski röskari í fótboltanum en í skólanum, drengirnir. Ekki þannig, að þeir séu ekki vel greindir, drengirnir. Þeir eru vel gefnir. Bara voru dálítið latir að læra, - svona eins og gengur og gerist með tápmikla drengi.
Hann Höskuldur varð svo reiður, þegar hann vissi að ég gerði heimaritgerðirnar fyrir þá. Þeir hefðu auðvitað vel getað gert ritgerðirnar sjálfir. Þeir eru vel greindir, - já, gáfaðir, þótt ég segi sjálf frá. Þeir voru bara svolítið latir að læra, - svona eins og gengur og gerist með stráka á þessum aldri.
Já, ég hafði bara gaman af að hjálpa þeim með ritgerðirnar.
Maður má víst ekki vera of góður, þá fer maður að vera vondur.
(Mér finnst þetta nokkuð skarpleg athugasemd hjá mér og brosi við. Sálfræðingurinn brosir líka, kinkar kolli og segir: Hmmmmmm. Ég ætlaði auðvitað ekkert að segja allt þetta, en e-n veginn verður maður að byrja. Maður getur ekki bara sitið og þagað.)
-Þeir eru nú orðnir svo stórir og fallegir piltar.
(Maður á ekkert að vera að fela sitt móðurlega stolt, þegar maður er kominn til sálfræðings til að tjá sig, er það?)
-Maður á að kunna að meta það að eiga falleg og heilbrigð börn.
-Hmmmmmm, segir sálfræðingurinn.
(Það verður þögn. Ég reyni að henda reiður á einhverri hugsun, en þær flögra eins og snjótittlingar inni í höfðinu á mér, eins og síkvikulir snjótittlingar yfir fuglakorni í snjónum; þegar maður ætlar að festa augun á einum, flýgur allur skarinn.
Jú, ég veit hvers vegna ég pantaði tíma. Ég veit bara ekki hvernig ég á að, sko --)
-Höskuldur er verkfræðingur. Hann talar ekki nema hann hafi e-ð gáfulegt að segja. Það er hans prinsip, sko. Annað hvort segir hann e-ð gáfulegt eða þegir.
-Hmmmmmm, segir sálfræðingurinn.
-Við erum svolítið ólík, hjónin. Það er nú kannski bara gott. Ég meina gott fyrir drengina. Ég, - eh - mér finnst svo mikið atriði að halda uppi samræðum, t.d. við matborðið. Finnst þér það ekki líka?
-Hmmmmmm, segir sálfræðingurinn.
-Já, við erum svolítið ólík. Ég er t.d. svo mikið fyrir tónlist. Ég ætlaði meira að segja að læra að syngja einu sinni. Verða söngkona Ég hafði hæfileika. Messósópran.
En svo gifti ég mig. Og eignaðist drengina.
Við erum ólík. Ég hef djúpar tilfinningar -- (mér dettur allt í einu í hug:) Einu sinni var ég að koma af tónleikum í Háskólabíói - þetta var áður en ég gifti mig - og ég gekk fram hjá Útlaganum, styttunni af útlaganum. Hann er með líkið af konunni sinni á bakinu, barnið sitt í fanginu og magran hundinn sinn við hlið sér. Hann er á leið til mannabyggða til þess að konan hans fái legstað í vígðri mold. Fyrir það fórnar hann frelsinu, fjöllunum, lífinu og barninu. Barn útlegumanns verður niðursetningur hjá mönnunum. Ég stóð og horfði á styttuna. Stóð lengi, lengi og tár komu í augun á mér. Grannur líkami dáinnar konunnar, svo máttlaus, svo fallegur. Allt er búið. Kannski er maður sérstaklega tilfinninganæmur þegar maður kemur af tónleikum, en ég grét. Tárin runnu niður kinnarnar. Ég stóð þarna lengi og fann til.
Höskuldur grætur ekki.
Nú hlusta ég mest á plötur; fer eiginlega aldrei á tónleika. Ég hef ekki haft tíma. - T.d. þegar drengirnir voru litlir: Hvernig á maður að komast á tónleika, með tvo litla drengi sofandi heima?
Svo fara konur svona með mönnunum sínum en ekki einar, þú skilur. Höskuldur kallar tónleika: tómleika, - svona í gamni, auðvitað.
Já, ólík.
Hann vildi hafa trén í garðinum í beinum röðum, og allt skipulagt. Þeir eru svona þessir verkfræðingar.
Ég á ekki stafla af ástarbréfum með rauðri slaufu utanum uppi á háalofti, eins og sumar konur. Höskuldur skrifaði ekki ástarbréf.
(Ég hika. Kannski ætti ég ekki að segja það sem mér dettur í hug núna?)
Ég - ég keypti mér slæðu um daginn, - sá hana í búðarglugga, "ekta pure-silki", eins og maður sagði í gamla daga, handrolled. Mér þótti hún svo falleg, að ég skellti mér á hana. Svona alls konar klútar eru svo mikið í tízku núna.
Ég var lengi að prófa fyrir framan spegilinn, hvernig ég ætlaði að hafa hana: Setti hana um höfuðið: of pæjulegt; setti hana um mjaðmirnar: hún var ekki nógu stór til að vera smart; (raunar náði hún ekki utan um mig;)
(Ég finn að það er óskaplega barnalegt að segja frá þessu, fullorðin kona, en úr því að ég er byrjuð er ekki um annað að ræða en halda áfram.)
-setti hana um hálsinn, - smá lausan hnút á hlið, lét svo hornin lafa svona út á öxlina - þetta var e-ð pínulítið lauslætisdrósarlegt, en ég þótti alltaf frekar smart í gamla daga. Ég ætti kannski ekki að vera alveg svona feit núna, en Höskuldur segir að það klæði mig vel. Fegurð er ekki metin í kílóum. Fegurð er e-ð allt annað.
Já, ég setti á mig slæðuna.
Þegar Höskuldur kom heim, sagði hann: -Ertu með hálsbólgu, elskan?
Hann er bara svona, þessi elska, hann Höskuldur.
Hann kann að meta það að ég er heima. Hann segir, að það verði að vera fastur punktur á heimilinu. Það sé ómetanlegt að hafa fastan punkt á heimilum.
Það er mikils virði að fara á fætur með börnum og tala við þau, gefa þeim hollan morgunmat. Það er mikils virði.
Í gamla daga var það staða, fullsæmandi staða fyrir konu, að vera frú e-s.: faktorsfrúin; læknisfrúin. Nú er, aftur á móti, búið að læða e-u inn í mann um, að hver og einn verði að vera fjárhagslega sjálfstæður, axla byrðar þjóðfélagsins, og maður fær e-ja sektarkennd hérna langt, langt inni.
Höskuldur skaffar vel. Og það verður að taka það með í reikninginn, að ég hef aldrei lært á tölvur. Það var einfaldlega ekki búið að finna þær upp, þegar ég var í skóla.
Það er búið að læða því inn, að maður hafi fórnað sér, fórnað beztu árum æfi sinnar, fyrir e-t gamaldags, ímyndað hlutverk; eða maður finnur pínulitla öfund og stríðni í bland: að maður sé búinn að vera að leika sér í 25 ár, í stað þess að standa sig; - heyrir e-ð um forréttindi, sem sumir hafi; finnur á tóninum í röddinni, að það sé e-ð ósanngjarnt.
Höskuldur segir að ég megi ekki láta rauðsokkupípið stjórna mér. Ég verði sjálf að meta hvaða skoðanir ég ætli að hafa. Ég má ekki bara láta tízku og tíðaranda sefja mig, og hugsa bara samkvæmt tízkufyrirbrigðum.
Hann Höskuldur segir, að það sé mikils virði að hafa svona, -já, eins og hann segir: fastan punkt á heimilinu.
Stundum finnst mér ég vera e. k. kvenpersóna í nútíma-kvennabókmenntum, leiksoppur, í svona vandamála-, komplexa- og, æ, svona stöðu-konunnar-tízku-sögu.
En hann Höskuldur segir: á bak við hvern mikinn mann er góð kona (eða er þetta máltæki ekki svona?).

Konur í fornsögunum voru örlagavaldar: -eigi skal gráta Björn bónda; -köld eru kvennaráð, og svoleiðis. Þær voru teknar sem gildar sögupersónur, en ekki bara leiksoppar.
Í Roy Rogers í gamla daga, "kabboymyndunum", eins og við kölluðum þær, voru konurnar alltaf voða sætar og fínar, - og áhyggjufullar. Í hæsta lagi að þær stæðu og æptu og böðuðu út handleggjunum á hættustund. Nú eru konur orðnar byssugæjar í aðal-töffarahlutverkunum. Nú er ætlazt til að þær, - eh - við, stöndum okkur.
(Kannski veit sálfræðingurinn ekki hvað ég er að fara, hvað ég er að meina með þessu?)
Ég var að lesa bók um daginn. Hún gengur út á að það sé sjúkdómur að elska of mikið. Það er allt orðið sjúkdómur nú til dags: Að elska of mikið er sjúkdómur, en ekki bara skortur á sjálfsvirðingu. Það er kallað sjúkdómur að drekka of mikið brennivín. Þetta er bara skortur á sjálfstjórn. Bráðum verður of hraður akstur kallaður sjúkdómur, en ekki bara skortur á skynsemi, vítaverður skortur á skynsemi. Ef fólk getur ekki stillt sig: - bara sjúkdómur -.
-Hmmmmmmm, segir sálfræðingurinn.
-Þetta er nátturulega bilun, segja synir mínir stundum. (Þetta er svona tízkufrasi.)

(Mig langar til að tala um, hvað uppeldi, gott uppeldi, er í raun og veru mikið starf, fíngert starf. Ég man eftir því, þegar kunningjafólk okkar kom við hjá okkur á sunnudegi einu sinni. Þau voru í sunnudags-bíltúrnum með telpuna sína. Þau vildu ekki þiggja neitt, því þau voru öll nýbúin að borða ís. Allt var svo fellt og fágað: sunnudagsbíltúr í bónuðum bílnum, öll í sunnudagafötunum og búin að borða sunnudagsbíltúrs-ísinn.
Svo þurfti telpan að skreppa á afvikinn stað (eins og ég segi mínum drengjum að segja), og kallaði inn í stofu: -Ég þarf að kúka !
Mamma hennar stóð auðvitað upp, fór með hana fram á toilet, kom aftur og settist. Löngu seinna hljómaði um allt hús, - og það sem verra var - út um opinn baðgluggann líka: SKEINA MIG ! MAMMA, SKEINA MIG !
Hræðilegt.
Það er svo agalegt, þegar móðirin hefur ekki tilfinningu fyrir fágaðri framkomu barna.
En maður segir ekkert sálfræðingum svona sögu. Hann heldur bara að maður sé smámuna-samur, hysteriskur, sé að tala illa um vini sína, eða bara lítið gefinn.
Ég finn líka að ég er ekkert farin að tala um það sem ég ætlað að tala um.
Ég ræski mig.
Ég reyni að leita að því sem ég .......
Hugsanirnar vilja ekki láta höndla sig. Þetta er eins og að elta blauta sápuna í baðkarinu.
Ég vil samt flýta mér að halda áfram. Það er nefnilega aldrei að vita nema sálfræðingurinn fari annars að spyrja e-s. T.d.: Hvernig er kynlífið hjá ykkur?

Ég verð að halda áfram áður en hann fer að spyrja e-s svoleiðis.)

-Já, (segi ég) það er mikils virði að fara á fætur með börnunum sínum og ræða við þau. Tala við þau um e-t málefni.
Ég var ekki svona nöldrandi mamma: ,drífðu þig", ,þú ert að verða of seinn", ,flýttu þér nú" og ekkert annað með morgunmatnum. Nei. Ég bara rabbaði við þá um e-ð skemmtilegt, meðan við fengum okkur árbítinn. Ég rabbaði við drengina, meðan Höskuldur las blaðið. Hann hefur svo mikið að gera, vinnur svo mikið, hann Höskuldur, að hann hefur ekki mikinn tíma til að tala við drengina.
Auk þess eiga menn að hafa frið. Það á að vera friður og ró á heimilum, skilurðu. Á heimilinu sínu eiga menn að endurhlaða rafhlöðurnar, hvílast, líða vel. - Nota svo kraftana til verðugra verkefna í starfi sínu. Allt of mörg heimili eru haslaður völlur þar sem sífelld hólmganga fer fram, í stað þess að vera afdrep frá erli hinnar stóru, grimmu veraldar samkeppninnar þarna fyrir utan.
(Ég hef á tilfinningunni að ég sé langmál og háfleyg, en ég er komin til að tala, ekki satt?
Enda segir sálfræðingurinn: Hmmmmmmm.)
-Já, ég talaði mikið við þá, drengina mína. Ó, þeir geta verið svo fyndnir. Einu sinni sögðu þeir: -Mamma, veiztu hvers vegna móðurmálið heitir móðurmál en ekki föðurmál? -Það er af því að pabbarnir komast aldri að. (Þeir höfðu heyrt þennan brandara e-s st.)
Litlu skinnin. Þeir eru yndislegir.
Þeim þótti líka ósköp gott að láta mömmu reima skóna, þegar þeir voru að fara í skólann. Enda ætlaði sá yngri aldrei að geta lært að binda slaufu. Maður má ekki vera of góður, þá fer maður að vera vondur.
(Nú brosir sálfræðingurinn ekki. Maður á aldrei að segja svona gullkorn tvisvar; - er ekkert fyndið í annað sinn.)

-Höskuldur keyrði þá alltaf í skólann, drengina, um leið og hann fór á stofuna.
Höskuldur á alltaf Volvo. Hann segir að Volvo sé góður bíll. Ég fæ alltaf að velja litinn.
Mér leið alltaf betur að vita af þeim í bílnum með pabba sínum, en að beita þeirri grimmd að rífa þessi litlu skinn, grútsyfjuð, undan hlýrri sæng og láta þau berjast við norðanbylinn eldsnemma á hverjum dimmum vetrarmorgni. Jafnvel yfir umferðargötur. Ég gat ekki til þess hugsað.
(Ég hætti við að segja meira upphátt.
Ég hugsa bara: Ó það er yndislegt að hafa þá heima ennþá. Ég veit að þeir komast e-n tíma á þann aldur sem piltar fara, svona, að líta í kringum sig, eins og sagt er. Fara að búa, gifta sig. Ég vona bara að þeir hitti góðar stúlkur.
Ég finn að þetta er svolítið sár tilhugsun, að þeir fari að heiman og byrji að búa. Ég er ekkert að segja þetta við sálfræðinginn. Þetta er sennilega öllum mæðrum eðlilegt. Hann fer bara að þvæla um gang lífsins, -Ödípusarduld, - það verði e-n tíma að klippa á naflastrenginn. Hann skilur ekki, að þetta er miklu flóknara mál.
Svo ég segi:)
-Þótt drengirnir mínir séu fæddir með silfurskeið í munninum, "það sé mulið undir þessi börn nú til dags", eins og gamla fólkið orðar það, er samt erfitt fyrir þá ....... skilurðu? Það er ætlazt til að drengirnir verði a.m.k. verkfræðingar eins og pabbi þeirra. Þetta bara liggur í loftinu, skilurðu? Auðvitað er erfitt fyrir drengi, sem þurfa að fara snemma að vinna fyrir sér, að brjótast til mennta, enda er viðurkennt, að það er afrek. Engan furðar heldur þótt þeir gefist upp. Það þykir eðlilegt.
En þeir, sem hafa allt af öllu, hafa enga afsökun fyrir að standa sig ekki, skilurðu? Jafnvel ekki talið afrek að standa sig. "Þeim er nú ekki vorkunn", "þeir hafa það nú svo gott". Samt þurfa þeir að leggja hart að sér. Ég veit það. Ég er móðir þeirra.
-Hmmmmmmm, segir sálfræðingurinn.
-Þeir eru mjög líkir Höskuldi drengirnir.
Hann vinnur mjög mikið, hann Höskuldur.
(Raus. Raus. Gusur af orðum og óskipulegum hugsunum. Þrugl um smáatriði, sem koma málinu ekkert við. Þegar maður þykist ætla að grípa í e-ð bitastætt, koðnar það niður í frásögninni og verður asnaleg, smámunalegt kerlingaraus. Eða er það kannski til-gangurinn með viðtölum, að maður sér hvað þetta er asnalegt?
Þetta hlýtur að hljóma eins og hjal miðaldra konu, sem er að reyna að renna stoðum undir hlutverk sitt í lífinu, réttlæta tilgangs-leysi sitt.
Svakalega hlýtur að vera leiðinlegt að vera sálfræðingur.
Ég finn að ég er leiðinleg. Ég, sem skrifaði svo góðar ritgerðir. Góð frásögn tekur flugið og sá sem hlustar tekst líka á loft - með frásögninni, gleymir sér. Ég, aftur á móti, rausa hér og er leiðinleg. Frásögnin hlykkjast eins og ormur, hún er jarðlæg - höfðar ekki til tilfinninganna, eins og litlu börnin í Eþíópíu og stefnuskrá Kvennalistans.
Hún, saga mín, er föl, litlaus, eins og þær lífverur sem smjúga ofan í jörðina, - eins og ánamaðkurinn, sem losar um moldina svo ræturnar geti .... -Æ. Déskotans þrugl er þetta.
Hugsaðu þér annars: Ef e-r Jón segir: "lífið er röð af smáatriðum" er þessi baraJón bara smámunasamur smáatriðanöldrari, smásál. En ef séraJón segir: "lífið er röð af smáatriðum", er þetta mjög gáfulegt.
Ef spekingurinn segir:: "svona er lífið, það er nú það", þagna allir í djúpri lotningu, en ef kerlingin segir: "svona er lífið, það er nú það", verður (að vísu) þögn, en það er af því að enginn tekur eftir því, sem hún er að segja. Það er til tvenns konar þögn.
Já, og svo þessi þögn (þriðja tegundin), af því að maður segir ekki það sem maður ætlar að segja ! Ég finn, að ég verð að fara að koma mér að efninu. Ég er ekki farin að segja þetta, sem ég kom hingað, að gefnu tilefni, til að tala um.
-Ég fer alltaf á fætur með þeim kl. 7.
(Ég var víst búin að segja þetta áður?)
-Tek til góðan morgunmat. Höskuldur les blaðið, nema á mánudögum, auðvitað. Þá er ekkert blað.
Þeir, - þeir eru orðnir svo stórir, drengirnir, og líka farnir að lesa blaðið, - eða e-ja bók, við morgunverðar-borðið, - eða eru bara hugsi; eru að hugsa um e-ð , og bara heyra ekki, hvað ég er að segja.
Um daginn var ég að segja þeim frá því, sem ég sá. -Ég verð að segja ykkur svolítið sniðugt, byrjaði ég: -þegar ég var að keyra Kringlumýrarbrautina í mikla snjónum, sem kom um daginn, sá ég nokkuð fyndið. Hvað haldið þið, að ég hafi séð?: Við vegarbrúnina á Kringlumýrarbrautinni stóð snjókarl, sem var að sníkja far! Hann stóð á vegarbrúninni, með handlegginn út og þumalinn upp í loftið! Hugsið ykkur húmorinn. E-jir krakkar hafa búið til snjókarl, sem var að reyna að ferðast á puttanum! Ég skellihló. Það stoppaði enginn. Það var svolítið trist. Enginn tók hann upp í.

Ég sá, að þeir voru ekkert að hlusta, drengirnir. Þeim þótti þetta ekkert fyndið, ekkert sniðugt. Þeir héldu bara áfram að lesa. Jú, annar sagði: -Hmmmmmm. Sagði bara hmmmmmmm á réttum stað en var ekkert að hlusta.
Ég sá að ég hefði alveg eins getað sagt ljósastaurnum úti á götunni þetta.
Þetta var ógurlega fyndið, þetta með snjókarlinn, ekki satt?
En -
ég fann, að mín var ekki þörf við morgunverðarborðið. Ég gat alveg eins verið uppi í rúmi og breitt upp fyrir höfuð, eins og að reyna að halda uppi skemmtilegum samræðum.
Mér fannst ég vera eins og öskupoki daginn eftir öskudag.
Mér fannst ég vera eins og jólaskraut, rykugt jólaskraut, hangandi uppi í febrúar.
(Ég dæsi.
Ég sé að þetta hljómar svo asnalega þegar verið er að segja frá því.)
-Hmmmmmmm, segir sálfræðingurinn.
-Þegar þeir voru farnir, Höskuldur og drengirnir, langaði mig til að gráta. Ég veit ekkert af hverju. Mig bara langaði til að gráta.
KISA. KISA! Ég kallaði á kisu. Hún heitir Dalalæða. Það er læða. Ég fékk hana handa drengjunum, þegar þeir voru ungir. Dalalæða. Finnst þér þetta ekki sniðugt nafn hjá mér? Hún er hvít eins og hrímþoka.
Þeir eru nú orðnir svo stórir, drengirnir, að þeir hafa ekkert gaman af henni lengur. Þeir segja bara að ég geti selt ryksuguna, ef ég láti svæfa köttinn. Æ. þetta á bara að vera brandari. Þeir geta verið svo fyndnir stundum, drengirnir.
Ég tók semsagt Dalalæðu í fangið. Mig langaði til að gráta.
Það var gott að tala við hana: þessi stóíska ró kattarins, þessi æðrulausa nægjusemi. Þegar þú ert búin að borða, kisa litla, liggur ekkert fyrir hjá þér nema teygja þig og sofa. Finna þér hlýja dúnsæng til að sofa á. Vakna þegar þú verður svöng aftur, og mjálma við ísskápinn.
Stundum finnst manni allt of erfitt að vera manneskja. Þegar við höfum nóg að borða og hlýtt hús til að búa í, þá þurfum við e-ð meira. Þegar við höfum allt af öllu, förum við að leita að e-ju, sem kannski er ekki til. Það er víst það sem gerir okkur að mönnum. -Bara að ég gæti verið eins og þú, Dalalæða, sagði ég. Ég veit, að það er barnalegt að tala við kött. Hún malaði. Hjúfraði sig upp að mér. Ég fór inn í stofu. Mig langaði til að gráta. Ég veit ekki hvers vegna. Ég lagði ennið upp að korkveggnum í stofunni.
Höskuldur kom með þetta kork frá Spáni. Hann fór á ráðstefnu til Barcelona. Hann fer ekki í sólarlandaferðir, hann Höskuldur. Hann fer bara á ráðstefnur. Ég fer stundum með, en hann er allan daginn á fundum. Svo þarf að borða með þessum mönnum á kvöldin. Þetta er bara vinna hjá honum.
Það er sko flott að gráta upp við svona fína veggi. Fína, spánska korkveggi, hugsaði ég. -Það er bara eins og þegar þvottakerlingin fékk flís í puttann í fína húsinu sem hún var að þrífa í: -fínt skal það vera, sagði hún, -maghoníflís!
En ég var allt í einu svo full af ógrátnum gráti, að ég gat ekki brosað.
(Ég reyni að brosa framan í sálfræðinginn, en það bros er aðeins gretta.)
-Hmmmmmmm, segir sálfræðingurinn.
-Ef ég hefði verið í saumaklúbbnum með stelpunum, hefði ég sennilega farið til Spánar með þeim. Þær eru alltaf að biðja mig um að koma með í saumaklúbbinn. Ég hafði auðvitað ekki tíma til að vera í saumaklúbb, þegar drengirnir voru litlir. Það er mikils virði að móðirin sé heima, meðan börnin eru lítil. Auk þess er þetta ekki saumaklúbbur. Þetta er kjafta-, kjaftasögusmettu-klúbbur, þar sem þær blaðra hver upp í aðra sögum um hina og þessa, sem eru að skilja eða gifta sig, eða halda framhjá, eða þessi sé að stinga undan þessum, - sem þær kalla djúsí sögur. Ég get ekki hugsað mér að sitja þarna og hlusta á þetta. Þær hugsa ekki um öll þessi litlu börn, sem týna foreldrum sínum í svona veseni.
En svo fóru þær til Spánar, stelpurnar í saumaklúbbnum. Stella sagði mér frá ferðinni: hlýjar nætur, bara í þunnu pilsi, blússu og sandölum á kvöldin; stjörnur, romm og kók, diskótek, fallegir spænskir karlmenn. Hún lygndi aftur augunum, hún Stella, og brosti við tilhugsunina. Þær fóru saman út á kvöldin, en komu aldrei saman heim á hótel aftur -á morgnana.
Þær buðu mér svosem að koma með, en ég gat ekki farið frá drengjunum. Þeir voru í prófum.
Það er svo mikil hætta á að unglingar sleppi morgunmatnum; þeir hreinlega nenni ekki að fá sér, skilurðu?
(Ég er víst aftur komin frá efninu.
E.t.v. er svona sárt að segja það, sem mestu máli skiptir? E.t.v. eru það einmitt smá-atriðin, sem skipta mestu máli?)
Svo, já, stóð ég þarna við korkvegginn með Dalalæðu í fanginu. Hún malaði. Ég - ég fann, að mér hafði líka sárnað annað; það sem drengirnir sögðu um daginn. Það er, skal ég segja þér, þáttur í útvarpinu, - ég man ekki á hvaða rás, e-t unglinga-, þar sem fólk má syngja uppáhalds lagið sitt í símann, og svo útvarpa þeir því. Spila svo lagið í útvarpinu. Þeir --- þeir sögðu, drengirnir ....
(Ég finn að ég kyngi munnvatni.
(er kyngja ekki með y (ypsílon)?
kingja?
kyngja?
Ég var alltaf svo góð í stafsetningu.)
.....Þeir sögðu, drengirnir: -Er ekki nóg að hafa mömmu alltaf gaulandi? Þarf maður líka að hlusta á annað laglaust fólk gaula, þegar maður kveikir á útvarpinu?
(Ég kyngi aftur munnvatni.
(Jú, það er ypsílon í kyngja.))
Þeir voru auðvitað að segja þetta í gamni. Þeir geta verið svo fyndnir stundum. Strákar eru svona, þú veizt.
-Hmmmmmmm, segir sálfræðingurinn.
-Ég var að hugsa um að læra að syngja. Ég hef mjög góða rödd.
(Ég verð angurblíð á svipinn og halla undir flatt.)
-Messósópran.
(Það verður svolítil þögn.)
-Hmmmmmmm, segir sálfræðingurinn.

-Og svo .....
svo ætla ég að spyrja þig, hvort, ja, - hvort svona sé ekki dæmigert fyrir drengi á viðkvæmum aldri:
(Ég er að komast að efninu. Hinni eiginlegu ástæðu fyrir veru minni hér.
FYLGIR ÞESSU HITI, MAMMA?
ERU VERKIR MEÐ ÞESSU?)
-Maður á kannski ekki að vera að segja fyndnar sögur kl. 7 á morgnana. Mig bara langaði til að tala við þá, áður en þeir færu út:
Úlli frændi sagði mér, að hann væri svo afbrýðisamur út í köttinn, því þegar kötturinn mjálmaði fyrir utan, hlypi öll fjölskyldan til dyra: æ, kisi minn, er þér kalt, viltu mjólk, ertu svangur, og svo koma alls konar gæluhljóð.
Svo þegar hann sjálfur kemur þreyttur heim úr vinnunni, segði konan: hæ, og krakkarnir bara: áttu pening, pabbi.
Þetta er ægilega fyndið, finnst þér ekki? Ég skellihló.
Þeir, - þeir héldu bara áfram að lesa. Sá yngri leit aðeins upp og sagði:
(Ég hika aðeins.)
-Hann sagði: Fylgir þessu hiti, mamma? Eru verkir með þessu?
Svo hélt hann bara áfram að lesa.
(Ég depla augunum í sífellu. Ég er að berjast við tárin.)
-Mér fannst ég vera eins og Fossi björn í prúðuleikurunum. Hann er alltaf að segja brandara, sem enginn hlær að nema hann sjálfur.
ERU VERKIR MEÐ ÞESSU, MAMMA ?
(Neðri vörin titrar ögn.
Nasavængirnir þenjast.
Ég ætla að fara að segja: -það er eins og þeir hafi ekki þörf fyrir mig lengur. En ég hætti við það. Ég þori ekki að heyra rödd mína segja það.
Ekki þörf fyrir mig lengur. Það er of sárt til að horfast í augu við. Ég er marin á sálinni?
Slímugar hugsanir hlykkjast slepjulega, eins og grænir ormar, um hugarfylgsnin með ill-kvittnislegt augnaráð, bera í sér tennurnar, skvetta ögrandi til sporðunum um leið og þær fara á kaf.)
-Litlu andarungarnir allir synda vel, höfuð hneigja í djúpið og hreyfa lítil stél, (segi ég með samanbitnar varir).
(Sálfræðingurinn lítur á mig og reynir að vera eðlilegur á svipinn. Hann hefur líklega lært að vera eðlilegur á svipinn, þótt e-r segi e-ð skrýtið.)
-Sennilega væri ekki hægt að ryksuga allar hugsanir (segi ég). Ekki þær sem eru mjög slímugar. Ryksugan tekur þær ekki.
Þetta er eins og að kreista graftarkýli. Það, að tala svona við sálfræðing, er eins og að kreista graftarkýli. Út gubbast grænn gröftur og gulur gröftur. VÐAKK ! maður horfir með viðbjóði á það, sem út vellur. Maður vill ekki trúa því að neitt svona hafi verið þarna inni.
Og það er sárt að kreista graftarkýli. Maður vill ekki viðurkenna að það hafi verið neitt sárt.
"Eigi mun ek haltur ganga, meðan báðir fætur eru jafn langir", sagði Gunnlaugur ormstunga. Þeir voru ekki að væla neitt þarna í fornsögunum.
Nú er alls konar vandamálavæl í tízku.
Það er í tízku að kreista graftarkýli sálarlífsins. Oj bara.

Kannski er þetta bara reynzluheimur kvenna?
(Ég veit ekki, hvers vegna ég segi þetta.
Ég bara segi þetta.
Ég dæsi.
Ég veit ekki, hvers vegna ég dæsi. Kannski passar það bara við þetta torskýrða, þvælda tízkuhugtak, reynzluheimur kvenna.)
-Nei, maður ryksugar ekki grænar, slímugar hugsanir ......
("Ryksugar"? "Að ryksuga"? Sögnin "að suga" er ekki til. Bara "sjúga" og "soga". Hvers vegna segir maður þá "að ryksuga"?
Ég var alltaf há í íslenzku. Íslenzku-kennarinn hélt svo upp á mig. Ég var alltaf sérstaklega góð í bókemnntum.
Já, ef maður hefði meiri tíma til að lesa. Maður hefur bara svo sjaldan tíma.)
-Gamall bóndi fór á elliheimilið. Hann hafði alla æfi langað svo til að lesa fornsögurnar. Þegar hann var strákur, sagði afi hans honum frá Gretti Ásmundarsyni og Gunnari á Hlíðarenda og öllum þessum köppum. Hann þekkti þessar hetjur allar, hann afi hans.
Þegar svo loks fór að hægjast um hjá gamla bóndanum, og tími var til lestrar, var honum farin að daprast sjón. Þegar hann kom á elliheimilið, fengu þeir handa honum gleraugu. Og hann fór að lesa fornsögurnar. Hann var að lesa daginn sem hann dó. Þegar þeir fluttu hann upp á spítala, sagði hann við læknana:

Upp skalt á kjöl klífa
köld es sjávar drífa
kostaðu hug þinn herða
hér muntu lífit verða.
Skafl beygjattu, skalli,
þótt skúr á þik falli,
ást hafðir þú meyja,
eitt sinn skal hverr deyja.
Svo dó hann.

Sálfræðingurinn ræskir sig: -Já, frú Sigríður. Ég skrifa þig á mánudag eftir hálfan mánuð á sama tíma. Hentar það þér?
Þetta verða 1300.- krónur.


Kæra dagbók,
Ég ---
ég var að plata.
Ég var að plata allan tímann.
Þetta er náttúrulega antiklímax, en: ég fór ekkert til sálfræðings.
Ég vissi líka alltaf það þetta yrði sundurlaust þrugl.
Auðvitað gæti ég ekki farið að panta tíma hjá sálfræðingi, þú skilur. Höskuldur myndi halda, að það væri e-ð að.
Konur eins og ég þurfa heldur ekki að fara til sálfræðings. Það er bara fyrir fólk, sem þarf á því að halda.

Klukkan er orðin margt. Ég ætla út í fiskbúð.
Veiztu hvernig maður veiðir flugfiska? Í loftnet.
Það er nauðsyn fyrir unglinga að fá próteinríka fæðu. Þeim þykir fiskurinn svo góður djúpsteiktur. Bezt að kaupa pilsner í jukkið.

-- oo 0 O 0 oo --