ISBN 9979-895-25-X
Sál bróðurins, steinbítsbróðurins

 

Útgefin einnig af Námsgagnastofnun 1994 í bókinni:

Sál bróðurins, steinbítsbróðurins, fjórar smásögur;

verðlaunasögur

höfundur: Guðrún Kristín Magnúsdóttir;


enska þýðingu, sem einnig hefur verið gefin út -- (í bókinni:) Nordic Children's Libraries, IFLA '97,
er að finna á þessari vefsíðu: _Soul of a Brother_, (short story)

English translation: "_Soul of a Brother_, short story” (see link on index page, (home)).


Sál bróðurins, steinbítsbróðurins
verðlaunasaga

 Drengurinn sat í flæðarmálinu með hundinn.
Drengurinn var dapur því hann átti engan bróður.
Þess vegna var hundurinn líka dapur.
Drengurinn teygði ögn úr hálsinum, þar sem hann sat í flæðarmálinu. Honum
sýndist einn af bátunum vera að koma lengst úti á firði. Hundurinn teygði
líka ögn úr sér og horfði á bátinn í fjarska sem stein og hneig á öldunum.
Það var heldur ekkert annað að sjá. Bara hafið, himinninn, sólin, skýin,
grjótið í fjörunni, þangið í fjörunni; höfði sem trúnaði úti í firði eins og
hann hafði alltaf gert; -- fuglinn sem sveif í endalausri leit að æti.
Drengurinn átti engan bróður. Inni í þorpinu vor börn, strákar, sem áttu
bróður. Drengurinn vissi að mamma hans var hjá guði og þess vegna átti hann
ekki bróður. Drengurinn velti því oft fyrir sér hvers vegna mamma hans
vildi frekar vera hjá guði. En hann spurði einskis. Hann spurði aldrei
neins.
Drengurinn átti að vísu þennan hund, þ.e.a.s. hann átti alls ekki þennan
hund. Einhverra hluta vegna hafði hann orðið viðskila við ferðamenn á
hestum. Enginn kom að sækja hann. Hundurinn elti drenginn hvert fótmál frá
morgni til kvölds. Þessi hundur átti ekki einu sinni nafn, því í rauninni
átti enginn hann. Drengnum fannst gott að grafa fingrunum inn í mjúkan lurg
hundsins. Þetta var ungur hundur, varla fullvaxinn, og hundurinn skildi
ekki þessa þrá drengsins að vilja eiga bróður. En samt var eins og hann
skildi það. Hundurinn vildi ekkert endilega eiga bróður, -- það er
kannski annað með dreng.

Báturinn hvarf eins og undiraldan hefði gleypt hann, reis svo upp á ölduna
alveg upp að himninum, skartaði silfruðu pusi í hverri dýfu.
Nú yrði nógur fiskur. Piltarnir voru svo röskir og þeir höfðu eflaust sótt
á djúpið í dag í svona veðri.
Drengurinn og hundurinn vöppuðu áleiðis að naustinu. Það var alltaf gaman
að sjá bátana koma að. kannski var pabbi í þessum báti.

Piltarnir voru háværir, en þó sögðu þeir fátt.
Faðir drengsins kyssti hann á ennið en hann var kominn í land með
aflahlutinn sinn.
-Sjáðu þennan skrýtna, sagði hann. -Hlýri. Steinbítsbróðir, bætti
hann við. -Hann veiðist nú ekki uppi við landsteina þessi. Fallegur?
Faðir drengsins hélt uppi stórum fiski með ugga frá haus aftur á sporð,
doppóttum um allan kroppinn.
-Bróðir? hugsaði drengurinn og tók við fiskinum, tók fiskinn í fangið.
-Þú verður allur slorugur, krakki, sagði faðir hans og hló.
Fiskurinn var mjúkur, sleipur, þungur og ákaflega fallegur, doppóttur um
allan kroppinn. Ekki fallegur í framan, nei, hausinn á honum var nú frekar
ljótur, en drengurinn hafði aldrei séð fallegri fisk.
-Bróðir, hugsaði drengurinn. -Hann heitir Hlýri.

Drengurinn sagði ekki neitt þegar hlýirnn var flakaður. Þessi drengur sagði
eiginlega aldrei neitt.
Hann vissi að þetta yrði kvöldmaturinn í kvöld, því ýsan, lýsan og
þyrsklingarnir fóru í salt eða voru spyrt. Dálknum af hlýranum var fleygt;
hausnum, uggunum, sporðinum, roðinu.
Þegar enginn sá til tók drengurinn þessar gersemar. Hann bar þær upp fyrir
hól.
Þar hengdi hann þessar fallegu leifar bróðurins til þerris; dálkinn, með
haus og sporði og uggum og roðið sem hann þurfti að slétta út. hann hengdi
þetta milli stórra steina þar sem hrafninn fyndi það ekki. Enginn nema
hundurinn vissi um þetta.

Drengurinn gat ekki borðað. Hann sat við kvöldverðarborðið og starði á
hvítt holdið á fatinu -- steinbítsbróðurinn.
Amma hans hélt að hann væri lasinn. hann gat ekki einu sinni smakkað
kartöfluna.
-Ætlarðu ekki að éta neitt, vinurinn? spurði hún.

Leifar hlýrans þornuðu og hörðnuðu milli stóru steinanna fyrir ofan hól.
Drengurinn og hundurinn fóru á hverjum degi að skoða þessa gersamar.
Drengurinn gróf fingrunum í mjúkan lubba hundsins og starði á haus hlýrans.
Hann nærri því gleymdi að fara heim á kvöldin. -- Bróðir.


Drengurinn fór út á hlað en hundurinn var ekki þar eins og venjulega á
morgnana.
Hundurinn svaf alltaf úti í hlöðu en var alltaf kominn á bæjarhelluna þegar
drengurinn kom út á morgnana.
Drengurinn hafði aldrei kallað á hundinn, enda átti hundurinn ekkert nafn.
Það kom hik á drenginn. Hann var orðinn vanur að hafa hundinn alltaf með
sér. Hann gekk út að hlöðuopinu og gægðist inn. Þar var enginn hundur.
Drengurinn gekk frá bænum og stefndi á hólinn. Bak við hólinn var hundurinn
að ljúka við að éta hlýrahaus, hlýraugga, hlýrasporð og hlýraroð sem hafði
hangið til þerris milli steina þar sem hrafninn fann það ekki.
Hundurinn lá fram á lappir sínar með leifar dálksins. Hann dinglaði
skottinu þegar drengurinn kom.
Drengurinn stóð kyrr.
Það er sárt að missa.
Sumir kunna ekki að gráta. Sumir kunna ekki að reiðast. Drengurinn stóð
kyrr. Hundurinn dinglaði skottinu.

drengurinn gróf holu, djúpa holu, fyrir ofna hól.
Hann hafði óljósa vitneskju um, að allir þyrftu að fara ofna í djúpa holu
þegar þeir færu upp til guðs. Í þessa holu lét hann leifar dálksins. Hann
velti fyrir sér hvort ekki yrði að jarða líka það sem hundurinn hafði étið.
Sálin fer upp til guðs, sagði amma. Skrýtið að þurfa fyrst að fara oní
jörðina.
Til vonar og vara setti hann allan skít sem hundurinn skildi eftir sig næstu
daga, í holuna líka. Mokaði svo yfir.
Kannski hittir mamma sál bróðurins, steinbítsbróðurins, þarna uppi hjá guði
og kannski kemur hún þá aftur. 

 -- oo 00 O 00 oo --