ISBN 9979-895-61-6
Saga Svaðilfara


Útgefin einnig af Námsgagnastofnun 1994 í bókinni:
Sál bróðurins, steinbítsbróðurins -- fjórar smásögur;
verðlaunasögur;


höfundur: Guðrún Kristín Magnúsdóttir;
Saga Svaðilfara
undarleg saga
ég hugsa að þú trúir henni ekki
SAGA SVAÐILFARA


UNDARLEG SAGA
ÉG HUGSA AÐ ÞÚ TRÚIR HENNI EKKI

Ég skal muna, þegar ég fæðist sem maður,
að málleysingjar hafa tilfinningar eins og menn.

 

Söngur drengsins ómaði meðan hann lallaði á eftir beljunum með bandspotta í
hendinni á gúmmískóm.
Síðan eru ár og dagar.
Drengurinn söng af hjartans lyst. Hann söng hvar sem hann fór.
Þetta var drengurinn Gumi á Svarrastöðum.

Hann sat löngum við lækinn uppi í fjalli og söng, og fitlaði við ryðgaða
nagla og fallegar steinvölur í vasanum. Hann kunni margar vísur. Hann
skáldaði líka margar vísur, hann skáldaði líka mörg lög, og stundum komst
hann við af eigin skáldskap, en það fékk enginn að sjá.

-Þú hefur fallega rödd, sagði skógardísin.

Silfurtær barnsrödd hans, tær eins og flúðirnar í læknum, var hluti
fegurðarinnar, og hann hlustaði á maðkaflugurnar í sólskininu, vindinn í
birkinu, -- og söng.
Til dæmis söng hann um Tuma, sem fór á fætur við fyrsta hanagal, að sitja
yfir ánum lengst inn'í Fagragal. Lét hugann líða svo langt um dal' og
fjöll, því kóngur vild' hann verða í voða stórri höll. Og Snati hans var
hirðfífl og hrútur ráðgjafinn, og Smalahóll var höllin, en hvar var
drottningin?

Það sem Gumi átti eftir að eiga, en vissi ekki þá, var frægðin, og ég,
Svaðilfari, og drottningin, Vættur að nafni.
Drottning, þótt ekki væri af kóngafólki, drottning, vegna þess að hún var
goðumlík vera, fáguð, góð, yndisleg. Drottning vegna þess að hún elskaði
Guma og Gumi elskaði hana.
Drottning vegna þess að hún elskaði mig og ég elskaði hana.

Ég?
Ég fæddist á afrétti. Móálótt meri kastaði í maí, og ég saug kaplamjólk,
eins og önnur folöld, á hrjóstrugum heiðum frelsis, kyrrðar, bjartra
sumarnátta, vetrarhörku, víðáttu, og lærði strax sem trippi miskunnarlausa
goggunarröð stóðsins. Þessi móálótta meri, móðir mín, bar ekki nafn. Ég
kallaði hana Þoku. Mér fannst það fallegt.
Ég var undan blökkum stóðhelsti sem allir hlýddu: Frassa frá Svarrastöðum.
Ég lét minn hlut hvergi fyrir þeim sem minna máttu sín. Kannski hefði ég
orðið föðurbetrungur hefði ég ekki verið taminn fjórða vetri.

Í norðlenskum kafaldsbyl afréttanna hnappaði stóðið sig, og lifði af. Þá
stóðum við saman sem einn maður. Þétt saman. Folöld og merar innst,
sterkir gamlir jálkar yst. Hungrið svarf að, tíminn hætti að vera til. Sem
hluti af vetrarríkinu hímdum við á höm, hjörtun slógu hægt og fæturnir
dofnuðu. Norðurljós, stjörnur, máni hátt á himni skínandi, meðan börn
kveiktu á jólakertum á bæjunum niðri í byggð og horfðu á hrannir og
snjóskafla út um hrímaða glugga.
Við reyndum að krafsa þegar veðrum slotaði, en djúpt var á gulnaða
frostkalda sinu hrjóstrugra mela og afdala.
Þegar loks sól hækkaði á lofti, Svartá beljaði fram mórauð í leysingum, tók
ég sprett og fann að ég var svangur.
Vor.

Hrossarétt er fyrir töffara sem drekka mikið, þurfa mikið að sýna sig, og
vilja góða hesta. -- Hestamenn, kvæðamenn, kvennamenn, sögðu þeim með
gorti, -- og ofstopamenn við vín. Það eru sannir Skagfirðingar. -Það er
sem mig vantar mest og þarf að fá mér bráðum, sungu þeir við raust, -graða
konu og góðan hest og geta riðið báðum.

Gumi var ekki neinn beljaki, en hann reyndi að sýnast eins og hinir. Þeir
náðu mér sjö saman í réttinni. Ég braust um á hæl og hnakka, prjónaði, jós.
Sparkaði af öllu afli þegar þeir héngu á mér allir. Einn lá í valnum eftir
mig. Þeir báru hann frá og reyndu að lífga hann við. Ég braut kró í reiði
minni. Ég var óstýrilátur foli. Gumi nefndi mig Svaðilfara. Ég hef ekki
kafnað undir nafni.

Þótt Gumi hafi farið í mútur, var rödd hann enn falleg. Hann hlaut að verða
kynþroska eins og aðrir. Þegar maður hættir að vera folald og verður
graður, opnast veldi af sjálfstrausti og óvissu í senn. Öryggið að vera
aðeins sonur móður sinnar, hverfur manni. Stoltið yfir að standa nú á eigin
fótum getur byrgt manni sýn á þá ábyrgð sem maður axlar við að vera orðinn
fullgilt karldýr. Manndómurinn.
Gumi var hættur að syngja vísur eins og: "hann Tumi fer á fætur...", en hann
söng í stóðrétt:

Ég vaknaði fyrir viku síðan,
er vetrarnóttin ríkti hljóð,
og sá þá standa Blakk minn brúna
í bleikri þorramánans glóð.
Svo reisti hann allt í einu höfuð
með opinn flipann og hneggjaði hátt
og tók síðan stökk með strok í augum
og stefndi heim -- í norðurátt.

Sú leið er erfið, gamli garpur,
þú getur ei sigrað þau reginfjöll,
þó stælt sé þín bringa og fætur fimir,
þín frægðarsaga er nú öll.
Á grýttum mel þar sem geisar stormur
með grimmdarfrost og hríðarkóf,
ég sé hvar þú liggur, klárinn karski,
með klakaðar nasir og sprunginn hóf.

Þú skildir mig einan eftir, Blakkur,
því enginn vinur nú dvelst mér hjá,
og enginn hlustar á elliraus mitt
um æskustöðvarnar norðurfrá.
En í mínu brjósti býr eirðarleysi,
eykur og magnar sína glóð.
Mitt úlfgráa höfuð hátt ég reisi
og held í norður -- í þína slóð.

(höf.ljóðs:JónasÁrnason)

Sumir urðu klökkir, sumir misstu tár niður kinn. Gerði það vínið, eða þráðu
þeir enn að hafa fæðst hestar?
Gumi söng einn þessar vísur. Aðrir hlustuðu.

-Hann hefur fallega rödd, sögðu menn.

Ég hneggjaði þegar Þoka fylgdi stóðinu aftur til fjallanna. Ég þandi nasir,
hlustaði sperrtum eyrum á svar hennar, augu mín myrk. Mamma. mamma.
Ég stóð á hljóðunum lengi lengi. Klakaklárar víðáttunnar, sem ekkert eiga
nema frelsið, þutu með þandar bringur, hringaða makka, framgripið meira en
nokkru sinni, aftur upp á afrétt. Kviðsítt fax vambþaninna stóðmera, sem
fæstar báru nokkurt nafn, sveiflaðist eins og hár sjálfrar Freyju.
Glóðafeykir glotti í logarauðri nætursól úr norðri.
Ég hengdi haus. Ungur stinnur foli sviptur frelsi.

Þoku sá ég aldrei aftur.

En, ég hafði Guma og Gumi hafði mig. Við runnum saman í eina veru. Hestur
og maður. Vinir. Ég heyrði þrá hans ósagða, ég heyrði tilfinningar hans
leyndar. Hann mínar. Ungur maður og ungur hestur.
Graður hestur.
Óaðskiljanlegir. Gagnkvæm virðing. Ekki húsbóndi og þjónn. Jafningjar.

Afinn á Svarrastöðum dó. Faðir Guma var löngu tekinn við búinu. Þetta
breytti aðeins því að öll systkinin áttu nú jörðina. Faðir Guma bjó eftir
sem áður.
Kona af Króknum heyrði Guma syngja við jarðaför afa. Hún sagði: -Þú hefur
fallega rödd. Hvers vegna lærirðu ekki að syngja? Ég skal hjálpa þér ef þú
hefur ekki efni á námi. En mér skilst að drjúgur sé folatollurinn af honum
Svaðilfara þínum. Skrýtið, að enginn af öllum þessum erfingjum afa þíns og
ömmu skuli vilja búa. Pabbi þinn sá eini af systkinunum, þú sá eini af
öllum þessu sæg af barnabörnum, sem tollir í sveitasælunni.

Gumi fór suðrí lönd að læra að syngja. En hann kom heim aftur til mín,
Svaðilfara frá Svarrastöðum, hins karska graðfola. Ég var stolt hans.
Hann kom ekki einn. Vættur kom líka

Suðrí löndum í tvö ár gerðist margt og það gerðist hratt. Tækni, ögun,
draumar sem rættust, vonbrigði, sigrar, og það varð að standa sig, gefast
ekki upp, æfa, aga, sigrast á mótlæti. Sviti, skalar, æfingar, konsertar,
-- Gumi hafði fallega rödd. -- Sumir kennarar vita hvernig á að syngja og
þannig skal það gert. Skólun, þjálfun, tækni; vinna, vinna, vinna. Taka á
honum stóra sínum, svitna, gera eins og kennarinn sagði, æfa, æfa, pína,
pína.

Hér heima leið tíminn með sínum venjulega hraða. Lóan kom og lóan fór.
Haustregn á bárujárnsþaki, þegar öllu heyi hefur verið náð inn, er loforð
forsjónarinnar um líf.

Suðrí löndum rigndi á götusteina á veturna. Menn og konur þustu um götur.
Enginn virtist þekkja annan. Hver var með sínar hugsanir í sjálfum sér.
Þar var Gumi einn. Einn af ótal mörgum sem stikuðu um steinlagðar stéttar,
en ekki einn af þeim.
Í sendiráðinu var jólaboð fyrir Íslendingana. Þar hitti Gumi drottninguna
sína: Vætti. -- Drottninguna okkar. Hún talaði mörg tungumál. Hún hafði
komið til Íslands í sumarfrí. Foreldrar hennar þekktu enn sína jafnaldra á
Íslandi: Foreldrar hennar sögðu alltaf "heim til Íslands". En Vættur var
alltaf gestur "heima" á Íslandi. Hennar vinir voru suðrí löndum. Hún hafði
verið kynnt fyrir frændum og frænkum á Fróni.
Heima á Íslandi kallaði hún sig Vætti Hjörsdóttur. Suðrí löndum var hún
kölluð Vetti Thorisson.

Ég var á beit útí nýrækt, þegar hún, hin goðum líka vera, fáguð og fögur,
sté út úr bílnum með Guma. Gumi vinur minn, loksins, stóð þarna á hlaðinu.
Kominn heim. Gyðjan honum við hlið. Og hann kyssti heimafólk. Hún var kynnt
fyrir öllum. Ég sperrti eyrun, hætti að tyggja, hlustaði á þessa rödd sem
ég þekkti, hneggjaði á vin minn með fullan munninn af grængresi. Og það
freyddi. Ég brokkaði af stað. Fór á stökk og skvetti. Skvetti af eintómri
ánægju. Hann fagnaði mér með tárum:
-Svaðilfari ! Svaðilfari ! Mikið ertu fallegur.
Vættur, þetta er hesturinn minn, Svaðilfari.
Hún hrökk við þegar ég frýsaði. En hló svo.
Hún var vön að taka í hendur fólks af háum stigum, tignum ættum, í hendur
kóngum og drottningum, í fínum veislum. Nú heilsaði hún hesti með stinna
bringu, eld í augum; hesti, titrandi af fögnuði fyrir að heimta vin sinn
heim.
Hvít hönd hennar snerti flipann. Rakur tíður andardrátturinn úr nösum mér
eftir sprettinn sendi heitan straum í hverja taug hennar, og roði færðist í
kinnar henni. Hún horfði sem bergnumin í augu mér.
Ég hringaði makkann og drúpti höfði í lotningu.
Gumi klappaði mér að makkann, klóraði mér undir ennistoppnum, strauk mér
yfir bakið, á lendarnar, á bringuna og ég óhreinkaði fína jakkann hans, sem
hann fékk suðrí löndum, þegar ég rak í hann snoppuna sem fagnaðarhót.
Vættur Hjörsdóttir strauk ofurljúft á nefið á mér með þremur grönnum
fingrum. Faxið og ennistoppurinn fuku til og hár hennar um leið, því þurr
hlý landáttin var að rífa sig upp.

Þau gengu inn í bæ og fólkið talaði mikið. Ég stóð þarna á hlaðinu, vinur
minn kominn heim, og með honum dísin fagra, komin til að vera. Vera heima á
Íslandi. Vera hjá honum og mér. Hamingja hríslaðist um stælta vöðva.
Faxið feyktist til, augun tindruðu.
Ég krafsaði. Ég krafsaði af eintómri ánægju.
Ég hneggjaði af eintómri ánægju.
Drottningin.

Lóan fór og lóan kom. Hún fór suðrí lönd, þar sem sportveiðimenn skjóta
lóur. Hún kom aftur því vorið er ein hinna römmustu tauga sem draga rekka
föðurtúna til.
Á haustin rigndi á hlöðuþök úr bárujárni.

Gumi og Vættur eignuðust óskabörn. Dreng og stúlku. Gumi hélt tónleika.
Hann söng fyrir sunnan. Hann söng á Króknum. -Mikið hefur maðurinn fallega
rödd.
Æfingar, tónleikaferðir, sýningar fyrir sunnan.
Oft fór Vættur með honum. Hann átti vini og hún kynntist þeim. Hann átti
samstarfsfólk. Hún var kynnt fyrir því.
Það þurfti líka að segja henni söguna af Loka sem fór í merarlíki, og
þursinum sem átti Svaðilfara. Og það þurfti að segja henni af Sleipni, sem
hvert skólabarn á Íslandi þekki.
Hún kom úr annarri menningu.
Hún var útlendingur þar. Hún var útlendingur hér.
Glóðafeykir glotti í fölri vetrarbirtu úr suðri.
Hann verður aldrei foli sviptur frelsi fjallana. Hann verður aldrei ung
kona sem er útlendingur alls staðar. Hann er örlöglaus og skilur ekki þrá
manna og málleysingja eftir fótfestu.
Ef til vill skiljum við það ekki sjálf.
Ef til vill kom Vættur til mín, og strauk makka minn og höfuð, þegar hún
þurfti að gráta.
Ef til vill hlakkaði ég til þegar Gumi fór suður, því þá kom hún til mín, og
lagði höndina undir faxið. Þar er heitt.
Ef til vill var hún svipt einhverju sem hún átti í bernsku sinni. Þótt mér
væru langar vetrarnætur í blóð bornar, þar sem eina birtan var mjöllin köld,
var henni veturinn ef til vill regn á upplýstum strætum, veislur og
mannfagnaðir, koparrauðir laufskógar eða umferðarniður stórborga á
hraðbrautum sem sveigjast milli ævafornra skrautlegra kirkna og
konungshalla, sigurboga með veðruðum styttum og dýrindis upplýsta gosbrunna.
Ef til vill var ég henni sú orðlausa huggun sem móðirin ein getur veitt. Ef
til vill var hún ein hér, svo undarlega alein, meðal framandi fólks.
Ég fann huga hennar. Við runnum saman í eitt. Kona og hestur. Gagnkvæm
virðing. Ást.
Ef til vill var hún mér það sem nafnlaus móðir mín var mér. Manndómurinn er
dýrkeyptur. Móðurmissirinn, frelsismissirinn. Horfin bernskan. Þráin.
Römm er sú taug.
-Svaðilfari, hvíslaði hún. -Mjúki heiti Svaðilfari.
Svo lét hún höfuð sit falla á faxið mitt.

Pabbi hans Guma dó.
Gumi söng við jarðarför hans. Hann söng fallega.

Systkinin vildu skipta.
Enginn vildi búa.
Það logaði allt í illdeilum og málaferlum.
Það voru seldar sumarbústaðalóðir. Fólk með útvarp, strákar með fótbolta,
flöskur, dollur, sígarettustubbar, útigrill. Lóan átti í vök að verjast.
Söngur fuglanna var yfirgnæfður af hávaðmengun menningarinnar.

Heyið komst í hlöðu.
Regnið kom. Köld hafáttin með hraglanda. Það hefði þurft að mála
bárujárnsþökin í sumar. Það komst ekki í verk.
Líka komu fallegir dagar gullins lyngs og svartra berja, þegar gránað hafði
í svörðinn en tók upp við septembersólbráð.
Gumi reið upp að læk.
Ég var vanur að hlaupa með hann upp að þessum læk nærri því daglega. En
síðan voru ár. Síðan voru ár og dagar.
Hann hafði ekki oft tíma til að skreppa á bak núorðið.
Haustvindurinn bærði sinu og þyrlaði þurri mold. Hemað eftir næturfrost.
Jörðin hörð. Hörsl. Flugurnar voru sofnaðar svefninum langa, sumarbústaðafólkið
farið í hitaveituna, lóan flokkaði sig, fjarlægðist sumarból, hvarf til
heitari landa, þar sem hann lærði að syngja og þar sem hún deyr.
Gumi stóð við lækinn, hélt í tauminn. Silfurtær barnsrödd hljómaði ekki
lengur við lækjarnið. Síðan það var voru ár. Skógardísin sagði fyrir
löngu: -Þú hefur fallega rödd.
Ég greip ekki niður. Eitthvað óhugnanlegt og þrúgandi lá í loftinu.
Ég vissi hvað hann var að hugsa: -Ég verð að láta vana þig, Svaðilfari.
Við verðum áfram vinir. Það er einmanalegt að vera graddi. Þú þarft ekki
að vera lokaður inni í girðingu lengur. Þú þarft ekki að vera lokaður inni
í fjósi.
Hver ætlar svo að taka við búinu? Hver ætlar að gera allt sem gera þarf?
Ég heyrði hugsanir hans. Hann hafði ekki lengur tíma til að eiga stóðhest.
Ég yrði í hagabeit með hestunum úti á Engjamel, þar sem heyi er fleygt í þá
þegar jarðbannið er. Geltur.
Flipinn varð stífur. Eyrun sperrtust aftur á við. Nasirnar þöndust.
Hugarvíl þaut um hverja taug mína. Ég yrði fjarri Vætti. Hún kæmi ekki á
kvöldin til að leggja hvíta hönd undir faxið þar sem hlýjan er. Hún og
drengurinn og telpan kæmu ekki vappandi út í graddagirðingu með afgang af
seyddu rúgbrauði.
Drottningin mín.
Ég yrði úti á Engjamel. Þangað færi hún ekki að leita mín.

Ég fann að Gumi hafði tekið ákvörðun. Svipur hans var fjarrænn er hann
lagði tauminn yfir höfuð mitt. Hann klappaði mér á bringuna, tók eftir
reiði minni, en horfði í norður þar sem ískalt dimmt hafið var svo
óendanlega óhagganlegt. Eyjarnar risu myrkar úr dimmum sæ.
Hann sté í ístaðið og sveiflaði sér á bak.
Reiði mín magnaðist. Manndómi var ógnað.
Vinur særði vin.
Og svo, það sem enginn skildi og enginn vissi: Drottningin mín yrði ein án
mín. Alein. Einmana.

Þá gerðist það sem fær samvisku mína til að loga: ég tók sprett niður
brekkur og klappir, ég fann hvern vöðva stífna, ég spyrnti í grjótið svo
gneistaði.
Hugarangur vinar míns hafði ef til vill gott af þeysireið. En ég var ekki
að gleðja hann. Ég hljóp ekki af heimfýsi. Ég hljóp í reiði. Hefndin
blossaði og logaði. Vinur hafði sært vin. Brugðist trausti. Ég hljóp
hraðar og hraðar, hraðar og hraðar, yfir lyng og börð, urð og klappir, niður
snarbrattar brekkur. Augun loguðu svo ég sá aðeins sorta. Hraðar. Hraðar.
Ganaði.

Á stórgrýttri melbungu skvetti ég.

Fallið var hrikalegt. Lengi lá ég án þess að mér tækist að rísa á fætur.
Ég var illa til reika. Ég leitað að vini mínum. Vininum sem ætlaði að
svíkja mig. Hann lá hreyfingarlaus. Ég ýtti við honum með snoppunni. Ég
stóð yfir honum drykklanga stund. Hann andaði með opinn munninn, en augun
voru hálfopin, sljó.
Kviður minn var stinnur, mæðin þandi mig og kvaldi, ég gat ekki kyrr verið.
Gekk í hringi kringum vin minn, Guma, sem lá í grjótinu, augun hálfopin,
sljó, munnurinn opinn, andadrátturinn óhugnanlega hryglandi.

Ég, stóðhesturinn Svaðilfari, haltraði heim á bæ, með snúinn hnakk og slitið
beisli. Löðrandi í svitastorku um allan stælta skrokkinn.
Ég frýsaði á hlaðinu. Einhver kom út í glugga. Fólkið kom út. Menn fóru í
úlpur og stígvél. Menn voru áhyggjufullir á svip. Þeir eltu mig fótgangandi
upp brekkur og urðir. Þar lá hann enn og andaði með opinn munninn. Augun
sljó.
Ég drúpti höfði.

Hann var fluttur á börum.
Hann var fluttur á sjúkrahús.
Vættur horfði á manninn sinn sem lá rænulaus.
Engin von?
En samt gat hann ekki dáið. Blessuð litlu börnin hennar.
Ég beið hennar.
Hún kom aftur heim.
Ég beið konunnar sem hafði hvergi rætur og átti ekkert sitt heima. Ég var
hestur sem elskaði konu.
Nú höfðum við hvort annað á dimmum kvöldum.
Sameinuð sorg okkar.
Enginn vissi.
Enginn skildi.

Vinur minn, Gumi, lá rænulaus á sjúkrahúsi. Gat hvorki lifað né dáið.
Engin von?

Ég var henni tákn um kraft, um von, um tryggð um víðáttu, tækifæri, traust,
frelsi. Hvernig gat nokkur skilið?
Í vor myndi hún rölta út í graddagirðingu með rúgbrauð.
Sár mín voru að gróa.
En logandi samviska mín brennir, brennir.

Hún kom til mín. Lagði aðra höndina undir faxið, hina yfir hálsinn minn.
Höfuð hennar féll til hliðar og ég fann hve höfugt það var.
Drottningin mín.

-- oo 00 O 00 oo --