ISBN 9979-895-01-2
Tröllabarn

Útgefin einnig af Námsgagnastofnun 1994 í bókinni:
Sál bróðurins, steinbítsbróðurins, Fjórar smásögur; verðlaunasögur

höfundur: Guðrún Kristín Magnúsdóttir;

enska þýðingu er að finna á þessari vefsíðu: _Trolls in Iceland_, (short story)
English translation already published too: click link: _Trolls in Iceland_, short story.


Tröllabarn

mjög íslensk saga um átök þjóðtrúar og tækni nútímans; afi og strákur rölta og rabba um vættirnar okkar, meðan stórvirkar vinnuvélar nálgast.......

 

Tröllabarn

 

 

Ungi bóndinn er með lánstætara aftan í traktornum í góða veðrinu. Hann er að tæta spildu langa og mjóa í móanum neðan við bæinn. Kannski tekst honum að fá skaðabætur fyrir ræktað land. Hann ætlar að sá í þennan óræktarmóa í snatri.

Það ríkir friður undir fjallinu. Aðeins korrið í dráttafvélinni og skellirnir í tætaranum, eins og risastór köttur sé að mala í sólinni, yfirgnæfa mófuglatístið. Ungi bóndinn notar heyrnarhlífar.

Kannski honum takist að láta þá borga skaðabætur fyrir ræktað land sem tekið er undir veg.

 

Sól, logn, friður. Jafnvel sjórinn er lyng, aðeins undiralda. Það er alltaf undiralda þarna við Trölladranga.

Afi og strákur rölta niður með Dröngunum.

-Afi, eigum við að rölta? segir strákur, -- og þá fara afi og strákur út.

-Afi, eigum við að gá hvort vegurinn er í sjónum? segir strákur, -- og þá rölta þeir nafnarnir ofan í fjöru.

Þegar fellur að fer vegurinn á kaf; á útfiri er ökufært fyrir Dranga á útflæðinu. Þannig hefur þetta verið frá ómunatíð.

Trölladrangar er efsti bær. Öld fram af öld hefur enginn átt þangað erindi nema heimilisfólkið og gestir þess.

Vegurinn er í sjónum þegar flóð er, fær þegar fjarar út ef brimið er ekki of mikið. Þannig hefur þetta alltaf verið.

 

Þeir rölta nafnarnir.

-Afi, segir strákur. -Þegar veiðibjallan hlær svona er eins og einhver maður sé að hlæja.

-Já, drengur. Veiðibjallan.

 

 

Hafaldan lemur ströndina í sífellu, þótt sjórinn virðist lygn. Krían gargar. Nafnarnir rölta þögulir í morgunkyrrðinni. Hann veit ekki, gamli maðurinn, hvers vegna sonur hans er að tæta. hann er tekinn við búinu, sonurinn. Gamli maðurinn heyrir ekki í dráttarvélinni.

-Afi, segir strákur. -Það eru vinnuvélar og vörubílar undir Skriðum. Þeir eru að gera stóran veg. Þeir leggja púkk. Þeir sögðu mér það. Ég rölti þangað einu sinni þegar þú fékkst þér blund, afi.

Þeir eru búnir að merkja nýja veginn undir Skriðum.

 

Þorpið er að stækka. Byggðin teygir sig innar og innar. Undir Skriðum er ekki óhætt að byggja vegna hættu á snjóflóðum ofan úr fjalli og aurskriðum og grjóthruni niður gilin.

Gamli maðurinn veit ekki að fyrirhugað er að leggja nýjan veg. Það er búið að setja stikur útfrá, utan við Dranga.

 

-Falleg er eyjan okkar í morgunbirtunni, segir gamli maðurinn.

-Afi, segðu mér söguna þegar huldukonan var með ljósið úti í Klettey undir Dimmuklettum.

-Þú hefur heyrt hana svo oft, strákur.

-Þú fórst í róður, ha, afi, og svo gerði ofsaveður, afi....

-Já, ég var í róðri. Reri langt. Þekkti miðin eins og fingurna á mér. Reri á Bankann. Þar er gjábrún á hafsbotni. Ég tók mið: Tröllin skyldi bera í Háa-Hnúk. Úteyna í Kjölinn miðjan. Þar var sá stóri, sá stóri guli, og lúðan, drengur.

 

Fór á skakið um óttubil, notaði lognið fyrir dagmál. Já, það held ég nú.

-Og þá kom vonda veðrið, afi....

-Það getur nú verið allra veðra von hér fyrir opnu hafi, drengur minn. Það er ekki alltaf lognið eins og núna. Nei, góði minn, tuldrar gamli maðurinn.

-Og svo, afi.....

-Það gerði verður. Með hafátt og þoku.

-... og brimi, ha, afi?

-Já, drengur minn, -- og brimi. Skall á um dagmál fyrir birtingu. Rótaði upp skýjabólstrum. Ég hætti auðvitað á skakinu strax og ég sá hvað verða vildi og reri af stað til lands. Hvassar hviður ruku yfir hafflötinn. Báturinn sentist til og frá; ekkert sást til lands. Þung gerðist aldan. Reri skáhallt undan vindi. Já. Það held ég nú.

-Og þá sástu ljósið úti í sortanum, af, ha, þegar þér varð litið við.

-Ljós úti í sortanum, drengur minn. Tek stefnu á ljósið. Sé móta fyrir eynni, ræ með hnykk, varð að rikka í öldukambinn; sé móta fyrir Dimmuklettum úti í þokunni.

Í fjöruborðinu í víkinni undir Dimmuklettum stendur kona með kyndil.

Sem snöggvast lygnir í víkinni og ég fæ lag til að lenda. Þegar ég lít upp er hún horfin, konan með kyndilinn.

Það verður þögn og þeir rölta.

Það verður alltaf þögn eftir þessa sögu.

 

Vorsólin er heit, þótt skaflar séu enn uppi í fjallinu.

 

-Ég sá einu sinni konu undir klettunum í fjallinu, segir strákur. -Hún var í bláum kjól. Ég hélt hún væri að sópa grasið. Ég var svo lítill þá. Bara fjögra.

Svo sagði ég: -Sjáiði bláu konuna sem er að sópa grasið.

-Hvaða konu? -Hvar? sagði fólkið. Svo sá ég hana ekki meir. Var það huldukona, afi?

-Huldufólkið, drengur minn. Já, huldufólkið. Hún hefur verið að raka.

-Afi, skyldi vegurinn veri í sjónum núna?

-Við skulum rölta oneftir, svarar gamli maðurinn, -- bara gá að því. Við höfum nú ekkert annað þarfara að gera, strákur. Svo röltum við til baka, og þá verður mamma þín búin að hafa til hádegisverð. Við röltum oneftir, góur. Það er að falla að.

 

-Einu sinni, heldur gamli maðurinn áfram, -var hafaldan nærri búin að ná vagninum og hestinum, drengur, þegar ég var að koma heim úr kaupstaðnum. Hafaldan, já. Það fellur hratt að hér undir Trölladröngum. Já, góurinn. Það held ég nú. Það var eins og blessaður klárinn skildi að við urðum að hafa hraðann á. Og hlassið var þungt. Blessuð skepnan.

 

-Afi. Segðu mér þegar tröllin voru lifandi í alvörunni og svo dagaði þau uppi.

-Þú ert búinn að heyra þetta svo oft áður, strákur.

-Voru þau lifandi í alvörunni, afi? Ég meina sko þegar þú varst lítill? Voru þau á alvörutröll?

-Víst voru þau lifandi. En það er langt langt síðan. Það var fyrir löngu löngu síðan. Þau dagaði uppi.

-Já....

-Já, bara dagaði uppi, greyin.

-Já, afi, þau fóru út í Klettey um nóttina ... ha?

-Já, drengur minn. Þau voru lengi í Eynni að veiða fugl og tína egg. -- Ég er búinn að segja þér þetta svo oft áður, strákur.

-Já, afi, og svo sagði tröllapabbi....

-Já, segir afi, -hvað sagði tröllapabbi?

ÞÁ HÖLDUM VIÐ HEIM Í HELLINN OKKAR, segir strákur ábúðarmikill, BRÁTT MUN NÓTT Á ENDA.

-Jáh, segir gamli maðurinn. -Og þá sagði skessan: HVAR ER TRÖLLASTRÁKUR? FARÐU, STELPA, OG FINNDU STRÁK.

-Þá var Tröllastrákurinn bara að tína skeljar og þau vissu ekkert hvar hann var, segir drengurinn og hlær.

-Tröllastelpa fór að leita að tröllastrák, segir afinn,.....

-..... og svo sá hún líka fallegar skeljar og fór líka að tína skeljar. Drengurinn skellihlær.

-Þá, segir afinn, -þá fór skessan að leita að þeim.....

-...og Tröllapabbi varð öskureiður og öskraði: DÖGUN ! DÖGUN ! og þau stukku út í sjóinn og óðu í land og flýttu sér ofsamikið til að komast heim í hellinn sinn áður en sólin kæmi upp.

Gamli maðurinn segir hægt: -Sólin kom upp og þá voru þau hér við túnfótinn hjá okkur. Og þá öskraði þursinn stóri:

LEGG ÉG Á OG MÆLI ÉG UM:

GERI EINHVER OKKUR MEIN

LÆT ÉG HRYNJA ÚR FJALLI STEIN

STÓRAN STEIN

OG ANNAN STEIN

OG GRANDA ÞEIM SEM GERIR MEIN.

-Og svo varð hann bara að steini, bætir drengurinn við. -Þess vegna liggur vegurinn okkar bara ofan í fjöru, út í sjó.

-Já, góurinn. Enginn kemst yfir Tröllin okkar nema fuglinn fljúgandi.

-......og flugvélar, afi.

-Þær koma okkur ekkert við, hnussar í gamla manninum.

-Það er hægt að klifra milli þeirra, afi. Tröllanna okkar.

-Já, en enginn fer þar með með hest og vagn, strákur. Það verður að fara niður á útflæðið.

Það má ekki hrófla við Dröngunum. Það fylgir því ógæfa, Mundu það, afastrákur, þegar þú tekur við jörðinni: Aldrei má skerða hár á höfði þeirra, Tröllanna okkar, drengurinn minn. Það fylgir því ógæfa. Mundu hvað tröllapabbi lagði á og mælti um.

 

Þeir rölta til baka, gamli maðurinn og strákurinn. Vegurinn er auðvitað í sjónum. Það er árdegisflóð.

 

Krummi á sér laup uppi í Tröllastrák. Þar hafur krummi alltaf átt laup. Hann fer langt í ætisleit. Það er erfitt að seðja gráðuga ungana uppi í Tröllastrák.

-Það bomsar ekki í honum í góða veðrinu. Spáir ekki góðu áfram. Hann veit nú lengra en nef hans nær hann krummi, tautar gamli maðurinn, þegar hrafninn flýgur yfir.

-Eitthvað er hann annarlegur, hrafninn, heldur hann áfram. -Órólegur. Undarlega órólegur. Það er eins og hann sé að reyna að segja okkur eitthvað, drengur. Einhver tíðindi, eitthvert slæmt atvik, sem... Illur atburður í aðsigi. Ef til vill mannskaðaveður í aðsigi.

-Afi, segðu mér söguna þegar vondu byssukallarnir ætluðu að skjóta krummana okkar, segir strákurinn, -- og um litlu telpuna. Ha? Afi. Afi.

Gamli maðurinn horfir upp í loftið. Brúnir hans síga, augu hans horfa; og það er eins og hann horfi í gegnum allt og sjái eitthvað sem ekki er.

 

-Afi, segðu mér söguna þegar vondu byssukallarnir ætluðu að skjóta krummana okkar -- og um litlu telpuna.

-Bæjarhrafnana okkar? tuldrar gamli maðurinn annars hugar.

-Já, afi ....

-Ótætis piltarnir. Það á ekki að láta svona óvita fara með byssu. Þóttust vera á tóu, og fengu auðvitað enga tóuna. Þeir komu ofan úr fjalli hér ofan við bærinn, sáu þá hrafnana svífa í löngum sveig ofan úr Dröngum, Tröllastráknum, og stefna á Lághól.

-Litla telpan var búin að gefa þeim og hæna þá að sér, bætir strákurinn við, -og þeir þekktu hana og þeir vildu fá ruðurnar sínar, ha?

-Já, svarar gamli maðurinn. -Hún fékk matarruður handa hröfnunum á veturna, telputetrið, og gaf þeim úti á Lágól. Þeir þekktu hana . Hoppuðu svona til og frá á hólnum, svona eins og hrafnar gera. Fyrst í stað komu þeir þegar hún var farin, sú litla, og átu. En smátt og smátt fóru þeir að koma þegar þeir sáu telpuna koma með ruðurnar, krummatetrin.

-Og svo komu byssukallarnir, afi, og sáu krummana og þá var litla telpan að koma út með ruðurnar, ha? Og þeir sáu krummana svífa ofan úr Dröngum og setjast á Lághól....

-Þeir komu ofan úr fjalli hér ofan við bæinn, komu ofan hlíðina, strákahimpigimpin, sáu þá hrafna svífa ofn úr Dröngum og setjast á Lághól. Þeir steyttu byssurnar, -- það á ekki að láta svona óvita fara með byssur -- og miðuðu, ótætis piltarnir.

-Litla teplan sem var a koma t r bnum, segir strkurinn kafur, -kallai: EKKI SKJTA, EKKI SKJTA. ETTA ERU KRUMMARNIR MNIR ! En eir heyru ekki, byssukallarnir. Og hljp hn t Lghl og baai t hndunum og reyndi a fla krummana upp: FLJGU, KRUMMI, FLJGU ! kallai hn og hljp t Lghl.

-Telpan sem var venjulega svo prúð og hljóð, segir gamli maðurinn, -kom hlaupandi og reyndi að bjarga hröfnunum sínum. Hrafnarnir hoppuðu eitt hopp til hliðar, svona eins og hrafnar gera. Þá reið skotið af og fór í höndina á blessuðu barninu.

-Og svo voru byssukallarnir skammaðir ofsa mikið, segir strákur æstur, -og læknirinn kom og læknaði handlegginn á stelpunni og krummi hélt bara áfram að eiga laupinn sinn í Tröllabarninu. Krummarnir okkar, afi?

-Já, bæjarhrafnarnir, karl minn.

 

Þeir rölta yfir móana, nafnarnir. Einn og einn fugl flýgur upp. Firðildi flögra í logninu.

Þeir taka stefnu á dráttarvélina með tætaranum aftan í.

Svo hlýtur að fara að koma matur.

 

Ungi bóndinn er að ljúka við að tæta spilduna. Hún er löng og mjó. Hún afmarkast nokkurn veginn af fyrirhuguðu vegarstæði. Kannski tekst honum að fá skaðabætur. Hann hoppar niður úr dráttarvélinni og teygir úr bakinu.

Hann sér þá rölta, pabba gamla og strákinn sinn. Það er nú veðrið til þess.

Hvernig skyld hann taka þessu með veginn, sá gamli?

 

-Hvað varstu að tæta hérna, maður, spyr gamli maðurinn.

-Ég, segir sá ungi.

-Já, þú, segir sá gamli.

-Ég var að tæta hérna spildu.

-Já, ég sé það nú, segir sá gamli. -Þú varst að tæta hérna spildu.

-Vegurinn á að liggja hér, svarar sá ungi.

-Hvaða vegur? Hvaða andskotans vegur?

-Nýi vegurinn, pabbi.

-Hvaða andskotans nýi vegur? spyr gamli maðurinn.

-Þeir þurfa að komast í grjótnám hér framfrá. Þá vantar veg.

-Við höfum veg, segir gamli maðurinn.

-Höfum við veg? segir ungi bóndinn.

-Jáh. Víst höfum við veg, svarar sá gamli.

-Nei, við höfum sko ekki veg hér í Trölladröngum. Hvar í veröldinni heldurðu að annað eins fyrirbæri sé að finna og þetta sem þú kallar veg? Við búum hér rétt hjá þéttbýliskjarna og erum svo til sambandslaus, rétt eins og hvert annað afdalakot. Nei við höfum sko ekki veg hér.

Svo á að koma skíðaaðstaða fyrir bæinn hér frammi í dal. Þá þarf veg.

 

Gamli maðurinn er lengi að átta sig á því sem hann heyrir.

 

-Það á að sprengja bráðum, segir ungi bóndinn. -Strákinn, pabbi, Tröllastrákinn. Vegurinn kemur þarna í gegn.

Ungi bóndinn bendir. En gamli maðurinn horfir ekki þangað sem hann bendir. Hann starir á son sinn, gamli maðurinn, starir á son sinn.

Hann áttar sig ekki á því sem hann heyrir..

-Dínamít, segir ungi bóndinn. -Það er komið dínamít í Tröllastrákinn, pabbi. Vegurinn kemur þarna í gegn.

Drengurinn galopnar augun: -Krummarnir okkar eiga laupinn sinn í Tröllastráknum, segir hann, -og ungana sína. Það má ekki skemma Tröllastrákinn. Tröllapabbi verður reiður, ofsalega reiður. Hann lagði á og mælti um.

 

Gamli maðurinn fer að titra.

Bræðin nær tökum á honum: -Ég tala við hreppstjórann, æpir hann, og röddin er hás.

-Það er búið að tala við hreppstjórann, pabbi.

-Sýslumanninn!

-Hann leggur blessun sína fyrir framkvæmdirnar.

-Það skal aldrei verða! segir gamli maðurinn, titrandi af geðshræringu. -Ég fæ þá friðlýsta. Það eru til náttúru-..... náttúruverndar-.... það eru til einhver..... ÞAÐ ERU ÁLÖG !

-Æ, góði pabbi, segir ungi bóndinn. -Þetta er frágengið. Það verður sprengt bráður. Þeir eru að koma þarna, sýnist mér. Þeir ætluðu að koma núna einhvern daginn. Það er komið púkk að Skriðum. Vinnutækin eru þar. Drangurinn er fyrir, skilurðu? Skilurðu?

Hrafnarnir í Trölladröngum láta ófriðlega. Mannaferðir rétt undir laupnum þeirra. Þeir fælast upp, krunka ákaft, fljúga lágt yfir mennina sem voru að koma og eru að vinna neðst í drangnum.

Það á að sprengja Tröllastrák í dag. -- Núna.

 

-Það skal aldrei verða! ÞAÐ SKAL ALDREI VERÐA !

Gamli maðurinn hefur misst stjórn á sér: -ÞAÐ SKAL ALDREI VERÐA !

Hann tekur á rás að Dröngunum, en kemst lítið áfram.

-Pabbi, kallar ungi bóndinn, - pabbi. Farðu ekki, þeir ætla að fara að sprengja. PABBI ! ÞAÐ ER HÆTTULEGT AÐ FARA NÆR.

 

Mennirnir haska sér brott frá Drangnum.

Það heyrast drunur. Þeir eru að sprengja.

Tröllastrákurinn hrynur saman í hrúgu. Grjót þeytist út frá honum.

Gamli maðurinn steytir hnefann: -Vititði hvað þið hafið gert? VITIÐI HVAÐ ÞIÐ HAFIÐ GERT?

 

Litli drengurinn stendur hjá dráttarvélinni og starir á Tröllastrákinn hrynja; starir á hrafnana hrædda og ævareiða í senn; starir á afa sinn sem er viti sínu fjær af bræði; pabba sinn, svipbrigðalausan, rólegan, eins og alltaf. Pabbi hafði þá vitað... pabbi hafði ekki sagt þeim .... Drengurinn hafði ekki hugsað út í það hvernig vegurinn átti að halda áfram frá Skriðunum.

 

Stutta stund verður kyrrð. En svo heyrast drunur á ný. Það heyrast drunur ofan úr fjalli.

Ungi bóndinn horfir upp í fjallið og yfir að Skriðum.

Gamli maðurinn hefur látið hnefann síga. Hann horfir líka upp í fjall og yfir að Skriðum. Það heyrast greinilegar drunur. Strákurinn litli horfir á pabba sinn og svo á afa sinn. Hávaðinn eykst. Það er að falla skriða ofan úr fjalli. Hún stefnir á vinnuvélarnar þar sem verið er að leggja púkk í nýja veginn.

Felmtri slegnir hrópa menn þar og kalla, vara við og hlaupa, yfirgefa vinnuvélar í snatri, forða sér, hver sem betur getur.

Ógurlegur grjótruðningur ryðst ofan úr fjallinu og stefnir á vinnuvélarnar.

 

Gamli maðurinn réttir úr bakinu. Hann stendur eins og klettur. Hann veit að nú eru Tröllin reið.

Nasavængir hans þenjast. Hann bítur saman jöxlum, augum skjóta gneistum; eina andrá er eins og sigurglampi leiftri í þeim. Drunurnar í fjallinu eru honum mjög að skapi:

-SAGÐI ÉG EKKI....

SAGÐI ÉG EKKI....

 

 

                           -- oo 00 O 00 oo --