ISBN 9979-895-22-5

Halla

Sagan um Höllu er til sem hljóðbók á Blindrabókasafni, lesin af höfundi, Guðrúnu Kristínu Magnúsdóttur.
Höfundur las sögunua Höllu í Ríkisútvarpið, í Morgunstund barnanna, sem framhaldssögu.

Goia writing story Halla on a typewriter (1979) in the birchwood  in Kálfsholt (near Gullfoss and Geysir)                .

Söguhetjan, Halla, er borgarbarn sem fer í sveit yfir sumarið. Hún kynnist þar allt annarri veröld en hún hefur alist upp í.

Sagan byrjar á spaugilegum ativkum í skólanum rétt fyrir sumarfrí, og þar kynnumst við fljótt réttlætiskennd Höllu, hreinlyndi, þagmælsku, ákveðni, og að hún er vinur vina sinna og líður ekki óréttlæti.

Litla systir Höllu, Katla, er skemmtilegur krakki, en Halla er greinilega mjög vel gefin og þroskuð og þess vegna geta krakkaleg en hryllilega fyndin tiltæki Kötlu ergt Höllu pínu pons -- og við láum henni það ekki, því mamma er stundum aðeins stynjandi og orðlaus líka.

Halla á góða foreldra;
en í upphafi sögunnar verður Halla áheyrandi samtals ríks fólks sem er að hugsa um að sölsa undir sig jörð sem einhver karl býr á -- og tengist þetta síðari hluta sögunnar og hetjudáðum Höllu.

Halla lendir á góðu heimili í sveitinni, en eitt er víst að börnin í sveitinni þurfa að vinna.
Í miðjum heyskapnum, um hásláttinn í brakandi þerri, fara Halla og Gutti litli inní litlu gömlu kirkjuna og fikta þar við að spila á fótstigna orgelið;
þegar þau finnast þar spyr húsbóndinn, pabbi Gutta, allbyrstur: -Á hverju ætlarðu að fóðra rolluna þína í vetur, drengur? Ætlarðu að spila fyrir hana þegar hún vill hey að éta?

Gugga gamla, sem Halla er í herbergi með, segir alvöru draugasögur, og alvöru huldufólkssögur;
Gugga er kapítuli útaf fyrir sig, sem er algjör tímaskekkja.

Dulúð liggur í loftinu; Gugga spáir í boms hrafnanna; Gugga er enn að raka með hrífu og saxa hey í föng og bera úr skvompum á rinda, rifja og sæta í drýli, og hummar á meðan hún vinnur.

Geir, ungi vinnumaðurinn, segir að hún sé að galdra, kerlingin, særa fornmann með alvæpni úr hólnum, og Gutti er svolítið trúgjarn;
en Palli, eldri strákurinn á bænum, er búinn að afgreiða allar sögurnar hennar Guggu gömlu sem afþreyingarefni fyrir smábörn;
en hvers vegna er Palli þá smeykur við afturgenginn bola og Hrafngrím á Sjafnaflötum?

Börnin fara í smalareið, en hún er horfinn þjóðlegur siður.
Lagt er í smalabú og börnin sjá um skemmun -- sem er í rauninni afskaplega skemmtileg vegna óvæntra atvika sem upp koma í hallærislegum heimatilbúnum leikritum;

hér er í rauninni á ferðinni heimildarmynd um horfinn heim, og ég hvet til lestrar á Höllu (/hlustunar á hljóðbók)

Halla er gott efni í heimildarkvikmynd um búskaparhætti og um leiki barna í sveit og þéttbýli á liðinni öld;
fulla af dulúð þjóðsagnanna, árekstrum þéttbýlis og dreifbýlis, árekstrum bænda og náttúru.

Halla elskar tóuna, en bændurnir hata tóuna; okkur léttir þegar flökkuhundar voru skotnir en ekki refir, en dýrbitið fé fær alla bændur til að vígbúast og hefja stríð á hendur refnum, og murka lífið úr nýfæddum yrðlingum.

Hrafngrímur á Sjafnaflötum er einbúi, sktítinn og einrænn, og börnin eru vöruð við að fara þangað; -ekki vera að þvælast á Sjafnaflatirnar, er janfan brýnt fyrir þeim þegar þau fara í reiðtúr; en þau fara inn gil þar sem klettarnir lokast yfir höfði þeirra og þar sjá þau Sjafna !!!!;
Gugga segir Höllu af bolanum Sjafna, sem skorinn var á blóðvelli og gengur því aftur;

mikil dulúð og spenna fylgir sögunum um bolann;
en þegar Halla stelst á bak Móskjóna í stóði Hrafngríms fer sagan að taka á sig hættulega mynd, því stóðið fælist og Halla dettur loks af baki á hlaðinu á Sjafnaflötum, og rotast;

Ég vil ekki segja ykkur meira úr sögunni, en hún féll í góðan jarðveg hjá ungum -- sem og öldnum, þótt skrifuð sé sem barnasaga, því margir þekkja þennan gamla tíma sem horfinn er og mætir nú nýja tímanum í ójöfnum leik:

Sjafngrímur situr enn á hauskúpu úr stórgrip við að tutla þessa einu belju sína. Hann er ógurlegur og við erum hrædd við hann. En við í raun vitum ekki annað en það sem hinir segja um hann.

Það er svolítill broddur í lýsingum á aðferðum peningafólks í þéttbýli við að ná jörð fyrir hobbí og losna við gamla karla og koma þeim á stofnun. Og við dáumst að Höllu við að standa uppi í hárinu á hreppstjóranum.

***

Sumar í sveit, gaman og alvara, -- og sagan er mjög vel flutt á snældum Hljóðbókasafns Blindravinafélagsins

****

(Halla er ein af fyrstu sögum höfundar;
látin gerast rétt eftir miðja síðastliðna öld;
hugsuð sem handrit að heimildarmynd um hverfandi búskaparhætti, og fólk sem
mundi tímana tvenna.)

*****

Halla

I     Vetrardagur
II     Í sveitina
III   Tóuveiðar
IV   Hey
V    Smalareið
VI   Halla gengur of langt
VII  Árin líða
VIII Halla leggur upp í tvísýna ferð


_ I _

_Vetrardagur_

Vekjaraklukkan hringir af myndguleik. Hún er vön því að láta hlýða sér, og
fær sér ekki frí frá hávaðaframleiðslunni nema um helgar.
Hvernig sem á því stendur geta vekjaraklukkur stundum farið í taugarnar á
manni.
Sérstaklega í febrúar. Þá er langt síðan jólafríið var og langt þangað til
sumarfríið kemur.
Og svo kallar mamma: -Eruð þið ekki vaknaðar, stelpur mínar?
Það er ekki um annað að ræða en setjast fram á, geispa ógurlega, og fara að
paufast í sokkana.

Katla, litla systir Höllu, er enga stund að vakna. Hún fær sér ekki einu
sinni frí um helgar við að vekja fólk
-Halla!, segir Katla allt of hátt. -Halla. Eigum við að koma út í
snjókast á leiðinni í skólann? Eigum við að búa til stóran stóran snjókall í
dag?
Halla er hvorki upprifin af snjókasti né snjóköllum:
-Æ, við þurfum nú að fara í skólann núna, Katla mín.

-Drífðu þið á fætur, Halla mín, segir mamma.
-Já, mamma mín, svara Halla svefndrukkinni röddu, -ég er alveg vöknuð
-Katla mín, farðu nú að byrja að borða brauðið þitt, vinan. Þú ert svo
lengi að koma morgunmatnum í þig.
Katla fer fram og sezt við borðið. Hún sullar í jógúrtinu og segir mömmu að
Halla og hún ætli að búa til stóran stóran snjókall í dag.

Pabbi og mamma eru samferða í vinnuna. Pabbi bíður með bíllyklana og
stressarann. mamma er alveg að verða tilbúin.
-Halla mín, settu uppþvottavélina í gang áður en þið farið, vinan, segir
mamma um leið og hún fer. -Bless bless, stelpur mínar.

Skömmu eftir að pabbi og mamma eru farin þurfa systurnar að tygja sig af
stað. Katla er komin í stígvélin sín sjálf, en --- krummafætur. Æ.
Halla kippir því í lag.

Halla fylgir Kötlu í leikskólann á hverjum morgni um leið og hún fer sjálf í
skólann. Það líkar Kötlu vel og finnst hún þá eiga stóru systur sína alein.
Katla er líka með skólatösku. Þar hefur hún nestið sitt og eina bók sem
heitir Stubbur. Það _eiga_ að vera bækur í skólatöskum.

Það snjóar örlítið. Það er alveg logn. Bílar spóla, fólk klofar yfir skafla.
Bráðum fer að verða bjart á morgnana, og einhvern tíma hlýtur svo að koma
vor. Þær leiðast, systurnar, alla leið að leikskólanum.
Foreldrar sem allir virðast vera að flýta sér, koma með börnin sín á
dagheimilið, hlaupa síðan út í bílana sína og hraða sér burt.
-Flýttu þér, elskan mín, segir hlaupandi mamma með barn við aðra hönd sér
og litla skólatösku í hinni hendinni, -svo mamma missi ekki af strætó. Hún
lítur á klukkuna, smeygir barnunganum syfjuðum og utan við sig inn fyrir, og
fóstran tekur við honum: -Sæll óli minn, segir fóstran, -á ég að hjálpa
þér úr úlpunni.
Og mamma hans Óla hleypur, til þess að missa ekki af strætó.
Það liggur vel á Kötlu. Raunar liggur oftast vel á Kötlu. Hún sleppir hendi
systur sinnar og hleypur að hliðinu á leikskólanum: -Bless, Halla. Ég get
alveg sjálf.
-Bless á meðan, segir Halla. -Sæki þig á eftir, þegar skólinn er búinn.

Halla hittir Dísu sem hún situr hjá, og þær verða samferða í skólann. Þegar
hringt er inn hópast allir að dyrunum. Snjóboltaregnið dynur yfir hópinn í
skólaportinu. Alltaf eru hrekkjusvínin í essinu sínu þegar hægt er að hnoða
snjóbolta. Enginn þorir samt að henda í átt að kennurunum -- og það er
stranglega bannað að henda inn í skólann.
Allir hverfa loks inn, hver í sína stofu.
-Björn, varstu veikur í gær? Það er kennarinn sem spyr.
Hún les kladdann í hálfum hljóðum. Allir eru seztir. Það er skrift.
-Sigríður Anna. Hvar varst þú í gær?
Sigga Anna svarar feimnislega: -Ég var með leyfi.
-Haaaa?. segir einhver krakki aftast í bekknum. -Varstu með honum Leifi?
Haaaa?
Hlátur.
-Ha, Leifur óheppni. Var það?
-Þögn! Haldið áfram að skrifa!, segir kennarinn.
-Páll, varstu veikur í.... Já, það stendur víst hér.

Leifur biður um leyfi til að skreppa fram. Honum leiðist ein ósköp í
skrift. Finnst skriftarkennarinn hörmulega leiðinlegur og verst af öllu
þegar krakkarnir eru að stríða honum með Siggu Önnu.
-Já, en vertu fljótur, segir kennarinn.
Nú gengur hún að borðinu hjá Palla: -Á þetta að vera _a_ hjá þér Páll?
Haldið þið að þið eigið að reyna að teikna hálftóman poka sem er að fjúka af
línunni, þegar á að skrifa a, fallegt a? Og _s_ á ekki að líta út eins og
ánamaðkur. Skrifa fallegt s, fallegt s. Og hún skrifar falleg s á töfluna.
-Páll, þú verður að skrifa heila síðu af sa sa og as as.

Barið að dyrum á kennslustofunni. Skólastjórinn kemur inn og í fylgd með
honum strákur, sem krakkarnir hafa ekki séð áður.
-Hér kemur sá danski, segir skólastjórinn. -Krakkar, þessi danski
strákur ætlar að vera hérna hjá okkur til vors, og e.t.v. verður hann hér
líka næsta vetur. Ætlið þið að hjálpa honum að læra dálítið í islenzku?
Viljið þið gera það?
Auðvitað segja allir: -já já, og kennarinn vísar þeim danska til sætis og
segir: -Góðan dag. Det betyder god dag.
Sá danski brosir út að eyrum og segir: -jah!
-Hvað heitir þú? det betyder: hvad hedder du?, spyr kennarinn.
-Jah, segir sá danski.
-Heitir þú Casper? Hedder du Casper?
-Jah, svarar sá danski.
-Casper.
-Jah.
Börnin eru byrjuð að flissa og Casper er skælbrosandi.
-Nu skal du skrive, skrifa, segir kennarinn
-Jah, svarar Casper og hlær kitlandi smitandi hlátri.
Þessi Casper virðist vera hressasti náungi, raunar algjör sprelligosi.

Halla sér að kennarinn er að reyna að brosa líka. Fyrst hún virðist ekki
vera í ferlega vondu skapi, áræðir Halla að spyrja hvort hún megi skreppa
fram.
-Já, en vertu fljót. Ef þú sérð Leif, þá segðu honum að koma strax inn
að vinna.

Örstuttri stund síðar hringir skólabjallan. Krakkarnir eru heldur snöggir
að skella aftur bókunum.
-Hægan, hægan, segir kennarinn og lítur á klukkuna. -Tíminn er ekki
búinn. Þetta er einhver misskilningur. Alveg kyrr í sætunum!
Hún fer fram á gang. Skólastjórinn er þar og biður kennarana um nöfn allra
þeirra barna sem ekki voru í kennslustofunum þegar hringt var. Einhver
hefur hringt skólabjöllunni í leyfisleysi í miðjum tíma. Skólastjórinn
ætlar að segja nokkur vel valin orð við þann sem það gerði.

Á skrifstofu skólastjóra eru: Halla, Leifur, auk sex annarra stráka, og
allir þegja eins og steinar.
-Þið sjáið að þetta er ekkert fyndið, segir skólastjórinn byrstur.
-Þetta truflar vinnu nemenda og kennara. Ef þið segið mér ekki hvert ykkar
hringdi bjöllunni fær ekkert ykkar að fara í skólaferðalagið í vor.
Ekkert svar.
-Ef þið segið mér hver það var, fáið þið öll að fara, jafnvel sá seki.
Á ég að trúa því, Halla, að þú hafir verið með í þessu?
Halla starir svipbrigðalaus á tærnar á sér. Hún veit vel hver það var sem
stalst til að hringja út. Hún segir ekki neitt. Aðeins lítur upp, beint í
augun á skólastjóranum.
-Þið megið fara, segir skólastjórinn að lokum. -Ferðalagið verður í maí.
Sá seki hefur tíma til að gefa sig fram.

Þegar Halla kemur að sækja Kötlu í leikskólann er hún nærri því hætt að
hugsa um að hún fái kannski ekki að fara í skólaferðalagið. Það gerir þá
ekkert til.
Katla byrjar að mala strax og Halla kemur: -Við vorum að syngja: í skóginum
var kofi einn þar sem jólasveinarnir eiga heima. Svo búði ég til kall
-Bjóstu til karl?
Þær leiðast heim.

Þær eru fegnar að koma heim. Katla fer að taka kallin sinn upp úr töskunni
og laga annan fótinn sem hafði bögglast.
-Sjáðu hvað ég búði til.
-Bjó til, segir Halla. -En glæsilegur.
Halla nær sér í djúpdisk og skeið og hellir diskinn fullan a kókópöffsi.
Katla prílar upp á stól og nær sér líka í disk. Hún hellir úr pakkanum á
diskinn sinn, en það eru þá aðeins nokkur korn eftir -- og mylsna.
-Þú taktir allt!, æpir Katla. -Ég vil fá helminginn.
Halla ansar henni ekki. Hellir mjólk útá hjá sér.
-Ég vil fá jafn mikið og þú!
Halla mokar upp í sig: -Ef þú ætlar að skipta jafnt, Katla mín, þá verðurðu
líka að gefa öllum hinum krökkunum í blokkinni, öllum krökkunum í
leikskólanum, -- og öllum á Íslandi, og öllum í heiminum. Svo þarftu líka
að gefa fuglunum og kindunum og lömbunum..... Hvað heldurðu að séu margar
kindur á Íslandi?
Katla er allfýld og maular sín fáu korn.
Halla tekur eitt korn af sínum diski og lætur á borðið: -Svo er bezt að
Gilitrutt fái þetta, segir hún og lítur á Kötlu. -Heldurðu ekki að hún
verði kát?
Katla segir ekkert.
-Er Kötlugosið búið?, spyr Halla. -Á ég að gefa þér sápukúluboxið
mitt?

Þegar pabbi og mamma koma, hleypur Katla fram og kallar: -Mamma, Halla gaf
mér sápukúlurnar sínar af því að hún takti allt úr pakkanum.
-Tók, leiðréttir mamma. -Sælar, vinurnar mínar.
Pabbi rogast inn með mjólk og önnur matföng.
-Hve margar kindur eru á Íslandi, pabbi?, spyr Halla.
-Hvað segirðu?! En sú spurning áður en maður kemst innúr dyrunum. Eh,
ætli við eigum ekki svona, ja, um milljón skjátur og annað eins af lömbum á
sumrin. Af hverju spyrðu að því?
-Ef Katla skyldi ætla að gefa þeim kókópöffs.
Pabbi hlær að vitleysunni.
Katla er komin með sápukúluboxið og kúlur svífa um allt. Ekki lítur út
fyrir að það þurfi að hafa áhyggjur af henni næsta hálftímann eða svo.
Katla reynir að veiða sápukúlurnar sem hún hefur blásið út í loftið. Hún
beygir sig fram til að ná einni sem var nærri því lent á gólfinu. Um leið
og hún hallar sér fram hallast boxið og sápukúluvökvinn hellist á gólfið.
-Halla !!!, kallar Katla upp yfir sig. -Það helltist allt úr!!!
Annað Kötlugos.
-Þetta er allt í lagi, Katla mín, segir mamma. -Ég skal gefa þér
uppþvottalög í boxið. Það gerir sama gagn. Náðu nú í gólfklút, vina mín.

-Meðan ég man, Halla, segir pabbi. -Ég hef vinnu handa þér í sumar.
viltu sendast á skrifstofunni? Þú átt hjól, og eitthvað þarftu að gera í
sumar. Hefurðu áhuga?
Halla verður hugsi.
-Þú þyrftir þá helst að byrja sem fyrst í vor. Hvenær er skólinn búinn?
-Er ekki svo alltaf skólaferðalag hjá ykkur á vorin, spyr mamma.
Halla sér fyrir sér: sjálfa sig á hjóli með rukkaratösku; hún væri að
leita að einhverju húsi við einhverja götu. Þá sæi hún tvo eða þrjá
rútubíla fulla af krökkum á leið út úr bænum, hlæjandi krakka á leið í
skólaferðalag. Svo fyndi hún húsið og spyrði eftir manninum og þá væri hann
ekki við. -Hún skyldi reyna seinna, segði stúlkan.
-Tja, ég veit nú ekki, segir Halla loks seinlega.
-Það er nú erfitt að fá vinnu fyrir krakka á sumrin, segir pabbi hennar.
-Skólagarðarnir eru nú alltaf vinsælir, segir mamma. -Nóg af fersku
grænmeti allt sumarið. Svo geturðu gætt Kötlu þangað til ég hætti að vinna.
Auðvitað förum við svo eitthvað í fríinu.

Katla stendur á stól við eldhússvaskinn og sprautar uppþvottalegi í
sápukúluboxið. Að vísu fer drjúgur hluti utanhjá. Katla er nú einu sinni
eitt af þessum duglegu börnum sem allt þykist geta sjálf, svo engum dettur í
hug að skipta sér af henni.

Halla hugsar sér þær vinkonurnar, Dísu og sig sjálfa; hún veit að Dísa ætlar
að passa í sumar. Þær myndu sitja í rólunum úti á róló og róla sér hægt.
Dísa hefði kerruna við hliðina á sér. Katla tylldi ekki í sandkassanum
lengi. Hún vildi fara að hjóla á tvíhjóli úti á götu. Það er alltaf
eitthvert vesen þar sem Katla er.
Svo gæti hún selt blöð. Borið út blöð.
Halla stynur.
Hún grípur sápukúlu í lófa sér. Katla er byrjuð á ný að puðra sápukúlum
yfir allt og alla.
-Er ekki hægt að komast í sveit einhvers staðar?, áræðir Halla loks að
segja.
-Í sveit!?, segir pabbi. -Hvernig fékkstu nú þá hugmynd?
-Það getur nú verið að fólk vilji frekar taka stráka og þá eldri en þú
ert, skýtur mamma inní.
-Á ekki að vera sama hvort maður er strákur eða stelpa?, segir Halla.
-Jú, auðvitað auðvitað.
-Í sveit, já, hugsar pabbi upphátt. -Hvernig fékkstu nú þá hugmynd?
Heyrðu, segir hann allt í einu: -Hvernig er með hana Valgerði, hérna, þú
veizt, sem var með þér í Kvennaskólanum í gamla daga? Þekkirðu hana ekki
nógu mikið til að spyrja hana hvort hún taki sumarkrakka?
-Þú segir nokkuð, svarar mamma, -hún Valgerður býr á Hörgshóli. Þetta
er fyrirmyndarheimili. Kirkjustaður ef ég man rétt. Þar var hörgur til
forna, vé og hof, sagði hún mér einhvern tíma. Fornleifauppgröftur einhver
var þar. Ég get vel spurt hana. Hún segir þá ekki nema nei. -- Ef þér er
alvara, Halla litla?
-Jahá, svarar Halla áköf.
-Það held ég að göngulagið skáni nú fröken Halla, segir pabbi
skellihlæjandi, -ef þú ferð að ganga á þúfunum. Nógu ókvenlegt er það nú
fyrir!
-Það er bara heilbrigt fyrir börn að hlaupa á þúfum, bætir mamma við til
að draga úr skensinu. Halla hefur ansi dugnaðarlegt göngulag, því er ekki
að neita.
Halla lifnar öll við þessar samræður; augun í henni tindra af
eftirvæntingu:
-Mamma, eru hestar á þessum Hörgshóli?
-Ég veit það nú ekki , segir mamma, -en ég veit að þar eru kýr, að
minnsta kosti.
-Mamma viltu hringja til hennar og spyrja hana?
Og mamma hringir til Valgerðar á Hörgshóli.
Þannig byrjaði það allt saman._ II _

_Í sveitina_

Halla vaknar snemma. Það er komið vor og hún er að fara í sveitina.
Katla er auðvitað vöknuð líka. Hún er að vísu enn á náttförunum, en búin að
ná í grammófónsplötu: Sumar, sumar, sumar og sól með Ómari, -- og farin
að spila hana.

Á gólfinu í herbergi Höllu er opin ferðataska. Hún er að pakka.
Pabbi og mamma ætla að keyra hana á Hörgshól. Þau sofa enn. Það er ekki
svo oft sem þau fá að sofa út. Katla hækkar fóninn. Lagið glymur um allt
hús.
Halla hleypur inn til Kötlu: -Katla, Katla, ekki vekja pabba og mömmu
fyrst þau sofa. Við förum í langan bíltúr í dag með mig í sveitina.
-Kemurðu aldrei aftur?, spyr Katla hálfuggandi.
-Jú, auðvitað. Í haust. Ég verð í allt sumar.
-Ég vil líka vera í þessari sveit eins og þú.
-Þú ert of lítil, svarar Halla pínulítið stríðnislega.
Það er ekki laust við að Katla sé dálítið móðguð.
-Klæddu þið nú í ferðafötin, segir Halla, -og gerðu þið fallega á meðan
ég fer í bað.
Katla dundar við að pilla á sig spjarirnar. Að því loknu prílar hún upp í
stólinn við mömmu spegil of fer að greiða sér með mömmu greiðu.
Þá kemur hún auga á púðurdós. Auðvitað ákveður hún að púðra sig. Halla
sagði henni að gera sig fallega.
Pabbi og mamma sofa vært.
Púður sáldrast niður á snyrtiborðið, á stólinn og á fötin hennar. Þegar hún
uppgötvar þetta reynir hún að dusta allt saman burt með lófanum, en það
virðist ekki gera nema illt verra.
Þá nær katla í bursta. Það er að vísu skóbursti. Hún burstar af öllum
kröftum: fötin sín, stólinn, teppið. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig
allt lítur út þegar skóáburðurinn klessist í púðrið.
Halla er búinn í baðinu og sönglar: "sumar, sumar, sumar og sól". Hún
vefur handklæði um hárið og fer að gæta að Kötlu.
Katla situr og er að mála á sér varirnar þegar Halla birtist í dyrunum:
-Katla þó!!!, æpir Halla. -O, hve ég er fegin að þurfa ekki að dandalast
með þig í allt sumar!
Katla setur upp skeifu.
Mamma vaknar og rís upp við dogg: -Katla mín!!!
Mamma horfir á púðrið sitt, barnið sitt, stólinn sinn, teppið sitt: -Það er
nú spurning hvor frídagar eru meiri frídagar en vinnudagar, segir hún og
dæsir.
-Nú má spila hátt, segir Katla kát -Pabbi og mamma eru vöknuð.
Hún hleypur fram og hækkar: "......ég fer líka í sveit og ligga ligga lá
..." með Ómari.

-Jæja, Halla mín, segir pabbi. -Ertu ekki orðin spennt að fara að komast
af stað?
Halla er í nýjum gallabuxum og nýjum æfingaskóm. Frammi hjá töskunni og
sængurpokanum eru ný vaðstígvél.
-Ég fer líka í sveit og ligga ligga lá, svarar Halla og brosir af
tilhlökkun.

Eftirvæntingin í svip Höllu leynir sér ekki þegar þau nálgast Hörgshól eftir
langa ökuferð á slæmum vegum. Pabbi hennar stöðvar bílinn á hlaðinu á
Hörgshóli.
Þegar Halla stígur út, heyrir hún að einhver er að syngja fullum hálsi útí í
fjósi. Dyrnar á fjósinu standa opnar og þar er greinilega einhver að vinna.
Valgerður kemur út á hlað og Jón húsbóndi kemur út á stéttarhellur á
sokkaleistunum.
Eftir mikil handabönd og kossaflens er öllum boðið að ganga í bæinn.
-Mikið eruð þið nú góð að ætla að hafa stelpuna, segir mamma.
Halla spyr hvort hún megi fara útí fjós. Valgerður heldur nú það:
-Söngurinn í honum Guttormi litla heyrist nú um allt eins og venjulega. Þú
gengur á hljóðið. Gísli er að mjólka. Góða farðu og heilsaðu upp á þá. Ég
efast ekki um að þeir hlakka til að sjá þig.
Mamma kallar á eftir Höllu: -Farðu í vaðstígvélum en ekki á strigaskónum í
fjósið!
En Halla heyrir ekki. Hún er þegar komin inn í fjós.
Katla er eitthvað óvenju prúð og hátíðleg þarna á hlaðinu. Kannski líka
obbópínulítið abbó.
Valgerður strýkur Kötlu um báða vangana í einu og segir: -Það er fullt af
litlum kettlingum í hlöðunni. Viltu ekki fara og skoða þá? Ætli það sé
ekki skemmtilegra en að koma inn og horfa á okkur drekka kaffi. Stökktu bara
út í fjós. Gutti sýnir þér þá áreiðanlega.
-Börnin sækja í skepnurnar, segir mamma. -Einu sinni þegar Halla var
lítil kom hún með stóran svartan hvolp heim og sagðist mega eiga hann.
Henni hafði verið gefinn hann á gömlu býli í Reykjavík. En þá sagði nú minn
maður þvert nei.
-Hann hefði orðið að kálfi!!, segir pabbi sér til varnar.
-Hún fær víst nóg af hvolpskömminni okkar í sumar, segir Valgerður og
hlær. -Góðu gerið þið svo vel að ganga í bæinn.

Þær Halla og Katla standa þarna í fjósinu. Katla er með hálfopinn munn.
Fjósalyktin kemur í flasið á þeim. Kýrnar eru á básum sínum. Í
fóðurganginum er syngjandi afar óhreinn strákur: Gutti í fjósagallanum.
Hann er að gefa kúnum fóðurbæti.
Stelpurnar sjá ekki Gísla sem bograr undir einni kúnni og setur mjaltavél á
spena.
Söngurinn hættir snögglega. Gutti gægist upp fyrir kýrhausana og starir á
stelpurnar.
-Halló, segir Halla.
-Halló.
-Eru kettlingarnir hérna?, spyr Katla hátt og skýrt.
-Viljið þið sjá kettlingana mína?, spyr sá óhreini og brosir út að
eyrum. -Bíðiðið. Ég þarf að gefa mjölið.
Hann fleygir úr dollunni í Skjöldu og stekkur eftir meiru mjöli.
Stelpurnar renna á mjaltavélarhljóðið. Þar er Gísli. Hann hættir ekki að
vinna. Þær horfa á hann stundarkorn. Gísli er á aldri við Höllu.
-Halló, segir Halla loks.
Gísli lítur varla upp: -Halló.
Nú verður þögn. Löng hallærisleg þögn.
-Þú ert að mjólka, segir Halla svona til að segja eitthvað.
-Já. Það þarf nú víst að mjólka þetta alltaf.
Ein kýrin baular. -- Kötlu bregður ofsalega við þennan óvænta hávaða rétt
hjá henni, og hrökklast eitt skref afturábak.
Gísli gefur hundinum mjólk í beyglaðan dall, og Katla starir á hundinn
lepja. Kisa skýst útúr hlöðunni til að sníkja mjólkurlögg um leið og Geir
vinnumaður kemur með hey í fanginu út úr hlöðunni. Katla gengur eitt skref
enn aftur á bak -- og dettur um slöngu beint á bossann. Þegar maður dettur
á bossann inni í fjósi kemur stór dökk skella á buxurnar manns. Katla æpir
upp. Kisa hrekkur í kút. Katla bröltir á fætur og starir á skítuga lófa
sína. Geir vinnumaður kemur auga á telpurnar og segir stríðnislega: -Nei !
hvaða botnótta lamb er komið í fjósið? Skyldi það heita fröken Kúadella?
Og frökenen mætt! Heitir hún kannski Gilitrutt, bætir Geir við og hneigir
sig djúpt fyrir Höllu.
Geir er alltaf að glettast og kankast á við strákana. Hann er 17 ára og
bætir upp tilbreytingarleysið í sveitinni með sprelli, eilífu sprelli.
-Hún heitir ekkert Gilitrutt, segir Katla or er mikið niðrifyrir.
-Heyrðu, Gilitrutt, segir Geir. -Það þarf að hreyta gömlu beljurnar.
Kanntu að mjólka? Bara læra það, sko.
En nú kemur Gutti og segir stelpunum að koma inn í hlöðu að skoða
kettlingana.
Gutti leitar uppi fimm kettlinga sem brölta um í heyinu í hlöðunni. Katla
er alveg heilluð þegar Gutti lætur einn kettling í fangið á henni. Sem
bergnumin starir hún á hann. Hann mjálmar ámátlega og læsir litlu klónum í
peysuna hennar.
-Hún má alveg eiga einn, segir Gutti. -Ég þarf að gefa þá.
-Það má víst ekki hafa dýr í blokkinni, svarar Halla lágt.

Pabbi og mamma Höllu fara í bæinn um kvöldið og Katla kveður stóru systur
sína, ekki of kát.
-Þú kemur og sækir mig í haust, Katla mín, segir Halla.
En það er lítil huggun fyrir Kötlu litlu.

Valgerður fylgir Höllu upp á loft og Gutti hjálpar þeim að bera dótið hennar
upp brattan stigann.
Valgerður bankar á herbergisdyr Guggu gömlu og opnar:
-Hér er nú sumarstúlkan okkar hún Halla, segir Valgerður, -sem ætlar að
vera hér í herberginu hjá þér.
Gugga hættir ekki að prjóna og rær á rúmstokknum:
-Komdu blessuð, heillin, segir hún.
Valgerður sýnir Höllu skáp sem hún getur hengt fötin sín í. -Og svo kemst
ferðataskan undir rúm.
Halla finnur einhvern spenning í maganum. Allt er eitthvað svo framandi og
innilegt, jafnvel þessi gamla kona sem hún verður í herbergi með.
Halla hefur raunar aldrei kynnst gömlu fólki. Afi hennar og amma eru ekki
gamalt fólk, bara venjulegt fólk sem fer í vinnuna á morgnana og horfir á
sjónvarpið á kvöldin. Og þau eiga kók í ísskápnum þegar barnabörnin koma í
heimsókn.
-Kemurðu niður í kvöldmatinn, Gugga mín, spyr Valgerður.
-O, ætli maður rambi ekki ofan meðan forsjónin gefur fótunum styrk,
svarar gamla konan.
Þegar Valgerður er farin, segir Gutti: -Áttu nokkuð, Gugga?
-O, ætli maður eigi ekki hungurlús einhvers staðar.
Gutti nær í lítinn kistil og leggur í kjöltu Guggu, sem opnar hann og grefur
upp vandlega innpakkaðan kandís og gaukar að honum. -O, gefðu stúlkunni,
góurinn.

Við kvöldverðarborðið troða krakkarnir sér á bekkinn við gluggann. Það er
dálítil fyrirferð í strákunum. Gugga sezt við eldavélina með diskinn í
kjöltu sér. Það virðist samt vera nóg pláss við borðið.
-Þið megið fara í reiðtúr á morgun, krakkar, segir Jón húsbóndi. -Það
er sunnudagur og sauðburðinum lokið.
Heldur glaðnar yfir krökkunum.
-Á mánudaginn, heldur hann áfram, -þurfum við að bera á nýræktina ef
viðrar. Þið megið fara strax eftir mjaltir í fyrramálið, en þið verðið að
vera kom heim fyrir kvöldmjaltir, þú manst það, Gísli.
-Hefur þú komið á hestbak, Halla?, spyr Valgerður.
-Ég hef fengið að fara á bak á gömlu býli í Reykjavík, og kann að beizla
og leggja á og svoleiðis.
-Þú verður þá ekki í vandræðum með að tolla á baki, segir húsbóndi.
-Vonandi ekki, ef það er þægur hestur.
-Já, já. Þægir og latir krakkahestar allt saman.
Þá skuið þið drífa ykkar að borða svo þið komizt einhvern tíma í bólið,
segir Valgerður.

Gugga rær á rúmstokknum og prjónar. Halla er háttuð.
-Hvert ætlið þið að ríða á morgun, börnin góð?, spyr Gugga.
-Strákarnir segjast ætla að sýna mér eitthvert Hvanngil.
Halla leitar að hárburstanum sínum, í ferðatöskunni, á borðinu, í skúffunni.
-Jahá, hummar Gugga. -Hvanngilið, já. Þið skulið ekki hafa hátt hjá
klettunum þar. Huldufólkið vill síður hávaða frá mannfólkinu.
-Er huldufólk í þessu Hvanngili?, spyr Halla.
-Ojá, barnið gott. Hún fóstra mín sagði mér frá því. Þetta er gott
huldufólk. Huld og Húm. Huld og Húm heita þær sem hún þekkti. Þær hjálpuðu
henni oftar en einu sinni. O, já. Það held ég nú. Hvað vantar þig, hróið
mitt? Hverju ertu að leita að?
-Ég var með hárburstann minn hér rétt áðan, segir Halla vandræðalega, en
finn hann ekki. Hún rennir töskunni aftur undir rúm.
-O, leitaðu ekki, telpa litla. Huldukonan fær oft ýmislegt lánað á
þessum bæ. Hallaðu þér bara. Hún skilar alltaf aftur. Ætli henni sé það
ofgott.
Halla verður enn vandræðalegri þegar hún sér að gömlu konunni er alvara.
Halla strýkur fingrunum einu sinni gegnum hárið, svona meira til að klóra
sér í kollinum en til að greiða úr flækjunni.
-Jæja, segir hún. -Góða nótt.
-Hún fær lánað hjá þeim sem henni geðjast að. Hún á ef til vill litla
dóttur með gullna lokka. Ojá. Það held ég nú.

Þegar Halla vaknar þennan fyrsta morgun í sveitinni, sunnudagsmorgun, situr
Gugga á rúminu í upphlut. Hún rekur upp aðra fléttuna, greiðir hana og
fléttar á ný.
-Hvað er klukkan?, spyr Halla og horfir á góða veðrið út um gluggann.
-Ætli ekki jöfnu báðu miðmorguns og dagmála, svarar Gugga rólega.
Halla horfir á Guggu og hallar undir flatt. Hún er engu nær um hvað klukkan
er.
-Þið ríðið út í dag, börnin.
-Já, svarar Halla og ljómar af spenningi og tilhlökkun.
-Þið skulið ekki ríða á Sjafnaflatirnar. Þar hefur löngum óhreint
verið, segir gamla konan með áherzlu.
Halla skilur ekki alveg.
-Gísli sagði í gærkvöldi, segir Halla hikandi, -að einhver leiðinlegur
karl búi á þessum Sjafnaflötum.
-Já. Hann býr þar einn, blessaður maðurinn. Sjafni var mannýgur boli,
skal ég segja þér, telpa mín. Hann var sæfður þarna á Flötunum fyrir löngu
löngu síðan. Síðan hefur þar löngum óhreint verið.
-Hvernig óhreint?
-Draugagangur, telpa mín.
Gugga lýkur við að koma fléttunum fyrir, grípur í prjónana, rær í gráðið og
starir út í loftið: -Sjafni, hét hann bolinn sem sæfður var þar forðum og
skilinn eftir á blóðvelli án þess að þeir hlutuðu sundur krofið,
mannaskammirnar, huðh. Því gekk hann aftur.
Hann gerir mörgum manninum skráveifu. Og húðlaus er hann. Húðlaus gengur
hann aftur, því húðina hirtu þeir, huðh, en gerðu aldrei meira en flá hann.
Hann er ógurlegur ásýndum bolinn sá.
Halla fer framúr og dregur töskuna sína undan rúminu. Hún brosir með sjálfri
sér að sögu um afturgenginn bola.
Efst í töskunni liggur burstinn hennar.
-Huldukonan skilar alltaf öllu aftur sem hún fær lánað, segir Gugga með
stökustu ró. -Huldukonan hefur fengið hárburstann þinn lánað, heillin. Hún
skilar alltaf aftur.


-Góðan dag. Halla kemur niður í eldhús þar sem Valgerður stellar við
matseldina og kökubakstur.
-Góðan dag, vinan. Hvernig svafstu nú?
-Ágætlega, svarar Halla. -Eru strákarnir vaknaðir?
-Ég held nú það, svarar Valgerður. -Farnir í fjósið fyrir stundu.
-Á ég að fara út í fjós og hjálpa þeim?, spyr Halla.
-Fáðu þér bara eitthvað í svanginn. Þeir verða áreiðanlega bráðum
búnir. Svo geturðu smurt nesti handa ykkur.
Valgerður nær í þrjár tómar og þvegnar tómatsósuflöskur: -Láttu mjólk á
flöskur handa ykkur, og svo setjum við flöskurnar í ullarháleist eins og í
gamla daga.
Halla hellir mjólk á flöskurnar, og eftir stundar þögn segir hún: -Er, eh,
er eitthvað sem heitir Sjafnaflatir þarna uppfrá?
Valgerður svarar snöggt: -Þið farið nú ekkert að þvælast þangað framúr.
Ykkur nægir að fara upp í Hvanngil og getið leikið ykkur þar.

Gutti kemur inn með lítinn mjólkurbrúsa og hlammar honum á borðið.
-Eruð þið búnir í fjósinu, Gutti minn?, spyr Valgerður. Þá skulið þið
bara fara að sækja hestana. Geir setur út beljurnar.

Þegar loksins er búið að ná klárunum og koma þeim heim á hlað, leggja
krakkarnir á. Gísli setur hnakktöskuna með nestinu á hnakkinn sinn.
-Enga glannareið hjá Skessugljúfrum, segir Valgerður. -Þið munið mig um
það, Gísli. Bara fetið.
-Eins og englar, svarar hann.
Þau ríða úr hlaði öll þrjú.

Þau ríða hægt hjá Gljúfrunum, enda ekki annað hægt, því mjótt einstigi
liggur á gljúfurbrúninni.
Halla starir hugfangin niður í gljúfrin, en strákarnir horfa til kinda.
Þeir sjá að Golsa hans Jónka litla á Fjalli er tvílembd í ár.
-Eru þetta Skessugljúfrin?, spyr Halla. -Og hvar er svo skessan sjálf?
-Skessa?, segir Gísli með fyrirlitningu. -Það heyrist eitthvert
rohohohohoho í ánni einhvers starar þarna niðri. menn héldu að þetta væri
skessa að hlæja. Þegar kindur fóru sér að voða í gljúfrunum héldu menn að
skessan stæli þeim.
Gísli þuldi þennan fróðleik áhugalaust, bara af skyldurækni gagnvart
gestinum. -Gugga segir þér eflaust sögur um þetta allt saman. Það er annars
ekkert að sjá þarna. Einhver dimmur hellisskúti.
-Pabbi fór þarna niður einu sinni að sækja rollu í sjálfsheldu, segir
Gutti ákafur. -Hann sagði að skessan hefði bara hlegið að sér.

Þau spretta úr spori yfir grösuga bala. Þau hafa allan daginn fyrir sér.
Sólin skín, svalur vorvindur leikur í faxi hesta og hári barna.

Hvanngil er þröngt gil sem lækur rennur eftir. Þau fara af baki og spretta
af við gilmunnann. Lækurinn fyllir útí gilbotninn.
-Hestarnir bíða hér rólegir, meðan við klöngrumst upp gilið, segir
Gísli. Þeir eru vanir að bíða. Þeir grípa niður og brynna sér sjálfir.
Það verður að ganga upp eftir læknum, stikla á steinum upp eftir læknum,
Þröngt gilið er kalt og rakt. Háir þverhníptir klettarnir slúta saman að
ofan, svo að dimmt er í gljúfurbotninum. Steinarnir í læknum og neðsti hluti
klettaveggjanna eru hálir og erfitt að fóta sig. Sólargeislar ná hér aldrei
niður.
Gutti fer á undan, sönglandi að vanda. Þegar hann kemur að opinu hinum megin
á gljúfrinu, þar sem sólarljósið flæðir inn, snarstoppar Gutti litli
skyndilega, og söngurinn líka. Skelfingarsvipur breiðist yfir andlitið á
honum. Hann hleypur til baka: -Ég sá hann, Gísli, Ég sá hann!!
-Hann hvern, asninn þinn?
-Bola, Gísli. Sjafna.
Gísli hlær: -Trúirðu bolasögum, bjáninn þinn?
Halla fer að opinu á gilinu og gægist út. Henni krossbregður, nærri stirðnar
upp af hræðslu: Loðin mórauð ófreskja mjakast eftir gilbrúninni hinum
megin. Og það svona um hábjartan sumardaginn!
Gísli kippir í hana. Henni skrikar fótur og hún stígur beint í lækinn.
-Felið ykkur, segir hann snöggt. -Látið hann ekki sjá ykkur. Hann er
vís með að reka okkur burt. Þetta er karlinn með mórauða rollu sem hann ber
á herðunum. Hann er nautsterkur og kolvitlaus, karlinn.
Höllu og Gutta léttir þegar skýring kemur á þessu mórauða loðna skrímsli sem
leit út eins og ómennsk óvættur.
-Svo Sjafni boli sjálfur lítur þá svona út, segir Halla og brosir.
-Nú. Er Gugga gamla búin að hræða þig á bolasögum líka. Annars heitir
hann Hrafngrímur, bolinn sem þú sást.
-Hrafngrímur á Sjafnaflötum, segir Halla. -En skemmtilegt.
-Ég sé nú ekkert skemmtilegt við það, hnussar í Gísla.
Gísli gægist út: -Farinn, sem betur fer. Það er varla hægt að smala hér
fyrir karlinum á haustin.
-Býr hann hér einn?
-Einsetukarl og forn í skapi.

Halla sezt á stein og fer úr vota sokknum. Það er gott að komast út í
sólskinið aftur, -- og í þetta fallega gil. Hér merla sólargeislar á
læknum, áður en hann rennur inn í myrkt gilið.
-Lækurinn er volgur! Ég fer í fótabað.
-Já, það eru hverir uppi í fjalli sem renna útí hann.
-Huld og Húm. Halla horfir upp í klettana. -Gugga segir að
huldukonurnar heiti Huld og Húm.
-Hún verður búin að fylla þig af draugasögum, hreytir Gísli út úr sér.
Gutti syngur hástöfum.
-Gutti, góði hættu að framleiða þessi óhljóð, segir Gísli ólundarlega.
-Gutti, steinarnir eru farnir að taka fyrir eyrun, bætir Halla við
hlæjandi. -Komdu við skulum fá okkur af nestinu. Kleinurnar allar komnar í
klessu. Jæja. sparar okkur að tyggja.

Eftir nestisátið príla þau upp gilið hinum megin og gægjast yfir á
Sjafnaflatir. Hrossastóð Hrafngríms er á beit á Flötunum.
-Á hann alla þessa hesta?, spyr Halla undrandi. -Heilt hrossastóð!
-Stóðið bara gengur þarna, svarar Gísli. -Ég veit ekki hvort nokkuð er
tamið af þessu. Pabbi segir að hann ætti að selja eitthvað af þessu og
borga heldur skuldirnar sínar.
-Eigum við að skoða tóugrenið í Skollaurð, segir Gutti.
-Er tófa í því?, spyr Halla spennt.
-Stundum kemur í það tóa.
Þau finna hreiður með eggjum.
-Sú væri nú víst búin að éta þetta ef hún væri í Urðinni. (Gísli reynir
alltaf að tala mannalega.)
-Ég hef heyrt að tófa veið aldrei nálægt sínu eigin greni, svarar Halla.
-Og trúirðu því?
-Hvers vegna ekki? Hún er snjöll.
-Já, hún er bölvaður refur, svarar Gísli.
Þau rölta upp í Skollaurð. Grenið er aðeins mjó skora milli tveggja stórra
steina. Gísli hefur áhuga á að vita hvort nokkur tóa sé í því núna. Svo
virðist ekki vera. Enginn verksummerki hennar að sjá.
-Mér þykir vænt um tófuna, segir Halla.
-Vænt um tóu!!? Jæjah! Gísli Jónsson á Hörgshóli hefur aldrei heyrt
annað eins bull.

Valgerður er fegin er hún sér þau út um eldhússgluggann þeysandi í hlaðið á
heimfúsum hestum rétt fyrir mjaltir. Hestarnir sveittir og börnin kát.
Geir vinnumaður er búinn að sækja kýrnar og er að koma þeim á básana. Gísli
segir krökkunum að koma svo beint í fjósið, þegar þau séu búin að sleppa
klárunum.

Halla er þægilega þreytt eftir þennan skemmtilega sunnudag. -Æ, hvað það
væri gott að komast í bað, hugsar hún. Valgerður hafði sagt henni að hegða
sér alveg eins og hún væri heima hjá sér.
Halla hefur tekið eftir baðkeri niðri í kjallara í þessu gamla íbúðarhúsi,
og tekur með sér handklæðið sitt. Baðherbergið er við hliðina á
þvottahúsinu, en baðkerið er upptekið: Í því eru tveir stórir mjólkurbrúsar
og rennur á þá kalt vatn.
Í þvottahúsinu sjálfu er annað baðker. Það er hálffullt af vatni og í því
eru fiskaseiði, falleg kviðpokaseiði, sem sleppa á í vatnið hjá bænum í
sumar.
Í þvottahúsinu er að vísu sturta, en allar snúrur eru fullar af nýþvegnum
þvotti.
Halla vætir handklæðishornið undir vaskkrananum og þvær framanúr sér. Það er
bara ágætis tilbreyting að komast ekki í bað.

Þegar Halla er komin í háttinn uppi í Gugguherberginu, sér hún fyrir sér
Skessugljúfrin, klettana í Hvanngilinu, huldukonurnar Huld og Húm í kletti
sínum, tófu á steini, Hrafngrím á Sjafnaflötum með mórauða kind á herðunum
-- Sjafni boli afturgenginn -- hrossastóðið...
Gugga háttar sig og signir sig: -Guð komi til með mér og varðveiti mig frá
öllu illu til lífs og sálar þessa nótt og alla tíma í Jesú nafni, amen.
_ III _

_Tóuveiðar_

Venjulega er gengið inn kjallarmegin í Hörgshóli, og vosklæði, svo sem
vaðstígvél, úlpur og regnflíkur, auk fjósagallans, höfð þar.
Þarna hefur verið settur upp vaskur, en gallinn við hann er sá, að í hvert
skipti sem skrúfað er frá krananum, drýpur vatn á gólfið. Gamalt vaskafat
er undir lekanum, og Guttormur litli hefur það verk að tæma það svona annað
slagið. Þetta þykir honum ekki skemmtilegt verk, því það er ekkert grín að
lyfta fullu vaskafati án þess að sullist úr því.
-Er þetta ekki þitt verk, Putti litli?, spyr Geir og bendir á hálffullt
vaskafatið.
Gutti er alltaf ógurlega móðgaður þegar Geir kallar hann Putta. En Geir er
kátur strákur. Hann er bara að gera grín til að lífga uppá tilveruna.
Þegar Geir er farinn upp segir Halla: -Er ekki til einhver slanga, Gutti,
sem við getum fest fyrir lekann, -- látið vatnið svo leka upp í vaskinn?
Gutti finnur einhvers staðar slöngu. Lengi eru þau að baxa við að festa
hana með heftiplástri, -- hér um bil heilli heftiplástursrúllu, fyrir
lekann. Svo leiða þau slönguna upp með veggnum og yfir vaskinn uppi við
loft.
Það hlakkar í þeim, því þegar hækka tekur í slöngunni fer að drjúpa ofan á
þann sem skrúfar frá.
-Bara að það verði ekki pabbi þinn, segir Halla áhyggjufull.
-Það verður Geiri, segir Gutti. Pabbi þvær sér oftast uppi.

Uppi í eldhúsi er verið að drekka eftrimiðdagskaffið.
Allir undarlega þögulir.
-Það verður að gera eitthvað í málinu, segir Jón húsbóndi loks. -Önnur
ærin þín er orðin lamblaus, Guttormur minn, heldur hann áfram.
-Ha?!!, nærri því æpir Gutti, og skelfingarsvipur breiðist yfir
andlitið. -Hvað kom fyrir lambið mitt?
-Það hafa fundist bitin lömb hér framfrá. Ætli tóuóhræsið sé ekki komið
í Skollaurðina og hafi étið það. Ærin þín er hölt, líklega særð á
afturfæti.
Gutti er sárreiður og kemur ekki upp orði fyrir gremju.
Það er ekki nema eðlilegt að hann hati tóuna. Hann hefur aldrei heyrt talað
nema illa um tóur og auk þess verður hann fyrir beinu fjárhagslegu tjóni af
hennar völdum.
-Ætlarðu ekki frameftir að reyna að skjóta hana, pabbi?, spyr Gísli.
-Jú ætli ég reyni það nú ekki. Annars gæti hún verið búin að koma upp
yrðlingunum og búin að yfirgefa grenið. Það er nú erfitt að ná hlaupadýrum.
-Eh, -- pabbi --, segir Gísli. -Get ég komið með?
-Nei, ætli það, góði minn. Við þurfum að fara í kvöld, verðum að
minnsta kosti í nótt og kannski einnig næstu nótt; sofum í bílnum. Þú þarft
að vera heima að mjólka, vinur minn.
Geir vinnumaður situr beint á móti Höllu og Gísla við borðið: -Þú ert of
lítill, karlinn, segir hann stríðnislega. -Þú nærð varla upp ennþá til að
kyssa konuefnið bless!
Halla og Gísli forðast að líta hvort á annað.
Það er að vísu satt að Gísli er töluvert lægri en Halla, en þar fyrir utan
verður maður alltaf spældur þegar verið er að stríða manni með stelpum.
Gísli er líka í sérlega vondu skapi: Verið að fara á tóu og hann skilinn
eftir heima við að mjólka þessar árans beljur.
-Reyndu að láta tosast úr þér, kallinn, heldur Geir áfram. -Það er svo
leiðinlegt að ná ekki upp til að kyssa hana þegar þú ferð á tóu.
-Þið verðið að vera dugleg að hjálpast að í fjósinu, krakkar, segir Jón
húsbóndi, -því Geir fer með mér frameftir í kvöld.

Það liggur illa á bræðrunum á Hörgshóli þetta kvöld. Gísli skoðar blað, en
er þungur á brún og þögull. Gutti berst við grátinn, svo reiður er hann.
-Svona, Guttormur minn, segir Valgerður. -Það þýðir ekki að halda áfram
að ergja sig yfir einu lambi, góði minn. Það eina sem hægt er að gera er að
skjóta refinn, svo hann leggist ekki á fleira fé. Svona, drífðu þig nú bara
í rúmið, karl minn. Ég vek þig svo í fyrramálið til þess að þið verðið búin
að moka fjósið nógu snemma.
Guttormur á Hörgshóli fer í rúmið, ógurlega fýldur. Halla sest hjá honum:
-Þú ætlaðir nú að borða lambið sjálfur, Gutti, var það ekki? Tófan varð bara
á undan þér.
-Ég ætlaði ekkert að éta það sjálfur. Það átti að stækka í sumar.
-Svo ætlaðirðu að láta slátrarann skjóta það og einhvern steikja það í
ofni og smjatta á því.
Nú verður örlítil þögn.
-Tófan þarf að gefa yrðlingunum sínum bita í svanginn rétt eins og þú
færð að borða hjá mömmu þinni, heldur Halla áfram.
-Hún þurfti ekkert að taka lambið mitt, hreytir Gutti út úr sér. -Hún
er vond.
-Þá erum við líka vond þegar við borðum kjöt og fisk. Og finnst þér
ekki gott að fá rjúpur á jólunum?
-Nauj. Mér finnst þær vondar, segir Gutti úrillur.
-En hugsaðu þér, Gutti, segir Halla, -að búa uppi á fjöllum eins og
refirnir. Eitthvað verða þeir að borða greyin. Það er enginn sem hjálpar
þeim. Þeir verða að bjarga sér sjálfir. Aldrei þarft þú að veiða þér í
matinn, aldrei sveltur þú á veturna eins og þeir, þegar frost er og snjórinn
hylur allt.
Auðvitað reynir tófan að koma upp litlu yrðlingunum sínum, litlu börnunum
sínum, og þá þarf hún að ná í fugl eða lamb til að geta gefið þeim í
svanginn. Þú ættir að vita hve kátir yrðlingarnir eru heima í greninu sínu
þegar þeir eru litlir, leika sér áhyggjulaust, þurfa ekkert fyrir lífinu að
hafa. Svo einn daginn, þegar þeir bíða eftir matnum sínum koma menn með
byssur og reyna að deyða mömmu þeirra og pabba. Þeir ná í þurran mosa,
kveikja í honum og troða honum inn í grenið til yrðinganna. Smátt og smátt
fyllist grenið af reykjarsvælu. Yrðlingarnir ná varla andanum. Þeir brölta
um til að reyna að ná í loft til að anda að sér. Eina ráðið er að komast út.
Mennirnir ná þeim og rota þá, alla -- nema einn. Þeir taka þennan yrðling,
Gutti, og til þess að fá hann til að gráta og skrækja og kalla í mömmu sína
sem hefur falið sig þegar hún fann lyktina af mönnunum, meiða þeir
yrðlinginn viljandi, þar til hann grætur hástöfum og kallar á mömmu sína.
Móðirin heyrir neyðarópin í litla barninu sínu, en þorir ekki nærri til að
hjálpa því.
Mennirnir setja yrðlinginn í kassabúr. Þar grætur hann, einn, af hungri,
hræðslu og kulda langt fram á nótt.
Karlarnir fela sig á bak við grjóthól, í þeirri átt þar sem vindur stendur
ekki af þeim.
Tófan hefur heyrt í unganum sínum allan tímann.
Þegar kyrrt er orðið um nóttina, ekkert heyrist nema skerandi gráturinn í
litla saklausa dýrinu, læðist hún ofur varlega nær kassabúrinu. Hún finnur
ekki lyktina af mönnunum, því þeir liggja í leyni þar sem vindur stendur
ekki af þeim.
Þegar hún, á þessari björtu fögru vornótt, reynir að frelsa ungann sinn, sem
henni þykir svo undur vænt um, sem hafði sogið spenana hennar, þá tekur
annar karlinn upp byssuna og hleypir af. Yrðlingurinn heyrir angistar- og
sársaukavein hennar og finnur lykt af blóði.
Mennirnir koma og rota hann banahöggi með steini eða byssuskefti.
Og þetta gerum við til þess að geta sjálf étið lömbin, nefnilega.
Annars hefur tófan jafn mikinn rétt til að lifa hér og við. Kannski var hún
á Íslandi á undan mönnum.
Gísli hefur látið blaðið síga ögn, en lætur ekki á því bera að hann hafi
verið að hlusta á þessa aðkomustelpu, sem ekki hefur neitt vit á búskap.
Hann felur sit snöggt aftur bak við blaðið, áður en Halla lítur upp. Gutti
er í ærinni klípu. Hann hefur aldrei hugsað málið frá þessari hlið, og er
enn sárgramur vegna lambsmissisins. Pabbi hans segir líka alltaf að það
verði að drepa tóuna ef hún kemur í Skollaurðina. Og mamma hans segir það
líka.
Halla heldur árfam: -Svo fær refurinn heldur ekki að vera í friði á
veturna. Í gamla daga settu menn kjöt með glerbrotum í upp á fjöll.
Glorsoltin dýrin fundu þarna mat. Glerbrotin fóru í magann á þeim og dýrin
drógust upp með ógurlegum kvölum. Nú æða menn á vélsleðum upp um öll fjöll
og elta mögur og hungruð dýrin og skjóta þau hvar sem þau sjást.
Gutti læzt bara vera að sofna og segir ekki orð.
-Farið ekki seint í háttinn, krakkar, mínir, segir Valgerður sem kemur
inn í þessu.
Gísli þykist vera orðinn of stór til að láta reka sig í rúmið, en Halla
býður góða nótt og fer upp í herbergi til Guggu.

Að kvöldi næsta dags koma þreyttar og þvældar refaskyttur akandi á jeppanum
í hlað á Hörgshóli. Gutti Sprettur á fætur og hendist út: -Náðirðu tóu,
pabbi?
-Nei. Það var ekki kvikindi neins staðar nærri Urðinni.
Gutti hjálpar pabba sínum og Geir að bera dótið inn úr bílnum. Mest langar
hann til að halda á rifflinum og haglaranum, en hann veit að pabbi hans
leyfir aldrei neinum að snerta skotvopnin.
Gísli segir með nokkrum ánægjusvip (sem hann ræður ekki við), þegar þeir
koma inn í kjallarann: -Svo þetta var bara fýluferð, ha?
Geir, syfjaður, vansvefta, og þvældur eftir misheppnaða veiðiferð, þvær sér
um hendurnar og andlitið í kjallaranum.
Allt í einu fer að drjúpa úr slöngunni sem Gutti og Halla settu á
kranalekann -- og það drýpur ofaná kollinn á Geir.
Gutti og Halla vita ekki hvort þau eigi að þora að hlæja -- eða bara
stinga af sem fyrst. Geir lítur upp og setur upp reiðilegan svip: -Heyrið
mig nú! Búið að útbúa sjálfvirkt steypibað á þessum bæ, ha? Og hvað kostar
að fá afnot af þægindunum? Kostar það smáhasar, kannski....?
Hann gerir sig líklegan til að ná í krakkana með rennblautum höndunum, svo
þau stökkva skríkjandi upp í eldhús.
-Krakkabjánarnir, hnussar í Geir, sem hann þurrkar sér um hárið.

Síminn hringir: löng-stutt-löng (það er ekki kominn sjálfvirkur sími á
Hörgshól; hver bær á sveitalínunni hefur sína sérstöku hringingu.
Löng-stutt-löng er á Hörgshóli)
-Hva, þetta er hingað, segir Valgerður og svarar í símann: -Já, komdu
blessaður .. Jú, það hefur verið lagzt á fé hjá okkur ... við höfum orðið
vör við bitið fé líka... Já, Jón og þeir lágu einmitt við Skollaurðina í
nótt er leið, en þar var ekki dýr að finna.... Jæja ... nú.... er það?
Skaut hann þá bara á færi? Hve marga? ...... Ja, það munar ekki um það.
Hann Hrafngrímur á Sjafnaflötum lætur sig ekki muna um það, sá góði
maður,..... Það er altjent gott að vera laus við þennan ófögnuð....

Halla er sárreið og vonsvikin á svipinn er hún heyrir Valgerði segja þetta í
símann. Höllu finnst eiginlega þessi ógurlegi Hrafngrímur á Sjafnaflötum
vera meira í ætt við refinn, þar sem hann býr einn uppi hjá fjöllunum.
Allir sitja þögulir í eldhúsinu þar til Valgerður er loksins búin í símanum.
Hún fór að tala um heima og geima áður en símtalinu lauk.
-Þetta var hann Sigurður á Fjalli. Þetta reyndust vera flökkuhundar,
fimm saman, sem enginn kannaðist við, sem lagzt hafa á fé. Þeir voru eflaust
langt að komnir og hefur sést til þeirra á flakki um sveitirnar.
Hann Hafngrímur karlinn á Sjafnaflötum skaut þá alla á færi, alla fimm. --
Sá þá vera að eltast við féð og sótti laufann.
Hún Guðrún á Fjalli ætlar að skreppa suður til dóttur sinnar....(Eitthvað
fleira var að frétta, sem Halla hefur ekki áhuga á.)

Halla hugsar um Hrafngrím, mikilúðlegan og skapstyggan. Hann hlýtur að vera
ógurlegur ásýndum þegar hann snarast út með byssuna.
Hvernig skyldi bærinn hans á Sjafnaflötum líta út? En það má víst enginn
koma þangað. Það var eitthvað svo heillandi fagurt þarna uppfrá, inni milli
fjallanna, þar sem enginn vegur liggur, engir fá að koma nema fuglinn
fljúgandi.
-Jæja, stynur Geir. -Best að leggja sig eftir allt volkið.
-Eftir fýluferðina, meinarðu, segir Gísli.

 


_ IV __

_Hey_

Túnið á Hörgshóli er orðið vel sprottið og þurrkurinn sem beðið hefur verið
eftir virðist vera að koma. Það er alltaf gaman þegar farið er að heyja.
Jón húsbóndi ekur hring eftir hring með sláttuvélina aftan í dráttarvélinni
og alltaf stækkar slægjan. Gísli hamast með litlu dráttarvélina og
heyþyrluna við að snúa elsta flekknum, því það hey á að reyna að hirða, ef
hann skyldu nú ekki hanga þurr.
Enginn liggur á liði sínu þegar þurrkurinn kemur, enda sér hver heilvita
maður að nóg hey er forsenda þess að skepnurnar fái nóga gjöf á veturna. Og
á skepnunum lifa bændur jú.
Þess vegna er ekkert spurt um hvað klukkan sé, né hvort menn séu orðnir
þreyttir, svo sjálfsagt er að gera það sem gera þarf þegar brakandi þerrir
er.
Gugga gamla er komin út á teig með hrífuna sína og lætur Höllu og Gutta
hjálpa sér. Gugga virðist ekki alveg vera í takt við þennan nýtísku
vélabúskap: -Hana, hróin mín, segir hún við krakkana, -berið nú þetta af
ljánum úr skvompunni upp á rindann, þar sem sneggra er og blæs betur í það.
Það er alltaf loðnara í skvompunni en þornar illa þar.
-Við snúum þessu bara með vélinni, reynir Gutti að malda í móinn, því
hann nennir varla að bambra blautri nýsleginni töðunni í fanginu upp á
rindann.
-Svona, góurinn, segir Gugga og snýr ekki aftur með sitt. -Dreifðu þessu
vel uppi á rindanum þar sem betur blæs í það.
Sjálf saxar hún í föng niðri í kvosinni og er alveg furðulegt hve mikið hún
getur borið með hrífunni í einu fangi, án þess að slæða niður einu einasta
strái.
Gugga sönglar eða tautar eitthvað fyrir munni sé.
Stór fallegur hrafn svífur hátt í lofti yfir túninu á Hörgshóli og krunkar.
-Það er í honum þerrihljóðið honum krumma, segir Gugga gamla. -Hann
lygnir í lofti og bomsar í honum. Það veit á þerri. Hann kom til að segja
okkur að þerririnn haldist á morgun.
-Kallaðu í karlmennina í kaffi, Gutti minn, kallar Valgerður út um
eldshússgluggann.
Gutti er ekki seinn að hætta þessum heyburði fyrir gömlu konuna.
-Gugga, Valgerður var að kalla í kaffið, segir Halla.
Gutti hleypur niður á tún til pabba síns: -K a f f i !!!!
Gugga kemur ekki inn í kaffi með hinum. Hún var ekki vanin á að láta mat
ganga fyrir vinnu þegar hún var að alast upp. Hummandi röltir hún upp á
hólinn, aftur og aftur, með fangið fullt af blautu heyi og dreifir
samviskusamlega úr því þar. Hún er vön að rifja það þar.
-Hún ofreynir sig á þessu, blessuð gamla kona, segir Valgerður er hún
horfir út um gluggann. -Getið þið ekki sagt henni, Jón minn, að þetta mun
engu; að við snúum þessu með vélinni?
Geir segir kíminn: -Hún heyrir fornöldinni til, blessað hróið. Annars er
ég viss um að hún er að galdra með þessu.
Augun í Gutta verða galopin: -Galdra?
-Já. Galdra. Seiða. Særa. Heyrirðu ekki að hún hefur alltaf yfir
einhverja galdraþulu sem hún romsar upp úr sér í hálfum hljóðum á leiðinni
upp hólinn, gegnum másið og pústrana, og svo aðra þegar hún rambar ofan
hólinn? Ég skal segja þér, Gutti, heldur Geiri áfram, -að heljarstór karl
var heygður þarna í hólnum í fornöld. Gugga er að ná sambandi við hann, --
særa hann út úr haugnum sínum.
Gutti starir spenntur á Geira.
-Það væri ekki ónýtt að fá hann í heyskapinn, maður! Hann er með gamalt
ryðgað sverð og svo á hann fulla kistu af silfurpeningum, drengur, þarna í
hólnum. hann hét Úlfur hinn grimmi, þegar hann var lifandi. Nú er hann bara
draugur. Heldurðu að að verði ónýtt að fá hann í að hirða með okkur í
kvöld? Hann er svo sterkur, skal ég segja þér, að, -- þegar Gugga er búin
að magna hann upp,.....
-Æ, hættu nú þessu bulli, góði minn, segir Valgerður, en getur ekki
annað en brosað að þvælunni úr Geira. -Við skulum frekar koma okkur út að
vinna. Hún Gugga blessunin hefur víst séð tímana tvenna. Það var nú ekki
verið að slæpast í gamla daga. Þá var nú að duga eða drepast. -- Þið
vaskið svo upp krakkar mínir, eftir kaffið.
(Gutti er semsagt settur í uppvaskið en Gísli á vélarnar, og það finnst
Gutta ekki nógu gott.)
Valgerður setur á sig vinnuvettlinga og sest uppá gömlu dráttarvélina. Hún
ætlar snúa elsta heyinu einu sinni enn áður en farið er að hirða.
Þegar Geir fer út kallar hann til Guggu: -Veistu, Gugga, að þessi hóll er
talinn vera dys Úlfs grimma? Menn hafa oft séð hann hér á hólnum um nætur
að sveifla sverði sínu og telja silfur sitt. Heldurðu ekki að hann gangi
aftur -- öskureiður -- ef þú haugar öllu þessu blauta heyi ofna á hauginn
hans?
Geir gengur hálfpartinn aftur á bak, horfir hlæjandi til Guggu, sem þykist
ekki heyra glósurnar frá stráknum og lítur ekki upp. Geir horfir ekki fram
fyrir fæturna á sér og dettur í þessu um stein -- beint í bæjarlækinn!
Rennblautur bröltir hann á fætur og tautar: -Sagði ég ekki að hún væri
göldrótt, kerlingin? Sendir mér bara sendingu.
-Elsku Geir minn, segir Valgerður, er hún kemur auga á hann svona
rennandi blautan. -Hvað kom eiginlega fyrir? Meiddirðu þig?
-Hún sendi bara Úlf grimma á mig, sú gamla, svarar hann.
-Hvað ertu að bulla drengur?
-Ja, það er ekki gaman að þessu, Valgerður. Verða bara fyrir gjörningum
og uppvakningum svona um hábjartan sumardaginn.
Halla og Gutti hafa horft á allt saman út um eldhússgluggann og flissa.
Ekki leiðist þeim við uppþvottinn í þetta sinn.

Halla og Gutti eru eiginlega verkefnalaus í þessum vélabúskap. Þau eigra úr
í hlöðu. Hún er nærri tóm. Róla í löngum löngum böndum hangir niður úr
rjáfri. Það er ofsalega gaman að róla sér í svona langri rólu. Hún fer
langt inn í hlöðu og svo alveg fram að hlöðuopinu þegar hún er komin á ferð.
Mann kitlar í magann. Þau skemmta sér við þetta nokkra stund, en svo fá þau
leið á því og rölta út.
Þau ganga út að kirkju. Gutti stelst til að sýna Höllu inn. Þau horfa á
litlu altarisröfluna með jesúmyndinni og skrautmálaða predikunarstólinn.
Svo er þarna lítið gamalt orgel. Halla styður ofurvarlega á eina nótu, bara
til að heyra svona pínulítið, en það heyrist ekki neitt.
-Það þarf að stíga pedalana, segir Gutti.
-Til hvers?
-Til þess að dæla lofti. Þá heyrist.
Þau líta flóttalega í kringum sig. Þau vita að þau eiga ekki að vera að
þvælast þarna, en það veit áreiðanlega enginn, þótt þau freistist til að
prófa -- svona bara aðeins. Halla stígur á pedalana til skiptis, hratt,
eins og Gutti sýnir henni, og hann ýtir á eina nótu.
-En fallegt, segir Halla. -Kanntu nokkuð að spila?
-Nei, segir Gutti, -bara organleikarinn.
-Hvaða lag varstu að syngja úti í hlöðu áðan, Gutti, þegar við vorum að
róla okkur?
-Ha? Ég? Ég var bara að bulla eitthvað uppúr mér.
-Ég man hvernig það var, segir Halla. -Ég get fundið það út á orgelið
ef þú stígur á pedalana.
Gutti skríður á fjórum fótum undir orgelið og "stígur" með höndunum, meðan
Halla reynir að finna út á orgelinu lagið hans Gutta. Gutti syngur hástöfum
með. Þetta er bara allra besta lag.
En tónleikarnir fá snöggan endi: Allt í einu stendur Jón húsbóndi í
kirkjudyrunum, þungur á brún: -Halla, hvar er Guttormur?
Gutti bröltir undan orgelinu, allskömmustulegur.
-Hvað á þetta að þýða að stinga svona af og týnast? Þú átt nú að vita
það, Guttormur, að heyið þarf að nást inn. Á hverju ætlar þú eiginlega að
fóðra kindurnar þínar í vetur? Ætlarðu bara að syngja fyrir þær þegar þær
eru svangar? Heldurðu að þær fitni af því.
Það er greinilegt að svona listsköpun á ekki samleið með heyskapnum.
Krakkarnir elta Jón húsbónda eins og tveir litlir hvolpar, þar sem hann
stikar út úr kirkjunni: -Við erum að byrja að hirða og þið eigið að vera í
hlöðunni að troða.
Halla og Gutti reyna nú að vera jafndugleg og hinir, og standa sig raunar
vel við að troða. Heyið næst allt inn fyrir miðnætti, en þá er komið áfall,
og yrði að bíða morgunsólarinnar til að halda á með að hirða.

Sjaldan hafði heyskapurinn gengið jafnvel og þetta sumar. Enda allir kátir
þegar búið er að hirða allt. Það er bakaður stafli af pönnukökum þegar allt
hey hefur náðst inn. Töðugjöldin._ V _

_Smalareið_

Það sem krakkarnir í þessari sveit vita skemmtilegast er smalareiðin:
Einu sinni á hverju sumri fara þau öll saman í smalareið og leggja til nesti
í smalabú. Þetta er gamall siður sem enn er haldið í. Í gamla daga riðu
unglingar út á sunnudegi í 15. viku sumars. Þetta voru leifar hátíðahalda á
sumri, um það bil kringum 20. júlí, sem aflögðust undir kristni, þótt kölluð
væru Þorláksmessa á sumri. Á smalareiðardaginn er alltaf safnazt saman á
Hörgshóli. Krakkar koma ríðandi alls staðar að. Halla og Gutti eru búin að
sækja hestana. Í gamla daga var farið í kirkju, en það er á mörkunum að
gamla kirkja rúmi krakkahersinguna, og hestar og krakkar eru einnig
óþolinmóð. Svo nú er það oftast Guðmundur yfirkennari sem rabbar við
krakkana áður en þau leggja í hann. Hann fær sér kaffibolla hjá Valgerði og
kemur svo út á hlað til að vera skemmtilegur:
-Jæja. Þið eruð öll með nesti fyrir smalabúið, er það ekki ?
-Jú. Allir eru með nesti.
-Og hafa ekki allir hest?
-Jú.
-Hestarnir ykkar eru tamdir, er það ekki.
-Jú.
-Er nokkur hér á ótömdum hesti?
-Nei.
-Auðvitað eru þeir misgóðir, mishlýðnir, en allir hafa þeir þurft að
læra að hlýða. Og þeim þykir bara gaman að hlaupa með ykkur á bakinu á sér,
er það ekki? En samt eruð það þið en ekki hestarnir sem ákveðið hvert á að
fara, hve hratt á að fara, og jafnvel á hvaða gangi hestarnir eru.
Hesturinn beygir þegar þið viljið, stöðvast þegar þið viljið. Hesturinn
finnur meira að segja öryggi í því að hlýða. En hvað gerist nú ef tveir fara
að stjórna sama hestinum: annar togar í tauminn, hinn hinn slær í, annar
vill beygja til vinstri hinn til hægri? Hvað gerist þá? Ég er viss um að
hesturinn verður ruglaður. Hann veit ekki hverju hann á að hlýða, og verður
óöruggur. En, krakkar, hafið þið nokkurn tíma hugsað út í það, að þetta
getur komið fyrir okkur, að tvö andstæð öfl togast á, tvö andstæð öfl vilja
oft láta okkur hlýða sér?
Við höfum öll þurft að læra að hlýða einhverju, þegar við vorum lítil, er
það ekki? Það má til dæmis ekki smíða diskinn sinn með hnífapörunum sínum,
það má ekki hvolfa úr mjólkurglasinu sínu yfir borðdúkinn -- eins og er nú
gaman að sjá alla spretta upp frá borðinu, það má ekki bíta litlu systur
sína, það má ekki fylla bakaraofninn af dóti og kveikja svo á og baka
dótið.
Við vitum að það borgar sig að gegna öllu þessu. Við hlýðum ekki af því að
við séum hrædd um að vera lamin, við bara vitum að við erum að gera hið
rétta með því að hlýða þessu.
Vitið þið hvað: við finnum öryggi í að vita hvað rétt er að gera og hvað
ekki. Við hlýðum því sem við teljum rétt og réttlátt. Einstaklingar sem
aldrei hafa lært að til er nokkuð sem heitir sjálfsagi lenda oft í vandræðum
í lífinu. Semsagt einfalt og þægilegt að hlýða, ha? En nú vaknar stóra
spurningin: Hverju og hverjum ætlum við að hlýða, krakkar? Við berum
nefnilega sjálf ábyrgð á hverju og hverjum við ætlum að hlýða í lífinu.
Segið mér eitt: Látið þið hvern sem er stjórna ykkur? Gerið þið
dómgreindarlaust allt sem ykkur er sagt, hvað svo sem það kann að vera?
Nú ætla ég að segja ykkur stutta sögu: þetta er saga af honum Mumma litla.
Hann var sonur bóndans á bæ sem ég var á þegar ég var lítill strákur:
Mummi vissi ósköp vel hvað það kostaði að gegna ekki pabba sínum. Mummi var
nefnilega laminn ef hann gegndi ekki. Við erum heppin að eiga ekki
svoleiðis pabba. Við eigum víst öll foreldra sem gott er að hlýða og hægt
að ræða máli við, vona ég. Því þannig á það að vera.
Jæja, hér kemur sagan, en Mummi var eitthvað 11 til 12 ára þegar þetta
gerðist: Einu sinni slapp lítill kálfur út úr fjósinu hjá Mumma. Í kæti
sinni yfir fengnu frelsi, hugði kálfgreyið ekki að sér og stökk í loftköstum
beint út í fjóshauginn! Pabbi hans Mumma varð alveg bálreiður yfir þessu.
Hann öskraði á kálfinn og reyndi að reka hann uppúr haugnum, spriklandi allt
í kringum fjóshauginn. En allt kom fyrir ekki; kálfurinn var sokkinn í með
alla fjóra fæturna og sat gersamlega fastur. Í bræði sinni öskraði karlinn
að Mumma: farðu úr skóm og sokkum, strákur, brettu upp skálmarnar, taktu
þessa spýtu og lemdu kálfskrattann af öllum kröftum þangað til hann fer
uppúr haugnum!! Hann sagði ýmislegt fleira sem ekki er hafandi eftir.
Mummi vissi ofur vel að hann gæti sjálfur fengið að kenna á spýtunni ef hann
gegndi ekki, því hann hafði verið svo óheppinn að missa kálfinn út.
Mummi fór úr og tók við spýtunni. Hann gekk -- ja frekar óð -- út í
forina, lengra og lengra, að skjálfandi skepnunni. Stingandi augnaráð föður
hans fylgdi honum eftir. Mummi lagði spýtuna frá sér, lagði höndina á
herðakamb kálfsa, talaði róandi til hans og reyndi að losa upp einn og einn
fót og fá hann til að mjakast aftur á bak.
Pabbi hans Mumma öskraði: Þetta þýðir ekkert, strákur! Komdu honum upp úr
strax, segi ég!
Hann sagði ofurrólega: Ætli þetta gangi ekki bara svona, pabbi. Hann er að
losna.
Málið var nú að vísu dálítið snúið, því það er ekkert auðvelt að fá hræddan
kálf til að bakka út úr fjóshaug.
Klukkustundu síðar var kálfgreyið komið á básinn sinn inni í fjósi, pabbanum
runnin reiðin, og Mummi í fótabaði í bæjarlæknum.
Ég hef alla tíð síðan dáðst að þessum strák, sem nú er raunar orðinn
fullorðinn maður. Ég spurði hann seinna að því hvers vegna hann hefði
alltaf verið svona öruggur þegar hann var strákur. Hann svaraði: Hún amma
mín sem ól mig eiginlega upp, sagði alltaf við mig: Gerðu alltaf það sem
samviska þín segir þér að sé rétt. Hlýddu alltaf rödd guðanna, samviskunnar
og réttlætisins í hjarta þínu. Þetta gerði ég alltaf og geri enn.
Aftur og aftur, krakkar, þurfum við að taka ákvarðanir í lífinu. Til að
öðlast öryggi og innri ró, skulum við ávallt gjöra rétt en eigi órétt. Hlýða
ávallt á röddina í hjartanu. Ég treysti ykkur til að gera það.
Jæja. Allir vilja fara að komast af stað. Guttormur á Hörgshóli er búinn
að búa til nýtt lag, sem organistinn ætlar að spila fyrir okkur og kenna
okkur snöggvast. Við heyrum í orgelinu útum opnar dyrnar. Halla litla og
Guttormur ætla að syngja það einu sinni og svo taka allir undir. Og svo
góða ferð.
(Lagið hans Gutta á betur við núna fyrir brottför í smalareiðina en þegar
þau sömdu það í brakandi þerri og heyönnum, -- sem okkur er í fersku minni
-- og fengu aðeins skammir fyrir.)

Þessi glæsilegi tápmikli krakkahópur á í vændum skemmtireið í steikjandi
sólskini og ferskum fjallaþey.

Eftir þriggja tíma reið er komið upp í Fjalladali. Þar spretta smalarnir af
sveittum hestum sem verða fegnir að velta sér, grípa niður og fá sér teyg úr
ferskum fjallalæknum.
Þarna er lagt í smalabú.
Allir taka fram nestið sitt og því er öllu raðað á jörðina. Þarna eru
kleinur, pönnukökur, flatkökur með hangikéti, og fleira og fleira þjóðlegt.
Það er eins og allt verði svo lystugt á ferðalögum, -- jafnvel það sem
hefur farið í klessu í hnakktöskunum. Það er ráðist á krásirnar, og
hundarnir sníkja. Pönnsurnar eru upp urnar á svipstundu. Hundarnir fá vel
úti látna bita af þurru kexi og brauðskorpum.

Eftir átið hefjast skemmtiatriði.
Lágur klettadrangur sem rís þarna upp úr dalverpinu hefur verið valinn sem
einhvers konar leiksvið. Krakkarnir setjast á grasigróinn balann.
Lágvaxinn grávíðir vex á víð og dreif, og blágresisbreiður gera staðinn
undurfagran.

En niðri við lækinn eru tveir strákar, Kári og Siggi. Þeir eiga að flytja
leikþátt, og eru að æfa sig. Siggi er reikull í spori. Hann tekur upp
flösku og sýpur á.
-Þú slagar allt of mikið, maður, segir Kári. -Er ég ekki löggulegur með
þessa húfu? -- og þetta prik? Þetta á að vera kylfa, maður.
-Jú jú, svaka fínt, segir Siggi. -Æfum einu sinni ef enginn sér til
okkar.
Þeir vita ekki að ein stelpan hefur horft á þá. Hún sá Sigga súpa á
flöskunni. Hún bíður ekki boðanna, hleypur til krakkanna og kallar: -Siggi
og Kári eru með brennivín!
Ógurleg reiði grípur um sig meðal krakkanna. Þau bókstaflega æða niður að
læk og taka Sigga, -- sem heldur á hálfri flösku af vatni og á sér einskis
ills von -- og stinga honum í lækinn. Stelpan hellir hátíðlega öllu úr
flöskunni í grasið.
-Hvað gengur að ykkur?, segir Kári, og er ekkert sérlega löggulegur
lengur. -Við vorum bara að æfa leikritið sem við ætlum að sýna. Ég leik
löggu og Siggi fyllikall.
Það gekk illa að finna þurr föt á Sigga greyið. Það er ekki alltaf dans á
rósum að vera leikari. Einhver er með aukapeysu sem Siggi fær lánaða, en
buxurnar urðu bara að þorna á honum.

Þegar allt er komið í ró og spekt aftur setjast krakkarnir og hundarnir á
grasbalann fyrir framan klettinn, en hrossin kroppa róleg í gömlu uppgrónu
réttinni sem heldur þeim.
Pála litla á Bjargi er kynnir. Hún prílar upp á klettinn og það er svolítið
fyndið að sjá hvað hún er feimin: -Fyrsta atriðið er: Týndi lykillinn.
Kári og Siggi leika:
Siggi, búinn að láta aftur vatn á brennivínsflöskuna sína, kemur syngjandi
og slagandi upp á klettinn, sveiflandi flöskunni: -Ha? hikk, segir hann
þvoglumæltur, -er þetta ekki númer 13? Mér sýnist það. Hvar er nú
lykillinn minn?
Hann þykist vera valtur á fótunum, finnur loks lykilinn eftir að hafa
gramsað í vösunum. -Nú? hikk. Það eru bara tvö skráargöt á hurðinni, ha?
Það er nú aldeilis þægilegt. En það er eitthvað vont að hitta á þessi
skráargöt. Æ!! þarna missti ég lykilinn.
Siggi bograr um og leitar að lyklinum sínum. -Verst hvað það er dimmt
hérna. Maður sér sko ekki handa sinna skil, ekki glóru. Það er miklu
bjartara þarna hinum megin. Þar er sko ljósastaur.
Hann rambar yfir á hinn endann á klettinum og fer að leita þar, -- skríðandi
á fjórum fótum. Löggan kemur. (Það er Kári.) Löggan sveiflar kylfunni
sinni. Hann bankar í öxlina á fyllibyttunni: -Heyrðu, góði. týndirðu
einhverju?
-Ég. sko, hikk, týndi lyklinum mínum.
Löggan hjálpar fyllibyttunni að leita og þeir skríða báðir á fjórum fótum og
leita.
-Hér er enginn lykill, segir löggan. -Ertu viss um að þú hafir týnt
honum hérna?
-Ja, hikk, ég týndi honum nú hinum megin, en það er bara miklu bjartara
til að leita hérna.
Óánægjusvipur kemur á lögguna. Löggan finnur strax lykilinn, þar sem
fyllikallinn týndi honum. Hjálpar honum að opna.
-Heyrðu, góði, segir löggan. -Þessi lykill gengur alls ekki að þessu
húsi. Ert þú að reyna að brjótast inn eða hvað?
-Neineineineinei, segir Siggi. -Er þetta ekki Drykkjuboltagata númer
13?
-Neineineineineinei. Þetta er Fótboltagata 13.
Löggan leiðir fulla karlinn burt. -Hikk.

Krakkarnir klappa og leikararnir hneigja sig. Krakkarnir hlæja nú aðallega
að því hve asnalega hallærislegt leikritið var, en Kári og Siggi höfðu nú
soðið þetta uppúr gömlum brandara.

-Næsta leikrit heitir: Tvöföld uppskrift. (Pála litla er enn
jafnfeimnisleg og talar allt of hratt.) -Jónki á Fjalli leikur leikrit
eftir sjálfan sig.
Jónki leikur bakara. Bakaraofninn er pappakassi. Gunni, bróðir hans Jónka,
er falinn á bak við klettinn, tilbúinn með rautt reykblys, sem hann á að
kveikja á þegar þykjustukakan fer að brenna við.
-Já, látum okkur nú sjá, segir bakarinn. -Ég ætla að baka stóra köku,
tvöfalda uppskrift. Hér stendur:
1 egg, -- það gerir tvö egg. (Hann þykist taka egg og brjóta í skál)
100 grömm sykur. -- Ég tek 200.
1 dl mjólk, -- verða tveir desílítrar mjólk.
250 g hveiti, -- gerir 500 grömm hveiti, svona já.
1 tesk lyftiduft, -- þá tek ég tvær teskeiðar lyftiduft.
(Jónki þykist hræra deig í skál.) -- Já.
Bakist í hálftíma. -- Þá baka ég í klukkutíma. Þetta er jú tvöföld
uppskrift, ekki satt? Hálftími sinnum tveir gerir einn klukkutíma. Láta
deigið í form, já, svona já.
Bakist við 200° -- þá baka ég við 400 gráður. Þetta er jú tvöföld
uppskrift.
Láta kökuna í ofninn, svona já. (Hann stingur þykjustukökunni inn í
pappakassann og þurrkar sér um hendurnar á maganum á sér); stilla á 400°.
Þá er að bíða eftir að kakan bakist.
Gunni kveikir nú á blysinu fyrir aftan pappakassann og rauður reykur stígur
upp. Jónki þykist vera allur í pati, blæs á ofninn og baðar frá sér með
höndunum: -Kakan mín!! Kakan mín!! Reykurinn verður meiri og meiri, og svo
kveikir Gunni í pappakassanum.

Krakkarnir hlæja. Þetta leikrit var pínulítið skárra en hitt. Jónki og
Gunni hneigja sig djúpt og fá gott klapp.

Pála er nú kannski pínulítið montin undir niðri yfir að vera kynnir: -Bjössi
á Hóli fer með draugavísur eftir sjálfan sig, bunar hún útúr sér.

Bjössi á Hóli er feitur og kátur strákur, og allsendis ófeiminn, skálmar
fram á brún á klettinum: -Kvæðið heitir: Varnaðarorð til ökumanna á
heiðinni.
Ég var á leiðinni, ég var á heiðinni,
ég var á 100, á Cadilakknum.
Æ, ég gleymdi víst tjakknum.
Jæja, skítt með það.
Ég var á leiðinni, ég var á heiðinni,
ég var á 100
en þá sprakk
-- og ég sem hef ekki tjakk.
Bíllinn hentist útí urð, útí skurð,
og ég dó,
ég dó ---- og þó......
(Bjössi sveipar laki yfir sig, baðar út höndunum og hedur lestri ljóðsins
áfram, draugalegri röddu:)
-Ég er á heiðinni
ég er á leiðinni
ég er á heiðinni
og ég sé bíla
hræði fólk og príla
uppá þak og hlæ: ho ho ho ho ho.
Ég er á heiðinni
alltaf á heiðinni
alltaf á heiðinni, ho ho ho ho ho.

Allir skemmta sér konunglega þótt sprellið sé heldur þunnt, enda eru allir
komnir til að skemmta sér.

Svo fer líka fram íþróttakeppni. Keppt er í hlaupi, hástökki, og tveir sýna
glímu.

Það hrannast upp ský á himninum en enginn veitir því athygli fyrr en
hellidemba gerir alla rennvota. Uppsláttur og fjallaskúrir eru hluti af
góðviðrisdögum í fjallasal. Það verður handagangur í öskjunni við að tína
saman matarílát og peysur sem legið hafa á víð og dreif í góða veðrinu.
Það er engu að síður ánægjulegt að vera á hestbaki þótt maður sé blautur.
Engum verður kalt þegar hratt er riðið. Hestarnir eru heimfúsir. Þreyttir
og glaðir krakkar þeysa yfir grundir á heimleið úr smalareið.


_ VI _

_Halla gengur of langt_

Kirkjan á Hörgshóli er annexía. Séra Guðmundur ætlar að hafa barnamessu
fyrir hádegi, en klukkan tvö verður fullorðinnamessa. Gísli, Gutti, Halla og
Geiri vinnumaður eru búin í fjósinu. Þþað þarf að mjólka þótt sunnudagur sé.
Margir krakkar mæta í barnamessu. Sumir koma ríðandi, sumir á hjóli, sumir
fá bílferð, því fullroðnir eru hvort eð er að mæta til messu. Það er margt
um manninn á Hörgshóli þennan dag.
Kirkjan er nærri full, því hún er svo lítil. Séra Guðmundur segir: -Mikið
eruð þið duglega að vera komin alla þessa leið svona snemma. Ég er með
myndasögu meðferðis sem ég ætla að segja og sýna ykkur þegar við erum búin
að syngja svolítið.
Guttormur á Hörgshóli ætlar að sýna ykkur myndirnar meðan ég segi söguna.
Eftir fyrsta sálminn kemur Gutti upp að grátunum með myndabunka
-Sagan er um ágirndina, krakkar. Á fyrstu mynd eru bræður tveir,
sjáiðið? Þeir segja mömmu sinni að þeir ætli í barnaguðþjónustu, því það er
einmitt sunnudagur. Þeim þykir svo gaman að syngja í kirkjunni.
Næsta mynd er af þeim þar sem þeir sitja á fremsta bekknum og syngja. Ég
held bara að þeir hafi sungið hæst af öllum. Þarna var verið að syngja Ó
faðir gjör mig lítið ljós. Þið kunnið það öll, er það ekki?
Hér sjáiðið svo þegar presturinn er að tala við börnin. Hann segir: Við
eigum ekki að vera eigingjörn, sjálfselsk og nísk, ekki afbrýðisöm né
ágjörn. Við skulum frekar gefa, gleðja aðra, þá líður okkur betur -- og
öllum hinum líka.
Þegar barnaguðsþjónustunni var lokið fóru bræðurnir heim úr kirkjunni.
Þegar heim kom gaf mamma þeirra þeim súkkulaðistykki saman. Þeir áttu að
skipta því á milli sín. Súkkulaði er einmitt það besta sem þeir fá.
Svo settust bræðurnir niður til að skipta með sér súkkulaðinu, en það var
einmitt þá sem nokkuð ógurlegt gerðist: Ágirndin kom í spilið.
(Gutti heldur uppi blaði, svo allir geti séð, -- en það er engin mynd á
blaðinu.)
Svona lítur hún nú út, segir presturinn.
-Gutti, snúðu blaðinu við, segir einhver krakkanna. -Það er engin mynd
þarna.
Gutti snýr blaðinu við, en það er heldur engin mynd þar megin.
-Sjáið þið hana ekki, spyr presturinn.
-Nei, það er engin mynd.
-Einmitt, segir presturinn. Það er svo erfitt að vara sig á henni vegna
þess að hún er ósýnileg. Hún kemur í spilið án þess að nokkur sjái.
Ágirndin læddist að bræðrunum, þar sem þeir sátu og voru að skipta
súkkulaðinu. Það sem ágirndin veit skemmtilegast er að láta fólk rífast um
veraldleg verðmæti. Bræðurnir sáu hana auðvitað ekki. Þeir vildu bara allt
í einu báðir eiga stærri bitann. Mamma strákanna heyrði að þeir voru farnir
að rífast: Haldið þið að ég sé að gefa ykkur súkkulaði til þess að þið
farið að rífast?, spurði hún ofurrólega. Ágirndin var að vona að mamma yrði
öskureið og færi að rífast líka, en mamma lét hana ekki plata sig.

Halla er orðin leið, og læðist út úr kirkjunni. Fleiri og fleiri koma að
Hörgshóli, og eldhúsið er orðið fullt af konum úr sveitinni.
Halla röltir í einhverri rælni upp í Bæjarhálsinn. Hún fer að hugsa um hve
stutt sé þar til skólinn byrjar aftur. Hún tekur upp smástein og leikur sér
að því að henda honum upp og grípa hann aftur og aftur þar til hún missir
hann. Hún finnur snærisspotta og sveiflar honum í hringi. Svo bindur hún
snærið um mittið.
Veðrið er milt. Halla röltir áfram upp hlíðina frá bænum. Henni dettur í
hug að fara að skoða gljúfrin sem Skessuhellir er í. Það heyrist þar
rohohohoho, sagði Gísli henni einu sinni. Gæti ekki verið gaman að klifra
niður í gljúfrin og heyra skessuhláturinn?
Þegar Halla kemur að gljúfrunum finnur hún hvergi stað sem hægt er að komast
niður á. Svo hún gengur bara áfram. Og áfram.
Um síðir kemur Halla að þrönga gilinu, Hvanngilinu, þar sem klettarnir slúta
saman að ofan og volgi lækurinn rennur um í gilbotninum, og fyllir út í
gilbotninn. Það var svo gaman að stikla upp lækinn í dimmu þröngu gilinu,
man hún. Það var einmitt hér sem þau sáu Sjafna bola afturgenginn. (Var það
nokkuð að furða eftir allar bolasögurnar hennar Guggu þótt ímyndunaraflið
hlypi með Gutta í gönur. ) Svo reyndist þetta vera Hrafngrímur á
Sjafnaflötum með mórauða rollu á herðunum.
Halla freistast til að stikla á steinum upp eftir Hvanngilinu. Það er
eflaust allt fullt af gestum á Hörgshóli í allan dag, svo enginn mun taka
eftir að hana vantar í matinn. Halla klifrar varlega upp á klettasnösina við
endann á Hvanngilinu og gægist yfir á Sjafnaflatir. Enginn boli, bara
hrossastóðið á beit. Skyldu þeir vera styggir?
Hægt og hægt læðist Halla nær stóðinu. Einn og einn hestur lítur upp. Halla
lítur flóttalega í kringum sig. Það var búið að banna krökkunum að fara á
Sjafnaflatirnar, en það er svo freistandi að skoða hestana. Enginn sér til
hennar.
Hún fikrar sig nær einum moldóttum gljáandi fögrum fola sem reynist ekki
sérlega styggur ef hægt er farið að honum. Frekar að hann sé forvitinn.
Tortryggnilega teygir hann fram snoppuna og -- þegar hún kemur enn nær --
þefar hann af hendinni hennar. Lengi stendur hún grafkyrr. Skyldi hann vera
taminn?, hugsar hún. Hún man allt í einu eftir snærinu sem hún batt um
mittið. Hægt og rólega kemur hún því upp í folann. Hann japlar á snærinu
þegar búið er að hnýta uppí hann. Líklega er hann þá taminn? Mikið væri
gaman að eiga þennan hest. -- Gaman væri að minnsta kosti að setjast á bak
svona fallegum hesti. Ekki til að ríða neitt á honum heldur bara til að
vita hvort hún kemst á bak. Hún freistast til að stíga uppá þúfu við hlið
folans og renna sér mjúklega á bak. Hún strýkur honum ofurvarlega um
makkann. Það er eins og hann gljái í sólskininu.
Og þá -- það skiptir engum togum -- styggist allt stóðið á Sjafnaflötum.
Sá moldótti tekur viðbragð, hrossin rjúka af stað. Halla rígheldur í faxið
og klemmir saman fæturna að hestinum. Einhvern veginn tekst henni að lafa á
baki. Hún þorir alls ekki að henda sér af baki á þessari ferð. Þetta snæri
sem hún hefur bundið uppí folann gerir auðvitað ekkert gagn. Enda er hann
líklega alls ekki taminn!
Hrossin rjúka í átt að bæ Hrafngríms; Halla er orðin alvarlega hrædd. Hvar
enda þessi ósköp? Hundur Hrafngríms kemur nú geltandi frá bænum. Sá
moldótti hleypur út undan sér og Halla hendist út í móa.

Það næsta sem Halla man er að yfir henni stendur mikilúðlegur skeggjaður
maður. hún lítur upp, sljóum augum, og er illa brugðið.
-Snautaðu héðan burt, hreytir karlinn út úr sér. -Ég vil ekki hafa að
neinn sé að þvælast hér á minni jörð. Burt!, segi ég.
Halla er nokkra stund að átta sig, bröltir svo á fætur, stamandi eitthvert
-alveg óvart..., fyrirgefðu.
Eina svarið er stingandi augnaráð. Hún er alls ekki hrædd, en illúðlegur er
hann.

Það er mjög farið að halla degi þegar -- loksins -- hún kemst alla leið
til baka heim á Hörgshól, uppgefin af þreytu, sársvöng, óhrein, marin, og
skömmustuleg. Hún var að vona að enn væri margt fólk á Hörgshóli, og þar
með allir uppteknir af því, en var svo óheppin að rekast á Geira á hlaðinu.
Hann kom beint í flasið á henni út úr fjósinu:
-Hæ! Var Gilitrutt nokkuð að reyna að fljúga fram af klettum. Hann spyr
stríðnislega eins og venjulega og hann blakar til höndunum eins og vængjum.
-Þú hefðir nú heldur átt að hjálpa okkur í fjósinu.
-Ég var bara uppi í fjalli, svarar Halla fljótmælt, og gleymdi tímanum.
-Valgerður var farin að spyrja eftir þér, kallar hann á eftir henni.
Hún ákveður að láta Valgerði ekki sjá sig fyrr en hún er búin að hafa
fataskipti. Hún skýst upp stigann óséð, og hleypur -- beint í fangið á
prestinum, sem hafði verið að fylgja Guggu upp á loft. Þeim bregður báðum
jafnmikið.
-Elsku barn, segir hann.
-Ó, fyrirgefðu, segir hún vandræðalega.
-Heyrðu vina, hvað er að sjá þig? Hvað kom eiginlega fyrir?
-Ég -- ég datt, svarar hún og reynir að brosa.
-Þú ert náföl, barn. Er þér illt?
-Ja, ég veit ekki. Ég held ég fari bara að hátta. Ég gekk svo langt.
Prestur horfir áhyggjufullur á Höllu. Hún þorir ekki að segja honum neitt.
Hún fer inn í herbergi til Guggu.
-Það mátti mig dauðlega svíkja, tautar Gugga, og það hnussar ögn í gömlu
konunni. -Þú hefur gengið of langt, telpa litla.
Halla ákveður að koma sér bara í bólið sem fyrst. Henni er hálfflökurt, og
óskar þess að hún væri steinsofnuð fyrir löngu.
Gugga tautar áfram: -Það mátti mig dauðlega svíkja. Það hefur löngum
óhreint verið á Sjafnaflötunum. Verst er það á blóðvelli þar sem bolinn var
sæfður forðum. En engum manni gerir Sjafni mein nema einu sinni. Þú varst
heppin að ekki fór verr, Halla litla. Já, blessaður maðurinn hann
Hrafngrímur. Hann hefur víst fengið sinn skerf af mótlætinu. Nú er hann
þarna einn eftir.
Guði sé lof að ekki fór verr, Halla litla.....
_ VII _

_ Ár líða _

Þetta sumar tók enda eins og öll önnur sumur. Pabbi og mamma og Katla litla
komu að sækja Höllu í sveitina áður en skólinn byrjaði á ný.
Katla litla fékk að koma á hestbak á Hörgshóli. Halla teymdi undir henni á
hlaðinu. Henni þótti svo gaman að hún vildi helst ekki fara af baki aftur.

Árin líða.
aldrei gleymir Halla því atviki þegar hún stalst á bak þeim moldótta á
Sjafnaflötum. Hún hefði ekki átt að gera það. Halla gleymir heldur ekki
Hrafngrími, þessum hálfgerða útilegumanni, nærri ómennskum ásýndum, sem vill
vera einn. Hvað meinti Gugga þegar hún sagði: "...en engum manni gerir
Sjafni mein nema einu sinni. Blessaður maðurinn hann Hrafngrímur hefur víst
fengið sinn skerf af mótlætinu. Nú er hann þarna einn eftir"? Hann minnir
Höllu á refinn á fjöllum, refinn sem verður að treysta á sjálfan sig, duga
eða drepast. Versti óvinur hans er maðurinn sem bruggar honum launráð og
vill flæma hann brott úr fjöllunum sem hann býr í. Fjöllunum sem eru hans.


Kvöld eitt eiga pabbi og mamma Höllu von á gestum. Halla er í próflestri.
Æ, maður er ekki sérlega upplagður til að vera pjattaður þegar prófin eru
dag eftir dag. Halla er berfætt í gallabuxum, hefur sett hárið í tagl og
fæturna upp á skrifborð. Hún er að berjast við að lesa. Það er vor í lofti
og erfitt að einbeita sér.
En hún þarf nú víst að fara í einhver betri föt. Katla og hún ætla
nefnilega að hjálpa pabba og mömmu sem eiga von á gestunum þá og þegar.
Einhver gömul skólasystkin pabba ætla að hittast hér heima og fara síðan út
að borða og dansa. Katla er komin í laglegan kjól. Alltaf er hún jafn hress
og kát stelpa, en mestu barnabrekin og óvitaskapurinn eru sem betur fer úr
sögunni.
Dyrabjallan. Fyrstu gestirnir að koma. Katla stekkur til dyra.
Íbúðin verður víst sneisafull af fólki. Hvernig á þessi fjöldi að komast
inn í stofuna? Þau hefðu átt að velja gestgjafa í einbýlishúsi.
Halla lýkur við að greiða sér. Gestunum fjölgar. Kliðurinn verður æ meiri
eftir því sem fleiri bætast við.
Katla heldur á bakka fullum af ostapinnum.
-Mikið ertu nú orðin stór, elskan, segir ein kvennanna við hana.
-Nei, ég er nú ekkert stór, svarar Katla. -Ekki miðað við jafnaldra
mína.
-Þú átt nú eftir að stækka, segir frúin.
-Er ekki gaman í skólanum?, spyr önnur.
-Sumt, en sumt leiðinlegt, svarar Katla.
Frúrnar finna ekki fleira til að spyrja Kötlu um.
Halla kemur og heilsar gestunum. Býður pinnamat á fati.
-Mikið ertu nú orðin stór, segja frúrnar. -Er ekki gaman í skólanum?

Samræðurnar halda áfram. Ekki allar yfirmáta gáfulegar. Það er engu líkara
en betra sé að segja bara eitthvað en þegja í svona samkvæmum: -Almáttugur
að sjá á manni neglurnar þegar maður er í garðinum allan daginn. Oh, það
vaxa eintómir andstyggðar fíflar í garðinum hjá mér, og ég ligg þarna á
hnjánum til að reyna að uppræta þá. O, hvað maður getur orðið svekktur...
Halla heyrir þetta með öðru eyranu og er nú ekki alveg sammála því að fíflar
séu andstyggilegir. Hví skyldu þeir ekki bara mega vaxa í friði?
-Hvernig gengur með jarðarkaupin?, halda samræður þeirra áfram. -Ég
heyrði að þið væruð að reyna að fá keypt eitthvert afdalakot.
-Ha? Eruð þið að kaupa jörð? En gaman.
-Já, þetta er eitthvert örreitiskot. Við ætlum að hafa hestana þar á
sumrin. Við erum nokkur saman um þetta. Vantar að vísu veg ennþá. Svo erum
við að hugsa um að hafa skíðaaðstöðu á veturna, eða sko vera þar með
snjósleðana. Það er víst snjóþungt þarna á hverjum vetri.
-Hvar er þetta? Hvað heitir þessi jörð?
-Æ, ég man aldrei hvað þetta heitir. það er eitthvert púkó nafn --
...flatir eitthvað. Frúin kallar í manninn sinn: -Mörður, hvað heitir aftur
jörðin?
Mörður kemur og skálar við frúrnar.
-Ægilega er þetta spennandi, segir ein þeirra. -Er þetta eyðijörð sem
þið eruð að fara að kaupa?
-Sama sem, svarar Mörður. -Það býr að vísu einhver karl þar, sem er að
flosna upp. Hann stendur ekki í skilum karlinn og er að missa
ábúðarréttinn.
-Hvað heitir þetta? Er þetta stutt héðan úr bænum?
-Þetta heitir víst Sjafnaflatir, svara Mörður.....
Höllu er brugðið þegar hún heyrir þetta útundan sér. Hún starir fram fyrir
sig; Getur þetta verið?
-Halla mín, Halla. Mamma hennar er að tala við hana. -Halla mín. Er
eitthvað að, vina mín?
-Ha? Nei nei. Ég var bara eitthvað viðutan.
-Viltu athuga fyrir mig hvort Katla var búin að bjóða þeim sem sitja
inni í húsbóndaherbergi.

Dagana næstu á eftir þetta er Halla stöðugt að hugsa um þetta sem hún heyrði
á tal gestanna.
Próflesturinn heldur áfram.
Katla kemur inn til Höllu, þótt mamma sé búin að banna henni að trufla Höllu
við lesturinn: -Hvað ertu að lesa núna? Mannkynssögu. Hverjir eru að
drepa hverja og hvaða ár var það?
-Æ, Katla, stynur Halla. -Er þetta nú ekki nógu leiðinlegt?
-Vinkona mín veit ekkert skemmtilegra en sögu, segir Katla. -Það hafa nú
ekki allir sama smekk, sem betur fer.
Halla heldur áfram að lesa; Katla fiktar við eitthvað á skrifborðinu.
-Veistu ekki að ég er heilög kýr, Katla, og það má ekki trufla mig.
-Er þetta ekki síðasta prófið?
-Jú, sem betur fer. Veistu hvað, Katla, -- ég er alltaf að hugsa um
þetta sem ég sagði þér um daginn.
-Hvað? Að þú hafir fengið 7 í reikningi?
-Nei, ekki það. Þetta með Sjafnaflatirnar.
-Ertu alveg með þennan Hrafna--, Hrafnaflóka þinn á heilanum?
-Já, Katla.
-Hvers vegna er verið að flæma hann burt? Og hvert á hann að fara?
Katla, þetta er ekki sanngjarnt. Það er alltaf verið að fjasa um
einstaklinginn, rétt einstaklingsins, og svo fær einstaklingurinn ekki að
vera í friði fyrir hinum einstaklingunum.
-O, hvað væri annars spennandi í mannkynssögunni?, segir Katla.
Halla brosir: -Svei mér ef þú kemur mér ekki bara í gott skap. Ég veit
hvað ég geri!!: Ég hætti ekki að hugsa um þetta. Ef Hrafngrímur hefur ekki
borgað einhver gjöld, á hann nóg af hestum til að selja, eða það átti hann
að minnsta kosti þegar ég var í sveit á Hörgshóli. Mörður og frúin hans
geta bara farið á fjóra fætur úti í garðinum sínum og reitt fífla. Sá sem
ekki kann að meta fífla er ekki þess verður að koma á Sjafnaflatirnar, hvað
þá eiga þær.
Mamma kemur inn: -Katla mín vertu ekki alltaf að tala við Höllu. Hún verður
búin í prófunum á morgun. Þá getið þið talað saman.
-Það var nú eiginlega Halla sem var að tala við mig, segir Katla um leið
og mamma tekur hana út fyrir og lokar.
Halla horfir fram fyrir sig hugsi, einbeitt á svip: -Ég skal geta gert
eitthvað til þess að þeir reki hann ekki af Sjafnaflötunum og sölsi þær
undir sig. Ætti ég að fara, tala við Hrafngrím? Vara hann við?
"Engum manni gerir Sjafni mein nema einu sinni", sagði Gugga eitt sinn. Og
hver veit nema Huld og Húm vilji frekar Hrafngrím fjallaref en hávært
snjósleðafólk?


_ VIII _

_Halla leggur upp í tvísýna ferð_

Halla biður rútubílstjórann að stoppa. Hér ætlar hún út.
Þetta er skrítinn staður til að fara út á: Enginn bær, hvergi byggt ból í
augnsýn. Hún er ekki með neinn farangur, aðeins nestisbita.
Hún gengur af stað. -- Stefnir á fjöllin.
Það er sólbráð, vetrarskaflarnir eru enn í öllum giljum, gránað hefur í
fjöll í nótt. Það er þetta sem við köllum vor á Íslandi.
Ungir hraustir fætur láta ekki á sig fá þótt þeir sökkvi í aurbleytuna í
hverju spori. Klaki er enn í jörðu.
Sennilega eru fáir sem þekkja þessa leið, og óvíst hvenær nokkur hefur átt
hingað erindi. Og hvað er hún eiginlega að vilja hingað? Hvað er hún að
flækja sig í þessi mál? Hvað getur hún, krakkinn 15 ára, gert í svona máli?
Og síðast en ekki síst: kemur hún kannski of seint?
En það er eins og henni finnist að hún verði að skipta sér af þessu.
Eitthvað sem hún ekki skilur, knýr hana áfram.
Halla á langa leið fyrir höndum. Þegar Halla er farin að þreytast á
göngunni -- enda allt ábrekkis -- sezt hún á stein, rakan kaldan stein, og
fær sér bita af nestinu sínu. Það er skynsamlegt að endurnýja kraftana, því
enn verður allt á fótinn um sinn. Hún þekkir þennan stað. Henni verður
hugsað til þess atviks er hún stalst á bak þeim moldótta, og það setur að
henni ónotahroll. Æ, kannski sló bara að henni þar sem hún, göngumóð og
sveitt, settist niður til að maula nestið. Hún sprettur á fætur. Áfram skal
ferðinni heitið.
Loks sér hún yfir á bæ Hrafngríms. Ekki er hann reisulegur. Raunar lítur
bærinn út fyrir að vera að hruni kominn, alveg eins og -- eins og eyðibýli?
Halla hleypir í sig kjarki, arkar yfir Flatirnar í átt að bænum á
Sjafnaflötum.
Hún gengur að bæjardyrunum. Bankar. Ekkert gerist. Ber aftur að dyrum,
opnar varlega, gægist inn og kallar: -Halló. Er einhver þarna?
Ekkert svar.
Hún stendur þarna í dyrunum, vandræðaleg. Getur verið -- getur verið að
hún hafi komið of seint?
-Halló. Er einhver heima?, kallar hún hærra en áður.
Hundur fer að gelta. Geltið kemur utan úr fjósskríflinu. Hún heyrir að
hundurinn krafsar í hurðina og spangólar. Fjósdyrnar opnast. Hrafngrímur
stendur í gættinni, hálfboginn með mjólkurskjólu í annarri hendinni og
hauskúpu úr stórgrip í hinni. Það er mjaltaskemillinn hans.
Halla gengur til hans, hundurinn geltir í sífellu.
-Góðan dag, segir hún. -Ég heiti Halla.
-Þegiðu!, hvæsir Hrafngrímur.
Hundurinn þagnar.
Halla verður fegið að það er hundurinn en ekki hún sem á þessa kveðju.
-Ástæðan fyrir því að ég kem... , byrjar Halla, ....
-Burt með þig, urrar karlinn. -Burt af mínu landi!
-Hrafngrímur, ég þarf að segja þér dálítið.....
-Það þarf enginn að segja mér eitt eða neitt. Hann kemur út á hlað og
verður enn óárennilegri þegar hann réttir úr sér. Mjólkin í fötunni sullast
til þegar hann ygglir sig.
-Jú, Hrafngrímur. Það er verið að reyna að flæma þig burt af
Sjafnaflötunum.
Hrafngrímur er illskulegur, hvessir augun á telpuna, og hún verður hálfsmeyk
við þennan ógurlega mann.
Hún reynir að vera ákveðin: -Það eru menn að reyna að kaupa jörðina og
flæma þig héðan burt. Ég er að reyna að hjálpa þér.
Hrafngrímur setur frá sér fötuna svo harkalega að skvettist uppúr. Hann
otar mjaltaskemlinum, hauskúpunni, að Höllu: -Ég þarf ekki hjálp eins eða
neins. Snautaðu héðan burt!

Nú heyrist í þyrlu sem nálgast og flýgur lágt. Þyrlan hringsólar yfir þeim,
svífur upp að fjallinu og aftur til baka. Hundurinn geltir á þetta óvænta
skrímsli og sendist niðureftir túninu á eftir því. Þyrlan gerir sig líklega
til að lenda.
-Ekki yrði ég hissa, segir Halla, -þótt þarna kæmu þeir sem vilja þig
héðan, Hrafngrímur.

Þyrlan lendir niðri á Flötunum. Fólk hoppar út, bendir upp í hlíðar
fjallsins.
Seppi geltir án afláts. Hrafngrímur tútnar út af bræði. Hann sér ekki
Höllu í svipinn en sendir óblítt augnaráð niður á tún, þar sem hinir óboðnu
gestir gera sig heimakomna.
Halla veit ekki fyrr en hann snarast inn í bæ, kemur strax út aftur með
riffil í höndunum og arkar niður á tún.
-Gestrisnin sjálf, öðlingurinn, stynur Halla. -Vonandi er byssan ekki
hlaðin. Kannski trúir hann mér núna.
Halla þykist sjá að þarna er kominn Mörður og fleira fólk. Fólkið verður nú
flaumósa er þessi illúðlegi maður arkar í átt til þeirra með skotvopn á
lofti og skammarræðu á vörum. Svo fór að allir tíndust í snatri uppí
þyrluna og hún hóf sig á loft. Halla getur ekki varist brosi.
-En, hugsar Halla, -hvað gerist næst? Hvað gerir hann nú þessi
skapbráði maður, sem hefur gripið riffilinn í bræði sinni og ógnað fólkinu
með honum -- með góðum árangri.
Henni verður hugsað til atviksins sem átti sér stað sumarið sem hún var á
Hörgshóli fyrir þrem árum, þegar Hrafngrímur sá flökkuhundana vera að eltast
við lamb, greip riffilinn án þess að víla það nokkuð fyrir sér og skaut þá
alla á færi. Til hvers er hann vís nú? Ekki getur Halla hlaupið upp í
þyrlu og flogið burt eins og Mörður og þau.
Halla sendur þarna á hlaðinu. Karlinn kemur arkandi heim að bænum aftur,
reiðin sjóðandi í honum.

En nú kemur hundurinn auga á eitthvað nýtt til að gelta að. Hann stekkur af
stað, og Höllu verður litið í þá áttina: Þrír menn koma ríðandi niður
fjallaskarðið og stefna á Sjafnaflatir.
Ekki er víst oft svona gestkvæmt hér á þessum bæ.
Halla verður að vissu leyti fegin að sjá til mannaferða. Hrafngrímur tekur
stefnu á mennina þrjá. Þeir ríða nokkuð greitt miðað við færðina í krapi og
aurbleytu, og nálgast óðum.
Þegar þeir koma nær sér Halla að þarna er kominn presturinn, og líklega eru
í för með honum hreppstjórinn og oddvitinn, sýnist henni. -Hvaða erindi
skyldu þeir eiga? Hefur hún þá ekki komið of seint? Er enn hægt að koma í
veg fyrir að Hrafngrímur verði flæmdur héðan burt eins og rakki úr greni?
Þeir mæta Hrafngrími rétt hinum megin við fjósið. Höllu sjá þeir ekki. Halla
heyrir aðkomumenn kasta kveðju á Hrafngrím, sem hreytir einhverjum skætingi
út úr sér og mundar byssuna. Prestur fer af baki og reynir að sefa
karlinn. Prestur leggur höndina á byssuna og beinir hlaupinu niður.
-Þeir eru sniðugir að fá prestinn með sér í þetta, hugsar Halla.
Hreppstjórinn tekur til máls, valdsmannslegur, situr brúnan sterklegan hest,
sveittan og móðan: -Við þurfum að ræða við þig, Hrafngrímur. Það er vegna
alvarlegra vanskila þinna. Við neyðumst til að segja þér.....
Halla tekur á sig rögg og gengur út fyrir fjósið og til þeirra.
Hreppstjóranum fatast eitthvað í ræðunni sem hann er að byrja að þusa yfir
Hrafngrími. Það kemur mjög á þá alla þegar hún birtist. Þeir hafa eflaust
séð að þyrlan varð frá að hverfa, flýja af vettvangi, með sitt hlass af
fólki.
-Góðan dag, segir Halla ákveðin.
Þeir góna á hana -- allir fjórir.
Loks er eins og séra Guðmundur ranki við sér. Hann réttir fram höndina:
-Góðan daginn. Ég heiti Guðmundur Jónsson. Höfum við sést einhvers staðar
áður?
-Já. Þú ert mannglöggur. Ég heiti Halla. Var í sveit á Hörgshóli eitt
sumar.
-Já, en?... Hvað ert þú að gera hér?
-Finna út hvað þið eruð að gera hér? Þú manst kannski eftir, séra
Guðmundur, að okkur krökkunum var sagt að ágirndin væri vond, og að við
ættum að hlýða samvisku okkar og innstu rödd hjartans? Gjörið rétt en ekki
órétt. Það er nú eiginlega þetta sem ég er að fara eftir núna.
Einu sinni, heldur Halla áfram, -stalst ég á bak hesti hér á Sjafnaflötum og
datt af baki.
Halla lítur á Hrafngrím og stingandi augnaráð hans hvílir á henni. -Þá
gerði ég órétt. Nú er ég hér vegna þess að mér finnst þið eigið að segja
Merði Ágústssyni & co að hér sé engin jörð til sölu. Mér finnst þið ekki
vera að gera rétt ef það nær fram að ganga.
Hrafngrímur ygglir sig. Brúnirnar hafa sigið enn lengra niður, og hólkurinn
hefur sigið mikið í höndum hans.
Halla beinir máli sínu til hreppstjórans: -Hvert er hið raunverulega erindi
ykkar hingað? Hve mikið ætla Mörður og þau að borga ykkur fyrir að útvega
jörðina?

Þögn. Löng undarleg þögn.

Halla hafði í rauninni ekki vitað hvernig hún ætlaði að kom í veg fyrir að
Sjafnaflatir yrðu seldar. Hún vissi ekki einu sinni hvað það var sem rak
hana út í þetta. Hvað kemur henni þetta við?
En nú er eins og hún fyllist eldmóði. Eitthvert afl innst inni knýr hana
áfram: -Ef Hrafngrímur skuldar einhver opinber gjöld, ætti að vera nægt að
selja eitthvað af þessum fallegu hestum og gera þetta upp. Ættuð þið ekki
að stuðla að því ef erindi ykkar er að innheimta áfallin gjöld? Og hvert
ætti Hrafngrímur að fara? Og hvers vegna ætti hann að fara ef hann borgar
sínar skuldir við hreppinn?

Séra Guðmundur tekur loks til máls: -Ég held að þú hafir rétt fyrir þér,
Halla. Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að hægt sé að útkljá
þessi mál -- að þessar skuldir verði gerðar upp. Hér og nú, Hrafngrímur,
skulum við semja um greiðslu á þessum skuldum og þær vanefndir sem gætu
kostað þig ábúðarréttinn hér. Ég legg til að við reynum að útkljá þessi mál.
Hrafngrímur andmælir ekki, segir ekkert.
Hreppstjórinn og oddvitinn eru klumsa.

Höllu léttir stórlega. Það er eins og draumur sé að rætast. Svona fljótt,
á svona auðveldan hátt, mun þetta mál úr sögunni. Það virðist of gott til
að trúa því. Hér á Hrafngrímur að fá að vera meðan hann vill.
Höllu finnst sem nú sé hún búin að bæta fyrir brot sitt er hún stalst á bak
þeim moldótta her um árið.
Fjallið, tignarlegt í vorbirtunni, gnæfir þögult of stolt yfir Sjafnaflötum.
Hver veit nema einmana refur sé einhvers staðar á ferli þar. Það er eitt af
leyndarmálum fjallsins þögla.

- - oo 00 O 00 oo --