ISBN 9979-895-05-5

 

HREGGNÓTT

 

 

Allt verður svo undarlegt í skafrenningi. Hólar og mishæðir lyftast, hefjast upp í myrkrið, síga svo aftur ofan á jörð, og undir jörðina. Lágarenningurinn á veginum þýtur yfir ruðningana fyrir utan veginn og breytir öllu í óraunveruleika. Svo sortnar alveg. Stikurnar sjást ekki. Guðleifur stöðvar bílinn. Mildi að ekki hefur fennt inn á mótorinn. Hann er búinn að fara framhjá mörgum bílum sem eru stopp úti í kanti. Í sumum þeirra er eflaust fólk sem bíður þess að veðrið gangi niður, Heiðin verði rudd, svo það geti ekið áfram, hvort sem það nú er á leið í bæinn eða austur.

Guðleifur sér glitta í stiku úti í sortanum. Er þetta stika á hægri kanti eða vinstra kanti; Hvoru megin við þessa stiku liggur vegurinn? Röng ákvörðun táknar útafakstur.

Í skafrenningi er jörðin óraunveruleg, vegurinn ekki til.

Það syrtir aftur. Bílljósin skella á náhvítri hríðinni sem gleypir bjarma þeirra með húð og hári. Guðleif grunar að hann fari að nálgast löngu brekkuna fyrir ofan Litla kaffi. Draugahlíð, heitir hún víst. Þar vill hann ekki aka niður í svona veðri; snarbratt ofan báðum megin vegarins.

Að hann skyldi ekki leggja fyrr af stað í bæinn. Þá hefði hann sloppið við veðrið. Nú hamast útvarpið við að vara menn við að leggja á Heiðina vegna skafrennings, blindbyls og hálku. Þrengslin líka lokuð. Of seint. Hér er hann kominn í Svínahraun, búinn að berjast yfir Heiðina í þessu veðri. Nei, Hann ætlar sko ekki að fara útaf í brekkunni fyrir ofan Litla kaffi. Þá er nú skynsamlegra að sofa hér í nótt eins og illa gerður hlutur.

Það er tillitslaust af mér að segja: "illa gerður hlutur" þegar Guðleifur á í hlut. Guðleifur er einkar ósjarmerandi í útliti eða svona grámyglulegur allur og óásjálegur. En hann er góður í sér hann Guðleifur, hefur verið kennari alla sína æfi, góður við börnin, þolinmóður, skilningsríkur, samvizkusamur. Samt geta strákapollarnir verið að stríða honum. En hann tekur þessu öllu vel. Sumum litlu telpunum þykir svo vænt um hann, og kalla hann aldrei Myglusveppinn.

Guðleifur hefur aldrei verið við kvenmann kenndur og verður vart héðan af.

 

Guðleifur drepur á bílnum, nær sér í teppi. Það er ekki hægt að kveikja. Peran biluð. Ekki hundi út sigandi hér.

Á skömmum tíma skeflir kringum bílinn. Það tekur í hann í hryðjunum. Smáhrollur kemur í Guðleif. Hann ætlar bara að reyna að sofna. Það er ekkert annað að gera úr því sem komið er.

Undarlegt að stara út í hríðina: Jörðin lyftist, leysist upp, sígur aftur á sinn stað. Guðleifi finnst bíllinn hreyfast, svífa, og hríðin vera kyrr. Hann sér veru úti í sortanum, sem ýmist birtist eða hverfur. O, hann er alveg ruglaður; eins og milli svefns og vöku. Undarlegt svona veður.

Höfuð Guðleifs sígur, hann kippist við þegar það dettur ofan á bringu. Augnalokin eru úr blýi. Hann reynir að finna góða stellingu og höfuðið sígur á ný.

 

Allt í einu kemur inn kaldur gustur sem læsir sig um Guðleif.

-Hér er illvært, segir köld rödd við hlið hans. Konurödd.

Guðleifur hrekkur upp, - bregður illyrmislega. Veran úr sortanum, öll snjóug, sezt í framsætið við hlið hans. Köld loppa hríðarinnar eltir hana inn, áður en bílhurðin skellur aftur. Það fylgir kaldur gustur þeim sem koma öslandi úr hríð.

-Gott kvöld, segir Guðleifur, þegar hann áttar sig.

Smáhrollur skríður upp bakið, hríslast út í handleggina og upp í höfuð. Svona kringumstæður gera það að verkum að bláókunnugt fólk heilsast eins og aldagamlir vinir.

-Gott?, segir hún, nokkuð kaldhæðnislega.

Hár hennar er blautt, klesst við ennið, svart. Kápan snjóug, dökkur litur hennar sést varla í myrkrinu. Það er eitt andartak eins og enginn sitji þarna.

Guðleifur sér ekki í augu hennar. Þó er eins og þau brenni, tindri, eða skjóti gneistum. Vangasvipurinn er fallegur, nefið hvasst. Hún er grönn, ung miðað við Guðleif sjálfan.

-Þetta er nú meira veðrið, segir Guðleifur. -Hvernig í ósköpunum datt þér í hug að fara úr bílnum þínum í þessum aftökum? Þú hefðir getað orðið úti.

Ég þori ekki að hafa bílinn í gangi né miðstöðina á, heldur hann áfram. -Gæti pústað inn.

Viltu ekki teppi?

-Mér er ekki kalt, svarar hún.

-Ég stöðvaði bara bílinn hér, segir Guðleifur.

-Ég hefði betur gert það, svarar hún og hlær. -Ég var búin að losa bílbeltið til að sjá betur út, - keyrði svo útaf.

-Þú ert ekki ein um það.

-Nei, segir hún.

Skrýtið hve svona falleg kona hefur kuldalegan hlátur.

Það verður örlítil þögn. Það er nú von að það verði örlítil þögn. Hann Guðleifur er ekki vanur að tala svona við ókunnuga konu. Þótt hann tali við börnin í skólanum, er sjaldan að hann tali við fullorðna, - enn sjaldnar við kvenfólk.

Þá man Guðleifur eftir súkkulaðinu. Hann hefur alltaf með sér súkkulaði á ferðalögum. Jafnvel þegar hann skreppur austur að heimsækja móður sína.

Hann býður henni súkkulaði, þessari ókunnu konu sem hann sér varla í myrkrinu. Hann hegðar sér eins og hann hafi orðið fyrir göldrum. Það gera líklega þessar óvenjulegu kringumstæður, þessi endalausa hríð sem veldur staðleysu og tímaleysu. Óraunveruleika. Mjallhvít hönd hennar tekur við súkkulaðinu. Ísköld hönd.

-Ertu vettlingalaus, stúlka? segir Guðleifur.

-Mér er ekki kalt.

-Þér er ískalt. Fáðu teppi. Svona.

Þetta er bara gjörningaveður, heldur Guðleifur áfram.

-Já, svarar sú svarta. -Nornaveður. -Galdraveður.

-Hvernig gaztu látið þér detta í hug að fara út úr bílnum, stúlka?

-Ég fékk þörf fyrir að hlaupa - hlaupa - hlaupa, breytti mér í vindóttan hest, hljóp yfir freðinn, gráan mosa, var graðasti stóðhestur, tölti undir sjálfri mér, frjáls; dró daggarslóð í grænu grasinu í stefnulausa hringi! (Jedúdda mía! Ég var með tyggjó! Ég flýtti mér að skyrpa því út í hríðina.) Mér varð hugsað til getnaðar Sleipnis: Loki fylfullur, þursinn í fýlu. Ég hló, tapaði ganginum, víxlaði. Sá svo bílinn þinn hér, hálffenntan.

 

Hverju á Guðleifur að svara? Svipurinn á honum sést ekki í dimmunni, sem betur fer, enda hefur hann enga stjórn á hugsunum sínum þessa skrýtnu óveðursnótt: Vindóttur hestur í grænu grasi?

Þess vegna verður aftur þögn.

Hún brosir með innra svipnum, köldu brosi, en ytri svipurinn, andlitið sjálft, er stilltur; honum hefur hún alltaf stjórn á.

-Æ, segir hún, -úrið mitt hefur stoppað. Nákvæmlega á miðnætti. Maður á að fá sér höggheld úr. 12 á miðnætti undir fullu tungli. Ég hefði mátt vita það.

-Er fullt tungl? spyr Guðleifur.

-Já. Það er fullt tungl. Margur draugurinn á Heiðinni í nótt.

Trúirðu á nornir? spyr hún. -Veiztu að hún Abba-labba-lá var svört á brún og brá? Hún notaði skemmtilega tækni: Dansaði, ærslaðist, hló, beit og sló og saug blóð.

Guðleifur brosir. Bros hans er góðlegt. Maður hefur að vísu á tilfinningunni að hann geti verið aðeins andfúll, en það hefur aldrei neinn gert sér far um að finna út úr því. En bros hans er góðlegt. Svona skrýtið umræðuefni kemur honum ekkert á óvart. Hann bara brosir. Hann er vanur að hlusta á börn með frjótt ímyndunarafl. Bara dálítið erfitt að svara sumum spurningum.

-Krefjandi starf !!!, segir konan í framsætinu og glottir. -Þetta eru víst tízkuorð: krefjandi starf.

Guðleifur reynir að nema svip hennar í myrkrinu. Hvað skyldi hún heita þessi dökka kona?

-Ég heiti Guðleifur H. S. Friðþjófsson, segir Guðleifur. -Það er líklega óviðkunnanlegt að kynna sig ekki.

-Hulda Dís, heiti ég. Eru það ekki bara störf kvenna sem falla undir þessi fínu orð, krefjandi starf? segir hún.

Guðleifur sér að það er gamaldags að kynna sig með fullu nafni. Ungt fólk notar bara fornöfn.

-Eh, þú ert ef til vill rauðsokka? spyr hann hikandi.

Svona hefur hann aldrei talað fyrr við neina konu.

Ískaldur hlátur hennar orkar einkennilega á Guðleif.

-Þú meinar hvort ég æði á kellingafundi og æsi mig?; Vakni til illa launaðra, ábyrgðarlausra skítastarfa næsta morgun, nenni ekki að axla ábyrgð? Tefli svo kvennaskák, spili kvennabrigde, stundi kvennahestaíþróttir, þegar hæfileika til jafnræðis brestur? Hafi leyfi til að pípa um hluti án þess að hafa sett mig inn í málin?
Sumar vilja afkynja sig, aðrar vilja fá sérréttindi út á sérkyn sitt. O, það þarf víst alltaf eitthvert málefnið að vera í tízku.
Starf mitt er ekki háð tízkufyrirbrigðum. - Jafngamalt mannkyninu. Sá er bara munurinn að núna notum við sjónvarpið. Fólk er svo móttækilegt og afslappað gagnvart sjónvarpinu. Skemmtileg tækni.

 

-Viltu meira súkkulaði? spyr Guðleifur. -Þú ert ósköp föl. Er þér kalt, góða?

-Ég er sennilega blóðlaus.
Veiztu, ég þori aldrei að láta mæla í mér blóðið.

-Það er nú ekkert til að vera hræddur við: hjúkrunarkonan setur bara örlitla rispu á eyrað ... (- hann er farinn að tala við hana eins og hún sé skólabarn -. Hann hættir í miðri setningu).

Hún hlær:

-Það er ekki það. Við höfum svart blóð. En ég skal segja þér: Einu sinni missti ég máttinn. Þá varð blóðið rautt. Það var í fyrra. Ég var í partíi. Þar var strákur sem heitir Skúli. Hann hefur þessi stóru, dóminerandi augu. Hann er látbragðsleikari. Ég varð ástfangin í fyrsta sinn. Bara óvart, alveg upp úr þurru. Hörkupartí. Ég drekk aldrei, við þurfum þess ekki. Það eru bara vanþroska sálir sem þurfa þess. Kötturinn minn leit ekki við mér þegar ég kom heim. Jú, hvæsti á mig. Klók kisa. Hún er svört. Þeir þurfa ekkert endilega að vera svartir lengur, en ég er svo gamaldags. Hún tók mig ekki í sátt, kisan, fyrr en ég var búin að gleyma Skúla. Klók, sú litla.

-Einu sinni, segir Guðleifur hægt, -lenti ég í svona svokölluðu "partíi". Ég -, ég dreif mig á námskeið í leiklist, - hef alltaf haft áhuga fyrir leiklist -. Svo vildu börnin - þetta voru aðallega unglingar á nám- skeiðinu - svo vildu þau hafa partí, þegar námskeiðinu lauk. Einn pilturinn sagði við mig: -Kemur þú ekki, gamli? -Hvert? spurði ég. -Í partíið. Hvers vegna skyldir þú ekki koma með, gamli minn, þegar allir hinir mæta, ha, kennarinn líka?
Ein stúlkan varð dálítið drukkin í þessu boði. Hún kyssti alla sem voru þarna, - nema mig. Hún sagði að ég væri svo ... svo vðö, og svo gretti hún sig; Hún var drukkin blessað barnið. Ég vona að hún hafi þroskazt. Ég óska henni alls hins bezta í lífinu.

Guðleifur verður dálítið dapur við þessar hugsanir. Það er sárt að rifja þetta upp.

Guðleifur hefur aldrei fyrr talað svona við neinn um sjálfan sig. Hann skilur ekki hvers vegna hann er að segja þessari bláókunnugu konu þetta í bíl í stórhríð uppi á Heiði.

Það hvín í veðrinu, byljirnir skella á bílnum svo hriktir í.

-Lífið er eins og skip, segir dökka konan í framsætinu,
-skip, sem öslar hafölduna. Hafið er óútreiknanlegt, fjölbreytilegt, fallegt eins og skapmikil kona. Skip vita ekki hvort kinnungarnir eru votir af sælöðri og pusi eða hvort það er norðaustan hraglandinn sem vætir þá, nema hvað kulborði er ögn votari en sá sem er hlés.
Skip veit að heima bíður bryggjan með mjúk fríholt sem dúa þegar það leggst þétt upp að henni. Skipið er á leiðinni heim.
Á nýársnótt tala skipin mannamál. Tal þeirra nær djúpt í sálina, dýpra en margt sem mennirnir segja. Ef við hlustum vel heyrum við þau segja:

Það er dýrmætt að eiga sér framtíðardraum

Það er dýrmætt að eiga sér framtíðardraum

Það er dýrmætt að eiga sér framtíðardraum ....

Þegar sólin kemur upp á fyrsta degi ársins sofa timbraðir feður. Snjórinn er sótugur síðan kvöldið áður, þegar rakettur puðruðu sóti og fóru upp þangað sem hrímfölur máninn skein á himni hátt. Allt er ótilhaft þennan fyrsta morgun. Nýárs blessuð sól fær ekki móttökur sem skyldi: óhrein glös, tómar flöskur, mylsna af jólasmákökum á dúknum, útbrunnir pappahólkar í snjónum, syfjuð börn á náttfötunum. Barrið farið að hrynja af trénu; það þyrfti að ná í ryksuguna.
Kisa mjálmar í forstofunni og vill fara út. Hún þefar út í nývaknaðan daginn. Hún er ekki boðin í steikina hjá ömmu klukkan eitt.
Kisa gerir litla netta holu og pissar í jólasnjóinn sem hlánar í fyrstu sólbráð ársins.

Konan í framsætinu þagnar og verður hugsi.

 

-Ertu skáldmælt? spyr Guðleifur.

-Nei, en það er skrýtið að hugsa þegar maður er dáinn.

Það er orðið dálítið ónotalega kalt í bílnum.

-Þú átt kisu? spyr Guðleifur.

Það er eins og hann þrái að halda uppi samræðum við þessa konu, sem hann sér eiginlega ekki. Hann kvíðir fyrir að nóttinni ljúki og hún fari aftur í sinn bíl og keyri í bæinn. Hann vonar að það hafi fennt inn á mótorinn hjá henni, svo hún þurfi að fá far með honum.

Er hann í álögum? Hvers konar hugsanir eru þetta eiginlega? Ef til vill er það bara þessi endalausa, glórulausa hríð sem skapar þörf fyrir samræður, samskipti. Þegar birtir mun allt breytast aftur.

-Já. Hún er svört.

-Hver?

-Kisa. Þeir þurfa ekkert endilega að vera svartir lengur, kettirnir.

-Áttu ...., Guðleifur ræskir sig, -áttu fjölskyldu?

-Ég er ekkja, svarar hún.
Hefndin er sæt. Dísæt. Hann fór í bílslysi. Klukkan 12 á miðnætti undir fullu tungli í brekkunni fyrir ofan Litla kaffi. Púmm, dauður. Rétt eins og væru það nornasköp.
Bara bílslys?
Hann var tillitslaus. Ég var bara kroppur í hans augum. Karlmenn. O, þessir karlmenn.

Guðleifur kyngir munnvatni. Rödd konunnar er svo kuldaleg og hann lentur úti á hálum ís með umræðuefni.

-Mitt frumkvæði var aldrei á réttum tíma að hans mati.
Hann einn,
heldur hún áfram, -ákvað hvenær rétti tíminn til allra hluta var.
Hefndin er dísæt, Guðleifur H. S. Friðþjófsson. Dísæt.

-Maður á að fyrirgefa allt, svarar Guðleifur.

Hann ætlar svosem ekki að fara að predika. Nærvera þessarar konu er svo undarlega þægileg eða undarlega óþægileg að hann má ekki og vill ekki segja neitt sem getur styggt hana. Hann reynir að finna eitthvað til að segja.:

-Englar hafa ekkert minni. Fyrirgefa allt, var sagt í einhverri skrýtinni mynd, sem ég sá í sjónvarpinu fyrir löngu síðan.

Hvað á Guðleifur svosem að segja?

-En þú? segir hún. -Áttu konu og börn?

-Raunar á ég mörg hundruð börn, því ég er kennari. En ég er ekki kvæntur né heldur faðir.
Uppáhaldsnemandinn minn, sem nú er fullorðinn piltur, hafði snilligáfu í stærðfræði. Hann fór til útlanda að nema. Þar gerðist hann málari. Býr nú í Hollandi. Hann sendi mér mynd eftir sig að gjöf. Ég skammast mín fyrir að hafa ekki hengt hana upp, en hún er ljótleikinn uppmálaður. Ég get ekki látið hana hanga neins staðar.

-Mig langar til að sjá hana, segir Hulda Dís. -Má ég koma til þín og sjá hana? Ljótleikinn er svo aðlaðandi stundum.

Hjartað í Guðleifi hoppar af kæti.

Skrýtið að þetta skrýtna í brjóstinu er eins þegar maður verður ofsakátur og þegar maður verður ofsahryggur. Hjartað í Guðleifi hoppaði líka þegar stelpan í partíinu sagði þetta, þú manst.

-Þú ættir að gefa mér heimilisfangið þitt á miða, Guðleifur, og svo kem ég, segir Hulda Dís áköf, -og sé það, málverkið: Bleikur allsber maður hangir á hvolfi, gulur eldur og grænn eldur sleikja hár hans. Ljótleikinn er svo aðlaðandi, Guðleifur. Í bakgrunn dansa nornir við stálgrá sjónvörp.

Guðleifur verður orðlaus. Neðrikjálkinn sígur, en það sést ekki í myrkrinu. Hann starir á vangasvip konunnar sem starir með áfergju út í hríðina.

 

-Hvernig .... hvernig veiztu? stynur hann upp.

 

Guðleifur paufast við að rífa snyrtilega snifsi úr umslagi, sem lá í aftursætinu. Hendur hans eru dálítið dofnar. Hann er allur dofinn. Hann skrifar hægt (vandar sig svo þetta verði nú læsilegt) nafn sitt og heimilisfang. Verst að geta ekki kveikt.

-Ég vil ekki símanúmer, segir hún. -Kem bara án þess að hringja. Kem bara. Ég kem bara.

-Viltu ekki símanúmerið? spyr Guðleifur.

-Nei nei. Ég kem bara. Ég kem, ég kem.

Rödd hennar verður eins og bergmál sem hlær í glórulausri hríðinni og inni í þessum bíl sem er hér hálffenntur í kaf. Það hriktir í í verstu hryðjunum, og tíminn er fokinn út í veður og vind.

 

 

 

Guðleifur hrekkur upp, gersamlega ruglaður. Skíma af hrímfölum degi teygir sig upp á austurhimin, að baki dökkra, mikilúðlegra skýjabakka, sem grúfa sig yfir kalda, gráa birtu morgunsins.

Getur verið að hann hafi dottað?

Hulda Dís er farin. Mikill dóni getur hann verið: Fögur, dökkhærð kona í bílnum og hann bara sofnar. Var að furða þótt hún færi. Já en, hann hefur ekkert sofnað!!!. Hvers vegna fór hún svona skyndilega? Þau sem gátu talað svona frjálslega saman. Hann hefur aldrei áður talað svona við neinn, sízt konu. Ætli hún sé nú móðguð? Hún sem ætlaði að koma og sjá málverkið. Hann sem ætlaði að tala meira við hana.

Gult ljós á snjóruðningstæki sést blikka í fjarska og færist nær. Krapaboðar frussast langt út fyrir veg. Þeir aka hratt á þessum tækjum.

O, að hann skyldi detta svona útaf. Eða detta svona út, réttara sagt, því hann er viss um að hann sofnaði ekki.

Þústir koma í ljós á veginum og við veginn þegar birtan gerir snjóinn raunverulegan á ný: Innifenntir bílar.

Tunglið, fullt tungl á himni hátt, fölvast, missir máttinn, sem það hefur þegar nóttin er dimmust.

Guðleifur veit ekki hvar bíll Huldu Dísar er. Hann spurði ekki.

Hann setur í gang. Miðstöðin blæs köldu.

Þegar snjóblásarinn er farinn framhjá, ekur hann af stað.

Bíll hefur farið útaf í brekkunni hjá Litla kaffi, sér hann. Einhverjir eru að bægslast niður snarbratta brekkuna að bílnum, sjálfsagt til að gæta að hvort nokkur sé í bílnum eða hvort eitthvað hafi komið fyrir.

 

 

Guðleifur er ekkert syfjaður þegar hann kemur í bæinn. Skrýtið að vera ekkert syfjaður þótt maður hafi vakað svo til alla nóttina.

O, að hann skyldi detta útaf.

Útvarpið segir frá óveðrinu í nótt: Nú er búið að opna Heiðina. Banaslys varð í Svínahrauni í óveðrinu í nótt, er bíll fór út af veginum. Kona, sem var ein í bílnum, beið bana. Ekki er unnt að birta nafn hennar að svo stöddu.

Guðleifur hringir í skólann og segist hafa orðið veðurtepptur, sé nýkominn í bæinn; komi ekki í dag. Það er ekki oft að hann vantar til vinnu.

 

Hann getur ekki farið að sofa.

Skyldi hún koma í dag? Nei, varla í dag.

Ef til vill ætti hann að hengja málverkið upp einhvers staðar.

 

Guðleifur fer út í bíl að ná í húfuna sína. Hann hefur líklega gleymt henni í framsætinu. Það hefur líka snjóað í bænum, en ekkert minnir hér á veðrið sem var á Heiðinni í nótt.

Hann ætlar svo að taka rækilega til í íbúðinni. Hann á von á gesti þá og þegar.

Húfan hefur dottið á gólfið í bílnum. Rétt hjá henni liggur súkkulaðibiti. Súkkulaði? Hefur hún ekki borðað súkkulaðið? Skrýtið.

Í bílsætinu liggur bréfsnifsi. Guðleifur tekur það. Á því stendur:
Guðleifur Hreinn Sveinn Friðþjófsson
Draumalandi 13

 

Hún ..... hún hefur skilið heimilisfangið hans eftir. Hvers vegna? Ætli hún hafi móðgast þegar hann dottaði? Já, en, hann er viss um að hann sofnaði ekkert.

Sagði hann eitthvað sem gæti hafa sært hana?

Hvers vegna vildi hún ekki heimilisfangið hans?

 

Hann gengur inn til sín, hryggur, með miða, súkkulaði og húfu í höndunum.

Þegar hann kemur inn rekur hann augun í sjónvarpið. Það er auðvitað slökkt á því.

Hann starir á sjónvarpið sitt, stendur lamaður og starir á sjónvarpið.

-.... núna notum við sjónvarpið, sagði hún. Manstu?

 

-Hulda Dís, ertu ....?

varstu .....?

var það þú sem .....?

Manstu, hve rödd hennar var undarleg: Ég kem, ég kem.....

Hjartað í Guðleifi hoppar. Hann heyrir ískaldan hlátur....

 

- - o 0 O 0 o - -