ISBN 9979-895-10-1
Leikrit, byggt á þessari sögu var flutt í Ríkisútvarpinu á Íslandi í desember 1987 og endurflutt í janúar 1988;
leikgerð og frumflutt tónlist höfundar, Guðrúnar Kristínar Magnúsdóttur; leikstjóri Karl Ágúst Úlfsson.
Á Hljóðbókasafni Blindravinafélagsins er þessi leikgerð til.

 

Í MJÚKU MYRKRI

BÚA DRAUMARNIR

 

 

 

þessi saga er fylfull
þunguð
hún gengur með ófullburða smásögur
smásagnafóstur:

DISKURINN
RYKSUGAN Á FULLU
JEDÚDDAMÍA
STEINN
Í MJÚKU MYRKRI
BLINDI DRENGURINN

 

 

1.

Líf Kolgrímu, draumur, sem býr í mjúku myrkri.

- Og Kolgríma, sem er svo góð, svo hrekklaus, svo barnaleg.

Hún Kolgríma er enginn fábjáni, eins og margir vilja halda fram. Alls ekki. Þvert á móti; hún er nokkuð greind á sviðum. Hún er bara, ja, bara pínulítið skrýtin stundum.

 

Allt var þetta út af þessu asnalega veðmáli þeirra Gulla og Steins, unglingsstráka, þar sem þeir sátu og djúsuðu niðri í lúkar á báti við bryggjuna í litlu sjávarþorpi, þar sem allir þekkja alla:

 

 

Steinn (slompaður):

-Já, Gulli kallinn. Við höfum nú kannski brasað of mikið, ha?
Við hefðum kannski ekki átt að læsa sýslumanninn inni á klósetti á sínum tíma, ha?

Gulli (líka í því):

-Grunurinn féll á Palla greyið þá, maður (hlær). Það var nú meira uppistandið. Djö ..

Steinn:

-Meira?

(hellt í glös)

Gulli:

-Hvar fékkstu þetta? Steinn, hvar náðirðu í þetta?

Steinn:

-Hvað? Brennivínið?

Gulli:

-Ekki þó ...

Steinn:

-Hva, bragðast það ekki vel?

(Gulli hlær)

 

Steinn:

-Þú heldur kjafti, gamli.

Gulli (rövlar):

-Við erum vinir, Steinn minn, ha?
Sko - erum við góðir vinir? Við erum stundum soldið vondir, en samt erum við vinir, Ha? Erum við þá ekki vondir vinir? En samt erum við góðir vinir, ekki satt, ha?
Við erum sko góðir vinir og vondir vinir, ekki satt?

Steinn (hvíslar):

-Það varð eitthvert djöfuls vesen út af þessari talstöð.

Gulli:

-Seldirðu hana?

Steinn:

-Nei ég þorði það ekki.
Ætli ég verði ekki að setja hana í sjóinn svo lítið beri á.

Gulli:

-Töluðu þeir við múttu kellinguna?

Steinn:

-Mamma vissi ekkert.
Ég ætla að fara héðan, Gulli, - fara svo enginn viti. Stinga af, Gulli. Þú segir engum fyrr en ég er farinn. Kem mér á stóran dall og fer út í heim. Ég ætla ekki að mygla hér í þessu krummaskuði allt mitt líf.


Gulli:

-Eru að meina þetta?
Er þér fúlasta ...?
Hvað heldurðu að gellurnar í pleisinu segi, maður - aðaltöffarasjarmörinn stunginn af, ha?
(hlær)
Ég fer þá kannski að hafa sjens, ha?


Steinn:

-Stelpurnar.
Það er alls staðar hægt að ná sér í belg.

Gulli:

-Þær falla allar kylliflatar fyrir þér.
Ef við værum ekki svona góðir vinir - eða erum við vondir vinir? - væri ég sko afbrýðisamur út í þig, drengdjöfull !

Steinn:

-Ha Ha Ha. Segir hver?
Engillinn, ha? Það er víst ekki þér að þakka að þú átt ekki krakka í hverju horni.

Gulli:

-Gellur passa sig.
Skál.
Heyrðu, Steinn. Af hverju þarftu aldrei að hafa neitt fyrir þessu?
Af hverju .... - heyrðu, - heldurðu að þú getir ekki bara lagt hverja sem er?


Steinn:

-Jújújújú. Þetta er ekkert mál, Gulli minn.
Þetta er bara spurningin um að kunna á þeim lagið.

Gulli:

-Viltu veðja?

Steinn:

-Veðja?

Gulli:

-Heldurðu að þú getir lagt hverja sem er?

Steinn:

-Jájájájá. Ekkert mál.

Gulli:

-Viltu veðja?

Steinn:

-Jájájájá. Ekkert mál.

Gulli:

-Ókei. Hverju viltu veðja?

Steinn:

-Við veðjum bara - - - einni viskí.
Það verður kveðjuskálin okkar, Gulli töff. Stútum einni áður en ég fer, - sting af. Helvítis hallærispleis.

Gulli:

-Ég má velja hana.

Steinn:

-Ja, sko ekki prestfrúna og svoleiðis neitt, sko.

Gulli:

-Neineineinei. Bara pæju.
Þú færð viskí.
Ekkert mál, sagðirðu.

Steinn:

-Eina viskí.

Gulli:

-Látum okkur nú sjá.
Gefmér meira.

Steinn:

-Ertu eitthvað lengi að hugsa, maður. Úrvalið er nú ekki svo ofboðslega mikið.
Gulli að hugsa, maður !

Gulli:

-Kolgrímu. ---

 

(stríðnislegt glott færist yfir andlitið á Gulla; Steinn reynir að hlæja líka)

 

Steinn:

-Nei, Gulli. Kolgrímu!
Ertu vitlaus? Kolgrímu !
Hún er holgóma! - Hreyfihömluð, svona: vöv vöv vöv....
(Steinn blakar til höndum)
Nei, Gulli. Nú ertu að djóka. Ekkert svona sko.

Gulli:

-Ég mátti velja.
Við erum vinir. Veðmál. Ég redda flösku.

Steinn:

-Já, en sko, - þú lofaðir pæju.
Ertu svona vondur vinur, helvítið þitt.

 

Gulli:

-Stór brjóst, ha? Títa pínu lítið, pínu títu lítið?
Afmeyja einu sinni, ha? - annað er flöskur.

Steinn:

-Nei, ekki Kolgrímu, drengdjöfull.

Gulli:

-Þú veðjaðir.
Við svíkjum ekki hvor annan, þótt við svíkjum allt og alla, vinur.
Súptu á.
Hún er mjúk.
Stóra viskí, ha?
- -
Heyrðu, Steinn. Þú ætlar ekki að stinga af í alvöru, er það?

Steinn:

-Þú ert ómögulegur, Gulli. Ég kála þér.

(þeir stimpast hlæjandi)

Gulli:

-Hei. Það er Kolgríma en ekki ég sem þú átt að taka ....

 

 

 

 

2.

Það var rok þegar Steinn og Gulli sáu Kolgrímu niðri við bryggju nokkru seinna. Hún var á leið onúr Þorgrímshúsi inn í þorp með egg fyrir mömmu sína.

-Svaka bobbingar, maður, sagði Gulli, og skaust bak við næsta hús og hvarf, - - hlæjandi.

Steinn plataði Kolgrímu út í bát, bátinn sem hann var á um sumarið. Og hann hélt á eggjunum svo þau brotnuðu ekki, - - sagðist þurfa að tala aðeins við hana.

Það var rok og bátarnir rugguðu í höfninni. Landgangurinn var brattur því það var fjara. Og egg eru brothætt.

-Fallegar á þér flétturnar, Kolgríma, sagði Steinn þegar þau komu niður í lúkar.

En Kolgríma vildi ekki láta rugla fléttunum.

Kringlóttur geisli kom inn um kýraugað og skoppaði til og frá á gólfinu eftir því sem báturinn ruggaði.

Kolgríma horfði hlæjandi á geislann:

-Sjáðu hvernig sólargeislinn sem kemur inn um gluggann hreyfist til og frá gólfinu þegar báturinn ruggar. Geislinn er kringlóttur.

-Sniðugt, sagði Steinn, áhugalaus um geisla.

-Hann dansar fram og aftur á gólfinu,
sjáðu Steinn, hann skoppar.
Ekki, Steinn. Þú ruglar fléttunum.
Ekki, EKKI. Mamma segir að maður megi ekki láta stráka kyssa sig
og gera svona fyrr en maður er giftur, sagði Kolgríma.

Steinn var í svolitlum vandræðum. Veðmál er veðmál; viskíflaska. Hann spurði Kolgrímu hvort henni fyndist þetta ekki dálítið gamaldags sjónarmið. Hvað hún héldi að gerðist eiginlega þótt hún ...

-Þegar ég er trúlofuð, kyssi ég kannski, sagði Kolgríma. -Má það ekki alveg?

Og Steinn hélt það nú: -Þá má sko alveg gera það, sagði hann.
Og Steinn fékk góða hugmynd:

-Ertu nokkuð trúlofuð, Kolgríma?

-Nei, svaraði hún.

-Ertu viss?

-Já. Alveg viss.

-Ég ætla nefnilega að biðja þig að trúlofast mér, Kolgríma, ha?
Þú og ég leynilega trúlofuð? Þú segir engum, ha?
Þetta verður alveg leyndarmál.
Við þekkjumst nú svo vel. Við vorum alltaf í sama bekk í skólanum.
Ætlarðu kannski bara að pipra, ha?

-Já, en, ef þú gefur mér hring, þá sjá allir, sagði Kolgríma.

-Hring?

-Já, svona trúlofunarhring.

-Já. Þá gef ég þér bara eitthvað annað. Þá fattar enginn.
Finndu hvað þetta er gott. Við erum trúlofuð, Kolgríma.
Nú má alveg. Vertu bara róleg. Finndu hvað þetta er gott.

Kolgríma var pínulítið hrædd.

Kolgríma æpti pínulítið. Þetta var ekkert gott. Þetta var vont.

Steinn hélt fyrir munninn á henni og hvíslaði í eyrað á henni:
-Róleg, bara róleg.
Þetta er allt í lagi, Kolgríma.
Við erum trúlofuð.

 

 

 

 

3.

Hún Kolgríma varðveitti leyndarmálið vel. Leynilega trúlofuð. Hún var heitbundin. Fallegt orð: Heitbundin.

 

 

Mánuðir liðu.

Hún Kolgríma skildi vel að nú var hún að verða mamma. Hún vissi vel hvernig börn verða til. Hún fann barnið sparka.

Kolgríma eignaðist son.

Hún varð að segja hver var faðir barnsins. Hún vissi ekki alveg hvort það var leyndarmál líka. Hún gat engan spurt. Steinn var farinn burt. Hvert, vissi enginn.

Dúa, móðir Steins, var Kolgrímu góð. Hún þekkti þennan son sinn og efaðist ekki um að Kolgríma segði satt.

 

En Þorgrímur, faðir Kolgrímu, varð æfur af reiði, því Jóhann, pabbi Steins, var hans svæsnasti, svæsnasti óvinur, og "undan honum gat ekkert gott komið".

Kolgríma bað föður sinn að leyfa að barnið yrði látið heita Þorgrímur.

-Aldrei!, öskraði Þorgrímur. -Lausaleikskrói.
Auk þess verður afkomandi Jóhanns svarta ekki heitinn í höfuðið á mér.
Aldrei, að mér heilum og lifandi.

Móðir Kolgrímu reyndi að stilla Þorgrím:

-Svona nú, Grímur. Deilur ykkar Jóhanns heyra fortíðinni til.
Þær koma þessu máli ekki við.

-Það getur verið, sagði Kolgríma, -að Steinn vilji að hann heiti Jóhann
eins og pabbi hans, í höfuðið á hinum afa sínum.

-Þá getur þú haft þennan krakkaorm annars staðar en í mínum húsum,
svaraði Þorgrímur. -Það Jóhannsnafn kemur ekki í mitt hús.
Þú ætlast kannski til að ég sjái fyrir þessum króa þínum, Kolgríma?
Þú hefur aldrei orðið okkur til annars en ama ....

-Svona, svona, Grímur, sagði móðir Kolgrímu. -Grímur !....

-Betur að þú hefðir aldrei fæðst, hvæsti hann....

Þau tala bæði í einu.

-Þorgrímur. Stilltu þig, maður....

-Þú hefur saurgað nafn móður minnar, Kolgríma.
Lausaleikskrói!
Sveiattan.

Móðir Kolgrímu var orðin hvöss: -Þorgrímur !

 

-Ég get kannski fengið vinnu í bankaútibúinu, sagði Kolgríma.
-Ég er svo dugleg í reikningi.

-Þú færð enga vinnu. Ég sé fyrir mínu heimili, hreytti Þorgrímur út úr sér.

-Þá, sagði Kolgríma, -þá ætla ég að láta hann heita
eftir kettinum mínum sem strákarnir drápu.
Hann var svo góður. Hann var alltaf svo góður.

-Kolgríma mín, sagði móðir hennar,
-maður skírir ekki barn eftir löngu dauðum ketti.
Hét hann ekki Kausi?

-Hann hét Brandur Kausi, mamma.
Brandur þýðir líka beittasti hluti sverðs.
Brandur Kausi Steinsson
, sagði Kolgríma dreymin.
-Já, sagði hún stolt: -Brandur Kausi Steinsson.

-Bara Brandur, Kolgríma mín.

-Brandur Steinsson, sagði Kolgríma.
-Já. Ég er viss um að Steini líkar það vel
þegar hann kemur heim.

Hamingja skein úr brosi augna hennar.

-Hvað ætli hann komi. Það er líka þessu plássi fyrir bestu
að vera laust við þann vesaling fyrir fullt og allt.
Hann sést hér vonandi aldrei aftur.
Þessir djöfuls amlóðar, skilja eftir sig lausaleikskróa
og stinga svo af.
Það var vart von að hann yrði föðurbetrungur;
sami skíturinn og helvítis kallinn...

-Þorgrímur, sagði móðir Kolgrímu. -Nú er nóg komið !

 

Kolgríma fór með barnið og gaf því að sjúga.

Það er fátt sem getur komið henni úr jafnvægi.

Kolgríma átti nefnilega leyndarmál:

-Brandur. Brandur litli sonur okkar.
Brandur Steinsson.
Ég veit að pabba þínum líkar það vel
þegar hann kemur heim, - þegar Steinn kemur
að sjá strákinn sinn.
Þá get ég sagt þér leyndarmálið okkar Steins.
Þú ert ekki lausaleikskrói.
Þau mega bara ekki vita leyndarmálið fyrr en Steinn kemur.
Sjúgðu nú brjóst svo þú verðir stór og fallegur strákur
þegar pabbi þinn kemur heim.
Þá verður hann kátur að sjá strákinn sinn.
Nú er hann kannski að vakna á stóra skipinu.

Mamma hans Steins, hún amma Dúa, sagði mér
að hann væri líklega á stóru skipi einhvers staðar
langt úti á hafinu stóra.
Kringlóttur geisli skoppar kannski inn um kýraugað
og hoppar á káetugólfið. Hann hreyfist fram og til baka.
Og geisladans af smáum öldum merlar á káetuloftinu.

Hvað skyldi klukkan vera þar?
Nei, á sjó er ekki klukka, ekki dagar, bara vaktir.
Ræs, ræs, ræs.
Í vélarrúminu bíða þín smurkoppar, olíustútar, smurkoppar.
Enginn kringlóttur geisli hoppar á gólfið niðri í vélarrúmi.
Geðvondur vélstjóri á vakt.
Úti mun hnöttótt sólin skoppa á hafinu, - kannski haustrauð sól?
Hafflöturinn verður svo sléttur að skipið veit ekki
hvort það siglir á hafinu eða himninum,
og sólinni er alveg sama um alla smurkoppa.

Pabbi þinn og ég eigum leyndarmál. Brandur litli, sonur minn.
Þú ert svo lítill að þú skilur ekki. Ég má engum segja.
Ekki fyrr en seinna, þegar Steinn kemur heim til okkar.
Þú verður að vera duglegur að sjúga, svo þú verðir stór og
fallegur eins og hann. Hann er svo fallegur, - Steinn er svo fallegur.

Heitbundin.

Heitbundin.

Leyndarmál.

 

 

 

 

 

4.

Kolgríma talaði mikið við barnið sitt. Það var betra að tala við barnið en fólk. Það var gott að tala við barnið. Hún gat sagt það sem hún hugsaði. Það var þægilegra en að tala við fólk.

 

Árin liðu. Brandur þroskaðist mjög vel. Hann var skýr eftir aldri. En hann lék sér ekki við aðra krakka. Það voru ekki börn þarna í kring. Ekki nema inni í þorpi.

Kolgríma sagði Brandi litla sögur. Hún bjó til margar sögur handa honum þegar hann fór að stækka:

 

Brandur:

-Þú ætlaðir að segja mér sögu, mamma,
ef ég yrði fljótur að hátta.
Af hverju drápu ljótu strákarnir köttinn þinn
sem hét Brandur Kausi,
þegar þú varst lítil, mamma?

Kolgríma:

-Þeir héldu að hann hefði drepið dúfu sem þeir áttu.
Það var ekki satt! Brandur Kausi var inni alla nóttina.
Hann var orðinn gamall.
Hann svaf á koddanum mínum alla nóttina.
Það var einhver annar köttur sem drap dúfuna.
Þeir rotuðu köttinn minn með grjóti.
Kolgríma verður döpur við þessar hugsanir.
Hann lá dáinn úti í kálgarði, blóðugur um munninn.
Ég jarðaði hann.
Hann var alltaf svo góður.
Kolgríma varð þögul.

 

Brandur:

-Mamma.
Mamma. Þú ætlaðir að segja mér sögu.
Mamma.

Kolgríma:

-Ha? Já. Ég er að fara að búa hana til.
Hún er um - ryksugu. Já. Ryksugu, sem er svo hryllilega orðljót:
Ryksugan fer inn í stofu, fínustofu, stássstofu,
þar sem fínu húsgögnin eru og fína stofuteppið.
-Góðan dag, segir ryksugan með hávaða og syngur á fullu:
Ryksugan á fullu
étur alla drullu
lalalala rallalala
ralla la la.
Postulínsplattinn sem hangir uppi á vegg er alveg hneykslaður.
-Jæja, segir ryksugan. -Alltaf sama lognmollan hér.
Hvað hefur til dæmis gerst síðan á laugardaginn var hér hjá ykkur.
Fínu húsgögnin settu upp ofsalega virðulegan svip,
og silkipúðarnir þóttust ekki heyra.
-Já, vissi ég ekki, sagði ryksugan; ekkert.
Jú, einn maður kom í heimsókn, fór úr skónum
svo fína teppið skítnaði ekki einu sinni út,
þáði vindil, en kveikti ekki í honum,
svo fínu öskubakkarnir skítnuðu heldur ekki út.
Það var þá viðburður. Nei. Þetta kalla ég fjandans tilbreytingarleysi.
Fínu húsgögnin urðu pínulítið móðguð,
en postulínsplattinn fylltist fyrirlitningu:
Ryksuga, - vinnur eintóm skítverk, - talar auk þess ósiðsamlegt mál,
þykist vera að setja ofan í við þau, fínasta fíneríið,
raunar of fínt til að vera notað.
Hún heldur þó ekki að nokkur maður vaði inn á svona teppi á skónum.
En postulínsplattinn var of vel upp alinn til að segja það sem hann hugsaði.
-Það er fína veðrið, sagði borðið tilgerðarlega.
-Það er dálítill hávaði í þér, fröken ryksuga, bætti það við.
-Gættu þess, ef þú vildir gera svo vel, að rekast ekki í fætur mér,
þótt þú hafir mikið að gera. Segirðu nokkuð í fréttum?
-Það brotnaði glas í eldhúsinu í morgun, sagði ryksugan.
-Það var eldhúsglas. Eldhúsglös hafa sko mikið að gera, skal ég segja ykkur.
Alltaf í notkun.Þau eru ekki bara uppstilling til augnayndis,
heldur eru þau alltaf að vinna.
Palli litli var að drekka sjálfur í morgun,
eða réttara sagt ætlaði að fara að fá sér sjálfur,
prílaði upp á stól,
náði í glas,
en litlu puttarnir voru of litlir og púmm -- glasið í gólfið.
Allt í mél, maður.
Svo heyrðist dingaling í rörinu á mér og dongalong í barkanum á mér
þegar jarðneskar leifar þessa dygga glass hringluðust í pokann í mér.
Svo heyrðist aftur dingaling og dongalong,
þegar pokinn minn var tæmdur í öskutunnuna.
Ryksugan hlær: Ja, ef þið vissuð hvað gerðist þegar ég fór út í öskutunnu!
Svaka fjör, maður....
Fínu húsgögnin sýndu engin svipbrigði. Gátu þau verið þekkt fyrir
að vera spennt í öskutunnusögum? Nei. Þau þóttust ekki
hafa áhuga fyrir öskutunnusögum.
Ryksugan syngur á fullu:
Ryksugan á fullu, étur alla drullu,
trallalala trallalala tralla la la.
-Þið hefðuð bara átt að sjá það, maður, bætir hún við.
Nú var teppið orðið svolítið forvitið,
en það vildi ekki láta fínu húsgögnin sjá
að það hefði áhuga á að heyra ryksugu segja öskutunnusögur.
-Hah ha hæ ! segir ryksugan. Það var nú meira bíóið, maður.
Ég hélt ég yrði ekki eldri!
Og ryksugan hamaðist á teppinu í gríð og erg.
Það kitlaði og þótti bara gaman að láta ryksuga sig,
en lét ekkert á því bera.
(Annars var þetta notalegt eins og að láta þvo sér bakið í baði.)
Það gerist ekki svo margt í fínum stássstofum.
Það eina sem raunverulega gerist er að þessi hressa ryksuga
kemur að þrífa rykið, sem gæti hafa safnast,
en það er venjulega þrifið áður en það kemur.
-Jæja, segir ryksugan. -Fyrst þið hafið engan áhuga á skemmtisögum,
er ég farin. Ég hef nóg að gera. Bless bless og veriðið hress.
Sí jú leider, alegeitor!
Svo brunaði hún fram og það var lokað inn í fínu stofu.
Þögnin og virðuleikinn réðu þar ríkjum á ný.
Fínu húsgögnin störðu fram fyrir sig með virðulega svipinn - á ekki neitt.

 

Brandur:

-Hvað ætlaði hún að segja þeim?

Kolgríma:

-Mér datt ekkert í hug.

Brandur (hlær):

-Gastu þá ekkert búið til söguna?

Kolgríma:

-Dettur þér eitthvað í hug?

Brandur (hugsar):

-Nei. Jú, til dæmis, að það hafi verið mús að éta epli í öskutunnunni svo hafi músin stokkið í burtu.

Kolgríma:

-En hvað er fyndið við það?

Brandur:

-Fyndið?

Kolgríma:

-Jæja, farðu nú að sofa.
Nú lesum við bænirnar.

Brandur:

-Hvað erum við að gera þegar við sofum og svo eru við að dreyma....

Kolgríma:

- er _okkur_ að dreyma.

Brandur:

-.. já, og þá förum við eitthvert og gerum eitthvað en samt liggjum við kyrr í rúminu?

Kolgríma:

-Svefninn - (hún hugsar) - er djúpt myrkur.

Þar búa draumarnir.
Þeir vaka á nóttunni, þegar aðrir sofa.
Þeir eru góðir
eða vondir
eins og mennirnir.

Brandur:

-En svona dagdraumar og svoleiðis, sem maður hugsar og maður langar....

Kolgríma:

-..._mann_ langar,

Brandur:

-...búa þeir líka í svona djúpu myrkri?
þá er maður með opin augun, mamma.

Kolgríma:

-Nei, sólin skín á dagdrauma.
Já. sólin skín á dagdrauma.
Þá brosa þeir.
(hún hlær)

Brandur:

-Kunna draumar að brosa?

Kolgríma:

-Kannski verða þeir dálítið feimnir.

Brandur:

-Er pabbi sofandi núna?

Kolgríma:

-Skipið hans siglir á sjónum,
sem er svo sléttur
að skýin og tunglið speglast í honum.
Maður veit ekki lengur hvað er haf
og hvað er himinn.

Brandur:

-Það er aldrei svona sléttur sjór langt úti á sjó.
Afi segir það. Það er alltaf bræla. Það segir afi.
Er pabbi sofandi núna?

Kolgríma:

-Eigum við að lesa bænirnar?

Brandur:

-Getum við talað við hann guð þótt við sjáum hann ekki?

Kolgríma:

-Við tölum við guð, - eða kannski tölum við bara við sjálf okkur ...
(
Brandur geispar)
....það skiptir kannski ekki máli ef við bara tölum í einlægni.

Brandur (syfjulegur):

-Hann hlýtur að hafa ofsalega mikið að gera þegar allir eru að fara að sofa.

 

 

 

 

5.

Þorgrímur afi talaði líka við Brand.

Þorgrímur:

-Jæja, Brandur kallinn, afastrákurinn.

Brandur:

-Heyrðu, afi, ....

Þorgrímur:

-Þú hefðir eiginlega átt að heita Þorgrímur eins og afi.

Brandur:

-....afi, fórst þú aldrei í skólann?

Þorgrímur:

-Grímsnafnið hefur alltaf verið í minni ætt.

Brandur:

-Fórst þú aldrei í skólann þegar þú varst lítill, afi?

Þorgrímur:

-Þorgrímur yngri .... Litli Grímur ...

Brandur:

-Afi !.

Þorgrímur:

-Skóla? Ég?
Til hvers, eiginlega? Djöfuls amlóðafúsk.
Ég hef komist bærilega af án einhverrar helvítis skólagöngu.
Komdu hingað afastrákur. Þú ert sko minn kall.
Þú hefðir eiginlega átt að heita Þorgrímur eins og afi. Eins og afi.

Brandur:

-Verður maður að fara í skólann?

Þorgrímur:

-Verður og verður. Skólar eru óþarfi.
Atvinnubótavinna fyrir letingja sem nenna ekki
að vinna ærlegt handtak.

Brandur:

-Fór pabbi í skólann?

Þorgrímur (hranalega):

-Þú átt engan pabba.
Þú þarft heldur engan pabba. Þú ert afastrákur.

Brandur:

-Víst á ég pabba. Mamma segir það.

Þorgrímur:

-Hvaða pabbi heldurðu að það sé,
sem veit ekki einu sinni að þú ert til?
Andskotans ómenni, þessi drengdjöfull. Sver sig í ættina.
Hvernig gat líka annað komið undan Jóhanni svarta?
Nei, þú þarft sko ekkert að fara í skóla, drengur.

Brandur:

-Ég fer þá bara á sjóinn......

Þorgrímur:

-Já, nú líkar mér við minn karl.

Brandur:

-.... eins og pabbi.

Þorgrímur:

-Þú átt engan pabba, drengur. Þetta er drabbari.
Þú ferð á sjóinn eins og afi, eins og ég gerði þegar ég var ungur;
ferð á sjóinn eins og afi Grímur.
Þá hafði maður nú krafta í kögglum, drengur minn.
Jahá. Takast á við þann gula, drengur minn.
Það er nú karlmönnum sæmandi,
- ekki eitthvert djöfuls bókadrasl, fussogsvei.

 

 

 

 

6.

Það var þetta með skólann.

Brandur átti auðvitað að fara í skólann eins og lög gera ráð fyrir.

Hann varð fyrir aðkasti í skólanum. Krakkarnir stríddu honum með því, að hann ætti engan pabba; þau stríddu honum með því, að mamma hans væri skrýtin, væri aumingi, og þau hermdu eftir göngulagi hennar. En verst af öllu var, að heima hjá Brandi var ekkert sjónvarp: Allir sáu Tomma og Jenna og Hi-Man nema Brandur. Allir fengu að horfa á einhverja þætti, svona fullorðinsþætti, nema Brandur. Hvernig gat hann verið samræðuhæfur í hópi stráka sem sáu þætti?

 

Á hverjum degi fór Brandur að heiman nógu snemma til að komast í skólann á réttum tíma; það var drjúgur gangur niður í þorp ofan úr Þorgrímshúsi.

En Brandur fór ekki í skólann. Hann fór til ömmuDúu, og las gömlu Tarzanblöðin sem Steinn hafði átt þegar hann var lítill. AmmaDúa hélt að Brandur væri að koma úr skólanum, og gaf honum eitthvað gott í svanginn.

 

 

 

Guðrún á Félagsmálastofnun fékk þetta mál til meðferðar:

Móðir drengsins, Kolgríma Þorgrímsdóttir, einstæð móðir, holgóma, hreyfihömluð, sumir álíta hana óhæfan uppalanda; býr hjá foreldrum sínum.

Faðir hennar öryrki, slasaðist á sjó.

 

Guðrún á Félagsmálastofnun reyndi að fá sem mestar upplýsingar um þetta heimili. Hún talaði meira að segja við fröken Önnu, kennslukonu, sem kennt hafði Kolgrímu þegar hún var lítil. Það er kosturinn og gallinn við þessi litlu pláss að allir þekkja alla. Svosem auðvelt að fá upplýsingar:

-Hún var ekki illa gefin.
Hún var eiginlega það sem maður kallar
sérsviðagreind,
sagði gamli kennarinn.
-Henni var strítt, en ég veit ekki hvort hún tók það nærri sér.
Hún virtist ekki vera neitt feimin þrátt fyrir þessa fötlun sína.
Krakkarnir hlógu oft að því sem datt upp úr henni:
Einu sinni var ég að tala við þau um eiginleika íslensku ullarinnar.
---Ég verð að taka það fram að Kolgríma var með þykkar fléttur;
hún var eina telpan sem ekki fékk að klippa sig.
Allar stelpur voru komnar með stutt hár, nýjasta tíska,
en pabbi Kolgrímu bannaði henni að klippa sig,
-- stúlkur eiga að hafa sítt hár--, sagði hann. ---
Já.
Ég var að tala við krakkana um eiginleika íslensku ullarinnar.
Ég sagði þeim að ullin hlypi í heitu vatni og þófnaði við núning.
Fröken Anna, sagði Kolgríma, getur lifandi hár líka hlaupið?
Krakkarnir fóru auðvitað að skellihlæja.
Strákarnir spurðu hana í marga daga á eftir
hvort hún þvæði sér nokkurn tíma um hausinn
(eins og þeir orðuðu það), hárið gæti þófnað.
Æ, hún rak sig alls staðar á vegg, hún Kolgríma litla.
Það var eins og hún væri hætt að ætlast til nokkurs af umheiminum.
En hún var dugleg að læra, sílesandi allt mögulegt,
síspyrjandi um furðulegustu hluti.
En það var eins og enginn kynni að meta það sem skyldi,
bara af því að það var hún sem sagði það. Það sannaðist víst
hið fornkveðna: það skart er á einum sem skömm er á öðrum.
Ég held að foreldrar hennar hafi fyrirvarið sig fyrir hana.
Þau bókstaflega földu hana.
Furðulegt að svona skuli geta gerst nú á tímum.
En svona var það nú samt.
Þorgrímur, faðir hennar, ætlaði ekki að senda hana í skóla,
-- hann er mjög skapstirður og orðhvatur maður --.
Já,
og svo var annað,
bætti kennslukonan við eftir nokkra umhugsun:
-Hún orti ljóð.
Og hún samdi litlar sögur, sérkennilegar sögur.
Það var eitthvað við þær.

Fröken Anna stóð upp. Hún mundi allt í einu eftir að einhvers staðar átti hún litla sögu sem Kolgríma hafði gefið henni, þegar hún var í bekknum hennar:

 

BLINDI DRENGURINN

Hörund drengsins var hvítt, svo hvítt. Augun voru dökk. Blá? eða brún? Ég veit það ekki. Þau voru bara dökk. Hvernig skyldi það vera að horfa á sjálfan sig í spegli, hugsaði blindi drengurinn; horfa á sjálfan sig hreyfa sig? Spegillinn er harður, sléttur. Ég snerti spegilinn. Þá kemur höndin í speglinum á móti og þær snertast. Það er ekki hlý hönd, heldur köld hönd, hugsaði blindi drengurinn. Svo teygði hann höndina upp. Hún átti að vera blóm sem sér sólina, opnar krónuna og fær hlýju frá sólargeislanum. Sólin er hlý. Blindi drengurinn leitaði eftir flautunni sinni. Hann hafði einu sinni búið til lag um blóm og um sólargeisla. Hann hugsaði um hestinn sem hann snerti einu sinni. Svo styggðist hesturinn, varð stinnur, harður, og hljóp burt. Hann heyrði hestinn hlaupa. Hestur er stór, harður, en þó mjúkur, heitur, með fax, og hann hefur augu, og andar, og það er hestalykt af honum. Svo hleypur hesturinn. Og blindi drengurinn vildi hlaupa, hlaupa eins og hestur. Lítil blóm deyja þegar frostið kemur, en hesturinn getur hlaupið í frostinu, heitur, mjúkur hestur í köldum mjúkum snjó.

Blindi drengurinn spilaði á flautuna sína lag um snjóinn og dána blómið, en hann gat ekki búið til lag um hest.

 

 

 

Guðrún á Félagsmálastofnun ákvað að senda tilsjónarmann til Brands litla. Fyrir valinu varð Sófus, hress piltur sem ætlar í félagsfræði, ekur um á mótorhjóli, og er líklegur til að láta afann Þorgrím ekki kveða sig í kútinn í fyrstu lotu.

 

 

 

7.

Sófus fann húsið eftir lýsingunni: lítið, hvítt með rauðu þaki, afskekkt, aðeins ofan við þorpið, eina húsið sem ekkert sjónvarpsloftnet er á.

 

Kolgríma kemur til dyra. Hún er gædd furðanlegri ró. Kannski er það bara skel, til að verjast köldum hlátri lífsins?

Sófus á dálítið erfitt með að skilja hana til að byrja með; þá talar hún bara hægar.

-Taktu af þér.
Ég vissi að þú ætlaðir að koma,
af því að Brandur skrópar.
Það er skrýtið, að hann skuli skrópa í skólanum.
Það er svo gaman í skólanum.

Sófus lætur hjálminn sinn á gólfið í forstofunni, lykilinn af hjólinu inn í hjálminn.


-Hefur Brandur sagt þér eitthvað úr skólanum?,
spyr Sófus, þegar þau eru sest inn í kamesið hennar Kolgrímu.

-Nei, hann sagði bara,
-- ég spurði hann hvort það væri ekki gaman í skólanum --
hann sagði bara
að það kæmi eitthvað stórt upp úr skólanum
þegar hann kæmi labbandi -
og það færi inn í höfuðið á sér og í hálsinn -
hann sæi það ekki samt -
og í brjóstið á sér og væri þar,
allt svona þungt og skrýtið og ljótt, -
og þegar krakkarnir í skólanum töluðu við hann
þá hoppaði það inni í sér
og það væri vont, sagði hann.
Svo, segir hann, að það hoppi út
þegar hann fer úr skólanum,
og þá líði honum betur.

Kolgríma þagnar aðeins.

-Má bjóða þér kaffi?

-Nei, takk. Var að fá mér kók.

Það verður aðeins þögn. Sófus er að velta því fyrir sér, hvort Kolgríma ætli að segja eitthvað meira. --

-Kannski, segir hún, --
-kannski búum við til of mikið af sögum.

-Sögum? Hver býr til sögur?
Þið mæðginin?

-Já. Við búum stundum til sögur á kvöldin.

-Hvernig sögur? Svona um eitthvað stórt og þungt
sem kemur upp úr skólum?
, segir Sófus og brosir.

-Nei. Ekki bullusögur.
Bara litlar sögur
(hún hikar) -
svona um eitthvað sem mér dettur í hug.
- - Svo skrifa ég þær.

-Skrifarðu þær?

-Það er bara svo skrýtið,
að þær eru allt öðru vísi,
þegar ég er búin að skrifa þær á blöð.

-Já, þessu trúi ég.

Eh, má ég, Kolgríma, má ég sjá þær?

-Kannski ætla ég að sýna einhverjum þær seinna.
Kannski þegar ég gifti mig.

Sófus bíður. Horfir blíðlega á Kolgrímu.

 

Hún stendur upp. Í gömlum kistli eru litlar sögur skrifaðar í stílabók.

-Þessi heitir Jedúdda mía.

Kolgríma verður örlítið feimin við sögurnar sínar. Hún veit að sumir hlæja að sumu, sem henni finnst ekki hlægilegt.

-Það er geðvond kartafla,
útsæðiskartafla,
sem er að segja frá;
hún er alltaf að nöldra.
Æ, Brandi finnst þetta fyndið,
segir hún afsakandi:

 

 

JEDÚDDA MÍA

-Á maður að skorpna hérna?
Getur kerlingin ekki farið að setja niður?
Ég geri nú ráð fyrir að vorsólin sé farin að skína.
A.m.k. eru flugurnar vaknaðar.
Það eina sem minnir mann á vor,
er fluga í grútskítugum kjallarageymsluglugga. --

Kolgríma hættir við lesturinn og segir, svona svolítið kæruleysislega:

-Hún er alltaf í fýlu, sko.
Sagðist frekar vilja vera kartöflustappa er útsæði.

-Leyfðu mér að heyra meira, Kolgríma.
Mér þykir þetta skemmtilegt.

--Jedúdda mía! Hræðilegt þolinmæðiverk að vera útsæði.
Kerlingin opnar.
Sólargeisli flæðir inn á gólf.
Jedúdda mía. Maður er bara látinn fá ofbirtu í augun.
Það er ekki verið að taka tillit til þess
að kartöflur geta ekki lokað augunum,
þegar svona óvænt ofbirta skellur inn. --

-- Æ, Brandi finnst þetta fyndið, bætir Kolgríma inn í.

-Þessi fýlupúkakartafla er líka í fýlu
þegar hún er komin í kalda, raka moldina,
svo þegar sólin skín og þurrkar moldina. S
vo kvartar hún yfir að eiga svona marga kartöfluunga
sem hún þarf að næra.

-Þetta er sniðug saga, Kolgríma.
Gaman að þú skulir skrifa þær niður.
Þú hefur fallega hönd.

-Ég hef allt of stórar hendur.

-Ég meina rithönd. Skrifar vel.

Kolgríma brosir.

-Hér er ein, segir Sófus, -sem heitir: diskurinn.
Má ég?

 

 

DISKURINN

-Hann var úr fína stellinu.
Hann var eiginlega alltaf geymdur inni í skáp í stofunni í stafla.
Svo brotnaði einu sinni fína stellið. Bræður hans fóru í mél.
Hann varð bara skörðóttur, svo hann varð kattardiskur.
Hann kunni vel við að vera kattardiskur.
Þessi kisa hét Branda Baugalín, hvít og mjúk og hreinleg.
Hún sleikti diskinn alltaf svo vel. Það þótti honum gott.
Það komu svo einu sinni vondir strákar og hentu í hana grjóti,
meiddu hana ofsalega mikið og hún varð ofsalega hrædd. Og hún dó.
Þá hafði diskurinn engan að tala við.
Hann var bara settur í ruslið.

Það verður þögn. Nokkuð löng þögn.

-Svo, segir Kolgríma, - -svo búum við líka til svona ljóð, stundum.

-Hvernig ljóð?

-Það er kannski svolítið asnalegt. (hún hikar)

 

Svefninn er djúpt myrkur
(
hún byrjar feimnislega)
þar búa draumarnir.
Þeir vaka á nóttinni
þegar aðrir sofa.
(
Kolgríma sækir í sig veðrið)
Þeir eru góðir
eða vondir
eins og mennirnir
Býr dagdraumurinn líka í djúpu myrkri
þar sem sólin nær aldrei að skína?
Ef sólin nær að skína á hann
brosir hann þá?
Eða verður hann feiminn?

 

-Þetta er fallegt, Kolgríma.
Átt þú dagdrauma?

-Nei, ég á leyndarmál, svarar Kolgríma ákveðin.

-Er það fallegt leyndarmál?

-Jáh.

Sófus hafði búist við allt annars konar óhæfum uppalanda, -- eins og það heitir í skýrslunni

Kolgríma, sem þekkir heiminn af ýmsu öðru en umburðarlyndi, er ekki lengur bak við skelina sína. Hún sýnir Sófusi sögurnar sínar:

 

 

STEINN

Það var einu sinni steinn, sem hlustaði á vatnið renna. Þetta var ekki rosastór steinn, ekki klettur, bara venjulegur stór steinn.
Kannski var það hljóð vatnsins, lækjarniðurinn, sem gerði hann svona fallegan.
Við steininn átti lítil stúlka bú. Þar hafði hún gamalt vaskafat, hankalausan bolla og fleira, og drullumallaði kökur, skreytti þær með sóleyjablöðum og notaði lambaspörð fyrir rúsínur. Það var að vísu enginn til að borða þessar kökur, en þær voru samt bakaðar. Sólin sá um baksturinn.
Í steininum, þessum stóra steini, var sylla, eða leynihólf, sem enginn vissi um nema litla stúlkan sem átti búið. Þar geymdi hún dálítið, sem enginn vissi um nema álfarnir. Þeir gleymdu stundum að láta á sig huliðshjálminn, álfarnir, - eða var þeim alveg sama þótt litla stúlkan sæi þá?
Hún sat oft og lengi hjá stóra steininum, hlustaði á vatnið, hugsaði um leyndarmálið.
Svo flutti litla stúlkan í bæinn.
Það var ekki hægt að drullumalla þar, því hún fann engar sóleyjar, og strákarnir skemmdu allar kökurnar.

Þegar litla stúlkan var orðin stór, gifti hún sig.
Maðurinn hennar byggði hús, reglulega fallegt hús, og það var garður við húsið.
Þegar hún átti einu sinni afmæli, spurði maðurinn hennar hana, hvað hana langaði mest af öllu í.
Hún hugsaði lengi. Svo var hún alveg viss: Stóran fallegan stein, sagði hún, sem er hjá litlum læk uppi í sveit. Það væri svo fallegt að láta hann í garðinn, - þarna hjá sóleyjunum.
Það skulum við gera, ástin mín, sagði hann. Ég fæ kranabíl og vörubíl og við sækjum þennan stein.
Þau töluðu við bóndann: Já já, sagði hann, hér er allt of mikið af grjóti. Þið megið taka það allt saman.
Það er voða dýrt að flytja stóran stein, en hún hlakkaði til að fá afmælisgjöfina sína.
Þau settu steininn svo í garðinn á fallegan stað. Hún stóð lengi of horfði á hann, steininn sinn. Það var eins og hann hefði breyttst eitthvað. Það var eins og það vantaði eitthvað. Lækjarniðinn?
Hún vissi það ekki.
Hún þakkaði manninum sínum fyrir. Öllum fannst garðurinn ofsalega fallegur með þessum sérkennilega steini.
Það er svo margt sem breytist þegar við hugsum um það lengi.
Hún snerti með hendinni sylluna, þar sem leyndarmálið hennar hafði verið fyrir löngu löngu. Það var þar auðvitað ekki lengur. Krummi, eða frostið og snjórinn voru löngu búin að taka það. Ekki voru það álfarnir, því þeir eru víst ekki til.
Hvað var það sem hafði gert steininn svona fallegan í huga hennar? Var það lækurinn, vatnið, eða var það tíminn? Tíminn eða vatnið, sem hafði breytt öllu?

 

 

Þorgrímur kemur inn. Hann hvessir skröpp augun á Sófus:

-Hvur ert þú?, spyr hann.

-Þetta er Sófus, pabbi, sem átti að koma, segir Kolgríma.

Þorgrímur rymur:

-Hvað eruð þið að kássast í einkamál manna? Ha?
Djöfulinn kemur ykkur við hvernig við höfum það?
Snautaðu héðan út, amlóðinn þinn.

-Nú? Það var verið að bjóða mér inn.

-Og bara með kjaft, ha? segir Þorgrímur.
Það væri nær að láta ykkur vinna, þessa andskota,
frussar Þorgrímur út úr sér,
-gera ærlegt handtak, þessar heybrækur,
landkrabbableyður.

Sófus hafði verið varaður við að Þorgrímur yrði ekkert lamb að leika við. Sófus var svo heppinn að hafa verið á sjó, svo smá orðbragð af þessu tagi kom honum ekkert á óvart.

-Hvern andskotann þykist þú til dæmis vinna? Ha?

-Ég hef verið háseti, svarar Sófus.

-Núh. Háseti?
(Nú var dálítið erfitt fyrir Þorgrím að finna eitthvað til að gera lítið úr Sófusi með)
-Á farskipi, náttúrulega?

-Á togara, svarar Sófus, og hann flýtir sér að halda áfram:
-en þetta hefur nú sennilega verið erfiðara
þegar þú stóðst í þessu, Þorgrímur.
Þú og þínir líkar sem tókust á við hætturnar.

Þorgrímur rymur:

-Þið þurfið ekkert að gera annan en éta og sofa á sjónum nú orðið.

-Og allir á kauptryggingu, allar siglingagræjur.
Það hafa víst ekki verið vatnsgallarnir í pusinu í gamla daga?

Sófus gerir sér grein fyrir að tilsjónarmaður verður að hafa lag á fólki. Þar kemur að þeir setjast inn í stofu og Sófus fær Þorgrím til að segja sér gamlar sögur af sjónum:

-..... Það var helvítis bræla, - það hljóp alltaf
í skapið á formanninum okkar
þegar við lentum í brælu ...

....

 

 

Brandur skellir upp útidyrahurðinni og kallar inn:

-Mamma !
Mamma,
hver á þetta mótorhjól fyrir utan hjá okkur?
Vá, en flottur hjálmur!
Hver á þetta, maður?

-Hann heitir Sófus, Brandur minn.
Hann er að heimsækja þig.

-Mig?

 

Hrossahlátur Þorgríms heyrist innan úr stofu:
- ...... drekka spírann af kompásnum
og sigla svo áttavitalausir í land í hríðinni.

Sófus hlær líka:

-Stórkostleg saga, hvort sem hún er sönn eða login.

-Login auðvitað, segir Þorgrímur, og hlær ógurlega.

 

Brandur æðir inn í stofu:

-Átt þú Honduna?

-Já, svarar Sófus, -sástu hana?
500 kúbik.

-Vá.

-Ég er eiginlega að heimsækja þig.
Veistu það?
Hefurðu komið á mótorhjól?

-Nei.

-Værirðu til í smátúr á morgun,
þegar þú ert búinn í skólanum?
Aftan á hjá mér?
Eða ég keyri þig bara í skólann?
Þetta er svo langt að fara inn í þorp.

Brandur svarar ekki.

Sófus heldur áfram:

-Það held ég að verði nú upplit á lýðnum, drengur,
ef þú mætir á svæðið á mótorhjóli.
Ég kom með aukahjálm handa þér.
Hvað segirðu? .....
.... Iss við getum ákveðið þetta í fyrramálið.
Nógur tími.
Afi þinn var að segja mér eina rosalega sögu af sjónum.
Það var venjan að skamma kokkinn, ef illa gekk.
Ef menn voru í fýlu, sjómennirnir,
þá var rifist yfir hve maturinn væri vondur,
- - jafnvel þótt maturinn væri góður.

Það er enn verið að hnýta í kokkinn. Þorgrímur.
Þetta ætlar að loða við.
Að vísu ekki svona mergjað eins og þú varst að segja mér.

Veistu, Brandur, að það er oft verið að gera at í strákum
þegar þeir byrja á sjónum.
Þeir eru sendir upp í brú með vatn í könnu til að vökva kompásrósina.
Veistu hvað kompásrós er?
Það er munstrið á áttavitanum, gráðu- og strikaskiptingin, á áttavitanum
sem siglt er eftir svo skipstjórinn viti
í hvaða átt hann er að sigla, norður eða suður, austur eða vestur.
Svo eru þeir sendir aftur á dekk til að draga inn sjólínuna
og ofan í lest til að fóðra kjölsvínið.
Þú lætur nú ekki plata þig þegar þú byrjar á bátunum?

Já, þú athugar málið, - þetta með smátúr á hjólinu á morgun.

 

 

 

 

8.

Daginn eftir er ammaDúa að undrast hve lengi Brandur er í skólanum. Hún er að tala svona við sjálfa sig, eða hugsa upphátt, eins og það heitir:

-Nú, hvað er þetta? Klukkan bara að ganga fjögur
og Brandur litli ekki kominn úr skólanum.
Ætli hann komi ekki við hjá ömmuDúu í dag
eins og hann er vanur, blessaður kallinn.
Hann er vanur að koma bara klukkan eitt.

Útidyrahurðinni hjá Dúu er skellt upp með miklum gauragangi.

-Ekki getur þetta verið blessað barnið, segir hún.

Steinn kemur inn. Hann er slompaður:

-Hæ, momm! segir hann hátt.

Dúa verður orðlaus eitt andartak.

-Steinn?
Ert þú kominn?

-Já. Hæ.

-Jæja drengur minn, segir hún hljómlausri röddu.
-Svo þú ert kominn.

-Já. Ég er bara öskufullur.

-Æ, elsku besti ..

-Ég er ekki elsku besti neitt.
Ég er bara fullur.
Hvar er kallinn?

-Hann Jóhann, pabbi þinn er dáinn, Steinn.
Ég gat ekki látið þig vita,
segir Dúa ásakandi.
-Ég vissi ekki hvar þig var að finna
Hann dó í hittiðfyrra.
Hann féll niður stiga.

-O, var hann á'þí?

Ekkert svar.

-Það hlaut að koma að því, heldur Steinn áfram,
-að hann dræpi sig í fylliríi.

Dúa dæsir.

-Komdu of fáðu þér í svanginn, góði, segir hún.
-Þú hlýtur að vera þreyttur og svangur.
Hvenær komstu?
Komstu með skipi til Reykjavíkur?
Hvernig hefurðu haft það?
Segðu mér fréttir, Steinn.
Hvað ætlastu nú fyrir?

-Dallurinn fer annað kvöld, svarar Steinn.

-Og þú með?

-Já, ég er að fara aftur. Fer á puttanum suður í kvöld.

 

Brandur bankar, opnar útidyrnar, kallar framan úr forstofu og er mikið niðri fyrir:

-AmmaDúa! AmmaDúa! Ég fór á mótorhjóli í skólann!

-Hvað ertu að segja? segir Dúa.
-Á mótorhjóli?
Þú kemur seint í dag, Brandur minn.
Varstu svona lengi í skólanum í dag?

Hún ávarpar Stein:

-Steinn þetta er Brandur,
sonur hennar Kolgrímu.

Brandur starir á manninn sem situr þarna heima hjá ömmuDúu. Steinn; amma sagði Steinn.

-Ert þú, segir Brandur, -ert þú Steinn?
Ert þú pabbi minn?
Ertu með svona skegg?
Mamma sagði mér það ekki.

Það verður þögn.

Dúa horfir ásakandi á son sinn.

Steinn áttar sig ekki.

Brandur heldur áfram:

-Mamma á leyndarmál sem hún segir engum.
Er það að þú ert með svona skegg?
Pabbi varstu á stóru skipi?
Ha?
Varstu á stóru skipi?

Steinn fær málið og stamar:
-Ha?
Ég?
Stóru?
Já,
ég er á stóru skipi.

-Mamma sagði að þú kæmir
þegar þú værir búinn að vera á sjónum.
Nú sé ég þig.
Þú ert ekki með skegg á myndinni sem ammaDúa á.


-Steinn
, segir Dúa,
-drengurinn er alveg eins og þú varst á þessum aldri.
Við höfum aldrei getað vitað hvar þú varst, Steinn,
aldrei getað skrifað þér.

Steinn hálfhlær:

-Æ, mamma, mamma. Pabbi kallinn dauður,
og ég vissi ekki .... Ég var búinn að gleyma
þessu með hana Kolgrímu. Þetta var sko í bríaríi.
--- Veðmál!
Ég var sko alveg búinn að gleyma þessu. Hún var nú svo ....

-Steinn, segir Dúa, hvasst.

-Mamma sagði, segir Brandur,
-að þú myndir kyssa mig á kinnina
þegar þú kæmir af sjónum.

 

-Þú skalt bara kyssa pabba þinn á kinnina, Brandur minn,
segir Dúa loks.

-Afa skegg kitlar, þitt stingur, segir Brandur.
-Hver teiknaði svona konu á handlegginn á þér?

-Sjáðu, segir Steinn, -hún dansar magadans
þegar ég hnykla vöðvana í handleggnum. Sjáðu.

Brandur hlær.

Þegar Dúa er farin fram að hita kaffi, hvíslar Brandur, alvarlegur á svip:

-Pabbi. Fórst þú alltaf í skólann
þegar þú varst lítill?
Ég meina sko alltaf?

-Í skólann? Ja, segir Steinn,
-kannski ekki sko alltaf, ha?

-Mamma fór alltaf í skólann,
en afi Grímur fór aldrei í skólann.
Hann segir að það sé allt of mikið af skólum.
Afi Grímur segir að menn eigi að vinna,
--- fara á sjóinn og svoleiðis.
Fór Tarzan í skólann?

-Ferð þú ekki í skólann, spyr Steinn.

-Juuuuuú, svarar Brandur dræmt.
-Það eiga sko allir í skólanum sjónvörp ...

-Ha? Sjónvörp í skólanum?

-.... með Tomma og Jenna og Hí Man og svoleiðis,
segir Brandur dapur.

-Horfir þú oft á sjónvarpið?

-Stundum hér hjá ömmuDúu.
Hún á ekki lit.

-Hva, af hverju ekki heima hjá þér?

-Við, - við, sko, eigum ekki.
Afi á ekkert sjónvarp.

-Nú? Af hverju ekki?

-Bara.

-En langar þig ekki til þess að eiga sjónvarp?

-Juuuú. Afi, hann, sko .....

-Það er sko alveg ómögulegt
að þú eigir ekki sjónvarp.
Eigum við ekki bara að kaupa sjónvarp?
Ha?
Það er sko minnsta mál.
Bara strax í dag.

-Ætlarðu í alvöru að kaupa sjónvarp?

-Jájájájá, bara á stundinni.
Hvað viltu stórt? 22ja- tommu?

-Það er alveg sama ef Tommi og Jenni eru í því.

Dúa kemur inn í stofu.

-Jæja, segir hún, -hér kemur þá kaffið.

-AmmaDúa. Pabbi ætlar að kaupa sjónvarp handa mér.

-Minnsta mál, segir Steinn.
-Það góða við sjóinn: Fullt af pening.

-Ertu ríkur? spyr Brandur.

-Langar þig í eitthvað fleira?

-Svona töffaraúlpu
eins og strákarnir í skólanum eru í.

-Hvenær eru þær opnar þessar búðarholur
í þessu Krummavíkurpleisi?,
ha?,
spyr Steinn.
-Komdu strákur.

-Það er naumast ..., stamar Dúa.
-Hvað stendur eiginlega til?

-Bless, ammamínDúa.
Pabbi ætlar að kaupa sjónvarp!

-Bless mútta.
Dallurinn fer annað kvöld.

-Steinn, hvað ætlastu svo fyrir?
Ætlarðu ekki að kveðja mig áður en þú ferð?

-Ég er að því.
Bless mútta.

-Blessaður, góði minn.
Gangi þér vel í lífinu.

-Sömuleiðis mamma.
Bless.

-Bless bless, ammaDúa, segir Brandur um leið og þeir fara.

 

 

 

9.

Sófus ræðir við Kolgrímu.

Sendiferðabíll nálgast Þorgrímshús og stoppar fyrir utan.

-Það eru að koma gestir, segir Kolgríma, -hingað.
Brandur er með þeim.

Út úr bílnum stíga tveir menn sem snarast upp á þak með sjónvarpsloftnet.

Augu Kolgrímu leiftra eitt andartak, er hún stendur við gluggann: Brandur heldur bílhurðinni opinni, Steinn bambrar sjónvarpi út úr bílnum

-Hver er þetta með Brandi, Kolgríma?, spyr Sófus.

-Steinn, hvíslar Kolgríma,
-þetta er Steinn.
Kominn.
Steinn er kominn.

 

Brandur æðir inn með fyrirgangi:

-Mamma! Mamma !
Pabbi kaufti sjónvarp, mamma,
og töffaraúlpu.

-Hvar er skólataskan þín, Brandur minn?, spyr Kolgríma.

-Mamma, pabbi kaufti sjónvarp!

-Keypti. Þú mátt ekki týna skólatöskunni þinni, vinur.

-Kallarnir eru að fara upp á þak með loftnetið, mamma.

Frammi í forstofu stendur Steinn með sjónvarpið í fanginu.

-Sæll Steinn, segir Kolgríma. -Ertu kominn?

 

Nú gat ekki hjá því farið að Þorgrímur heyrði undirganginn á þakinu, enda tveir menn að láta upp loftnet.

Þorgrímur sér Sófus:

-Þú hér.
Farðu þarna út, drengdjöfull
og rektu strákaormana ofan.

-Ég held bara, Þorgrímur, byrjar Sófus, .....

-Afi, sjáðu! Sjónvarp!, kallar Brandur. -22ja-tommu, lit!

Það sýður á Þorgrími.

Í forstofunni stendur grannur maður með dálítið skegg og sjónvarp og er að þynnast upp.

-Steinn er kominn, segir Kolgríma.

-Hvaða andskotans Steinn?, öskrar Þorgrímur.
-Ég læt ekkert koma með neitt svona djöfuls drasl inn til mín!
Ég er ekkert á sveitinni.
Út með þetta.

Sófus reynir að segja Þorgrími að Brandur litli eigi víst þetta sjónvarp, - hann hafi nú kannski gaman af því - og það geti nú verið einn og einn góður þáttur ....

-Það getur verið í mínu kamesi, segir Kolgríma.

Móðir Kolgrímu tekur nú á sig rögg. Það gerir hún þegar allt er komið í hönk. Hún lætur bera sjónvarpið inn í stofu og segir Þorgrími að nú sé nóg komið.

Þorgrímur titrar af bræði og þrumar:

-Ég ræð því hvað hér kemur inn.
Þetta er mitt hús!

Kona Þorgríms hefur fyrr þurft á sínum myndugleik að halda.

Þorgrímur rymur af vonsku.

Steinn gerir sig líklegan til að fara, enda verður hann feginn að sleppa út.

-Ertu að fara, Steinn?, spyr Kolgríma.

-Já, svarar hann.
-Ég rata út.

-Ég fylgi þér til dyra, Steinn.
Brandur minn, ertu búinn bað þakka pabba þínum fyrir?
Steinn,
ég hef engum sagt leyndarmálið.

Steinn skilur ekki það sem Kolgríma segir.
Steinn fer.

 

Inni í stofu er Sófus að reyna að sannfæra Þorgrím um að einn og einn þáttur um sjávarútveg geti verið þess virði að líta á, - og svo fréttir og veðurkort.

 

 

Fyrir utan er mótorhjól sett í gang. Sófus hættir í miðri setningu. -- Lykillinn var í hjálminum á forstofugólfinu. -Mótorhjólinu er ekið brott.

Sófus hleypur fram:

-Hvar er síminn?, spyr hann í ofboði.
-Get ég fengið að hringja?

-Það er enginn sími hér, segir móðir Kolgrímu.
-Þú getur fengið að hringja í Tungu, stóra húsinu þarna uppfrá.

Þorgrímur hlær hrossahlátri:
-Ég hef alltaf sagt að Jóhann svarti átti aldrei að notast til undaneldis;
- Sami skíturinn og helvítis kallinn.

Brandur lítur á Sófus:
-Fékk pabbi lánað mótorhjólið þitt?

 

- - o o O o o - -