ISBN 9979-895-00-4
hefur birtst í Lesbók Morgunblaðsins

KOLIMynd

 

Þangið bærist þegar fellur að með öldunni sem rís og hnígur, rís og hnígur. Er það ný og ný alda eða er það alltaf sama aldan? Ég spyr hafið en það ansar aðeins með bláma sínum. Steinarnir undir þanginu stækka og minnka er aldan fellur að og frá eins og brjóst á konu í baði, konu sem andar ekki með maganum því hún er orðin gjafvaxta fyrir löngu. Þangið sem vex á höfði hennar fellur vott í baðvatnið og blandast sjampúinu er aldan fellur að og kaldir votir steinarnir minna á brjóst konu í baði.

Fjórir litlir strákpollar hlaupa niður á hálan bryggjusporð með niðurbrytjana síldarlíkama og þrjár fíberglassveiðistengur.

Nokkur ung kolalok eru í eltingaleik kringum bryggjustólpa í sjónum.

Strákarnir kætast er kolinn bítur á, en ég heyri neyðaróp hans er hann neytir allra sinna krafta til að finna aftur frelsið sem guð gaf greyinu í vöggugjöf. Vagga hans votir kaldir steinar.

Þið buðum mér, æpir hann, gómsætan bita. Þorparar, svikarar.

Sumir deyja á öngli, sumir á krossi. Sumir svíkja.

Strákarnir kætast enn meir er þunnur fiskur hangir í lausu lofti með beittan krók gegnum munn sinn, of lítinn til að tala -- og of matarlítill sjálfur til að sjóðast í köttinn sem malar sig í svefn til fóta í hjónrúminu. Augu kolans gráta: Hví svikuð þið mig? Þið buðum mér gómsætan bita, en í honum .........

Blaðaljósmyndari á gangi við höfnina raðar upp montnum smástrákunum með einn magran kola sem engist í dauðateygjum kvalafulls köfnunardauða og með þrjár fíberglassveiðistengur og niðurbrytjaðan síldarlíkama.

Mamma verðu kát að sjá mynd af Palla sínum og Sigga sínum í blaðinu á morgun. Hún mamma sagði honum að vera góður við dýrin og hún sagði honum láka að fiskur væri góður. Formaður dýraverndunarfélagsins skoðar blaðið á morgun og sér æskuna að leik.

Og kolinn sem er of matarlítill fyrir köttinn (-- þar að að auki veiddur í höfninni og fær því ekki að komast í neinn sómakæran pott --) fer í öskutunnuna með blaðinu í gær.

Svangur svartbakur, sem hefur enga greind til að plata kola á öngul, svífur yfir þanginu.

Öldurnar, eða er það alltaf sama aldan, gera þangivaxna steinana stóra og litla, stóra og litla, en hafið brosir með bláma sínum og færir steinana í kaf.

Hrúðurkarlarnir eru eins og margar margar geirvörtur og sjampúið freyðir yfir brjóstin.

Mér er orðið kalt á nefinu. Ég sýg upp í nefið og geng framhjá klóakinu upp í bæinn þar sem húsin stara ekki lengur á bláma hafsins.

 

*********