Leyniþræðir, saga: ISBN 9979-895-82-9
sagan er einnig í smásagnasafninu Áfram Óli; Mál og menning, ISBN 9979-3-1718-3
Leyniþræðir, handrit: ISBN 9979-895-71-3 (hér á eftir sögunni)
nótur fyrir lögin í kvikmyndinni (í lokin)

 

LEYNIÞRÆÐIR

 

Milli manns og hunds og hests

liggur leyniþráður,

heyrði ég einhvers staðar þegar ég var lítill, og hugsaði mikið, mikið um það. Stundum sá maður karlana í sveitinni berja fótastokkinn, skammast út í blessaða hestana sína og kalla þá hrjóskar helvítis truntur, en hvorki gekk né rak.

Þeir kölluðu á hundinn, sem klemmdi skottið á milli lappanna og hélt sig í vel afmarkaðri fjarlægð frá stígvélafótum húsbóndans.

Og maður sá unga menn með písk og hroka. Augu hestanna voru myrk þótt þeir hlypu.

Stundum sá maður svo aftur á móti lítinn brosandi snáða fara berbakt að leita að kúnum. Hesturinn brokkaði ánægður og vissi vel hvar þær héldu sig, og hundurinn elti, dinglandi skottinu, því nú var verk að vinna sem hann skildi og gat.

 

Ég hef aldrei þorað að nefna þessa áráttu mína (að horfa í augu fólks í leit að leyniþráðum) við neinn af ótta við að vera talinn viðkvæmur eða skrýtinn. Ég viðurkenndi fyrir sjálfum mér, að þetta var veikleiki sem ég var að reyna að fela, en ég skal útskýra þetta aðeins núna:

Til var fólk sem sagði: -Rétt mátulegt á þig að meiða þig á þessu. Ég var marg búinn að banna þér að vera með þetta.

Ég hugsaði með sjálfum mér: Þessi er með gaddavírsþræði.

Til var fólk sem sagði: -Æ, meiddirðu þig nú? Fáðu plástur á þetta til þess að ekki komi skítur í sárið. Og vertu ekki með þennan hníf, elsku barn. Hann er hættulegur.

Svona fólk kallaði ég silkiþráðafólk.

Til var fólk sem sagði: -Æ, elsku barn, ég hefði ekki átt að láta þig skera svona hart brauð. Ég skal gera þetta.

Þetta var líka silkiþráðafólk.

Til voru menn sem sögðu: -Andskotans klaufi geturðu verið, krakkaskratti. Getur ekki einu sinni farið með hníf. Þú verður aldrei að manni þegar ekki er hægt að treysta þér fyrir neinu.

Þessa kallaði ég sleggjuhausa.

Ég var bara að leika mér að kíkja inn í fólk. Sagði engum, því stundum fannst mér þetta asnalegt sjálfum. Ég var allt of upptekinn af þessu.

Ég hefði getað sagt pabba þetta. Hann hefði bara hlegið. Honum finnst alltaf gaman þegar ég tala við hann um hitt og þetta sem ég tek eftir.

Þótt undarlegt megi virðast talaði ég samt aldrei við hann um leyniþræði. En milli mín og hans og mömmu hafa þeir alltaf verið mjög, mjög góðir.

 

 

Silfá vinkona mín bjó í næsta húsi við mig þegar við vorum lítil.

Ég fór í sveit á sumrin, hún ekki. Hún var í bænum og var smávegis í sendiferðum fyrir pabba sinn. En á veturna lékum við okkur saman, stundum í bílaleik. Við vorum eiginlega alltaf samferða í skólann.

Pabbi hennar er verkfræðingur. Pabbi minn er vörubílstjóri.

Ég ætlaði að verða vörubílstjóri og fékk oft að sitja í hjá pabba heilu dagana. Við röbbuðum mikið, pabbi og ég. Hann hefur alltaf tíma til að hlusta.

 

Mamma Silfáar vinnur á lögmannsskrifstofu. Hún var byrjuð í lögfræði einhvern tíma en hætti þegar hún átti Silfá. Mamma mín vinnur í gróðrarstöð. Hún er einn af þessum snillingum með græna fingur. Kannski eru leyniþræðir í káli og rósum líka. Að minnsta kosti vex allt hjá sumum.

 

Að vísu hættum við Silfá að láta sjá okkur saman á leið í skólann þegar við vorum komin í 7. bekk, og við hættum líka í bílaleik. En hún lánaði mér diska og ég lánaði henni spólur. Hún er góð stúlka hún Silfá. Hún er vinur vina sinna, en ber ekki tilfinningarnar utan á sér. Silfá er afburðanemandi í skóla.

Og fjölskyldan spurði:

-Ætlarðu ekki að verða verkfræðingur eins og pabbi þinn? Ætli þú farir ekki í verkfræði?

 

Þau voru og eru góðir nágrannar, Agnar og þau. Litlu bræður hennar Silfáar líka. Þeir eru að vísu hrifnari af fótbolta en kennslubókum, en það rætist oftast úr kraftmiklum pollum. Allt var og er í sómanum, utan húss sem innan. Börnin kurteis og vel upp alin. Semsagt: fyrirmyndarnágrannar.

 

Þegar verið var að ganga frá lóðunum, en þær liggja saman, teiknaði Agnar, en pabbi keyrði í. Mamma sá um að gróðursetja, og María, mamma Silfáar, aðstoðaði hana. Þá sá ég einn leyniþráð: Mamma sagði við pabba eitt kvöldið:

-Verkfræðingar hugsa í strikum og hornum og burðarþoli!

Og svo hló hún. Mamma mín talar aldrei illa um fólk.

 

 

 

Nú erum við Silfá 16 ára.

 

Ég er hættur að skammast mín fyrir að vera viðkvæmur. Ég er líka hættur við að verða vörubílstjóri og ætla frekar að fara í leyniþráðafræði.

Það rennur upp fyrir mér nú, að Silfá svaraði aldrei spurningunni:

-Ætlarðu ekki að verða verkfræðingur eins og pabbi þinn?

Ég sé núna að Agnar klikkaði á þessu með burðarþolið þegar mannssálir eiga í hlut. Kannski skilur hann ekki leyniþræði.

 

Í hitteðfyrra kom ferskur stormsveipur inn í okkar of slétta og fellda líf í einbýlishúsahverfi með útreiknuðum strikum og hornum og steinsteypu og vandlega plöntuðum röðum af skrautjurtum.

Það var Djonný diskó.

Hann var ekki teiknaður á teikniborði, hann Djonný diskó. Hann var frjáls eins og vindurinn. Hann var getinn á sama hátt og njólinn og baldursbráin sem vaxa og blómstra í hrjóstrinu áður en jarðýtan kemur og aðflutta moldin úr húsgrunnum og danska grasfræið.

Ég hef aldrei hitt eins óklúðraðan ungling. Hann er tveim árum eldri en við en var samt að koma í grunnskóla. Það var vegna þess að mamma hans fór með hann til Bandaríkjanna, því það stóð til að hún gifti sig. Það klikkaði víst eitthvað.

Djonný er dökkur á húð og hár. Hann getur djókað með að hann heitir John Trec.

Ég - svona til samanburðar - get ekki einu sinni sagt frá því að mamma mín var ófrísk eftir annan þegar hún hitti pabba. Pabbi og hún eiga ekkert barn saman. Ég þekki alvörupabba minn ekki.

En Djonný !!! Hann segir yfir alla krakkana á skemmtun:

 

-Næsta lag heitir: Ófrísk af trekk, og er tileinkað mömmu. Hún hefði getað látið mig heita Jón Hermannsson, því pabbi minn var hermaður, hún hefði getað látið mig heita Jón Erlendsson, því hann var erlendur maður. Hún hefði getað látið mig heita Jón Hansson, - sonur einhvers hans, því það hlýtur að hafa verið karlmaður. En hún lét mig heita John Trec. Þess vegna samdi ég lag handa henni.

 

Krakkarnir veltust um af hlátri.

Hvernig gat þessi drengur, sem kom nýr inn í hópinn og tilheyrði engri klíku, sagt svona brandara á eigin kostnað? Og um sína eigin móður! Ekkert er viðkvæmara en fjölskyldan.

Djonný diskó þurfti ekki einu sinni klíku. Hann bara var og er hann sjálfur. Það eina sem ég man úr textanum er: ...trekk í trekk í trekk .... Og það var alveg drepfyndið.

 

 

 

Silfá verður fallegri og fallegri með hverju árinu sem líður. Fegurð hennar liggur ekki síst í því að hún talar ekki mikið, hlær ekki hátt, bara brosir, og reynir aldrei að ná athygli.

Í 9. bekk er maður ekki lengur feiminn við að verða samferða stelpunni í næsta húsi úr og í skólann. Vinátta okkar er - og hefur alltaf verið - okkur báðum til góðs.

Það er notalegt að eiga stelpu fyrir vin. Ég sé það best í samanburði við stráka sem aðeins hafa umgengist stráka. Strákar innanum stráka keppa oftast um hver er klárastur og sterkastur og tilfinningalausastur. Þegar stelpa birtist, eru þeir að reyna að vera blíðir eins og mömmur og ákveðnir eins og pabbar. Úr verður eintómt öryggisleysi því þeir geta hvorugt uppfyllt.

(Innskot til skýringar: þetta er eins konar leyniþráðafræði.)

 

Pabbi hennar Silfáar, Agnar Harrason verkfræðingur, veit vel að hún hefur alltaf verið með yfir 9 í stærðfræði og yfir 9 í eðlisfræði.

Ég næ 6, og þykist góður.

En -- Agnar Harrason, verkfræðingur, vissi ekki að fyrsti kossinn hennar Silfáar var 10,6 metra frá 90° horninu á tvöfalda bílskúrnum hans þegar Djonný fylgdi Silfá heim af skólaballi.

Hún sagði mér það. Hún getur alltaf treyst því að ég segi ekkert.

 

 

Silfá fór að syngja með Krókódílunum.

Þau æfðu oft eftir skóla, uppi í skóla. Þá fór ég inn á sal að hlusta.

Og ég, æskuvinur Silfáar, sem bara sat þarna úti í sal, var settur í ryþmiskan hljóðfæraleik til uppfyllingar. Ryþmiskur uppfyllingarkrókódíll, eins og Djonny orðar það.

 

Silfá hefur yndislega rödd. Það hafði aldrei hvarflað að mér að hún gæti sungið. Það hafði aldrei hvarflað að mér að hún gæti komið dægurlagatexta til skila af sannri innlifun og tilfinningu. Ég heyrði hana að vísu oft raula með þegar við hlustuðum á popp, en það geta nú svo margir.

Eitthvað gerðist þegar Krókódílarnir slógu fyrsta tóninn. Eitthvað losnaði úr læðingi. Eitthvert afl úr iðrum hugans losnaði úr fjötrum og fyllti heiminn. Silfá varð fegurri en nokkru sinni.

Djonný horfði á hana þegar hún söng ballöður og tregablúsa, og hann varð þá eins og lítill drengur á svipinn - ekki eins og töffarinn Djonný diskó í fjörinu - og leyniþræðirnir ......

(- ég veit að ég er væminn núna, en mér er alveg sama -)

..... leyniþræðir titruðu eins og þandir gítarstrengir. Það þurfti ekkert ljósasjó.

 

Krókódílar ferðuðust um á mótorhjólum og skellinöðrum.

Það hlaut að koma að því að pabbi Silfáar heyrði hávaðann í mótorhjóli Djonnýs fyrir utan einbýlishúsið. Það hlaut að koma að því að hann færi að velta fyrir sér hvers vegna einkunnir Silfáar urðu lægri á vorprófi en á jólaprófi.

Hann hefur eflaust verið að vona að hún yrði á teiknistofunni hans yfir sumarið. En svo varð ekki. Hún fékk vinnu í sjoppu.

 

Og hún var farin að ganga í leðurgalla.

 

Skyldi Agnar Harrason hafa hugsað, þar sem hann stóð við stóra stofugluggann sinn á kvöldin og horfði út yfir vel klippt limgerðið: -Hver er þessi dökki mótorhjólagaur, sem ekki sést framaní fyrir hjálmi. Hvað er Silfá, dóttir mín, að gera á kvöldin? Eru popparar í dópi?

Agnar Harrason hefur kannski aldrei talað við dóttur sína, eins og við pabbi tölum saman. Það er erfitt að byrja á slíku þegar dóttir manns er 14 eða 15 eða 16 ára. Þá er hún eins og ókunnug kona sem býr inni á heimilinu.

 

Skyldi Agnar Harrason hafa dottið í þann pytt að hugsa: -Dóttir mín hefur lent í slæmum félagsskap. Ég verð að stía henni frá þessum pilti. Hún er allt of góð fyrir hann. Hún ætti frekar að fara í háskólann en lenda í einhverjum lágkúrulegum skemmtanabransa?

Hann hefur aldrei heyrt Silfá syngja. Hann er líklega upptekinn af fjölskylduspurningunni: -Ætlarðu ekki að verða verkfræðingur eins og pabbi?

 

 

Silfá setti á sig hjálminn, þegar sjoppan lokaði klukkan hálftólf. Settist klofvega aftaná hjá Djonný. Smellti plastinu á hjálminum fyrir andlitið. Hún vafði báðum handleggjunum utan um Djonny, lagðist uppað svörtu leðurbaki hans, og hélt sér fast.

Rauð miðnætursól kveikti í skýjabakka á vesturloftinu.

Silfá fann framtíðina kitla sig í magann.

 

 

 

 

Ég vildi að sagan endaði hér. En þá hefði ég varla talið hana í frásögur færandi. Hamingja Silfáar er mér svo mikils virði.

Sagan er að byrja hér:

 

 

 

Silfá var flutt á gjörgæslu beint af slysadeild. Djonný brotnaði illa. Hann fékk að fara heim til mömmu sinnar (sem býr í Sandgerði) tveim dögum eftir slysið.

Silfá skaddaðist á mænu.

Við heimsóttum hana öll. Fyrst var hún rænulaus. Það var allt gert sem hægt var.

Mánuður leið.

Henni var hjálpað í hjólastól.

Hún vildi ekki fara heim. Hún vildi vera á Grensás.

Augu hennar voru myrk. Myrk eins og augun í hestunum sem ekki hlupu af ánægju heldur af ótta.

Ég heimsótti hana á hverjum degi.

Strákarnir úr hljómsveitinni komu og sögðu henni að Djonný væri að skríða saman.

Krakkarnir úr bekknum komu. Þeir gátu lítið sagt. Það er stundum erfitt að tala. Þeir komu með blóm. Hún leit varla upp.

Ég gat lítið sagt, bara sat þarna hjá henni. Fór til hennar á hverjum degi. Ég vildi ekki tala um söng. Ég vildi ekki tala um popp. Ég þorði varla að tala um Djonný, en ég sagði henni að ég hefði hringt í hann og honum væri að batna. Hann væri að vísu með hækjur en byrjaður að skakklappast um allur blár og marinn ennþá og í gifsi.

Hún vissi það.

 

Hvít rúm,

hvítar hjúkkur,

hvítir sjúklingar sem gengu um eins og vofur,

eina hljóðið var frá hækjum sem duttu með vissu millibili í gólfið.

Ömurlegt.

Silfá vinkona mín hér!

 

 

 

 

Eldheitur endir blossar upp á þessari ísköldu sögu, þegar Agnar og ég erum í heimsókn hjá Silfá. Ég keyri Silfá fram á sal. Agnar telur kjark í bugaða dóttur sína. Hann segir henni að hún geti aflað sér menntunar, hún geti orðið sjálfri sér nóg um alla hluti. Kannski nái hún sér alveg.

Hann er ekki bugaður. Ég horfi á hann, og þori ekki að hugsa það sem ég er að hugsa: -Hvers vegna er hann ekki eins bugaður og ég? Sér hann fyrir sér .....

(ég reyni að ýta þessari hugsun frá mér)

... að nú verði hún aftur dóttir hans, heima í einbýlishúsinu hans, og hann láti taka alla þröskulda og kaupi handa henni fallegan bíl, fái leyfi til að gera innangengt úr bílskúrnum fyrir hjólastólinn, og hún geti farið í háskólann -- í verkfræði?

 

Hver fruma í líkama mínum grætur af angist. Ég finn bylgjur af sársauka fossa eins og hafsjó og brim um mig allan.

En undir niðri er ég kátur, því ég veit hvernig þessi saga endar, - ekki þið.

Það hlakkar í mér. Ég lofaði að kjafta ekki frá.

Hlustið nú:

 

Faðir situr þarna og tíundar fyrir dóttur sinni alla þá möguleika sem hún hefur. Möguleika sem falla honum vel í geð. Hann horfir bjartsýnn fram á veginn, veg dótturinnar sem situr hér á Grensás í hjólastól,

 

þegar

 

Krókódílarnir bægslast upp stigann á Grensás með Djonný í fanginu. Og þeir blikka mig.

Þeir bera hann, hlæjandi, að hjólastólnum hennar Silfáar og hann gerir sig spaugilega virðulegan með hækjurnar tvær. Þeir koma eins og eldgos undir jökli, ferskir og fullir af krafti: -Hæ, sól, í hjólastól.

 

Djonný réttir Agnari Harrasyni höndina, - og missir auðvitað aðra hækuna. Hækjur eru alltaf að detta: -John Trec. Hæ.

Og Djonný heldur áfram án þess að fatast:

 

-Silfá ! Spilum á balli í Búðardal á laugardag.

Náðu í dótið þitt. Er söngkonan okkar ekki í toppformi?

Við seldum allt helvítis hjóladjönkið, - og -

keyptum SENDIFERÐABÍL. - Krókódílar á fjórum hjólum !

 

Náðu í einhvern í hvítum sloppi til að útskrifa þig.

Græjurnar okkar og hjólastóllinn iða af æsingi yfir að komast í fjörið.

 

Skælbrosandi Krókódílar fá augu Silfáar til að tindra. Augu hennar verða eins og augun í hesti sem ber lítinn snáða ríðandi berbakt, snáða sem er sendur að leita að kúnum.

Ég sprett á fætur til að leita að vakthafandi lækni. (Gef mér ekki einu sinni tíma til að hlæja að svipnum á Agnari(!!)). Ég er eins og kátur hundur sem dinglar skottinu.

 

- - o o 0 o o - -

saga
**********
handrit:LEYNIÞRÆÐIR

handrit fyrir stuttmynd
Leyniþræðir handrit: ISBN 9979-895-71-3
hér í lokin finnast nótur fyrir lög Krókódílanna

Skýringar á þessu enskuskotna handritamáli: V.O. þýðir voice over, og sögumaður segir frá, hugsar, án þess að hann sé á staðnum, þ.e. við höfum ekki á tilfinningunni að hann sé utan myndar og sjáist ekki þess vegna, heldur er hann annars staðar eða aðeins að hugsa.

O.S. off screen, táknar hins vegar að sá sem talar er á staðnum þótt hann sé ekki í mynd í augnablikinu.

P.O.V. er point of view, og er það sem sá sem horfir sér; séð frá honum (þessum ákveðna) eins og hann sér það; maður getur aldrei verið í sínu eigin P.O.V., en maður getur gengið inn í sitt P.O.V. frá þeim stað sem hann (þessi horfari) er hugsaður á.
Röðin er: sá sem horfir lítur, svo kemur hans P.O.V. (sjónarhorn) úr þeirri fjarlægð sem á að virka á milli horfandans og þess sem hann horfir á, en hægt er að ZOOMa að aðalatriðinu sem horfarinn veitir mesta athygli; svo sést í lokin annað hvort horfarinn aftur og viðbrögð hans, eða hann gengur inní sitt P.O.V. til að framkvæma (action).

Tilta þýðir að hreyfa kameru upp eða niður;
pana þýðir að hreyfa kameru til hliða(r);
zoom (súmma) að þrengja eða víkka sjónarsvið kameru;
dolly er kamera á trakki (track); (og meira er af svona fyndnum íðyrðum)

Skýring á uppsetningu:
með hástöfum kemur, INT eða EXT. (inni- eða útitaka) í upphafi hvers nýs skots, og persónur sem eru í mynd í upphafi skotsins, eru taldar þar upp;

replíkur (línurnar, texti leikarans) eru með öðru letri og annarri uppsetningu en skýringar og leiðbeiningar um atvikið.

í fyrsta sinn sem persóna birtist er nafn hennar letrað með hástöfum.

 

LEYNIÞRÆÐIR
handrit fyrir stuttmynd

 

INNI, Í MÍNU HERBERGI - "ÉG", SÖGUMAÐUR, (FIMMTÁN ÁRA, LJÓSHÆRÐUR STRÁKUR,)

Ég sit við gluggann go hlusta á POPPTÓNSIST á spólu í græjunum mínum.

Ég horfi út, hugsi.

 

 

GARÐURINN SAMLIGGJANDI GARÐINUM MÍNUM

(SÉÐUR úr fjarlægðinni frá glugga mínum) -

ríkmannlegt, snyrtilegt og kuldalegt - í b.g., garðmegin séð

TVEIR SMÁPOLLAR á skólaaldri eru í fótbolta á snyrtilega afmörkuðu fótboltasvæði, eitt lítið mark.

 

ÉG (V.O.)

Við eigum fyrirmyndarnágranna.
Bræður hennar Silfáar í fótbolta, eins og alltaf.
Þeir eru hrifnari af fótbolta en kennslubókum.
En pabbi þeirra og mamma hafa ekki áhyggjur af því.
Það rætist oftast úr kraftmiklum pollum.

 

 

AFTUR ÉG VIÐ GLUGGANN MINN

Ég horfi út um gluggann yfir í garðana okkar og yfir að húsi verkfræðingsins.

 

. . . . ÉG (ÁFRAM;V.O.)

Það er allt í sómanum í þessu húsi,
utan húss sem innan.
Börnin kurteis og vel upp alin.
Fyrirmyndarfólk.

 

Svipur minn verður blíður:

 

ÉG (ÁFRAM; V.O.)

Silfá.

 

 

Silfá kemur út úr húsi verkfræðingsins, gengur út í garðinn. Stendur þar og horfir á eitthvað, en hugur hennar er ekki við það.

Gengur um.

Hugur hennar er annars staðar.

 

 

 

(Ath: Nokkuð langur texti við þessa senu. Silfá hreyfir sig, gengur um. Þetta er kynning á aðalpersónu.)

 

 

ÉG (ÁFRAM; V.O.)

Silfá, vinkona mín.

Hún verður fallegri og fallegri
með hverju árinu sem líður.

Fegurð hennar liggur ekki síst í því,
að hún talar ekki mikið,
hlær ekki hátt. Hún brosir aðeins.
Hún reynir ekki að ná athygli.

Við vorum alltaf samferða í skólann
þegar við vorum lítil.
Að vísu hættum við svolítið í sjötta bekk
að láta sjá okkur vera samferða í skólann,
en nú erum við vaxin upp úr svoleiðis barnaskap.

Við erum líka hætt að vera í bílaleik,
svo maður þroskast og breytist eðlilega.

(hlæ)

Það er notalegt að eiga stelpu fyrir vin.
Ég sé það best í samanburði við stráka
sem aðeins hafa umgengist stráka. ...

... Strákar innanum stráka er ekkert nema
keppni um hver er klárastur
og sterkastur og tilfinningalausastur.

Þegar stelpa birtist, eru þeir að reyna að vera
blíðir eins og mömmur,
og ákveðnir eins og pabbar.
Úr veður eintómt öryggisleysi,
því þeir geta hvorugt uppfyllt.

 

Agnar, verkfræðingur, og konan hans, mamma Silfáar og fótboltastrákanna, koma út úr húsinu út í garðinn.

 

ÉG (ÁFRAM)

(V.O.)

Nú, það er barasta öll familían!

María var víst byrjuð í lögfræði einhvern tíma,
en hætti þegar hún átti Silfá, og vinnur núna
á lögmannaskrifstofu.

 

 

ÉG VIÐ GLUGGANN

Ég teygi mig til að sjá niður í okkar garð, og horfi yfir í matjurtagarðinn hennar mömmu.

 

 

 

MAMMA MÍN SÉÐ OFAN FRÁ ÚR MÍNUM GLUGGA

Hún liggur á hnjánum eða bograr í matjurtagarðinum.

 

ÉG (ÁFRAM; V.O.)

Mamma mín er einn af þessum snillingum
með græna fingur.
Alltaf ferskt og fallegt grænmeti hjá okkur.
Hún vinnur líka í gróðrastöð, svo það eru líka
alltaf fersk og falleg blóm alls staðar hjá okkur!

Kannski eru leyniþræðir í káli og rósum líka?

(hlæ)

Að minnsta kosti vex allt hjá sumum.

 

 

ÉG VIÐ GLUGGANN MINN HUGSI, SÉÐ AUGU MÍN

Ég hætti að horfa á eitthvað sérstakt, horfi út í buskann - eða raunar inn í sjálfan mig.

 

ÉG (ÁFRAM) (V.O.)

Leyniþræðir.
Það eru svo fáir sem sjá þá.

Agnar teiknaði lóðirnar okkar,
pabbi keyrði í,
mamma sá um að gróðursetja,
og mamma Silfáar hjálpaði henni.

 

MATCH DISSOLVE TO:

 

(FADE IN:)

AUGU MÍN, ANNAR STAÐUR OG TÍMI -

- VIÐ ERUM AÐ BORÐA: MAMMA, PABBI OG ÉG

 

MAMMA MÍN

(hlæjandi)

Þetta gekk nú vel.
Veistu:
verkfræðingar hugsa í strikum
og hornum og burðarþoli !

 

 

ÉG VIÐ GLUGGANN; --AFTUR POPPMÚSÍKIN --

Ég stend upp og fer frá glugganum.

 

. . . ÉG (V.O.)

Mamma mín talar aldrei illa um fólk.

 

Lagið endar.

Ég sný kasettunni við og kveiki aftur á græjunum mínum.

Stend, er hugsi.

ÉG (ÁFRAM; V.O.)

-Ætlarðu ekki að verða verkfræðingur ein og hann pabbi þinn?
Þetta er setningin sem Silfá fær að heyra í hverju einasta fjöl-skylduboði.
Hún er afburðanemandi, hún Silfá.

-Ætlarðu ekki að verða verkfræðingur ein og hann pabbi þinn?
-Ætlarðu ekki að verða verkfræðingur ein og hann pabbi þinn?
-Ætlarðu ekki að verða verkfræðingur ein og hann pabbi þinn?

Nýtt lag sem við HEYRUM er að byrja.

 

ÉG (ÁFRAM; V.O.)

Hún er með níu í öllu, meðan ég
geri mig ánægðan með sex.

Og litlu bræður hennar Silfáar?
Þeir eru bara meðalskussar,
og enginn gerir sér rellu út af því.

 

 

INNI, SKÓLI, GANGUR, - NÁNAR TILTEKIÐ FRÍMÍNÚTUR Í ELDRI BEKKJUM GRUNNSKÓLA - SILFÁ OG ÉG ÁSAMT FLEIRI KRÖKKUM AÐ RABBA SAMAN AD LIB

(Ath. Silfá talar ekki, en hlustar, er kyrrlát, brosir ef til vill, en hlær ekki eins og hinir.)

Tal unglinganna breytist yfir í LÆKKAÐ skvaldur.

 

ÉG (ÁFRAM,(V.O.)

Ferskur stormsveipur kom allt í einu inn í okkar slétta og fellda,
hrukkulausa líf í venjulegum skóla, þar sem allir reyna að vera í klíkum
og allir búa í góðum einbýlishúsum eða parhúsum með útreiknuðum
strikum, hornum og burðarþoli og vandlega plöntuðum skrautjurtum
í ferköntuðu görðunum.

 

Einn krakkanna lítur upp, fram eftir ganginum.

Skvaldrið ÞAGNAR,

Við hin lítum upp, og fram eftir ganginum.

 

 

INNI, SKÓLI, GANGUR, - DJONNÝ TRECK - FLEIRI KRAKKAR (STANDANI Í GANGINUM)

Djonný gengur í átt að hópnum geislandi af sjálfsöryggi

 

DJONNÝ

Hæ.

 

(Ath. stelpunum líst vel á Djonný)

 

DJONNÝ (ÁFRAM)

Hvað syngur í liðinu?

 

Samræður hefjast að nýju, og ekki leynir sér að Djonný er miðpunkturinn.

Samræðurnar verða að LÁGU skvaldri.

 

ÉG (V.O.)

Hann var ekki teiknaður á teikniborði,
hann Djonný Diskó.

Hann er frjáls eins og vindurinn.
Hann var getinn á sama hátt og
njólinn og baldursbráin sem vaxa og blómstra
í hrjóstrinu áður en jarðýtan kemur
og aðkeyrða moldin úr húsgrunnunum
og danska grasfræið.

Ég hef aldrei hitt eins ó-klúðraðan ungling.
Hann er að vísu tveim árum eldri en við,
en er samt að koma í grunnskóla.
Hann missti úr, vegna þess að mamma hans
fór með hann til Bandaríkjanna,
því það stóð til að hún gifti sig.

 

 

INNI, Á SAL Í SKÓLANUM, UPPHÆKKAÐ SVIÐ - DJONNÝ OG NOKKRIR STRÁKAR MEÐ HLJÓÐFÆRI, POPPHLJÓMSVEIT -

Þeir eru að byrja æfingu.

Djonný spilar nokkur stef á gítar, aðrir spila einhver stef á önnur hljóðfæri. (Ekki rafmagns- og magnara-.)

 

ÉG (ÁFRAM, V.O. )

Það ferskasta af öllu fersku er,
að hann stofnaði skólahljómsveit
og það er æft uppi á sal á kvöldin.

Þeir kalla sig "Krókódílana".

 

 

Silfá, ég og fáeinir aðrir krakkar sjáumst sitjandi frammi í sal.

(Við erum þarna til að hlusta á þá æfa.)

 

DJONNÝ

(kallar af sviði)

Silfá. Ertu ekki til í að syngja?

 

ÉG (V.O.)

Ég veit vel að Silfá getur sungið.
Hún syngur oft með
þegar við spilum plötur og spólur hjá mér.
Hún á geislaspilara.

En ég hef aldrei ímyndað mér hana uppi á sviði
með mæk við munninn.

Við Silfá loðir alltaf spurningin:
Ætlarðu ekki að verða verkfræðingur eins og pabbi þinn?

 

Ég horfi á Silfá.

Allir horfa á Silfá.

Silfá stendur upp, gengur upp á svið.

Hún snýr sér ekki fram heldur uppsviðs.

Djonný segir eitthvað lágt við Silfá.

Djonný tekur um axlirnar á henni og snýr henni, þannig að hún horfir út í sal. Hann brosir út að eyrum.

Það er dauðaþögn.

Hljómsveitin BYRJAR AÐ SPILA rólegt lag.

Silfá syngur lágt en fallega.

(sjá nótur í lok þessa handrits)

 

 

 

Við úti í sal klöppum, þegar laginu lýkur.

Djonný hneigir sig, hlæjandi.

Silfá brosir.

 

Djonný talar lágt við strákana og Silfá.

 

Næsta LAG,
Silfá syngur.

 

 

ÉG, SITJANDI ÚTI Í SAL

 

ÉG (V.O.)

Það hefur aldrei runnið upp fyrir mér
að Silfá getur komið dægurlagatexta til skila
af sannri innlifun og tilfinningu.
Ég hef oft heyrt hana syngja, en hef ég
nokkurn tíma hlustað í raun og veru?

Eitthvað gerðist þegar Krókódílarnir
slógu fyrsta tóninn.
Eitthvert afl úr iðrum hugans losnaði úr læðingi.

 

Silfá hefur yndislega rödd.

Hún er fegurri en nokkru sinni.

Þegar Djonný horfir á hana er hann eins og lítill drengur á svipinn

 

(Ath: ekki örlar á afbrýðisemi í rödd minni né svip. Ég er að horfa á Silfá, vinkonu mína, gera það sem gerir hana hamingjusama. Þegar henni líður vel líður mér vel;

 

ÉG (ÁFRAM; V.O.)

Ballöður og tregablúsar
eru henni svo eiginlegir.

Djonný lítur ekki út núna
eins og Djonný Diskó töffarinn í fjörinu.

Ég veit að ég er væminn núna,
en mér er alveg sama:
Leyniþræðirnir milli þeirra titra
eins og þandir gítarstrengir.

Ég hef aldrei þorað að nefna þetta við neinn,
þessa áráttu mína að horfa í augu fólks
í leit að leyniþráðum,
af ótta við að vera talinn viðkvæmur eða skrýtinn.
Ég viðurkenni fyrir sjálfum mér,
að þetta er veikleiki sem ég er að reyna að fela.

Ég er hættur við að verða vörubílstjóri
eins og pabbi og ætla frekar í leyniþráðafræði.

(hlæ)

Ekki hlæja.
Ég fékk oft að sitja í hjá pabba heilu dagana
þegar ég var lítill.
Auðvitað ætlaði ég að verða vörubílstjóri
þegar ég yrði stór.
Við röbbuðum mikið, pabbi og ég.
Hann hefur alltaf tíma til að hlusta.
Ég skammast mín ekkert lengur fyrir
að vera viðkvæmur.

Ég talaði aldrei um leyniþræðina við pabba.
En milli mömmu, pabba
og mín eru þeir mjög, mjög góðir.

Það rennur upp fyrir mér núna,
að Silfá hefur aldrei svarað spurningunni:

Ætlarðu ekki að verða verkfræðingur eins og pabbi þinn?

Ég sé núna - allt í einu -
- að Agnar klikkar eitthvað á þessu með burðarþolið,
þegar mannssálir eiga í hlut.

 

 

 

ÚTI, SKÓLAPORTIÐ OKKAR, VETRARKVÖLD -

Djonný diskó stígur á bak mótorhjólinu sínu, smellir á sig hjálminum, veifar til okkar og setur í gang.

Silfá og ég veifum, leggjum af stað gangandi heim á leið.

Aðrir krakkar fara úr skólaportinu, ýmist á skellinöðrum eða gangandi (hver á leið til síns heima) rabbandi saman og AD LIB kveðjur.

 

 

 

ÚTI, SAMA VETRARKVÖLD, GATA Í EINBÝLISHÚSAHVERFINU SEM VIÐ BÚUM Í - SILFÁ OG ÉG

Gangandi heim á leið. Fyrst göngum við þögul.

 

 

SILFÁ

Veistu?

Mig langar til að læra að syngja.
Ekki til að syngja svona óperur og svoleiðis,

- heldur langar mig til að syngja popp.
Heldurðu að það sé ekki gott
að læra að syngja,
þótt maður sé aðeins í poppi?

 

ÉG

Silfá! Þú ert svo góð söngkona.
Þetta liggur svo vel fyrir þér.
Sláðu til. Ekki hika, þegar þú finnur
hvað þig langar.

 

Silfá brosir.

Við göngum áfram.

 

 

INNI, Á SAL Í SKÓLANUM - KRÓKÓDÍLARNIR OG SILFÁ AÐ ÆFA - ÉG SIT ÚTI Í SAL

 

Hljómsveitin hitar upp.

Silfá gengur um á sviðinu. Hún er orðin áræðnari í klæðaburði, virðist sjálfstæðari og opnari en hún var, þótt hógværðin sé henni eiginleg.

DJONNÝ

(kallar af sviðinu)

Hey, þú! Palli!

 

Snögglega sér nærmynd af mér (ZOOM TO CLOSE-UP);

Ég hrekk upp úr hugsunum mínum.

 

DJONNÝ (ÁFRAM)

(kallar O.S.)

Ertu ekki svolítið rythmiskur?

 

ÉG

Ha?
Ég?
Ertu að tala við mig?

 

Ég lít í kringum mig, svo á Djonný uppi á sviðinu.

 

DJONNÝ (O.S.)

Yes, sir.
Komdu, ef þú nennir.

 

Ég stend upp, vandræðalegur.

 

 

UPPI Á SVIÐI - KRÓKÓDÍLAR OG SILFÁ -

Ég kem gangandi inn í mynd.

Djonný réttir mér bambushólka.

 

DJONNÝ (ÁFRAM)

Ímyndaðu þér að þú sért negri
í svörtustu Afríku.
'Úm-ba úm-ba'.
Innlifun, skilurðu.
Gleymdu fólkinu þarna úti í myrkrinu,
fólkinu með eyrun og augun.

Er nokkur þarna, annars?

 

Djonny horfir út í sal og þykist ekki sjá þar eina einustu hræðu.

Silfá brosir til mín.

Ég lít á hana, spottskur.

ÉG (V.O.)

Hann er óútreiknanlegur
þessi Djonný.

 

Djonný bendir mér á stað, sem hann vill að ég standi á.

 

DJONNÝ

Þú ert svona uppfyllingarefni.

 

Ég hlæ.

 

ÉG

Aldrei hélt ég að ég yrði krókódíll!

 

DJONNÝ

Sjaldgæf tegund:
íslenskur, rythmiskur Afríku-krókódíll.

Allir til?

 

 

Djonný nær í eitthvað svipað tambórínu og réttir Silfá.

 

Djonný sets við afrótrumbur

Djonný byrjar. Hinir taka undir, smátt og smátt.

 

- AFRÓ.

 

 

 

 

 

 

 

(Lagi LÝKUR)

(eða frekar) CUT TO:

 

 

ÚTI, HÚS AGNARS VERKFRÆÐINGS GÖTUMEGIN SÉÐ - VÍÐ MYND FYRST -

(Ath. hugsanir mínar flæða óhindrað undir þessari og næstu götusenum.)

 

ÉG (V.O.)

Hvað er dóttir Agnars Harrasonar
að gera á kvöldin?

Það hlaut að koma að því
að hann færi að hugsa um það?

 

 

Nú SÉST NÆR og NÆR húsinu.

 

ÉG (ÁFRAM(V.O.)

Hann hlýtur að heyra í mótorhjóli
fyrir utan hús sitt,
alltaf rétt áður en
Silfá kemur heim á kvöldin.
Það er svo lítil umferð hér.

Það hlaut að koma að því
að hann biði úti í glugga á kvöldin.

 

Nú SÉST NÆR og NÆR stofuglugganum.

 

 

LOKS SÉST inn um gluggann: Agnar, standandi innan við

gluggann, horfandi út.

 

ÉG (ÁFRAM; V.O.)

Hann hlýtur líka að hafa velt fyrir sér,
hvers vegna kennaraeinkunnir Silfáar
urðu lægri en í fyrra.
Hvað verður með prófin?
Þetta er mikilvægt próf
fyrir þá sem ætla í framhald.

 

 

Það HEYRIST O.S. í mótorhjóli, sem nálgast húsið.

Agnar, sem sést inn um gluggann, beinir athyglinni að því sem hann sér.

Mótorhjólið HEYRIST í lausagangi O.S. stutta stund.

 

 

Svo HEYRIST O.S. að mótorhjólinu er ekið brott.

 

ÉG (ÁFRAM; (V.O.)

Hver er þessi dökki mótorhjólagaur,
sem ekki sést framan í fyrir hjálmi?

 

Fótatak Silfáar á stéttinni HEYRIST O.S.

 

ÉG (ÁFRAM; V.O.)

Maðurinn getur ímyndað sér
að hann er ekki fimmtán ára
--- á svona farartæki.

 

 

FÁ Í MYND (auk gluggans): útihurðina og stéttina.

 

Á stéttinni og við útihurðina á húsi verkfræðingsins

er Silfá í svörtum leðurgalla;

Hún opnar með lykli.

 

ÉG (ÁFRAM;V.O.)

Það er kalt aftan á mótorhjóli.

 

Silfá fer inn og lokar á eftir sér.

 

ÉG (ÁFRAM, V.O.)

Þeir sem eru mikið á mótorhjóli
kaupa sér leðurgalla --
þeir sem kaupa sér leðurgalla
eru mikið á mótorhjóli.
Það getur hver einasti
meðalgreindur verkfræðingur ímyndað sér.

 

Við sjáum Silfá koma inn í mynd, fara
hún fer úr leðurjakkanum og stígvélunum.

 

 

ÚTI, GATAN OKKAR - ÉG GANGANDI HEIM Á LEIÐ -

Það HEYRIST í mótorhjóli Djonnýs O.S., kemur á móti mér og nálgast mig.

(Ath: Djonný kemur frá húsum okkar Silfáar) í gagnstæða átt við mig sem er gangandi.

 

ÉG (ÁFRAM)

(V.O.)

Þeir eru ekki neitt heimskir, verkfræðingar.

 

Ég lít upp, brosandi, og rétti upp handlegginn sem kveðju.

 

(Ath. Hugsanir mínar VOICE OVER flæða óhindrað áfram undir þessum götusenum.)

 

 

DJONNY KEMUR KEYRANDI

 

Djonný veifar til mín á móti.

(Ath: Hann er að láta mig vita að Silfá er örugglega komin heim.)

 

ÉG (ÁFRAM, V.O.)

Skyldi Agnar Harrason hafa dottið í þann pytt,
að hugsa:
Dóttir mín hefur lent í slæmum félagsskap?
Hún kemur seint heim á kvöldin.

Skyldi Agnar láta sér detta í hug:
Ég verð að stía henni frá þessum pilti.
Hún er allt of ung?
Eða jafnvel:
Hún er allt of góð fyrir hann?

 

 

 

INNI, SALURINN Í SKÓLANUM - SKÓLABALL -

VIÐ: SKÓLAHLJÓMSVEITIN KRÓKÓDÍLARNIR, ÁSAMT SÖNGKONUNNI SILFÁ

Við erum að fara að spila fyrir dansi.

Silfá er í dressi í skærum litum.

Það er SKVALDUR í krökkunum.

 

Við hefjum popptónlistarflutninginn.

Krakkar dansa - fjör.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Krakkarnir klappa þegar laginu lýkur.

 

Djonný gengur, móður, að hljóðnemanum - við hin í hljómsveitinni stöndum upp.

Krakkarnir klappa enn.

 

Við hin göngum af sviðinu (niður fyrir sviðið, fremst í salinn).

Djonný bíður eftir að KLAPPINU LINNI.

 

 

DJONNÝ

Jæja, "guys" - "an' dolls"!

Næsta lag heitir: Ófrísk af trekk.
Það er tileinkað mömmu minni.

Ég heiti sko, eins og þið vitið: John Treck.
Mamma hefði vel getað látið mig heita Jón Hermannsson,
því pabbi minn var hermaður. Hún hefði getað látið mig
heita Jón Erlendsson, því hann var erlendur maður.
Hún hefði getað látið mig heita Jón Hansson -
- sonur einhvers hans - því það hlýtur að hafa verið karlmaður.

En hún lét mig heita John Treck.
Þess vegna samdi ég lag fyrir hana.

 

Krakkarnir hlæja innilega.

 

Djonný syngur sóló og spilar á gítar (ekki rafmagns-), undurfallegt lag, sem er mest hummm, - stöku sinnum: mamma, mamma mín, og - í lok hverrar vísu

DJONNÝ

(syngjandi)

... 'hve ég finn það,
trekk í trekk í trekk,
að þú ert prímadonnan mín'.

 

 

Í MYND: Krakkarnir í salnum - sem hlusta og rugga saman í takt við lagið sem DJONNÝ SYNGUR ÁFRAM O.S.

ÉG (V.O)

Hvernig getur þessi drengur,
sem kemur nýr inn í hópinn,
sagt svona drepfyndna hluti
á sjálfs sín kostnað?

 

(Ath: Þessar hugsanir koma á þeim köflum lags Djonnýs, sem eru lágt 'humm' og gítarspil - ég hugsa ekki í orðum, meðan texti Djonnýs er, svo við heyrum textann.)

 

ÉG (ÁFRAM; V.O.)

Hann Djonný þarf ekki einu sinni
að tilheyra klíku.
Hann er bara hann sjálfur.

Og hvernig getur hann djókað
með sjálfan sig og sína eigin móður?
Ekkert er viðkvæmara en fjölskyldan.

Ég, svona til samanburðar, - -
- - ég get ekki einu sinni sagt frá því
að mamma mín var ófrísk eftir annan
þegar hún hitti pabba.
Pabbi og hún eiga ekkert barn saman.
Ég þekki alvörupabba minn ekki.

Og Djonný semur handa mömmu sinni
svona fallegt lag.

 

 

Djonný enn einn á sviðinu.

 

Hann lýkur laginu.

Mikið klapp.

 

 

Við hin í hljómsveitinni komum aftur upp á svið.

 

Næsta lag, fjörugt.

Dansað.

 

 

 

 

 

 

 

INNI, SKÓLASTOFA, KRAKKAR Í PRÓFI, NÍUNDI BEKKUR GRUNNSKÓLA, SAMRÆMDU PRÓFIN - SÓL ÚTI -

DJONNÝ ER HÉR, SILFÁ ER HÉR, ÉG ER HÉR, OG FLEIRI

 

Það er dauðaþögn.

Allir rembast við að leysa af hendi prófið.

Kennari gengur um stofuna eða situr við kennaraborðið.

Ég lít upp og horfi annars hugar út í loftið.

 

ÉG (V.O.)

O, það verður gott þegar þetta er búið.
Sumarið að koma.
Hryllingur að sitja hér inni í svona veðri.
Það ætti alltaf að vera vont veður
þegar maður er í prófum.

Ég hef alltaf farið í sveit á sumrin - -
- - þar til nú.
Ég hlakka til að vera í bænum;
fá mér vinnu.

 

Ég renni augunum yfir að Djonný, sem klórar sér í hausnum, grettir sig og hugsar.

 

ÉG (V.O.)

Við ætlum að reyna æfa í sumar.
Kannski að reyna að spila á böllum í sumar.
Kannski úti á landi.

 

Silfá kemur Í MYND. Hún skrifar, afslöppuð.

 

ÉG (V.O.)

Silfá er búin að fá vinnu í sjoppu.
Ég veit það.
En ég efast um að hún sé búin að
segja pabba sínum og mömmu það.
Við erum trúnaðarvinir, Silfá og ég.

Hún hefur alltaf unnið
á verkfræðiskrifstofunni hjá Agnari.
Verið í sendiferðum og svoleiðis.

Hvað skyldi hann segja?

Nei, þetta dugar ekki.
Ég verð að reyna að kreista eitthvað
út úr hausnum á mér.

 

Ég einbeiti mér að prófinu.

 

 

 

ÚTI, SJOPPA, SUMARKVÖLD NÁLÆGT MIÐNÆTTI -

Mótorhjól Djonnýs kemur að.

Hann drepur á hjólinu og gengur inn í sjoppuna.

Fólk fer út úr sjoppunni (eða einhver hreyfing).

 

Stuttu seinna koma Djonný og Silfá út.

Silfá lokar hurðinni að sjoppunni, tekur í húninn til að fullvissa sig um að það sé læst.

Þau eru bæði í svörtum leðurgöllum.

 

SJÁST NÆR og NÆR

 

Silfá setur á sig hjálm.

Djonný sest á hjólið, ræsir. Silfá sest klofvega fyrir aftan hann. Djonný brosir, smellir niður glerinu á hjálminum. Ræsir hjólið.

 

SJÁST NÆR og NÆR

 

Silfá leggur báða handleggina utan um Djonný. Hún hallar höfðinu upp að baki hans. Bros leikur um varir hennar.

(Ath. Þetta sé róleg, falleg mynd af svörtu leðurbaki Djonnýs og brosi Silfáar með hjálmvarið höfuðið við bak hans.)

 

 

Djonný keyrir af stað - ekki glannalega. Keyrir frá sjoppunni út á umferðagötuna, varlega.

Þau SJÁST fjarlægjast.

 

ÉG (V.O.)

Framtíðin kitlar mann í magann,
þegar maður er ástfanginn.

-- Silfá vinkona mín er ástfangin, --
og ég er glaður,
vegna þess að hún er glöð.

 

 

Rauður miðnætursólarhiminn umlykur borgina.

Allt verður rautt, svo rautt og undarlegt.

(Ath: Fögur, löng, heit sena.)

 

 

 

ÚTI, ÍSKALDUR GRÁR SPÍTALAVEGGUR

- Nístandi væl í sjúkrabílum HEYRIST

 

 

 

 

INNI, GJÖRGÆSLA - SILFÁ OG MARÍA (MAMMA SILFÁAR)

 

allt hvítt og grátt og þögult.

Silfá liggur hreyfingarlaus með lokuð augu í sjúkrarúmi. Sjúkraæki tengd við hana.

María, mamma hennar, situr við rúmið, starir, sviplaus, hreyfingarlaus, á dóttur sína.

 

SJÓNARHORN hreyfist HÆGT.

 

 

 

FADE TO:

 

 

FADE IN

INNI, GJÖRGÆSLA, - SILFÁ - AGNAR (PABBI SILFÁAR)

Silfá liggur hreyfingarlaus með lokuð augu í sjúkrarúmi. Sjúkraæki tengd við hana.

Agnar pabbi hennar situr við rúmið, starir á hvíta sængina fyrir framan sig. Það eru kippir í andliti hans, augnaráðið hvasst.

 

 

Hjúkrunarfræðingur kemur, skiptir um glúkósaflösku, fer.

 

FADE TO:

 

 

 

FADE IN

 

INNI, GJÖRGÆSLA, - SILFÁ OG ÉG

Silfá liggur hreyfingarlaus með lokuð augu í sjúkrarúmi. Sjúkraæki tengd við hana.

Ég sit við rúmið.

 

SJÓARHORN hreyfist HÆGT í hring og ofar eins og séð meira ofanfrá.

 

 

 

Ég reisi höfuðið með lokuð augu. Ég berst við grát.

Nasavængirnir titra, varirnar titra.

 

 

 

FADE TO:FADE IN

INNI, GJÖRGÆSLA - SILFÁ OG MARÍA (MAMMA SILFÁAR)

Silfá liggur hreyfingarlaus með lokuð augu í sjúkrarúmi. Sjúkraæki tengd við hana.

María mamma hennar situr við rúmið.

 

María starir, sviplaus, á dóttur sína.

 

 

Nú sést aðeins glúkósaflaska sem drýpur úr, dropi eftir dropa eftir dropa. (ZOOM hægt to CLOSE UP)

 

 

 

 

INNI, GRENSÁSSDEILD, SJÚKRASTOFA - SILFÁ OG ÉG

Baksvipur Silfáar sitjandi í hjólastól við glugga, hún snýr að glugganum,

ég sit við gluggann hjá Silfá.

 

Ég horfi á ekki neitt.

 

 

Hægt HREYFIST SJÓNARHORN í hálfhring og NÆR.

Tómur svipur Silfáar kemur í ljós.

 

Við sitjum þögul nokkra stund.

 

 

 

 

 

ÉG

Djonný fékk að fara heim í morgun.
Hann var fluttur í Sandgerði
til mömmu sinnar.

 

Silfá nikkar.

 

 

 

ÉG

Hann má ekki hreyfa sig mikið.

 

 

 

 

 

 

Ég lít upp, horfi fram að dyrum.

Silfá hreyfir sig ekki.

 

 

POV (séð frá mér)
SJÚKRASTOFAN - KRAKKAR ÚR SKÓLANUM

Þau standa vandræðaleg í dyrunum. Eitt þeirra heldur á blómum.

 

 

 

SJÚKRASTOFAN - SILFÁ OG ÉG

(POV; Séð frá krökkunum:) baksvipur Silfáar í hjólastólnum.

Ég stend upp.

 

ÉG

Silfá.
Það eru vinir okkar
að koma í heimsókn.

 

Ég sný hjólastólnum hægt við, svo hann snýr fram að dyrum. Silfá lítur hægt upp.

 

 

 

SJÚKRASTOFAN - KRAKKARNIR

Þau standa vandræðaleg í dyrunum - haldandi á blómunum

Þau ganga inn í átt að okkur.

Sá sem heldur á blómunum réttir henni þau: rósabúnt í sellófan.

 

 

SJÚKRASTOFAN - SILFÁ

(Séð niður á við frá krökkunum.)

Blómin sjást.

Birta gluggans í bakgrunn; Silfá sem dökk silúetta.

 

Hönd mín sést taka við blómunum og leggja þau í kjöltu Silfáar.

Silfá nikkar örlítið til krakkanna án þess að líta upp.

 

 

Við sjáum nú aðeins rósir í sellófan liggjadi í kjöltu Silfáar. (ZOOM hægt í CLOSE-UP)

 

 

 

 

 

FADE TO WHITE (þannig að blómin í sellófini í kjöltu Silfáar fölni yfir í hvítt og hverfi svo)

 

 

INNI, SETUSTOFA Á GRENSÁSDEILD - SILFÁ OG ÉG, FÁIR EÐA ENGIR HÉR AÐRIR

Við segjum ekkert.

 

. . . STRÁKUR ÚR HLJÓMSVEITINNI (O.S.)

Hæ!

 

Ég lít upp, brosi.

Silfá lítur hægt upp.

 

Inn í mynd koma nokkrir strákar úr Krókódílunum.

(Ath: Þeir eru í litríkum fötum og glaðklakkalegir og hlæja hátt, -- sem stingur algjörlega í stúf við leiðinlegt umhverfið.)

 

STRÁKUR ÚR HLJÓMSVEITINNI

Jæja, Silfá mín.
Hvernig líður?

 

SILFÁ

Takk.

 

STRÁKUR ÚR HLJÓMSVEITINNI

Ég var að tala við Djonný í síma.
Hann er allur krambúlerður ennþá.
Má ekkert reyna á sig,
en er að skakklappast á tveim hækjum
til að komast á klóið.

Mér skilst á honum
að það sé mjög erfitt að vera skotinn í honum
eins og hann lítur út þessa stundina(!!)

 

STRÁKUR ÚR HLJÓMSVEITINNI

Viltu að við keyrum þig aðeins
út í sólina, Silfá?

 

ÉG

Ertu til í það?

 

 

Silfá er hreyfingarlaus. Sólin skín inn um gluggann á vanga hennar. Hin hlið andlitsins í skugga, miklir kontrastar, grafiskt film noir.

Hún svarar engu.

 

Í svip okkar sést, að við vitum ekki hvað við eigum að gera. Við rembumst við að vera hressir og fá hana með út. Hún mótmælir með tómlæti sínu, mótmælir án þess að segja orð.

 

 

Silfá, strákarnir úr Królódílunum og ég erum hreyfingarlaus, eins og óraunverulegar dökkar styttur, silhúettur, sem ber í skæra sólarbirtuna sem kemur inn um gluggann í móti kameru.

 

 

Öll setustofan SÉST SMÁTT OG SMÁTT (VÍKKA SJÓNARHORN), með fólki í hjólastólum, fólki í rúmum sem keyrð hafa verið fram eða er verið að keyra fram, hægt (allar hreyfingar hægar), í mynd kemur fólk sem er að koma í heimsókn; hægar, óhugnanlegar hreyfingar, þögn eða dimmur mónotón effektaleikur.

 

(Ath: Ekki ljót sena, en óhugnanleg, köld og fráhrindandi, óraunverule; tíminn er ekki til hér)

 

(Ath: Ekki sér framan í neinn sérstakan. Á fólki í forgrunn er baksvipur eða það er óþekkjanlegar silúettur.
Þetta er eins og kirkjugarður á hreyfingu.)

 

Hjúkrunarkonan í forgrunn sveiflar hvítu laki, sýnt í SLOW MOTION. Hún breiðir yfir fölan sjúkling.
Hvít þunn gluggatjöld mega blakta í andvara, og sólin lýsir þau upp utanfrá)

 

Er Silfá að grafa sig lifandi?

 

Í lok eins og HORFT í gegnum hvíta, blaktandi slæðu, kannski eins og blaktandi storís í fellingum, sem er e.t.v. lakið í f.g. (forgrunni) eða gluggatjaldið í b.g. (bakgrunni).

 

 

 

FADE OUT

 

 

INNI, GANGUR Á GRENSÁSDEILD - AGNAR (PABBI SILFÁAR)

Agnar er að keyra á undan sér ....

(einbeittur og áhugasamur á svip, og ekki sorgmæddur)

 

 

..... hjólastól Silfáar fram ganginn. Ég geng á eftir.

Silfá horfir áhugalaust fram fyrir sig. Svipur hennar er tómur.

Agnar er fullur áhuga á framtíðinni.

Agnar keyrir rösklega fram í setustofuna; ég geng á eftir þeim.

Í setustofunni eru sjúklingar (-- í rúmum, í hjólastólum, eða með hækjur --) að horfa á sjónvarpið.

 

Agnar stoppar hjólastólinn í einu horninu.

Silfá horfir áhugalaust fram fyrir sig. (Svipur hennar er tómur.)

Allt virkar ópersónulegt og vélrænt. Agnar sest á stól. Ég næ mér í stól og sest. Við erum hluti af vonlausri sítúasjón.

 

(Ath.: Hjólastóll Silfáar snýr þannig, að hún sér fram yfir setustofuna og fram að stiganum sem liggur hingar upp.)

 

 

 

INNI GRENSÁS ÁFRAM SETUSTOFAN - AGNAR, SILFÁ, ÉG

 

AGNAR, PABBI SILFÁAR

Ég hef fréttir að færa þér, Silfá mín:
Ég er að festa kaup á bíl.
Bíl, sem þú getur svo keyrt,
þegar þú færð bílpróf.
Ég er að kynna mér hvernig og hve mikið
Tryggingarnar taka þátt í þessu.
Þetta er mikill frumskógur
þessi almannatryggingamál.
Svo er ég búinn að gera heilmikið í húsinu.
Það verður innangengt
úr bílskúrnum inn.
Ég er búinn að láta taka alla þröskulda burt,
og læt setja litla lyftu milli hæða.
Ég er búinn að teikna hana.

Þú mátt ekki láta bugast.
Þú verður að fara að koma heim.
Læknarnir vilja að þú farir heim.
Þeir vilja ekki að þú sért hér of lengi.

Silfá mín.

 

Agnar reynir að fá viðbrögð hjá Silfá.

 

AGNAR, PABBI SILFÁAR (ÁFRAM)

Heyrirðu til mín?
Þú, með þínar góðu gáfur,
hefur svo mikla möguleika.
Þú getur farið í Háskólann
eftir stúdentspróf.
Ótal möguleikar eru fyrir hendi.
Þú aflar þér menntunar.
Þú getur orðið sjálfri þér nóg
um alla hluti.
Kannski nærðu þér alveg.

 

Ég horfi á Agnar.

Ég verð hugsi.

Tal Agnars verður óskýrara, ekki greinast nema nokkrar fyrstu setningarnar af framhaldinu. Agnar er áhugasamur og hress:

 

AGNAR, PABBI SILFÁAR (ÁFRAM)

Þú getur rétt ímyndað þér
að við hjálpumst öll að.
Þetta verða aðeins byrjunarörðugleikar,
alls ekki óyfirstíganlegir. ....

(....texti Agnars heldur áfram en við greinum ekki orðin)

Hann heldur áfram að tala í sama dúr, að stappa stálinu í Silfá og reyna að hressa hana upp og fá hana til að koma heim.

Ég horfi nokkra stund á Agnar, með yfirvegaðri tortryggni og einhvers konar undrun í svipnum. Ég hætti að heyra orð hans því hugsun mín grípur mig allan og heldur mér í heljartökum.

 

ÉG (V.O.)

(Ath.: Tal mitt samfellt en ég berst við hugsanir mínar, angist heltekur mig.)

Hvers vegna er Agnar Harrason, verkfræðingur,
svona hress?
Hvers vegna er hann ekki sleginn og bugaður
og með kökk í hálsinum eins og við hin?
Ég þori ekki að hugsa þá hugsun
sem er að brjótast fram.
Ég má ekki -- en ég get ekki hrint þessari hugsun
frá mér :
- ----- Nú verður hún aftur einkadóttir hans!
- Heima í einbýlishúsinu hans!
- ---- Hann kaupir fallegan fatlaðrabíl,
og hún getur farið í Háskólann, - í verkfræði !

Hver fruma í líkama mínum grætur í angist.

 

Ég er örvilnaður af því sem hugur minn segir mér til um að gæti gerst:

(mynd fer í CLOSE-UP af mér og inn í huga mér)

 

 

 

ÚTI - VIÐ HÁSKÓLA ÍSLANDS - SILFÁ, AGNAR
(hugarburður minn, og eitthver ANGISTARHLJÓÐ heyrist, og er ærandi þótt það sé lágt)

Silfá, umkomulaus í hjólastól. Silfá heldur sér dauðahaldi í hjólastólinn.

Agnar ekur henni að dyrunum,

og

inn í anddyri Háskólans.

 

 

 

INNI GRENSÁS SETUSTOFA - ÉG
(aftur eins of fyrir hugarburðinn).

Ég kem til sjálfs mín á ný eftir angistina.

Agnar situr hress við hlið Silfáar, dóttur sinnar.

Silfá er kyrr og dauf.

Ég er miður mín.

ÉG (ÁFRAM; V.O.)

Ég sá margt í sveitinni
þegar ég var lítill:

 

(mynd fer í CLOSE-UP af mér og inn í huga mér)

 

 

FADE TO:

 

 

FADE IN

INNI, SMIÐJA Í SVEIT - ÉG SEM UNGUR DRENGUR

Lifandi eldur og glóð - allt rautt og svart - (eins og eini ljósgjafi sé eldurinn, og allt hér inni sé sótugt.)

Ég, sem ungur drengur, stend nálægt eldinum

 

Taktföst högg HEYRAST O.S.

 

Ég fikta við heita töng

Ég brenni mig allt í einu í fingurna á tönginni. Hrekk við. Lít flóttalega upp til hliðar.

 

 

(POV mitt:)
INNI, SMIÐJA Í SVEIT - ÓHREINN SKEIFNASMIÐUR

Hann hamrar skeifu á steðja

Hann lítur illilega á mig (niður á móti því sem ég horfði upp að), horfir eitt andartak á mig, heldur áfram, taktfast, að berja sína skeifu.

 

SKEIFNASMIÐURINN

(spýtir út orðum milli hagga)

Rétt mátulegt á þig.
Ég var búinn að banna þér
að vera að fikta þetta.

 

 

AFTUR ÉG (SEM UNGUR DRENGUR)

Lúpulegur baksvipur minn sést, við eldsins flöktandi bjarma í smiðjunni.

Höggin HEYRAST áfram O.S., þung og taktföst.

HEYRIST SEM einhvers konar bergmál:

Rétt mátulegt á þig.
Rétt mátulegt á þig.
Rétt mátulegt á þig.
Ég var búinn að banna þér að vera að fikta þetta.

 

ÉG (V.O.)

Ég hugsaði með sjálfum mér:
Þessi er með gaddavírsþræði.

 

FADE TO:

 

 

 

FADE IN

ÚTI, GÖMUL, STEINSTEYPT TRAPPA VIÐ ÚTIDYR Á SVEITABÆ - ÉG, SEM UNGUR DRENGUR, SIT HÉR

Eg tálga spýtu með vasahníf.

Ég (ungur) rek hnífinn í fingurinn og kippist við.

 

 

INNI, ELDHÚS Í SVEIT, - HÚSFREYJAN

 

HÚSFREYJAN

Blóðgaðirðu þig nú,
greyið mitt.

 

Hún tekur plástur upp úr gömlum blikk-kassa, sem er sjúkrakassi heimilisins, og lætur á sárið.

 

HÚSFREYJAN (ÁFRAM)

Við skulum nú ekki láta koma
skít í þetta, þótt lítið sé,
hróið mitt.

Farðu svo varlega
með þennan sjálfskeiðung,
elsku barn.
Hnífur og skæri eru ekki barna meðfæri.

 

 

SAMA STAÐ OG TÍMA, HÚSFREYJAN BROSANDI

Húsfreyjan horfir alúðlega á mig.

 

ÉG (V.O.)

Svona fólk kallaði ég
silkiþráðafólk.

 

 

 

BADK TO SCENE

INNI, GRENSÁS, SETUSTOFAN - ÉG (15 ÁRA)

Augu mín eru fjarræn, en leynir sér ekki hve hlýtt mér er til þessarar minningar, og að ég tími eiginlega ekki að slíta mig frá henni.

 

HÚSFREYJAN (V.O.)

Æ, elsku barn, meiddirðu þig?
Ég hefði ekki átt að láta þig
skera svona hart brauð.
Ég skal gera þetta.
Það má ekki ætlast til of mikils af börnum
þótt þau séu dugleg.

 

Einhvers konar bergmál af rödd húsfreyjunnar:

Það má ekki ætlast til of mikils af börnum
þótt þau séu dugleg.

Það má ekki ætlast til of mikils af börnum
þótt þau séu dugleg.

 

Svipur minn enn blíðlegur.

Svipur minn verður nú harður og reiður.

 

KARLMANNSRÖDD (ÓÞEKKT; V.O.)

Andskotans klaufi geturðu verið,
krakkaskratti.
Þú verður aldrei að manni
þegar ekki er hægt
að treysta þér fyrir neinu.

 

ÉG (V.O.)

Svona fólk kallaði ég sleggjuhausa.

 

(mynd fer í CLOSE-UP af mér og inn í huga mér)

 

FADE TO:

 

 

 

FADE IN (hugsanir mínar):

ÚTI, SVEIT - REIÐUR KARLMAÐUR Á HESTIBAKI

 

Kallin ber fótastokkinn, hesturinn lætur illa að stjórn eða er latur.

 

ÉG ( V.O.)

Sumir börðu fótastokkin,
kölluðu blessaðar skepnurnar
hrjóskar, helvítis truntur.
Þeir kölluðu í hundinn, sem
klemmdi skottið á milli lappanna,
og hélt sig í vel afmarkaðri fjarlægt
frá stígvélafótum húsbóndans.

 

 

ÚTI, SVEIT - MONTINN KARLMAÐUR Á HESTBAKI, GLÆSILEGUR HESTUR

ÉG (V.O.)

Og maður sá unga menn með písk og hroka,
og augu hestanna voru myrk, þótt þeir hlypu.

 

 

ÚTI, SVEIT - LÍTILL KRAKKI BERBAKT Á GÖMLUM HESTI, ÁNÆGÐUR HUNDUR ELTIR

Krakkinn ríður niður traðirnar frá sveitabæ, helst á brokki.

 

ÉG (V.O.)

Milli manns og hunds og hests, l
iggja leyniþræðir.

Síðan ég heyrði þessa hendingu,
hef ég verið að horfa í augu manna,
hesta og hunda
í leit að leyniþráðum.
- Árátta. -
Ég er svo upptekinn af
þessum leyniþráðum ennþá,
að ég tek ekki eftir,
að vinir mínir eru í nýjum stælgallabuxum,
eða hafa látið klippa sig og lita.

 

 

ÚTI, SVEIT, SAMI STAÐUR,

Örlítið síðar - litli krakkinn kemur ríðandi berbakt (fer fetið) á gamla hestinum, ánægður hundur eltir; á undan þeim lalla kýr.

 

(Ath. vel: nú ríður krakkinn í gagnstæða átt við þá sem hann reið í áðan frá bænum, það er: nú ríður hann heim að bænum.

Gefa þessari senu dálítinn tíma.)

 

ÉG (V.O.)

Ég hefði átt að segja pabba
þetta með leyniþræðina.
Hann hefði bara hlegið
og þótt þetta sniðugt.

 

FADE TO:

 

 

FADE IN:
BACK TO SCENE
AFTUR INNI, SETUSTOFAN GRENSÁSI - ÉG (15 ÁRA)

(CLOSE-UP af mér sem frá var horfið.)

Smátt og smátt sést yfir alla setustofuna, séð frá stigaskörinni.

Þar er fólkið sem þar var áðan (sjúklingar), og fólk í heimsókn.

(þekkist ekki).

Hugsanir mínar flæða fram daprar, korrandi.

 

ÉG (V.O.)

Hefur Silfá nokkurn tíma getað talað við Agnar
eins og ég get talað við pabba?
Skyldi hún nú vera orðin eins og ókunnug kona
inni á heimilinu sínu?
Ég meina:
- ekki lengur litla, góða, þæga dóttir verkfræðingsins?
Kona, sem ætlaði að læra að syngja,
og saumaði sér dress til þess að vera í á böllum?
Hún saumaði dressið sjálf.
Agnar Harrason hefur líklega ekki séð dóttur sína í því.
Hann veit kannski ekki heldur
að hún var að syngja uppi á sviði?
Það er of seint að byrja að tala við börnin sín
þegar þau eru orðin táningar.
Það er þetta með leyniþræðina.
Þeir þurfa að vera innilegir frá fæðingu, - - frá getnaði.

Silfá var aldrei skömmuð.
Hún fékk allt sem hún vildi.
En - -- var það vegna þess að hún var ekki heimtufrek?
Það var alltaf allt í takt við fjölskylduímyndina.
Hún átti góðan pabba, af því að hún uppfyllti allt,
sem einn pabbi gat óskað.
Það var aðeins eitt sem ekki kom fram:
Hvað, ef hún gerði eitthvað sem ekki passaði í kramið?
Var allt svona slétt og fellt, þangað til hún vildi eitthvað
sem stríddi gegn ímynd hans?
Er honum ástin sama og vald?
Er þetta ekki hin sanna, tæra föðurást?

Verkfræðingurinn hefur auðvitað þræði.
Eru þræðirnir hans rimlar?
Er hans löngun honum svo mikils virði,
að hann kemur ekki auga á hennar hamingju?

Hefur Agnar Harrason hlustað á hve fallega Silfá syngur?

_Ég_ veit, að fyrsti kossinn hennar Silfáar var
tíu komma sex metra frá tvöfalda bílskúrnum hans.

Silfá sagði mér það. Hún veit að ég segi ekkert.

 

Hægt herfur sjónarhorn kameru víkkað, svo allur salurinn sést eins og frá stiganum sem liggur hingað upp.

Silfá, Agnar og ég erum fjæst í b.g., eins og við komum ekki málinu við lengur.

Allir hér eru eins og vofur.

 

 

 

INNI, SETUSTOFAN GRENSÁSI - SILFÁ Í HJÓLASTÓLNUM

Silfá starir áhugalaus fram fyrir sig.

Silfá lítur upp, hægt; horfir fram í átt að stiganum, en ekki á neitt sérstakt. Þetta er eina hreyfingin í salnum; Silfá ber í gjartan glugga og er eins og miðdepill stórrar myndar sem ekkert er á sem skiptir máli.

Augu hennar vakna allt í einu og svipur hennar allur;
(ZOOM á Silfá)
hún réttir ögn úr bakinu og hálsinum. Hallar sér til hliðar til að reyna að sjá framhjá fólki sem er í sjónlínu hennar. Hún jafnvel flytur hjólastólinn aðeins, til að sjá betur. Við tökum greinilega eftir að þetta er í fyrsta sinn eftir slysið sem hún sýnir einhver viðbrögð.

 

POV Silfáar:
INNI, SETUSTOFAN GRENSÁSI - STIGASKÖRIN

(SÉÐ úr fjarlægðinni frá okkur, frá glugga að stigaskörinni).

Strákarnir í Krókódílunum eru að koma upp stigann upp í setustofuna. Fyrst sést í höfuð þeirra. Svo meir og meir eftir því sem þeir koma ofar. Þeir bera Djonný, sem er í gifsi, upp stigann, hækjurnar hans dingla fram og til baka í hverju spori strákanna.

Strákarnir setja Djonný frá sér, þegar upp er komið á stigaskörina. Þeir líta í kringum sig, leitandi.

 

 

INNI, SETUSTOFAN GRENSÁSI - ÉG

Ég sprett á fætur, rétti upp höndina, horfandi fram til strákanna.

 INNI, SETUSTOFAN GRENSÁSI - STRÁKARNIR OG DJONNÝ Á STIGASKÖRINNI

(Eins og SÉÐ frá Silfá og mér.)

 

Þeir koma auga á okkur. Einn strákanna bendir í átt til okkar.

Djonný skakklappast á hækjunum í átt til okkar.

Strákarnir koma líka.

 INNI, SETUSTOFAN GRENSÁSI - SILFÁ, AGNAR, ÉG OG FLEIRA FÓLK

(Eins og HORFT frá strákunum; Silfá, Agnar og ég SJÁUMST úti í horni.

Þeir eins og FÆRIST NÆR og NÆR okkur; (sjónarhorn þrengist hægt að okkur sem þeir nálgast);

það birtir yfir svip Silfáar.

 

ÉG (V.O.)

Eldheitur endir blossar upp
á þessari ísköldu stund.
Eldgos undan jökli.

 

Agnar og ég hverfum loks ÚR MYND eins og allt annað, en

Silfá séð NÆR OG NÆR, aðeins ofan frá, (eins og SÉÐ frá Djonný)

horfir í augu hans (upp á við).

 

 

POV Silfáar: DJONNY (CLOSE-UP)

Kíminn og brosandi horfir hann niður á móti henni.

 

POV Djonnys: SILFÁ

Silfá horfir upp á móti Djonny.

ÉG (V.O.)

Svona tindra augu hests,
sem hnakklaus ber lítinn snáða
að leita að kúnum.
Ég er eins og lítill, kátur hundur,
sem dinglar skottinu,
því Silfá, vinkona mín,
á allt hið besta skilið.

 

 

INNI, SETUSTOFAN GRENSÁSI - DJONNÝ, SILFÁ, HINIR STRÁKARNIR, AGNAR, ÉG

Djonný og Silfá horfast í augu.

 

 

INNI, SETUSTOFAN GRENSÁSI - EINN STRÁKANNA

Hann lítur á mig og blikkar mig.

 

 

 

INNI, SETUSTOFAN GRENSÁSI - ÉG

Ég brosi kankvíslega, og lyfti augnabrúnunum aðeins.

 

 

INNI, SETUSTOFAN GRENSÁSI - SILFÁ OG DJONNÝ

Djonný beygir sig niður og kyssir Silfá á ennið eða kollinn.

Hann brosir.

Hún brosir.

 

Djonný reisir sig upp aftur,

Silfá sést ein í mynd. Hún horfir á Djonný.

 

 

INNI, SETUSTOFAN GRENSÁSI - AGNAR

Agnar horfir til hliðar á Silfá.

Horfir upp á Djonný.

 

 

INNI, SETUSTOFAN GRENSÁSI - VIÐ ÖLL

Djonný réttir Agnari höndina. Missir aðra hækjuna um leið.

 

DJONNÝ

John Treck. Hæ.

 

Agnar réttir hikandi fram höndina.

Einn af okkur strákunum tekur upp hækjuna.

 

SILFÁ

(við Djonný)

Pabbi minn. Agnar.

 

DJONNÝ

(við Silfá)

Silfá. Náðu í einhvern í hvítum slopp
til að útskrifa þig.
Við spilum á balli í Búðardal um helgina.

 

 

INNI, SETUSTOFAN GRENSÁSI - SILFÁ

DJONNÝ (ÁFRAM; O.S.)

Er söngkonan okkar ekki í toppformi?
Náðu í dótið þitt, elskan.

 

 

INNI, SETUSTOFAN GRENSÁSI - VIÐ ÖLL

DJONNÝ (ÁFRAM)

Við seldum allt hjóladjönkið,
og keyptum sendiferðabíl !

 

Ég keyri hjólastól Silfáar af stað, - lít á viðbrögð hennar. (Hún er greinilega til í að láta útskrifa sig af Grensásdeild.)

Öll hersingin kemur á eftir okkur.

(Ath: Ég nenni ekki einu sinni að líta á Agnar. Mér er alveg sama hvað hann er að hugsa.)

 

 

 

MÚSÍK Krókódílanna HEYRIST, LÁGT í fyrstu - eins og þetta séu hugsanir okkar Krókudílanna, -- komnir á ballið í huganum -- á undan okkur.

Fólk í setustofunni (þekkist ekki) lítur upp þegar við troðumst fram. Svona asi stingur í stúf við tempóið í þessum sal.

 

ÉG

Hvar er þetta fólk í
hvítu sloppunum?

 

 

 

Músíkin HÆKKAR síðan smátt og smátt, og heldur áfram meðan ég keyri Silfá eftir gangi að vakt -- hinir elta.

Við leitum að vakthafandi hjúkrunarliði.

Músíkin verður AÐALATRIÐI,

 

Hreyfingar okkar verða rythmiskar. (Kannski ekki Agnars(!!!), því hann nær þessu ekki alveg)

 

 

MYND VERÐUR ALBJÖRT

TÓNLIST KRÓKÓDÍLANNA

Vakthafandi læknir finnst,

við ruslum fötum Silfáar út úr skápnum í herberginu,

hjólastóll fer inní sendiferðabíl -- á fögrum sólskinsdegi, --- því það er sumar á Íslandi..........

 

 

FADE OUT

 

 

ENDIR

 

 

 

-- - o o 0 o o - --**