ISBN 9979-895-34-9

 

Vaknaðu, Lóa! Vaknaðu!. . . Ímyndaðu þér óbótóna,
. . . lagið:
. . . lóan er komin
. . . að kveða burt snjóinn
. . . kveða burt leiðindin
. . . það getur hún

. . . ímyndaðu þér ungbarnsgrát með ekka


Þetta er Lóa litla að gráta.
Þú getur nærri að mamma hennar getur ekki sofið þegar ungabarnið grætur svona. Pabbi Lóu fær heldur engan svefnfrið.. . . ímyndaðu þér syfjulega ráma rödd hans:

-Geturðu ekki þaggað niður í barninu, elskan? Það er hánótt.

Mamma Lóu reynir að hugga hana, en það er eins og ungabörn skilji ekki að foreldrar þurfa að sofa.
-Þetta lagast vonandi þegar hún stækkar
(
segir syfjulega rám rödd unga föðurins).

. . . ímyndaðu þér óbóið spila hratt og hressilega:
. . . lóan er komin
. . . að kveða burt snjóinn......

. . . svo heyrist búmm búmm búmm
. . . og meira búmm búmm

Auðvitað stækkar Lóa litla.
Það er alveg ótrúlegt hve hratt ungabörn stækka:
Lóa er orðin ársgömul og búin að finna upp æðislega skemmtilegan leik
(
það er þetta búmm búmm):
Eldsnemma á morgnana þegar alls staðar er þögn, hoppar Lóa upp og niður í rimlarúminu sínu. Þá hristist allt, brakar í öllu og fæturnir á rúminu stappa í gólfið (
búmm búmm).


. . . óbó:
. . . hún hefur sagt mér
. . . að vaka og vinna......

-Mamma! æpir Lóa. -Mamma!!!

Mamma vaknar: -Æ, Lóa mín, hafður ekki svona hátt.
En þetta dugar ekki til að vekja pabba. Bara mömmu. Svo betur má ef duga skal

. . . óbóið áfram:
. . . .....hún hefur sagt mér
. . . að vaka og vinna......

Lóa nær í eitt hornið á svæflinum sínum og koddinn fær flugferð. En hún dregur ekki nógu langt. Koddinn fer í gólfið.
Hún pillar af sér pissubleiuna og skutlar henni í mömmurúm.

. . . .....hún hefur sagt mér
. . . að vaka og vinna......

Svo er hægt að berja pelanum sínum í rúmið.

. . . bamm bamm bamm bamm


Það er miklu auðveldara að draga langt með pela en með kodda, sérstaklega ef maður nær góðu taki á túttunni.
---Mark---!!! Pelinn fer í pabba.
-Elsku Lóa mín !, segir mamma Lóu. -Vektu ekki pabba !
(Ég ætla ekki að hafa eftir það sem pabbinn sagði.)
Lóa hlær og puðrar ánægjulega.


Mamma Lóu geispar, tekur barnið og fer með það fram.

. . . (ánægjuhljóð í Lóu, svona blaða blaða blaða og burr)

Lóa er yndislegt barn þegar hún er viss um að vera búin að vekja fólk.
Morgun eftir morgun klukkan sex, ár eftir ár, meðan Lóa er eins árs, tveggja ára, þriggja ára, fjögurra ára, reynist þrautalendingin vera: Fara bara á fætur þegar Lóa er vöknuð.
Hún er morgunhani, -- þetta barn.


En þegar Lóa litla stækkar, þ.e.a.s. þegar hún kemst á skólaaldurinn, fer hún loks að geta sofið ögn fastar á morgnana:


. . . óbó (svolítið stríðnislega):
. . . sofnar lóa
. . . löng og mjó-ó-ó-ó....


-Lóa mín. -Lóa! (mamma er að reyna að vekja Lóu). -Lóa mín, vaknaðu vinan.
(Lóa umlar syfjulega)
-Lóa mín, er ekki leikfimi í fyrsta tíma, elskan?. -- Lóa mín --

Lóa er fremur syfjulega þegar hún maular árbítinn sinn. Hún er að velta því fyrir sér hvers vegna maður þurfi alltaf að vakna svona snemma -- á undan sólinni: -Útaf kvuru, mamma, útaf kvuru þarf maður alltaf að fara í skólann?
-Segðu frekar: hvers vegna, elskan mín, segir mamma. -Það er fallegra en: útaf hverju. Auðvitað verðurðu að fara í skóla, elskan mín. Svona drífðu þig nú. Klukkan er alveg að verða.

. . . . ímyndaðu þér enn óbóið spila
. . . hratt:
. . . . lóan er komin
. . . . að kveða burt snjóinn
. . . . snjóinn
. . . . snjóinn
. . . . snjóinn

. . . . og ímyndaðu þér Lóu litlu ösla snjóinn, með skólatösku, í úlpu, með húfu, trefil og vettlinga, í myrkri vetrarmorgunsins

Lóa hugsar til sumarsins. Þá kemur sumarfríið.
Þá þarf maður ekki alltaf að vakna til að fara í skólann, sko.

Auðvitað kemur vor. Það kemur alltaf vor.

. . . . Lóan er komin
. . . .að kveða burt snjóinn
. . . . kveða burt leiðindin
. . . . það getur hún......


Ég ætla sko upp í sveit þegar sumarfríið kemur, hugsar Lóa. Það verður gaman. Þá þarf maður ekki alltaf að vakna til að mæta í skólann.

. . . .óbóið spilar hratt:
. . . . snemma lóa litla í

. . . . snemma lóa litla í
. . . . snemma lóa litla í

Lóa vaknar eldsnemma einn fagran júnímorgun -- til þess að ná rútunni.

Það er sannarlega fjör í sveitinni.
Krakkarnir fá að vaka langt frameftir á kvöldin -- og kvöldin eru björt og næturnar eru bjartar --

. . . . ímyndaðu þér hanagal: goggalagó

-- en ég veit að Lóa sefur ekki til hádegis á þessum bæ.
Það er alltaf nóg að gera í sveitinni.


. . . .hún hefur sagt mér
. . . .að vaka og vinna
. . . .vonglaður taka nú.....

. . . .
. . . . það heyrist aftur hanagal


Sumrin taka enda eins og allt annað í þessari veröld.
Heyið kemst í hlöðu, féð er rekið heim af fjalli.


. . . . lóan í flokkum flýgur
. . . . fjarlægist sumarból
. . . .(o.s.frv. spilað angurvært og tregablandið á óbóið)

. . . . ímyndaðu þér nú tikk í klukku (t.d. stórri gamalli vekjaraklukku)

Auðvitað kemur alltaf aftur vetur

. . . . tikk takk tikk takk
. . . . tikk takk tikk takk


Lóa heldur áfram að stálpast.
Þegar hún er orðin táningur veltir hún því oft fyrir sér hvers vegna skólinn byrji alltaf áður en maður er almennilega vaknaður.


. . . . nú skulum við ímynda okkur bíb í tölvuvekjaraklukku (mjög uppáþrengjandi;
. . . . og bíbið heldur áfram undir texta;)


Undarlegt með þessar vekjaraklukkur hve snar þáttur þær eru í lífi manns.
Í raun er nútímamaðurinn orðinn þræll allrar þessarar visku sinnar:
Á hverjum morgni þar maður að rífa sig upp.
Hvað græðist á öllum framförunum?
Hvernig væri að njóta þægindanna, njóta lífsins, í stað þess að æða svona gegnum lífið?
Maður fær ekki einu sinni nægan svefn!

. . . . lóan er komin
. . . . að kveða burt snjóinn
. . . . kveða burt leiðindin
. . . . það getur hún.......


Lóa er orðin ástfangin !
Það kemur nú fyrir marga, en Lóa er orðin svo stór að hún er ástfangin í alvöru:


Hún ætlar að fara að gifta sig !


. . . . nú ímyndum við okkur nokkra fyrstu tónana úr brúðarmarsinum:
. . . . bamm bammbaramm

. . . . bamm bammbaramm

Húsmóðir, já.
Húsmæður geta sjálfar stjórnað sínum vinnutíma. Þær geta jafnvel skriði aðeins uppí aftur og kúrt sig ögn á morgnana.

. . . . vonglaður taka nú sumrinu mót

Lóa og maðurinn hennar eru ákaflega hamingjusöm. Það er alveg ólýsanleg sæla - eitthvað svo yndisleg lífsreynsla -- að mega sofa saman án þess að hafa samviskubit yfir að fara ekki heim þétt klukka sýni að langt sé liðið á nótt . Maður er nefnilega heima hjá sér. Klukkan getur ekki rofið þá eirð og öryggi sem ríkir milli nýgiftra hjóna.


-- Og þó --

. . . . bíb í vekjaraklukku (nokkuð lengi áður en nokkur viðbrögð klukkueigendanna sjást)

Lóa geyspar: -Heyrðu elskan, -- elskan -- -- -- klukkan var að hringja, vinur.

. . . . hrotur og uml í eiginmanninum sem snýr sér á hina hliðina -- án þess að opna augun.
. . . . Maðurinn hennar Lóu er svoddan nátthrafn.


Lóa spyr: -Á ég að setja kaffið yfir, elskan?
(Maðurinn lítur á klukkuna,
drífur sig á fætur
fær kaffi hjá Lóu,
kyssir hana bless
drífur sig í vinnuna)

Lóa fer uppí aftur, en hún er búin að drekka svo mikið kaffi að hún er ekkert syfjuð.

. . . .Vaaa vaaaa vaaaa (ungbarnsgrátur)

Þeim hjónum fæðist fríður sonur í fyllingu tímans.
Lóa gengur oft um gólf með soninn unga um nætur þegar aðrir sofa: -Sussu suss lilli minn. Reyndu nú að sofna. Sussu sussu lilli minn. Við skulum ekki vekja pabba.

. . . . Lóa syngur:
. . . . sofðu unga ástin mín....
. . . ......við skulum ekki vak'um dimmar nætur.

Hann Lilli hennar Lóu stækkar. Hann vekur mömmu sína alltaf eldsnemma á morgnana. Hann er morgunhani. Hann á það til að vakna klukkan sex og finnst þá vera kominn hábjartur dagur:
-Mamma komd'í kubbaleik. Mamma, kubbó. Mamma. Mamma lesa bók. Mamma segja mér sögu.

Það er ekki fyrr en Lilli er orðinn sjö ára að hann fer að geta sofið fast og lengi á morgnana.

.
. . . bíb í vekjaraklukku

Hann er líka alltaf á seinustu stundu í skólann.

. . . . bíb í vekjaraklukku

Lóa vekur manninn sinn (til þess að hann komist í vinnuna) og Lilla (til þess að hann komist í skólann).

. . . . bíb í vekjaraklukku

Þeir eru nú meiri svefnpurkurnar á morgnana, þessir feðgar.

Svo ákveður Lóa að fá sér vinnu.
Hún flýtir sér á fætur á hverjum morgni. Klukkan er sko enga stund að verða hálf, og Lóa þarf að ná strætó.
Ósköp sem er eitthvað dimmt úti á morgnana á veturna.

. . . .
hún hefur sagt mér
. . . . . að vaka og vinna
. . . . . að vaka og vinna
. . . . (óbóið er nú eins og biluð grammófónsplata sem hjakkar í sama hringnum)
. . . . að vaka og vinna
. . . . að vaka og vinna

Svo fóru þau hjónin til Spánar að hvíla sig, og komu Lilla til ömmu.

. . . . vonglaður taka nú
. . . sumrinu mót


Þar var ómögulegt að sofa fyrir hita, flugnabiti og syngjandi Íslendingum. Mikið skelfing sem fullir Íslendingar geta verið háværir á nóttunni.

. . . . fullir Íslendingar syngja ættjarðarlög, og ölvaðar konur hlæja hátt og skrækt


Jæja.
Það verður þó altjent tími til að sofa í ellinni.

Einu sinni var ég svkísa
ég ætla ekki að reyna að lýsa
hve gaman var þá.
Núna er ég orðin kerling,
bý til afbragðs góðan velling:
Æ, jamm og já.

(Lóa veit að þetta er lélegur skáldskapur og segir engum vísuna; brosir bara að henni í einrúmi.)

Í ellinni, já:


. . . . tif heyrist í prjónum

Þeir sem ekki deyja áður, verða gamlir. Í ellinni hafa menn nægan tíma. Tíminn hættir að hlaupa út úr höndunum á manni.
Vekjaraklukkur þjóna nú þeim tilgangi einum að segja til um hvað tímanum líður. Það er litið á þær jafnt á nóttu sem degi. Tölustafirnir þurfa að vera stórir og skýrir. Maður er löngu hættur að sjá á úrið.

. . . . óbó:
. . . . sofnar lóa
. . . löng og mjo-ó-ó
. . . (Lóa tekur undir og hummar lagið með óbóinu)

Lóa er orðin andstutt. Hún er orðin gömul.
Hún rær fram og aftur á rúmstokknum: -Æ, jamm og já:
Það er ekki von til að maður geti sofið um nætur þegar maður hefur litla fótaferð og dottar af og til á daginn. O, sei sei nei.

. . . (Lóa hummar áfram: sofnar lóa löng og mjó.......)

Það verður víst nóg um hvíldina þegar þar að kemur, og já já. Það held ég nú.
Hann verðu víst nógu langur, svefninn langi.

. . . (andstutt raular Lóa:)
. . . . ég fel í forsjá þína
. . . guð faðir sálu mína
. . . . því nú er komin nótt;
. . . . um ljósið lát mig dreyma
. . . og ljúfa engla geyma
. . . . öll börnin þín
. . . svo blundi rótt
* * * * * * * * * * * * * * * * * * * * * * * * *