ISBN 9979-895-46-2

 

Ég, hið silfraða sjal

 

Ja, ég man þá daga sem ég dvaldi í verzlun Madame de Bijou, Parfume de Lotus. (Parfume de Lotus var auðvitað ekki hér á landi.) Ég var nýkomið úr silkispunaverksmiðju, hvorki meira né minna.
Þetta voru spennandi dagar í verzlun Madame de Bijou (ég læt hér fylgja framburðinn: -- ma-damm du bí-sjú -- fyrir þá sem ekki tala mitt móðurmál).
Daglega komu þangað menn og konur að verzla.
Öllum leizt auðvitað vel á mig. Það var ekkert undarlegt, þótt ég segi sjálft frá. --- En það sé fjarri mér að vera að gorta ---. Ekki get ég gert að útliti mínu.

Ekki öfundaði ég neitt þetta gula sjal, sem þóttist vera gyllt. Einhver monsieur (frb.: mussju) með tilgerðarlegt moustache (ó, þið fyrirgefið þótt mér sé móðurmálið tamt) kom að velja herðasjal á Melle Coquette (:ma-du-múa-sell Kó-kett).
Þau skoðuðu mig auðvitað. Hann handlék mig með hvítum hönzkum. Þetta var greinilega ekki í fyrsta sinn sem hann handlék fíngerða hluti. Hann lagði mig yfir herðar Melle Coquette, -- þær axlir, sá hvelfdi barmur og það mjóa mitti, ou la la! Ég gat ímyndað mér að þau ækju í vagni með fjórum hvítum hestum fyrir. Hve kögrið mitt tæki sig vel út er þau þeystu um götur borgarinnar!
Hann keypti svo þetta gula. Þetta gula sjal sem þóttist vera gyllt. (Gyllt! Hafið þið heyrt annað eins?) Iss, ég var bara fegið að hann keypti mig ekki. Melle Coquette er ekki nógu heiðvirð og siðprúð stúlka að mínu áliti. Og þetta yfirskegg á honum var allt of spjátrungslegt fyrir minn smekk. Semsagt: ekki mín týpa.
Ég vissi að einhvern daginn félli einhver fyrir fegurð minni. Kögrið mitt er silfrað og sítt, silkimjúkt eins og hárið á konungsdóttur í ævintýri. Ég vissi að spennandi lífsferill biði mín.

Páll Jónsson kom dag einn í verzlun Madame de Bijou. Ég var ekki vant því að svo hrjúfar sjómannshendur snertu mig. Fegurð mín heillaði hann auðvitað. Madame de Bijou pakkaði mér inn í mjúkt silkibréf og Páll Jónsson borgaði marga, marga franka fyrir mig.

Mín beið löng sjóferð. Lyktin um borð var að vísu ekki við mitt hæfi, en maður nefnir ekki þess háttar; og mikið valt dallurinn. Veðráttan varð kaldari eftir því sem lengra dró. En ég beið rólegt í silkipappírnum frá Madame Bijou.
Loks var þessi langa sjóferð á enda. Páll Jónsson færði konu sinni, henni frú Guðrún Brands, mig að gjöf. Ég man enn hve innilega hún kyssti mann sinn fyrir mig.
Mikið sem litlu dóttur þeirra, Betu, langaði til að fá mig. Það var varla að Madam Jónsson tímdi því.

En svo leyfði hún Betu litlu, -- bara aðeins --.

Mér var valinn staður í kistunni með sparipeysufötunum.
Ég var ætíð ómissandi þegar þau hjónin þurftu að vera við jarðarför. Hún Húsmóðir mín þekkti svo mikið af dánu fólki.
Mér þótti skemmtilegra við jarðarfarir en í gestaboðum. Við jarðarfarir hitti ég mörg, mörg sjöl, en ég verð að segja að þessi íslenzku ullarsjöl hafa allt of stutt kögur og all allt of gróft fyrir minn smekk.
Ég sá hvernig hinar konurnar horfðu á mig er ég féll yfir herðar húsmóður minnar -- án þess að ég sá neitt að gorta. Það er svo fjarri mér.
Það er dálítið leiðinlegt að Íslendingar kunna ekki að segja rétt voile. Þeir segja vojl, en það á að segja vú-all).
Mér sárnaði, eða réttara sagt: ég varð að brosa að því, þegar frúrnar spurðu hvort ég væri úr vojli, - ég sem er út ekta pure silki voile.
Þannig liðu árin hvert af öðru, meðan mín ástkæra húsmóðir lifði. Mér þótti ákaflega leitt að vera svo ekki við jarðarför húsmóður minnar, frú Guðrúnar Brands, þegar hún dó. En það varð ekkert við því gert.


Dætur þeirra Guðrúnar og Páls skiptu með sér arfinum er þeim féll í skaut. Ég vissi að undir niðri vildu allar systurnar eiga mig. Það var af einskærri hógværð að þær rifust ekki um mig, heldur sögðu hver við aðra: -Vilt þú ekki sjalið hennar mömmu?
Ég kom í hlut Betu. Hún er líka elzt.
Hún Beta valdi mér stað á gamla hægindastólnum, sem farinn var að slitna:

Hún vildi auðvitað ekki hafa mig niðri í kistu þar sem enginn gat notið fegurðar minnar.
Ég er, ef satt skal segja, augnayndi, -- án þess að ég sé nokkuð að gorta.
Beta virti mig fyrir sér. Hún hefur eflaust verið að velta því fyrir sé hvort ég væri samboðið svo gömlum stól. Ég huldi snjáð bakið með þeim elegans sem mér er í blóð borinn.

Beta þekkti ekkert dáið fólk, held ég, því ég fór aldrei í jarðarför eftir þetta.
Þegar litla Gunna hennar Betu skyldi fermast, átti að vera veizla. Þau hjónin keyptu nýtt sófasett á milljón. Þessum grey gamla stól var þá fleygt á haugana. Óæðri hlutir verða víst að sætta sig við þau örlög. Ég verð að segja að þetta var allra viðkunnanlegasti stóll.
Ég var vandlega brotið saman og lagt inn í skáp. Beta hefur eflaust ekki viljað láta einhverja gesti, ef til vill herðabreiða karlmenn, leggjast upp að mér og sjúska mig.
Ég ræði alltaf við skápsfélaga mína sem jafningja. Lítillæti er aðalsmerki hinna göfuglyndu.
Ég verðanú að segja að ég var fegið að Beta hefur ekki mölkúlur í skápnum sínum. Það sé fjarri mér að tala illa um mína látnu húsmóður, en mölkúlulyktin þótt mér alltaf heldur bagaleg í sparifatakistu Frú Guðrúnar Brands, blessuð sé minning hennar.

Beta viðrar alltaf á vorin.
Ég ligg þá alltaf efst á svalahandriðinu. Fíngerðustu hlutirnir eru alltaf látnir efst. Lífið er bara þannig.
Þið getið séð fyrir ykkur kögrið mitt silfraða bylgjast í golunni og sólina glitra í því svo stirnir á. Beta viðrar alltaf í sól.
Hún Gunna litla Betudóttir kom út á svalir. Hún, sem hefði svo oft fitlað við kögrið mitt sem barn, þegar ég var á gamla stólnum í stofunni til fegurðarauka. Hún Gunna litla Betudóttir var hreint ekki svo lítil lengur. Hún var raunar orðin stærðarstúlka, spengileg með granna fingur, -- svona svipað og Madame de Bijou. Ég hafði alltaf vonað að hún setti á stofn parfumerie, svona svipað og Madama de Bijou. Þá gæti hún haft mig á herðum sér þegar fínustu kúnnarnir kæmu að verzla. --
Beta var semsagt að viðra í vorsól og andvara. Gunna kom út á svalir og horfði á mig eins og hana þyrsti í að njóta fegurðar minnar, sem er raunar ekki nýtt fyrir mér, þótt ég segi sjálft frá. -- Þá -- ó, hvernig get ég fengið mig til að segja ykkur? -- Ég fæ enn kökk í hálsinn við tilhugsunina. Ef til vill er bara gott fyrir mig að segja einhverjum frá því. Þá yrði mér sorglausari sefi: Hún Gunna litla kallar inn til mömmu sinnar: - Mamma, má ég ekki eiga þessa gráu sjaldruslu, sem var alltaf á ljóta stólnum?
Mon dieu!! Ég gæti enn farið að gráta er ég minnist á þetta. Ég þakka guði fyrir að hún húsmóðir mín sóluna heyrði ekki þessi ósköp. Ég fæ sting í hjartað í hvert skipti sem ég hugsa til þess atviks.
Ég veit að þetta hlýtur eingöngu að hafa verið slungin aðferð hjá Gunnu litlu til að narra mig út úr mömmu sinni.
Gunna bar mig upp að vitum sér. Ef ég hefði ennþá haft þann yndislega ilm sem var af öllum hlutum í Parfum de Lotus. Ég finn þá lykt í anda er ég legg aftur augun.
-Góða eigðu það, ef þú hefur áhuga á því, -- svaraði Beta dóttur sinni, með kuldatón í röddinni.

Gunna var ákaflega stolt af að eiga mig og bar mig nærri því alltaf.

Gunna dandalaðist með mig utan yfir gallabuxur og svokallaða mussu. Auðvitað þarf ekki annað en mig til skrauts, en þið skiljið -- það er dálítið erfitt að útskýra tilfinningar sínar: Hún húsmóðir mín sáluna, Madame Guðrún Brands, bar aldrei silkisjal nema með sparipeysufötunum sínum.
Svo er það þetta með rigninguna. Ég er allt of fíngert til að bera yzt klæða í þessari slagveðursslyddu og hraglanda, sem Íslendingar kalla rigningu.
Það var ef til vill samt ekki það versta, því vandað sjal þolir öll veður, án þess að láta á sjá;.......Það er þetta með partíin, sem mér liggur á hjarta. Þar er allt mettað af reyk. Þar hanga allir hver utan í örðum svo mér liggur við yfirliði í þeirri kös.
Hann Páll heitinn Jónsson reykti að vísu pípu, en hann reykti pípuna sína bara sjálfur. Aldrei sá ég hana frú Guðrúnu reykja pípuna hans. Þetta lyktar líka allt öðru vísi en tóbakið hans Páls, -- hvað þau nú aftur kalla þetta, partíbörnin, -- jú: hey. Ég hef ekkert vit á heyskap. Mér þótti ekki gaman í þessum partíum.

Henni litlu Gunnu hlýtur að þykja ákaflega vænt um vinkonur sínar, því hún lánar þeim -- hugsið ykkur -- lánar þeim _mig_ til að valsa með niður í bæ, teygjandi út úr sé þetta líka ógeðslega jórturleður. -- Mon dieu! Það átak fyrir mig.

Þegar ég var í verzlun Madama de Bijou gat ég alveg búizt við að lenda í eigu franskrar hefðarmeyjar, fara í l'Opera, ferðast um. Lenda ef til vill í smáævintýrum d'amour, sem enginn nema ég eitt vissi um. Ou la la.

Þegar Madame de Bijou sýndi viðskiptavinum mig, strauk hún sínum grönnu, lipru fingrum gegnum kögur mér svo það sýndist enn fegurra.

Ég gat auðvitað skilið að hann Páll -- blessuð sé minning hans -- félli fyrir fegurð minni. Ég er stolt af að mig keypti traustur og góður heimilisfaðir, -- fyrir marga, marga franka -- handa heiðvirðri eiginkonu. Ég vissi alltaf að mín biði viðburðarríkur æviferill.

 

Nú á hún Gunna hennar Betu litla dóttur. Ég prýði vagninn hennar. Mín sígilda fegurð breiðist yfir hvítvoðunginn. Vindurinn þýtur kitlandi og ögrandi undir kögrið mitt.
Litlar hnátur stækka. Óðar en varir þróast fegurðarsmekkur þeirra. Hver veit nema sú litla eignist einhvern tíma búð, þar sem öll heimsins ilmvötn eru til sölu. Mon dieu! Þá verður gaman að sveipast um herðar henni, þegar ástfangnir kavalerar koma að verzla.
Nú, og ef ekki það, gæti litla hnátan, þegar hún stækkar og fer að hafa vit á að bera mig, þekkt eitthvert dáið fólk.

Saga og myndir: Guðrún Kristín Magnúsdóttir;
Sjalið hefur birzt í tímariti og verið flutt, af höfundi, í útvarp ásamt frumsaminni tónlist höfundar.

--oo0oo--