ISBN 9979-895-49-7

IN MEMORIAM -- skóflan
verðlaunasaga

 

Útgefin einnig af Námsgagnastofnun 1994 í bókinni:

Sál bróðurins, steinbítsbróðurins, Fjórar smásögur;

verðlaunasögur

höfundur: Guðrún Kristín Magnúsdóttir;

         Ég á myndavél. Pabbi og mamma gáfu mér hana einu sinni þegar þau komu í
heimsókn á afmælinu mínu. Ég fæ stundum að taka myndir. Gummi kallar hana
kammeruna mína. Kammeruna.
         Ég er fínn strákur, fínn strákur. Gummi segir það.
         Við erum eins og ein stór fjölskylda, segir Gummi. Við fórum í stórri rútu.
         Ég get búið um rúmið mitt sjálfur. Gummi segir að það sé engin hjálp að gera
allt fyrir mann.
         Það sé best að gera allt sjálfur sem maður getur gert sjálfur. Hann bara
kennir manni það. Gummi er góður við okkur. Gummi segir bara að við séum
eins og ein stór fjölskylda.


Börnin stíga út úr rútunni þar sem hún stoppar nálægt sjónum. Undarlegt
kjagandi göngulag einkennir hópinn. Þau eru í góðu skapi. Þetta eru góð
börn.
-Þá löbbum við af stað, segir Gummi. -Þarna er sjórinn, sjáiði, krakkar.
Þið verðið öll að gegna okkur Stínu. Halda hópinn og ekki fara út í sjóinn
þótt þið séuð á vaðstígvélum.
Þau fara ekki alveg að sjónum. Sum þeirra eru hrædd við öldurnar. Þau eru
hávær. Nú er skemmtilegt.
Aðeins einn lítill drengur. Dóri, segir ekki neitt. Hann segir aldrei
neitt. Sýnir aldrei nein svipbrigði. Munnurinn er hálfopinn, augun
hálflokuð. Stína leiðir Dóra.

Hafið. opið úthafið, lemur öldunum við vota kletta. Það er eins og öldurnar
hafi komið alla þessa leið yfir hafið til þess eins að skvetta sér upp á
þangivöxnum steinum. Svo sogast þær út aftur og hverfa í djúpið. Alda eftir
öldu. Eða er það kannski alltaf sama aldan? Stundum er eins og
tilgangsleysi sé undiralda alls sem er til.
Þangið er eins og hárið á konu í baði, steinarnir eins og brjóst sem lyftast
og síga í kaf, lyftast og síga.
-Ég fann skel, kallar eitt barnið. -Ég ætla að eiga hana.
Hin börnin fara líka að reyna að finna skel.
Þau eru ekki öll börn. Sá elsti er 32 ára.
Stína sýnir krökkunum ýmislegt sem liggur í fjörunni. Hún sýnir þeim fjöður
sem hefur dottið af einhverjum fugli, fallega steina, krossfisk sem hefur
skorpnað í sandinum, og svo auðvitað skeljar og kuðunga. Þau finna líka
drasl: ónýtan strigaskó, gamalt brunnið leðurstígvél sem sólinn er laus frá
að framan, svo það er eins og það sé með opinn munninn og nagla fyrir
tennur.

-Svona spýtur sem sjórinn kemur með á fjörur heita reki, segir Gummi.
-Rekaviður.
-Má ég eiga svona spýtu? segir eitt barnið.
-Bara litla, segir Gummi. -Svona sem þú getur sett í vasann. Við skulum
reyna að finna litlar, pínulitlar, rekaspýtur.
Sum börnin finna fínar litlar spýtur sem sjórinn kom með.


        Ég fékk að taka myndavélina mína með í fjöruferðina. Kammeruna mína.
Kammeruna, kallar Gummi. hana Hann geymir hana alltaf fyrir mig, kammeruna
mína, hann Gummi.
        Gummi sýndi okkur þangið. Það var ekki hægt að labba á steinunum sem þangið
var á því þá datt maður og varð blautur. Sumir krakkarnir voru hræddir við
þangið þegar það hreyfðist í sjónum. Ég fann stóra skrýtna kúlu, járnkúlu,
sem var brún. Ég ætlaði að lyfta henni en hún var ofsalega þung. Gummi
sagði að svona kúlur hétu bobbingar. Bobbingar. Sjómennirnir nota svona,
sagði Gummi. Ég er viss um að þeir eru rosa sterkir, sjómennirnir.


Börnin ganga áfram eftir fjörunni. Gummi sýnir þeim kuðung og lítið dýr sem
býr í kuðungnum.
-Kuðungurinn er húsið hans, segir hann. -Þetta litla dýr á heima inni í
kuðungnum.


        Ég fann rosa stóra spýtu sem komst ekki í vasann. Gummi sagði að þetta væri
bóma úr eldgömlu skipi. Bóma. Ég sagði Gumma að hún væri of stór til að
setja í vasann. -Já, sagði Gummi.

Þau ganga spölkorn áfram. Veðrið er svo gott.
Börnunum þykir gaman að labba í vaðstígvélum. Stína vildi að þau færu í
vaðstígvél, ef þau skyldu fara nálægt sjónum. Þau ganga hægt, því sum börnin
geta ekki gengið nema hægt.
Þau ganga langt meðfram sjónum. Sumir finna margar skeljar.


        Ég sá hana allt í einu. Hún lá á milli steina. Hún var brotin. Skaftið var
brotið af henni. Blaðið á henni, sem maður mokar með, var svona brúnt eins
og stóra kúlan sem sjómennirnir eiga. Hún lá þarna brotin. Skaftið var
brotið og enginn að passa hana. Ég vissi að hún komst ekki í vasann. Hún
lá í sandinum milli stórra steina. Ég vildi ekki fara frá henni.


-Jæja, krakkar. Nú borðum við nestið okkar, kallar Gummi. -Við komum hér
upp í grasið og setjumst þar.
Hópurinn mjakast upp í grasið. Börnunum þykir gaman í fjöruferð.
Stína opnar bakpokann og lætur börnin fá nestið sitt. Sumir geta alvef
sjálfir.


        Ég gat alveg sjálfur.
        Gummi segir líka að maður eigi alltaf að gera sjálfur það sem maður getur.
Hún lá þarna niðurfrá við sjóinn, brotin, og enginn að passa hana. Ég vissi
að Gummi myndi ekki leyfa mér að taka hana með heim. Hún komst ekki í
vasann eins og litlu spýturnar og skeljarnar.
        Ef sjórinn kæmi nú og tæki hana?
        Ef ég spyrði Gumma hvort ég mætti taka hana þótt hún kæmist ekki í vasann,
myndi hann segja: -Nú ertu farinn að láta kjánalega.
Þegar hann segir þetta þýðir ekkert að surga í honum. Þá verður hann
kannski reiður við mann, bara pínulítið reiður. Hann segir þetta þegar
maður gerir eitthvað sem hann vill ekki.
        -Ég þarf að pissa, sagði ég.
        -Þú getur pissað sjálfur, vinur, sagði Gummi.
Ég vissi að hann myndi segja þetta.
        Ég gekk niðreftir að skóflunni.
       -Ekki fara langt, kallaði Stína.
        Ég tók hana upp, -- blaðið sem maður mokar með og brotna skaftið. Ég sá að
hún vildi koma með mér. Ég setti hana undir úlpuna mína og skaftið hennar
líka. Þau sáu það ekki.
        -Ekki fara svona langt, kallaði Stína. -Komdu.
        Ég fór til baka upp í grasið. Þau voru ekki öll búin með nestið sitt. Þau
voru lengi.


Hægt röltir hópurinn til baka í góða veðrinu. Hávær, glöð. Góð börn. það er
svo gaman að fara í fjöruferð. Þau eru eins og ein stór fjölskylda.


Á bakaleiðinni keyrir rútan niður að lítilli höfn. Þar liggja margir litlir
bátar við festar hver utaná öðrum. Sumir nýmálaðir, sumir ekki. Möstrin
hreyfast örlítið til og frá eins og þau séu að tala saman um leið og
bátarnir nudda hver annan mjúklega með borðstokkunum. Þeir eru í vari í
þessari litlu höfn. Opið hafið reynir að ná þangað inn, en langur sterkur
varnargarður tekur við úthafsöldunni. Hlaðinn garður úr grjóti og dólossum,
og bátarnir þurfa ekkert að óttast. Þeir eru í vari í lítilli höfn.


        Ég vildi ekki standa upp og fara út úr rútunni að skoða bátana. Stína
reyndi að fá mig með: -Ertu þreyttur? sagði hún.
-Já, sagði ég. -Þreyttur.
       Ég hélt fast utanum brotnu skófluna. Henni var hlýtt undir úlpunni minni.
Henni leið vel hjá mér. Ég var góður við hana.

        Þau sáu ekki að ég fór með hana inn þegar við komum heim. Ég fór ekki með
hana inn í hús. Ég fór með hana út í skúrinn á bak við hús. Við megum ekki
vera þar. Ég setti skófluna og skaftið hennar út í horn bak við stóra tunnu
í horninu. Það fór vel um hana þar. Ég sagði henni að bíða, ég mundi koma
á morgun.

       Við vorum látin setja vaðstígvélin okkar á sinn stað. Maður á alltaf að
gera sjálfur það sem maður getur. Gummi segir það. Sumum þarf að hjálpa.
Dóri getur ekki sett sín stígvél á sinn stað. Hann getur ekki farið úr
sjálfur. Stína hjálpaði honum.
      -Þarna ertu, sagði hún þegar ég kom inn.

       Daginn eftir fór ég að tala við hana, skófluna mína. Hún vissi að ég hafði
bjargað henni frá stóra sjónum.
       Ég fór líka til að segja góða nótt við hana. Ég fór á hverjum degi til
hennar. Við megum ekki vera í verkfæraskúrnum.

        Einn morgun þegar ég kom út var Siggi smiður búinn að taka til í skúrnum.
-Hvað ert þú að gera hér, vinur? sagði Siggi.
        Það var búið að fleygja stóru tunnunni. Það var búið að taka til í skúrnum.
Í horninum þar sem hún var alltaf, var ekki neitt.
Ég var búinn að lofa henni að passa hana alltaf. Nú var búið að taka til í
skúrnum. Hún var horfin. Það var búið að......
Ef ég hefði ekki tekið hana lægi hún enn í sandinum. Stóra spýtan er þar
enn. Bóman.

Þar sem hafið, opið úthafið, lemur öldunum við vota kletta.

        Ef ég hefði ekki tekið hana hefði hún kannski legið í sandinum milli stóru
steinanna í þúsund ár.


                                  -- oo 0 O 0 oo --