ISBN 9979-895-32-2

HRIF

 
Árla fer hún framúr
lítil smalastúlka í seli
að sækja ærnar
því mjalta skal um miðjan morgun

Úti glitrar lyngið af dögg bjartrar óttu
Fölgrænn fæðist morgunninn handan fjalla

Aldrei má vanta eina ánna,
aldrei neina ána
Gröm mun þá Gunna vinnukona:

Ef týnirðu, stelpa, einhverri ánni
engan færðu hjá mér árbít.
Svöng skaltu leita
þar til þú finnur
allar ærnar,

eða þú færð að kenna á vendinum vonda

 

Dag eftir dag, sumarlangt
á hverjum morgni
á hverju kvöldi
stekkur lítil smalastúlka
stein af steini
þúfu af þúfu
og skyggnist eftir ánum

Blærinn vekur dögg á bjarkalaufi
og hlær
er döggin hripar
eins og kristalskorn
í votan, grænan svörð

Allar renna ærnar heim í selið
Golsa fyrst

Nú verður ekki Gunna vinnukona byrst

Lítil stúlka stekkur stein af steini
þúfu af þúfu
Fyrir dagmál mun mjaltað í kvíum
grasi grónum færikvíum

 

 

Lömbin bera svangan um sumardag langan
munn sinn og maga
á mosaþúfu
fjarri sinni móður
sem mjólkuð er heima
   Reka litla snoppu í döggvaðan svörð

 

Fölgrænn fæðist morgunn handan fjalla

 

Mjólkar hún Gunna vinnukona
í grasi grónum færikvíum

Mjólkin skal komin inn fyrir dagmál;
osta og skyr og smjör á að gera

 

Smeygir í froðuna fingri hún Gunna
og smellir í ullina mjólkurfroðu
þá veit hún Gunna vinnukona
hverjar ánna hún hefur mjaltað

 

Merkt er hún Golsa froðudjásni

Góð var nytin
en frek er kindin

Frek er forystukindin

Og rösk er hún Gunna vinnukona

 

Heim á bæ skal svo góðgætið fara
þegar sendur verður Gvendur
að sækja í selið

Um miðaftan er hann sendur hann Gvendur
(hér kemur hann Gvendur)
að sækja í selið

 

Ískaldur jökull blasir
í skarði blárra fjalla

Ærnar kroppa ánægðar stráin græn

Heit og höfug er sídegissól

Lítil stúlka í bryddum skóm
gengur upp í gilið
gljúfrabúann til að sjá

Þungbúinn starir hann ofan dalinn

Þungbúinn starir gljúfrabúinn ofan dalinn

 

 

Talar við lækinn sinn lítil stúlka
rennur höfgi á bjarta brá
í tærum dropum
speglast draumar

Draumar
sem teygja sig brosandi
með ýru fossins upp til skýja
Þar situr hún móðir mín
og kembir ullu nýja

Þar situr hún móðir mín

 

 

Dreymir að týndur sé skórinn dýri í grjóti í urð
Dreymir að leiti hún lengi lengi í gjótum

í klungri

Hugarvíl
sorg í sefa

Flýgur hrafn einn til sjávar

 

Dreymir að köld sé nótt
rök og drungin

alein stúlka
týndur skór

Þögull flýgur hrafn einn til sjávar

 

framhald
Hrif
litlar myndir, miðhluti
(fyrir litlar tölvur, lítil módem, vegna myndanna)