Apakríli, algjör dúlla !!

ISBN 9979-895-08-X

Nei sko! Hann er með hatt !

Hann er í dótabúð, til sölu auðvitað eins og öll hin tuskudýrin í búðinni.

Já, hann er með hatt, barðastóran, gulan hatt, með blómaskrauti á.

Er hann ekki glæsilegur?
Splunkunýr og plussið hans létt og laust og gljáandi og fallegt.

Hann er svo keyptur í dótabúðinni.

Honum er stillt upp inni í stássstofu. Í sófanum.
Það situr hann á silkipúða og tekur sig vel út.
Allir dást að honum:
-Mikið er hann sætur!

Og hér situr hann --
-- gestir sem koma segja:
-En hve þetta er fallegt gult apakríli. Algjör dúlla!

Fallegt gult apakríli. Stofuskraut. Reglulegur silkipúðaapi.

og hérna situr hann -- bara situr og situr -- og tekur sig vel út......

.....þangað til Dúddi fæðist.

Þangað til Dúddi fæðist, já.

Þá verða mikil umskipti í tilveru apakrílisins: Hatturinn er tekinn af honum, og geymdur inni í skáp, því hatturinn er of harður fyrir ungabarnið.

Apakrílið fær það hlutverk að svæfa Dúdda.

Dúdda þykir vænt um apann af því að hann er svo mjúkur.

Dúddi er bara alltaf með apakrílið. Sefur með það, vakir með það, hnoðast með það.

Einu sinni gubbaði Dúddi litli. Það kemur stundum uppúr litlum krökkum.

Og það fer pínulítið gubb í apann.

Það þarf að þvo hann.

Kannski er svona fínn plussapi -- sem meira að segja var með hatt -- ekki gerður fyrir þvott.
Það er ekkert þvottamerki á honum.

Þegar hann kemur úr þvottinum, er hann nú töluvert lúpulegri en í upphafi.

Þegar Dúddi er orðinn eins árs fer hann að leika sér á gólfinu. Apakrílið er þá auðvitað sett í gólfið líka. Og ekki eru handtökin hans Dúdda alltaf mjúk.
Apakrílið er eiginlega mjög heppið að vera bara tuskuapi en ekki lifandi api.

Það er ákaflega lýjandi starf að vera uppáhaldstuskudýrið hans Dúdda og vera í vörubílaleik og kubbaleik allan daginn. Apakrílið er ekki lengur splunkunýtt og glerfínt. Ó nei. Það er orðið heldur klesst og þófið og kleprað og snjáð.


Hugsið ykkur hvernig hann leit út þegar hann var splunkunýr. -- Með hattinn fína.
Þá var plussið hans létt og laust og gljáandi og nýtt og fallegt.

Það er enginn sem segir lengur: -Mikið er þetta sætt apakríli.
Enginn sem segir: -
Algjör dúlla.

Apinn er svo dauðþreyttur á kvöldin, að hann sofnar oft á undan Dúdda.

Þegar Dúddi er orðinn tveggja ára, tekur hann apakrílið alltaf með út í kerru.

Apakrílinu finnst gaman í kerru.

Mamma hans Dúdda brunar áfram. Mömmur eru svo oft að flýta sér.

Dúddi sofnar.
Krakkar sofna svo oft í kerru.

Dúddi missir smátt og smátt takið á apakrílinu.

Það sígur æ meir á ógæfuhlið.

Og á endanum dettur apakrílið út úr kerrunni.

 

Mamma hans Dúdda tekur ekki eftir því. Hún brunar áfram.

 

framhald:
Apakríli, algjör dúlla annar hluti
litlar myndir
(fyrir litlar tölvur, lítil módem)