Apakríli, algjör dúlla!   framhald (annar kafli af þrem):

Og á endanum dettur apakrílið út úr kerrunni.

 

Mamma hans Dúdda tekur ekki eftir því. Hún brunar áfram.

Nú eru góð ráð dýr. Hvílíkt umkomuleysi.

Hér situr hann og getur ekki annað. Hann er jú bara tuskudýr.

Hópur af krökkum kemur.
Þeir reka augun í apakrílið sem situr þarna á gangstéttinni: -
Nei! sjá þetta, maður! Api! Apatuskudrusla! Eða tuskuapadrusla!

Þeir taka hann upp og syngja: -Apaköttur, apaspil, að þú skulir vera til, svona grettinn grár og ljótur, apaköttur, apaspil!!

Börnunum finnst sjálfum þau vera agalega fyndin.

Apinn hefur nú hingað til verið talinn gulur en ekki grár.

Auk þess er hann ekki grettinn. Hann er alls ekki ljótur. Að vísu var hann miklu fallegri þegar hann var nýr. Hann skilur ekkert hvað þetta apaköttur apaspil þýðir.

Þau fíflast með grey apakrílið.

Þau fleygja honum upp í loftið. Aftur og aftur. Það getur kannski verið gaman að fá flugferðir, en það er bara ekkert að vita hvar hann lendir. Þessum krökkum er hreint ekki treystandi til að grípa hann.

Þetta endar auðvitað með ósköpum: Hann lendir í polli.

Drullupolli.

Oj, segja krakkarnir. -Ekki hef ég lyst á að veið'ann uppúr.
Og með það fara þau. Bara labba burt.

Apakrílið þolir illa vatn. Mamma hans Dúdda leyfði Dúdda aldrei að fara með hann í bað. Hún sagði að hann þyldi ekki vatn. Það kom líka berlega í ljós þegar hann var þveginn á sínum tíma.

Það vill svo heppilega til að gamall maður á leið framhjá. Gamli maðurinn var alinn upp á þeim tímum sem leikföng voru dýrmæt. Þá áttu börn fá leikföng, og á fóru börn vel með það sem þau áttu. Hann getur ekki horft framhjá þeirri staðreynd að þessi api, sem einu sinni mun hafa verið gulur og fallegur, muni endanlega eyðileggjast og vera fleygt í svartan sorppoka götusóparans, ef ekki verðu að gert.

-Komdu hérna, ræfilstuskan mín, segir gamli maðurinn. -Þú hefur lent í vosi, greyið mitt.

Og með það dregur hann apakrílið uppúr.

-Ósköpin öll eru að sjá þig, krílið mitt. Ég verða að vinda úr þér mestu vætuna. Það er ekki sjón að sjá þig.

Jæja, Enginn er verri þótt hann vökni.

Það er heilmikil huggun að vita að enginn er verri þótt hann vökni.

-Ég skal biðja hana Beggu mína að þerra þig og þrífa.

Begga gamla segir að það sé nú ekki nóg að þerra hann. Hún verði að þvo hann. -Hann er nú rennblautur hvort eð er, segir hún. -Verður varla blautari þótt ég skolpi úr honum, greyinu.

Við vitum alveg hvernig það fer. Við vitum nú allt um það hvernig plussið lítur út þegar hann kemur uppúr þvottabala.

 

Apakríli, algjör dúlla
litlar myndir
lokahluti sögunnar