ApakrÝli, algj÷r d˙lla!   framhald  (■ri­ji kafli, s÷gulok):

 

-Svona.
Það er eina bótin að vatnið er ylvolgt og notalegt.

. . . . . . . . . .

Begga þerrar hann inni í handklæði. Hún er mjúkhent og móðurleg, gamla konan.
Begga hengir hann svo upp fyrir ofan eldavélina.
Þar er hlýtt.

-Það móar úr honum þarna, segir hún, -og svo kembi ég hann upp og geri hann fallegan á ný.

Begga sest með apakrílið þegar það er þornað, og kembir plussið, lokk fyrir lokk.

-Nú, þetta er hið snotrasta apakríli, segja gömlu hjónin, -eða við skulum segja: þetta hefur nú einhvern tíma verið hið snotrasta apakríli. Hann hefur nú eflaust séð sinn fífil fegri, litla skinnið.

Apinn skilur auðvitað ekki þetta með fífilinn. Hann hefur aldrei átt neinn fífil.

-Hver skyldi eiga hann?, velta gömlu hjónin fyrir sér. -Einhver lítill krakki hefur týnt honum, -- misst hann í götuna.

Gömlu hjónin vita ekki að það er Dúddi litli sem týndi apakrílinu. Þau þekkja Dúdda ekki neitt.

Og mamma hans Dúdda veit ekkert hvar apakrílið hefur týnst. Og tuskuapi kann ekki að tala.

Dúddi er áreiðanlega háttaður og kominn uppí rúm. Dúddi vill áreiðanlega fá apann sinn til að geta sofnað.

-Ó, segir mamma hans Dúdda áreiðanlega, -apakrílið hefur dottið úr kerrunni.

Mamma hans Dúdda raðar áreiðanlega mörgum tuskudýrum í kringum Dúdda í rúminu, -- en apann vantar.

-O, jæja, segja gömlu hjónin hægt.
Við vitum að gömul góð hjón og lítið mjúkt tuskudýr hafa allan heimsins tíma.
-O, jæja, segja gömlu hjónin. -Við erum nú líklega eins og þetta apakríli, alveg hætt að gera nokkurt gagn.

-Já, það var ósköp yndislegt meðan börnin voru lítil og höfðu þörf fyrir okkur.
Þá vorum við heldur ekki orðin svona gömul.

-Nú erum við bara rétt eins og þessi tuskuapi.

-Það eru áreiðanlega einhver önnur tuskudýr sem svæfa núna litla krakkann sem á þetta gamla gula snotra apakríli.

-Kannski við höfum líka séð fífil okkar fegri, segja þau og brosa.

-Ég er að velta því fyrir mér, segir Begga gamla, -hvort lífið hefði verið betra ef ég hefði bara alltaf setið inni í stássstofu með fínan hatt. Hefði aldrei þurft að fara út í fjós að mjólka. Hefði aldrei þurft að skipta á litlum kúkalabba sem búinn var að gera í sig.
Það væri ósköp ömurlegt ef lífið væri eingöngu stássstofur, silkipúðar, tilgangsleysi og innantómt fínerí.
Ég hefði bara verið einhver dúlla!

           

 

-Æ, svarar gamli maðurinn, -ég held að það hefði verið hræðilega leiðinlegt að gera aldrei neitt gagn í lífinu.

-Ósköp hefði það verið einhæft að fara aldrei út á sjó að fiska í soðið, aldrei út að sá út kartöfluútsæðinu, aldrei upp á fjöll í göngur.
Og hve margt maður hefði farið á mis við.

-Lífið hefur veitt okkur mikla hamingju, þótt stundum væri þröngt í búi.

Æðruleysi kynslóðanna hljómar í rödd þeirra.

-Við elskum börnin okkar alveg jafn mikið núna og þegar við höfðum þau hjá okkur.

Það var yndislegur tími.

Sem þau sitja þarna í litlu stofunni öll þrjú, -- dreymin á svip, þögul, hugsi -- gamli maðurinn og gamla konan sem einu sinni voru ung, og tuskuapinn sem einu sinni var silkipúðaapi með blómahatt, heyrist undarlegt væl.
Mjálm.
Ámátlegt mjálm úti.

Gamli maðurinn opnar.
Inn trítlar agnarsmár kettlingur, sem er alveg villtur.

-Nú, hvað er þetta ræfilstuskan?, segir Begga gamla. -Þú ert sársvöng, kisa litla.
Ratarðu ekki heim, garmurinn minn?

Eða áttu hvergi heima?

Kisan litla vill alls ekki fara út aftur.
Hún hoppar uppí hjá apakrílinu --- og kúrir sig þar.
 

-Nú, við verðum víst að skjóta skjólshúsi yfir þau í nótt, segja gömlu hjónin.

-Svo skulum við auglýsa í blaðinu á morgun: gult apakríli og pínulítil hvít læða í óskilum.

Nú, ef enginn gefur sig fram, verðum við líklega að taka þau að okkur. Þau hafa svo sannarlega þörf fyrir okkur.

Gamli maðurinn tekur utanum herðarnar á gömlu konunni og kyssir hana góða nótt.

-- o O o --