Hrif, framhald (mihluti)

 

Dreymir að týndur sé skórinn dýri í grjóti í urð
Dreymir að leiti hún lengi lengi í gjótum

í klungri

Hugarvíl
sorg í sefa

Flýgur hrafn einn til sjávar

 

Dreymir að köld sé nótt
rök og drungin

alein stúlka
týndur skór

Þögull flýgur hrafn einn til sjávar

 

Og fossbúinn kveður furðuþulur
um leyndarmál margra margra smala

Þylur fossbúinn
furðusögur
sögur með vængi
sögur sem amma sagði
um gersemar blárra hulduheima
um háa sali
djásnum prýdda,
álfadrottning
alls nægtir

Í álfheimum er stiginn dans í silfri mána

Stiginn er þar dans í silfri mána

Dreymir að komi
fríður drengur
á álfafáki
fífilbleikum
fráum:

-Ég veit hvar skóinn þinn er að finna
í gjótu í klungri við skófaklettinn

Stígðu á bak þeim fífilbleika

Hripa mun dögg af bjarka laufi
er ríðum við hratt um skóginn.

Vaknar hún ein hjá lækjarnið
Flaug hjá þröstur
svo þaut við í runn

 

Var þetta draumur?
Veruleiki?

Hvar er nú huldusveinninn fríði?

Gyllir fjöllin himinhá
og sveipar gulli dal og hól
sumarsól

Á fætur fer hún árla á hverjum morgni
lítil smalastúlka í seli
að sækja ærnar

Stígur nettum fæti á skófakletta
og skyggnist eftir ánum
Hrímhvít þoka læðist dalinn

Í þokunni sér hún kynjamyndir
sem heilla
sem seiða

Í þokunni myndir.

 

-Engan fæ ég bitann
ef ég finn ekki ærnar
Gröm mun hún Gunna vinnukona
Ota mun hún vendinum vonda

Hrímhvít þoka læðist dalinn

Lítil stúlka í bryddum skóm
stígur nettum fæti á skófakletta
og skyggnist
skyggnist eftir ánum


 

Veit hún
að hratt ríður huldusveinn um skóginn?


Hrímhvít þoka læðist dalinn
fölgrænn morgunn fæðist handan fjalla

Búa í þokunni kynjamyndir
annarra heima
ljúfra drauma

Búa í þokunni myndir

Ríður um bjarkaskóg drengur?
huldudrengur
álfafáki fífilbleikum
fráum
sem nema kann brott úr mannheimum
litla stúlku
sem skyggnist eftir ánum?

 


Í hrímhvítri þoku birtast kynjamyndir
sem heilla
sem seiða

Skógurinn glitrar af dögg
sem blærinn vekur af draumi bjartrar óttu

Það er sem þeysi huldusveinn um skóginn
sem hratt ríði huldusveinn um skóginn

Hratt ríður huldusveinn um skóginn

 

Skógurinn sem fax á álfafáki flaksi
- fax á vindóttum hesti flaksi -

 

framhald:
Hrif
litlar myndir, sgulok