............framhald, sÝ­ari hluti;   Hvar voru hrossin Ý hrÝ­inni?

 

 

 

 

 

Það er að vísu ekki löng leið fram á dal en seingengið er í snjónum upp gilið frá bænum.

Vetrardagurinn er stuttur.

Við vitum að hætta er á að hestana hafi hrakið í fljótið í nótt. Að vísu er ekki mikið í því á veturna miðað við flauminn þegar það ryður sig á vorin, en ísilagðir bakkar þaktir snjó geta villt um, sérstaklega í myrkri, þegar stórhríð geisar ofan flatirnar. En hestar hafa nú einhvern veginn tilfinningu fyrir hvar hættur leynast, jafnvel í glórulausri hríð. Það er eins og þeir sjái meira en við mennirnir, og oft hefur hestur bjargað manni með þessu innsæi sínu.

Við ætlum að ganga upp á Lynghól. Ef til vill sést til hrossanna þaðan.

Óvissan um hvort við munum koma auga á hestana fyrir myrkur og beygurinn -- því eitthvað gæti hafa komið fyrir hestana í óveðrinu -- drepur alla löngun til samræðna.

Allt bendir til þess að rokið hafi verið mikið þarna á melnum. Allir steinar hafa langa hvíta skuplu sem snýr undan norðaustri. Dúnmjúkar snjóskuplur sem allar benda niður að fljóti.

Allt er svo undurfagurt og hljótt, engu líkara en allt sé þreytt eftir óveðrið. Allt nema skýin. Þau eru enn óútreiknanleg og ólgandi. Þau hafa greinilega ekki fengið nóg af óveðri.

.......

Gýgjarhamrar virðast dekkri nú en nokkru sinni er þá ber við hvíta mjöllina. Þeir virðast stara ofan í Gýgjargjá. En við vitum að leiti hross hlés uppi við Gýgjarhamra, er mikil hætta á að þau fjúki fyrir björg, svo hvasst getur orðið þar.

Ekkert líf er að sjá utan einn soltinn hrafn sem svífur í stórum sveig ofan frá Hömrum og horfir fránum augum yfir snjó og keltta.

Ef þú gætir nú, krummi, sagt okkur hvar hestarnir eru.
Hrafninn hvarf yfir í Gýgjargjá, án þess að segja svo mikið sem krunk.

Á sumrin er Snati alltaf fyrstur til að finna hestana, en nú er allt hulið snjó, hvergi slóð að finna.

Sólin gægist sem snöggvast yfir skýjabakkann og minnir okkur á að ekki dugar að slóra. Senn mun húma á ný.

Nú hallar undan fæti. Það er eins og Lynghóll hafi allur stækkað síðan í haust þegar við vorum hér á berjamó.

Engu er líkara en allan snjóinn hafir dregið í skafl í berjalautinni okkar.
Við erum orðin kófsveitt af að bægslast í gegnum skaflana.

Allt í einu stekkur Snati af stað á undan okkur. Hvað skyldi hann sjá? Við vonum öll að hestarnir séu nú þarna á Flötunum fyrir neðan.
Of metnaðargjörn erum við til að snúa heim án þess að hafa fundið hrossin. Það vitum við.
Þá þyrfti pabbi að fara sjálfur að leita þeirra. Nei. Það er af og frá að gefast upp.
Við munum láta líta svo út sem ekkert sé sjálfsagðara en að fela okkur slíkt verkefni.

Snati hefur greinilega orðið einhvers vís.

Skyldi nokkuð hafa komið fyrir þá?

Ó, vonandi hefur trippið mitt ekki hrakið í fljótið.

Ég veit að einu sinni þurfti að lóga folaldi sem vöknaði illa í stórhríð og kól svo að ekki var hægt að bjarga því.

Ég reyni að hrinda þeirri hugsun frá mér.

Þeirri sælutilfinningu sem grípur okkur er við horfum fram á Flatir verður ekki með orðum lýst.

.........................

Þarna eru þau þá öll heil á húfi, -- og trippið mitt stygga stendur þá þar og krafsar.

Jarpur gamli er lengst frá fljótinu. Hann veit að ekki er að treysta snævi þöktum bökkum þess í klakaböndum. Fljótið virðist þó svo meinleysislegt og lítið núna. Það er eins og mjó dökk rák í snjónum -- og sendir frá sér bældar stunur.

Okkur veitist ekki örðugt að komast niðreftir, þótt þarna sé sínu snjóþyngra og skaflarnir samfelldari en áður.

Ég á að ríða Jarpi á undan. Strákarnir ætla að reka hina hestana og jafnvel tvímenna á Brúnku, þegar við komumst upp af Flötunum. Við eru viss um að hrossin verða heimfús.

En þetta ætrar ekki að reynast svona auðvelt: Brúnka er svo dofin af kulda og kyrrstöðu að hún á erfitt með að hreyfa sig. En þótt hún sé lerkuð veit hún greinilega hvert ferðinni er heitið.

Öll eru hrossin illa haldin og svöng. Yngri hestarnir tveir eru heldur ekkert á því að láta reka sig upp á móti kulinu. Trippið mitt ætlar að taka á rás í öfuga átt.

 

Já. Hann á að heita Snerrir. Það er einmitt nafnið á hann. Hvernig skyldi svo ganga að koma honum í hús þegar heim kemur?

 

Snati geltir, strákarnir hóa, baða út örmum og klappa á lendar sér. Ég reyni að koma Jarpi af stað heimleiðis: Jarpur minn, þú hefur oft sigrað þyngri þraut en þessa skafla. Þú veist að heima bíða þín heyin grænu þegar jarðbann er.

     
.......Hægt miðar okkur áfram. Mér finnst Gýgjarhamrar ekki jafn ógnvekjandi núna á bakaleiðinni. Nú veit ég að skessan í Hamrinum hefur ekki tekið trippið mitt í nótt. Kannski hefur hún bara gætt hestanna fyrir okkur. Hver veit?

Það er bjart af tungli og farið að frysta. Það marrar í snjónum og glitrar á steinana sem feykt hefur af. Hann er að frysta. Brátt gæti komið hér skarabylur, og ekki væri vænlegt að lenda í slíku hér á háöxlinni, því strengur er hér undir Hömrum í landnyrðingi.

       

Ég finn ekki lengur fyrir tánum vegna kulda og reyni þó að hreyfa þær við og við. Það slær að mér þegar ég sest á bak og hætti að ganga.

Þórður vill ekki þreyta hrossin og gengur því sjálfur þótt hann hafi sagt okkur að setjast á bak.

 

Ég spyr Þórð hvort hann vilji ekki skipta við mig nokkra stund. Hann svara nokkuð mannalega að það sé nú svo stutt eftir, -- taki því ekki.

                              

Hann vill áreiðanlega ekki láta annað á sig spyrjast en að hann hafi gert erfiðasta hluta verksins. Hann er rjóður og másandi og andardrátturinn breytist í gufustrók, sem stendur út frá andlitinu á honum.

Pabbi og Sigga litla eru úti við lambhús og eru fljót að koma auga á okkur er við komum niður gilið.
Ég er viss um að oft hefur verið litið upp í gil í dag frá bænum. Pabbi er áreiðanlega glaður að sjá að ekkert hefur hent hrossin okkar í nótt.

Það rýkur á bænum, og ég veit að nú er hlýtt í eldhúsinu. Skyldi amma vera að baka lummur?

 

Stoltið yfir að við höfum komið hrossunum alla leið heim feykir burt allri þreytu.

Og hve ég hlakka til að fá að fóðra trippið mitt og spekja það og gera það mannvant í vetur.

Systkinin í Kvos gengu snemma til náða þetta kvöld. Vetrarveðrin héldu ekki vöku fyrir neinum núna.

 

*******************