Á forsíðu
Hvað er hryggrauf?

Á fyrstu 28 dögum þungunar þroskast heili og mæna fósturs. Af lítt skiljanlegum ástæðum truflast þessi þroski í sumum fóstrum og veldur meðfædda gallanum hryggrauf (spina bifida), sem líka er kallaður mengis- og mænuhaull (myelomeningocele).

Hryggrauf fellur undir ýmsar sjúkdómsgreiningar sem kallast einu nafni taugagangagallar (neural tube defects) sem verða þegar miðtaugakerfi (heili og mæna) í fóstri verður fyrir þroskatruflun. Þetta getur gerst einhvers staðar frá heila og niður að enda mænunnar. Þegar heilinn þroskast ekki fullkomlega er það kallað "anencephaly" (þ.e. vöntun á heilavef). Þegar hluti hryggjar þroskast ekki eðlilega kallast gallinn hryggrauf.

"Spina bifida" þýðir klofinn hryggur og lýsir sér í því að hryggjarliðirnir sem umlykja mænuna lokast ekki eins og gerist við eðlilegan þroska. Mynd 1 sýnir samanburð á þroska eðlilegrar mænu og mænu einstaklings með hryggrauf.

Hryggjarbeinin geta í sumum tilfellum verið vanþroskuð en taugavefurinn þar undir eðlilegur. Þá er húð á baki líka eðlileg. Þessi galli er frábrugðinn hryggrauf og kallast dulin hryggrauf (spina bifida occulta). Hann er oftast neðst á hryggnum og veldur sjaldan heilsufarslegum vandamálum. Dulin hryggrauf er fremur algeng eða hjá 10-15% fólks. Hjá einstaklingum með dulda hryggrauf er stundum „merki“ á húð á baki, s.s. „spékoppur“, hárbrúskur eða roðablettur. Í slíkum tilfellum getur líka verið um galla á mænu að ræða. Ef einhver ofangreindra merkja eru sjáanleg á húð á baki barns á að rannsaka það með tilliti til mögulegra mænugalla.

Á þessari heimasíðu er fjallað um alvarlegustu tegund hryggraufar, „myelomeningocele“, þar sem hluti mænunnar er vanþroskaður og beinin sem eiga að liggja yfir henni eru ekki fullmynduð og húð þekur hvorki beinrofið né mænuna. Þetta getur gerst hvar sem er á mænunni en er algengast frá efri lendaliðum niður í efri spjaldhryggjarliði. Mynd 2 sýnir hryggjarliðina og mænuna þar undir.