| Aðalsíða | Um bandið | Meðlimir | Á döfinni | Tónlist | Hafðu samband | English |
|
Um bandið Upphaf sveitarinnar má rekja eftir ýmsum þráðum eftir vilja hvers og eins. Haffi og Halli hafa leitt saman hesta sína við ólíklegustu tækifæri allt frá árunum sem kennd eru við Duran Duran og Wham. Sem bekkjarfélagar í grunnskóla voru þeir óþreytandi við að "skemmta" skólafélögum sínum í Digranesskóla í Kópavogi allt til útskriftar þaðan vorið 1987. Þaðan fóru þeir í sitthvorn skólann, Halli í FB en Haffi í MK. Meðan á skólagöngu stóð fóru þeir að slá sér upp með öðrum tónlistarmönnum og komust til nokkurra metorða hvor í sínu lagi. Halli m.a. með hljómsveitum á borð við Kórak og Tónskröttum en Haffi gekk til liðs við Syni Raspútíns . Að sjálfsögðu var það ekki nóg fyrir þá og saman starfræktu þeir pönksveit sem bar hið ágæta nafn Salernir og þegar líða tók á hafði blússveitin Blátt blóð einnig hafið göngu sína og herjaði grimmt á bari borgarinnar, ekki síst hin fornfræga Blúsbar á Laugavegi sem sveitin leit á sem sitt höfuðvígi. Halli og Haffi enduðu svo saman í íslenskunámi í Háskóla Íslands og stofnuðu þar m.a. Mímisbandið og brúðkaupssveit sem nefndist og nefnist enn " Hinir geðþekku Fautar ". Halli kom einnig við sögu í sveitaballahljómsveitinni, Lífverunni sem síðar varð Skýjum ofar, Tennessee Trans sem gerði garðinn frægan með Hipp hopp Halla . Haustið 2002 voru Haffi og Halli fengnir til að hjálpa tríóinu MÍR að fylgja eftir þá nýútkominni plötu þeirra, Tilraunaraun. Eftir að hafa spilað nokkuð grimmt með þeim fram að áramótunum voru félagarnir orðnir æstir í að gera eitthvað á eigin spýtur og því var dúettinn Brak settur saman. Haffi og Halli lokuðu sig svo af í stúdíói og sömdu lög í gríð og erg á næstu mánuðum uns feitur bunki beið úrlausnar. Þá var tekið til við að vinsa úr og betrumbæta, uns 12 lög stóðu eftir sem þeir réðust í að hljóðrita með hjálp góðra manna og ekki síðri hljóðfæraleikara. Vorið 2004 var lokahönd lögð á gripinn sem þá hafði hlotið nafnið Silfurkoss. Til að fylgja plötunni eftir þurfti að bæta við mannskap og eftir stutta og snarpa törn voru þrír meðlimir innlimaðir í Brak. Gísli Elíasson trommari sem hafði kynnst Halla og Haffa gegnum bróður þess fyrrnefnda sem hafði spilað með Gísla í hljómsveitinni Smack. Netið er til margra hluta nytsamlegt og það sannreyndist þegar bæði Davíð Atli Jones bassaleikari og Sævar Jökull Solheim hljómborðsleikari svöruðu auglýsingu næstum því samtímis og eftir stutta prufur voru þeir orðnir fullgildir meðlimir. Hófst þá heljarinnar æfingaferli þar sem lögin á disknum voru æfð upp og síðan tók við ströng spilamennska í kjölfar útgáfunnar, en Silfurkoss kom út 11. september 2004. Framhald fylgir síðar... |
|
Hljómsveitin
BRaK | Reykjavík | Iceland | Tel: +354-825 8097 |