Spíritismi á Íslandi.
Spíritisminn hóf innreið sína í íslenskt samfélag
fyrir alvöru, fyrir tilstilli Einars Hjörleifssonar Kvaran og síðar Haraldar
Níelssonar, og voru fyrstu merki hans starfsemi Tilraunafélagsins svonefnda, þar
sem þeir gerðu ýmsar rannsóknir og tilraunir með miðlinum Indriða
Indriðasyni.
Einar H. Kvaran fæddist 6. desember 1859 að
Vallanesi í Suður-Múlasýslu. Lífsferill hans beindist snemma inn á brautir
rithöfundarins og varð hann meðal þeirra fremstu hér á landi, þegar fram liðu
stundir.
Um nær hálfrar aldar skeið var hann tengdur
ritstjórn og útgáfu blaða og tímarita. Greinar hans í blöðum og tímaritum voru
geysilega margar, auk þess sem hann samdi ógrynnin öll af fyrirlestrum og
erindum um ýmisleg efni, ritaði skáldsögur, leikrit og ljóð, einnig þýddi hann
geysimikið á íslensku úr erlendum málum.
Það er því kannski ekki svo fjarri lagi, það sem
eitt sinn var látið að liggja um hann, að hann hafi skrifað meira en nokkur
annar Íslendingur um sína daga.
Einar ritaði á sínum tíma, allmikið um trúmál og
lenti í nokkrum deilum um þau. Sagt var að á þessum tíma hafi efnishyggjan og
trúin á andann togast nokkuð á í sál hans. Þá er það að hann fær í hendur
yfirgripsmikið rit F.W.H. Myers, sem nefndist "Persónuleiki mannsins og
framhaldslíf hans eftir líkamsdauðann." Eftir það varð ekki aftur snúið hjá
Einari Hjörleifssyni Kvaran.
Hinn 27. júní 1903 ritar hann grein í blað sitt
Norðurland, um ódauðleika sálarinnar og segir þar frá áður nefndri bók Myers.
Þessi grein mun vera það fyrsta, sem ritað er um sálarrannsóknir á
Íslandi.
Hann stofnar fljótlega fámennan félagsskap í
Reykjavík, Tilraunafélagið, til þess að gera tilraunir í þá átt að ná sambandi
við framliðna menn.
Fyrsta opinbera fyrirlestur sinn um málið flytur
hann svo árið 1905. Fyrirlesturinn vakti þegar upp mikla andstöðu og andsvör, en
einmitt það varð til þess að vekja þjóðarathygli og mikinn áhuga á
málinu.
Einar H. Kvaran mátti þola andúð og úlfúð, háð og
lítilsvirðingu fyrir lífsskoðanir sínar, en hann hélt ótrauður áfram og virtist
reiðubúinn að fórna flestum vegtyllum sínum og orðspori í þágu þessa mikilvæga
málefnis.
Tókst honum enda fljótlega að afla fylgis ýmissa
mikils metinna manna, og mun ekki ofmælt að þar hafi einna mest munað um
liðsinni séra Haraldar Níelssonar, en þeir urðu nánir vinir og samherjar á meðan
báðir lifðu.
Stofnuðu þeir Sálarrannsóknafélag Íslands, 19.
desember 1918. Varð Einar fyrsti forseti þess og gegndi því starfi til dauðadags
21. maí 1938, eða í fulla tvo áratugi. Einnig ritstýrði hann tímaritinu Morgni,
er hóf að koma út árið 1920, og kom samfleytt út í um 78 ár. Mun útgáfu hans nú
hafa verið hætt.
Séra Haraldur Níelsson, fyrsti varaforseti
félagsins, var á þessum árum að vinna að stórvirki sínu, þýðingu Gamla
testamentisins úr hebresku. Sagt er að við starf hans að biblíuþýðingunni hafi
honum orðið ljóst hve röngum hugmyndum um hina helgu bók var haldið að mönnum í
nafni vísindalegrar guðfræði. Þess vegna var hugur hans spurull og opinn fyrir
nýjum sannleika.
En þrátt fyrir áhuga þessara tveggja gáfumanna, þá
hefur verið sagt að vafasamt gæti hafa verið hvort framhald hefði orðið á áhuga
þeirra félaga fyrir sálarrannsóknamálinu, ef forsjónin hefði ekki lagt upp í
hendurnar á þeim annan eins afburðamiðil og Indriða
Indriðason.
Lengi munu þeir hafa barist við efasemdirnar og er
haft eftir séra Haraldi síðar, að sennilega hefði hann gefist upp ef Einar H.
Kvaran hefði ekki haft sína dæmalausu þrautseigju til að
bera.
En að lokum sannfærðust þeir algerlega og ýmsir
aðrir, sem að tilraununum höfðu unnið með þeim.
Einar Kvaran er því fyrst og fremst driffjöðrin í
upphafi spíritismans á Íslandi, og saman sköpuðu þeir Haraldur honum þá vængi,
sem lengst af héldu honum á flugi hér á landi.
En að framansögðu vaknar sú spurning hvort
þáttur Indriða miðils sé ekki stundum vanmetinn í málinu og er óhætt að
fullyrða, eins og reyndar séra Haraldur ýjaði að, að hann verði einnig að
teljast til íslensku frumkvöðlanna á þessu sviði, og er hans þáttur tæplega sá
sísti í tendrun logans.
Annað efni á heimasíðu Verundar:
Til aðalsíðu Leiðbeinendur að handan Bækur um dulræn málefni Fyrirboðar Hvað sögðu þau?
Hvað er lífritmi? Aðrar heimasíður Andleg málefni - titilsíða