Kvikmyndasýningar
MÍR, Hverfisgötu 105, í september - október 2015

 

MÍR-salurinn


Sunnudagur 20. september kl. 15:00
KRÍM - LEIÐIN HEIM


Sunnudagur 27. september kl. 15:00
FALL HINNAR KEISARALEGU ROMANOVÆTTAR
(Padeníe dínastíi Romanovykh)Sunnudagur 4. október kl. 15:00
AMBÁTT ÁSTARINNAR
(Raba ljúbov)Sunnudagur 11. október kl. 15:00
STJARNAN
(Zvezda)Sunnudagur 18. október kl. 15:00
KOLYA


Sunnudagur 25. október kl. 15:00
FANGI Í KÁKASUS


efst á síðu

Sunnudagur 20. September kl. 15:00

KRÍM - LEIÐIN HEIM

Ný rússnesk heimildarkvikmynd Andrejs Kondrashov, sem frumsýnd var fyrir tæpu misseri. Höfundur tökurits Olga Demina, stjórnandi Sergej Kraus. - Allt frá því mikill meirihluti íbúa á Krímskaga við Svartahaf samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu að sameinast Rússneska sambandsríkinu, hafa vesturveldin undir forystu Bandaríkjanna og Bretlands lýst þessum sögulega viðburði sem lögleysu og yfirgangi Rússa, sem með þessu hafi komið af stað borgarastríði milli stjórnvalda í Kænugarði og aðskilnaðarsinna í austurhluta landsins. Þessi kvikmynd er andsvar Rússa við áróðri þessum og rangfærslum og dregur fram staðreyndir sem legið hafa í þagnargildi í umræðunni á vesturlöndum.

Rússneska. Enskur texti.
Lengd 144 mínútur.

efst á síðuSunnudagur 27. september kl. 15:00

FALL HINNAR KEISARALEGU ROMANOVÆTTAR
(Padeníe dínastíi Romanovykh)

Sovésk heimildarkvikmynd frá árinu 1927, verk Esfir I. Shub, sem líka gekk undir nafninu Esther Shub. Hún var í hópi fremstu frumherja kvikmyndagerðar í Sovétríkjunum, fædd árið 1894 í vesturhluta Úkraínu, sem á þeim tíma var innan landamæra rússneska keisaradæmisins, en vann löngum í Moskvu og starfaði ma. með Sergei Eisenstein við gerð tveggja fyrstu kvikmynda hans á þriðja áratug síðustu aldar (Verkfalls og Beitiskipsins Potjomkin). Esfir Shub var í hópi frumkvöðla í gerð heimildarkvikmynda sem settar eru saman af efni úr ýmsum áttum. Fall hinnar keisaralegu Romanovættar er þekktasta verk hennar, fullgert þegar áratugur var liðinn frá Febrúarbyltingunni í Rússlandi 1917 og endalokum rússneska keisaradæmisins. Esfir Shub vann í þrjú ár að gerð kvikmyndarinnar, skoðaði og rannsakaði ótal fréttamyndir sem teknar höfðu verið á árunum 1912-1917, þ.á.m. myndasöfn í einkaeign Nikulásar II. Rússakeisara, myndskeið sem vinir keisarafjölskyldunnar höfðu tekið, fréttamyndir tveggja keisaralegra kvikmyndatökumanna og gömul söfn stríðsfréttamynda. Hún leitaði fanga víða utan Rússlands ma. í Bandaríkjunum. Til þess að fylla í eyður sem mynduðust í þessu gamla myndefni tók hún sjálf upp myndskeið og felldi í götin. Fall hinnar keisaralegu Romanovættar var fyrsta kvikmyndin, sem Esfir Shub gerði um rússnesku byltinguna. Upphaflega var myndin þögul, en 1967 var hún hljóðsett undir stjórn Sergeis Jútkevitsj, hins fræga leikstjóra, og er sú myndgerð sýnd hér. Þykir myndin merk heimild um ástand þjóðmála í Rússlandi á síðustu valdaárum Nikulásar II. keisara og í aðdraganda Októberbyltingarinnar 1917. Tónlistin, sem flutt er með myndinni, leikin á píanó, er eftir Johan Sebastian Bach.

Skýringatextar á rússnesku og ensku.
Lengd 66 mínútur.


efst á síðuSunnudagur 4. október kl. 15:00

AMBÁTT ÁSTARINNAR
(Raba ljúbov)

Sovésk kvikmynd frá árinu 1976, þar sem saman eru tvinnuð kómedía, drama og rómantík. Myndin gerist á dögum borgarastyrjaldarinnar í Rússlandi, sem hófst í kjölfar Októberbyltingarinnar. Söguefnið: Olga Voznesenskaja er fræg leikkona, sem leikið hefur í mörgum af vinsælustu þöglu kvikmyndum Rússa. Svo vinsæl er leikkonan að margir byltingarsinnar hika ekki við að hætta lífi sínu svo þeir missi ekki af sýningum mynda með henni í aðalhlutverki. Einhvers staðar í Suður-Rússlandi vinnur Olga við töku enn einnar kvikmyndarinnar. Á sama tíma berast fréttir af sigrum bolshevika á liðsveitum hvítliða í nágrenni Moskvu. Þó að harðgift sé á Olga daglega ástarfundi með einum af samverkamönnum sínum, myndatökumanninum Viktor Patotskíj. Er fram líða stundir verður ljóst að Viktor er hliðhollur bolshevikum og hann notfærir sér aðstöðu sína til að kvikmynda grimmdarverk hvítliðanna og upphefja jafnframt hetjudáðir rauðliða. Hann leitar aðstoðar hjá Olgu og hún finnur loks einhvern tilgang með lífi sínu, sem til þessa hefur mótast af hviklyndi og síngirni. Ástin blómstrar. En munu rauðliðar koma í tæka tíð áður en grunsemdir vakna hjá hvítliðum? Og er kjakur hennar nægur? - Leikstjóri myndarinnar er Nikita Mikhalkov. Höfundar tökuritsins eru Andrej Mikhalkov-Kontsjalovskíj (bróðir leikstjórans) og Fridrikh Gorenshtein. Meðal leikenda: Jelena Solovej (Olga), Rodion Nahapotév (Viktor), Aleksandr Kaljagín og Oleg Basilashvili.

Rússneska. Enskur texti.
Lengd 94 mínútur.


efst á síðuSunnudagur 11. október kl. 15:00

STJARNAN
(Zvezda)

Rússnesk kvikmynd frá Mosfilm, gerð á árinu 2002, byggð á samnefndri skáldsögu eftir E. Kazakevitsj. Leikstjóri er N. Lébedév, en meðal leikenda eru I. Petrenko, A Kravtsjenko, A. Gúshín og Semjokin. - Sagan, sem kvikmyndin byggist á, er látin gerast sumarið 1944, en þá hafði sovéski herinn náð algeru frumkvæði á austurvígstöðvunum í síðari heimsstyrjöldinni og hrakti hersveitir Þjóðverja og fylgiríkja þeirra æ lengra vestur á bóginn og nálgaðist vesturlandamæri Sovétríkjanna og Póllands með hverju degi. Í skáldsögunni og kvikmyndinni er fylgt eftir njósnaleiðangri sjö manna úr sovéska hernum yfir víglínuna og inn á yfirráðasvæði Þjóðverja.

Rússneska. Enskur texti.
Lengd 93 mínútur.efst á síðuSunnudagur 18. október kl. 15:00

KOLYA

Margverðlaunuð tékknesk kvikmynd frá árinu 1996. Myndin er látin gerast í Tékkóslóvakíu á árinu 1988 og segir frá sellóleikaranum Franta Louka, miðaldra piparsveini og kvennabósa, sem misst hefur stöðu sína við sinfóníuhljómveit ríkisins og vinnur nú fyrir brýnustu nauðþurftum með því að leika á hljóðfæri sitt við útfarir og mála grafskrift á legsteina. Þrátt fyrir þessi vinnusnöp safnar hann skuldum. En eitt sinn bendir vinur hans, grafarinn Broz, honum á "auðvelda" leið til að vinna fúlgu fjár með því að ganga til málamynda-hjúskapar með erlendri konu, sem hann kvaðst vita með vissu að myndi greiða vel fyrir slíkan gjörning. Konan væri rússnesk að þjóðerni og gæti ekki með öðrum hætti aflað sér nauðsynlegra skilríkja til ferðaleyfis til Vestur-Þýskalands, þar sem unnustinn beið hennar. Louka lætur til leiðast og rússneska konan og hann eru gefin saman í hjónaband, eins og lög gera ráð fyrir. Konan fer til Þýskalands og skilur Kolya, son sinn fimm ára, eftir í vörslu móður sinnar. Þegar sú gamla deyr verður stjúpfaðirinn að taka drenginn að sér. - Leikstjóri Jan Svérák. Aðalleikendur: Zdenék Svérák (Louka) og Andrei Khalimon (Kolya).

Tékkneska, slóvenska, rússneska. Íslenskur texti.
Lengd 105 mínútur.


efst á síðuSunnudagur 25. október kl. 15:00

FANGI Í KÁKASUS

Leikin rússnesk kvikmynd frá árinu 1996, en á því ári hófust fyrstu alvarlegu stríðsátökin í Tsjetsjníu í kjölfar hruns Sovétríkjanna. Undirbúningur að gerð myndarinnar var hafinn áður en til átakanna kom og var frumhugmyndin sótt í sögu eftir Lév Tolstoj, en efnið fært yfir á atburði í Kákasus-héruðum Rússlands á vorum dögum. Sveit úr rússneska hernum er send í leiðangur til afskekkts fjallahéraðs, þar sem flokkur skæruliða situr fyrir henni og yfirbugar. Tveir rússnesku hermannanna eru teknir til fanga, báðir særðir, og ætlar foringi skæruliðanna að notfæra sér spillinguna í rússneska hernum og fá skipt á föngunum og syni sínum sem situr í fangelsi. Eins og í sögu Tolstojs er rússnesku föngunum skipað að skrifa mæðrum sínum og biðja þær ekki aðeins um að afla lausnargjalds, heldur og að koma sjálfar á vettvang og vinna að fangaskiptunum. Kvikmyndin er tekin í Daghestan, nágrannaríki Tsjetsjníu, í litlu fjallaþorpi þar sem fá-mennur þjóðflokkur býr við frumstæð kjör og mikla einangrun. Átta klukkustunda akstur er frá þorpi þessu til næstu borgar. - Leikstjóri er Sergei Bodrov, en helstu leikendur Oleg Menshikov, Sergei Bodrov yngri og Djemel Sikhrulidze.

Rússneska. Enskur texti.
Lengd um 95 mínútur.

efst á síðu


á
Efst Efst á síðusíðuFélagið MÍR, Menningartengsl Íslands og Rússlands,
Hverfisgötu 105, 101 Reykjavík,
Sími (Tel): 551-7928, heimasími formanns 551-7263
Netfang (Email): felmir@mmedia.is