Jakútíudagar í MÍR

Á sýningunni í MÍR eru verk eftir íslensku listamennina Kjuregej Alexöndru og Jón Magnússon son hennar, sem og verk eftir tvo jakútska listamenn sem koma til Íslands gagngert vegna sýningarinnar og listkynningarinnar, þá Fjodor Markov og Spiridon Shishigin.

Flest verk á myndlistarsýningunni á Kjuregej Alexandra, hin fjölhæfa listakona sem búið hefur á Íslandi um áratuga skeið, en hún rekur ættir sínar austur til Jakútíu í Síberíu, lýðveldisins Sakha sem er eitt af sambandsríkjum Rússlands. Kjuregej hefur á síðustu árum lagt sérstaka rækt við gerð mosaikmynda og applíkeraðra verka.

Fjodor Markov er í hópi kunnustu núlifandi myndlistarmanna í Jakútíu og ber heiðurstitilinn þjóðlistamaður lýðveldisins Sakha. Hann vinnur mest að útskurði verka í bein og tré og formar líka myndverk í ís, snjó og sand. Fjodor Markov hefur sýnt víða utan Rússlands og hlotið ma. verðlaun fyrir ísskúlptúra sína oftar en einu sinni í alþjóðlegri samkeppni.

Spiridon Shishigin er sérfræðingur um allt sem lýtur að alþýðuhljóðfærinu "khomus" og þykir leika af stakri snilld á þetta litla hljóðfæri sem oft er kallað gyðingamunnharpa á vesturlöndum. Annars þýðir heitið á hljóðfærinu "khomus" á máli Jakúta "ýlustrá".

Við opnun sýningarinnar í MÍR-salnum 9. ágúst munu gestirnir frá Jakútíu koma fram. Fjodor Markov flytur ávarp og Spiridon Shishigin leikur á khomus. Valeríj Poljakov sendiráðsfulltrúi opnar sýninguna formlega og bornar verða fram léttar veitingar.

Allir hjartanlega velkomnir.